Færsluflokkur: Bloggar

Heimalingur til bjargar

Ég haltraði inn um hurðina heima, skakklapaðist einhvern veginn eftir ganginum. Ég henti frá mér innkaupapokanum og hálf hoppaði á öðrum fæti á klósettið. Hjúkk, rétt náði í tíma. Notaði tíman á klósettinu til að berjast við að klæða mig úr skónum og bældi niður vælið þegar ég dró hægri skóinn af fætinum. Andskotinn.

Svo haltraði ég fram með skeifu og hlammaðist í sófann um leið og ég var búin að ganga frá. 14 tíma viðburðaríkur vinnudagur loksins liðinn. Ég búin að koma við í klukkubúðinni til að sækja nauðsynjar og nú vildi ég bara setjast niður og spjalla við heimalinginn minn sem var að líta eftir sofandi prinsinum.

En ég fann svo mikið til í fætinum. Ég bar mig aumlega við heimalinginn og útskýrði málið: "ég er nefnilega með flís í fætinum. Fékk hana í morgun en náði henni ekki úr svo ég gekk á henni í dag... en nú er þetta orðin sárt". Heimalingurinn spratt á fætur, ávallt tilbúin og reddaði áhaldi. Vopnuð settist hún á móti mér og heimtaði að við næðum flísinni úr... enda er víst fáranlegt að hafa flísina bara í fætinum daglangt.

Ég gretti mig þegar ég dró sokkinn af og við mér blasti rauð og bólgin il sem var ferlega vont að pota í. Heimalingurinn bar sig fagmannlega að, enda er ekkert sem þessi dama getur ekki leyst... sko hún klippir hár, eldar, bakar, passar börn, keyrir bíl og.... nær flísum úr fótum! Hún kreisti, beygði og mundaði vopnið... og viti menn, hún náði úr fætinu.... ekki flís eins og ég var búin að segja að væri þarna.... nei, hún náði glerbroti úr fætinum! Ha? Ég varð ferlega hissa þegar hún sýndi mér árangur... ó... var þetta ekki flís... nú skil ég af hverju þetta var frekar óþægilegt. Og nú sit ég með fótinn uppá skemmli með seiðandi verkjum og fallega rauðann. Merkilegt hvað þarf lítið til að fella mann!


...túkall...

Ég tímdi eiginlega ekki að líta uppaf disknum og hélt því áfram að moka, einbeitt, kartöflustöppunni uppí mig. " Býrðu til kartöflumús úr alvöru kartöflum?", spurði ég og smjattaði á meðan. Kokkurinn hló við, auðvitað notaði hún alvöru kartöflur.... annað er bara ekki... alvöru. Ég var sátt við svarið og hélt áfram að moka. Ég gat eiginlega ekki ákveðið hvort ég vildi næst fá mér súpu eða kartöflustöppu. Eða bara bæði í einu.

Ég og prinsinn vorum svo útsjónarsöm að væla okkur út matarboð í kvöld. Tróðum okkur inn hjá mömmu Rebbýar þegar við fréttum að það yrðu saltkjöt og baunir á boðstólum. Saltkjöt og baunir eru alveg það besta sem ég fæ. Heimasætan lítur ekki við svona mat, ja nema rétt til að fitja uppá nefið (skil ekki hvaðan þetta barn kemur) og ég hef ekki nennt að elda fyrir mig eina svona í mörg ár. Læt mér nægja það sem boðið er uppá í mötuneytinu í vinnunni.

Og svo kemur svona hvalreki á fjörur mínar. Heimalötuð baunasúpa með saltkjöti. Og svo leynigesturinn... alvöru kartöflustappa. Ég fór að hugsa aftur á bak og það eru... haldið ykkur fast... það eru allavega 20 ár síðan ég fékk svoleiðis síðast. Sennilega lengra. Og nú man ég hvað mér finnst hún góð. Ég náði varla að komast uppúr skálinni.

Útundan mér sá ég að prinsinn var hættur. Ég greip súpuskálina hana og kláraði það sem eftir var í henni. Hreinsaði af disknum hans. Fékk mér meiri kartöflustöppu. Þegar ég gaf mér tíma til að líta upp sátu Rebbý og mamma hennar og störðu á mig. Sennilega hef ég litið út fyrir að hafa ekki fengið ætan bita í svona tvö ár þar sem ég sat með diskana í kringum mig og örugglega með kartöflustöppu um allt andlit. Mmmmm... Þvílíkur lúxus fyrir ofurþreytta, úttaugaða einstæða móður sem var að vinna til tæplega að sjö að komast í ekta heimalagaðan mat og þurfa hvorki að elda né vaska upp. Jebb. Lífið er lúxus.


Framtíðin og gamla daga

Prinsinn minn er að verða stór strákur. Hann er byrjaður að læra ensku sem mér finnst alveg ótrúlegt. Hann hefur alltaf haft mikinn áhuga á að tjá sig á framandi tungumálum. Hann var ekki hár í loftinu þegar hann tók uppá að kalla mig "mom" eða "mommie" með ýktum bandaríkskum hreim. Auk þess hefur hann kunnað svona eitt og eitt orð, en það er að breytast hratt.

Hingað til hafa öll trúnaðarmál, viðkvæm mál og leyndarmál verið rætt á mínu heimili á ensku til að vernda viðkvæm eyru prinsins. Það þarf að breytast núna. Engin stelpumál rædd áhyggjulaus við eldhúsborðið lengur. Engin vandamál forrtíðarinnar eða fréttir af kreppunni. Neibb, skrúfað fyrir allt sem prinsinn má ekki heyra því nú situr hann spenntur og lepur upp eftir okkur orðin.

Þar að auki sigur hann límdur við sjónvarpið og endurtekur það sem hann heyrir þar, veit ekki hversu miklu það skilar í náminu. Einstaka sérlega áhugaverð orð kemur hann með til mín og biður um þýðingu. Stundun skolast þau eitthvað til á leiðinni til mín og ég skil ekki orðið. En stundum skila þau sér alveg ljómandi vel og ég get ekki annað en brosað þegar áhugasamur prinsinn stendur fyrir framan mig og spyr, alvarlegur á svip: "Mamma, hvað þýðir Holy Crap?"

Þetta er framtíðinn, enskumælandi prins. Enn hann er líka upptekinn að lífinu í gamla daga. Hann vill vita allt og ekkert um lífið þá og spyr endalaust spurninga. Einhvern veginn er hann sannfærður um að ég hafi verið uppi í "gamla daga" og í hans huga er bara til eitt gamla daga. Þar sem voru engir bílar, ekkert sjónvarp og engin gemsi. Þetta finnst honum hið ótrúlegasta mál. "Mamma, þegar þú varst í gamla daga... voru þá engir bílar?", spyr hann. Og þegar ég reyni að útskýra að "gamla daga" sé dálítið breytt tímabil... gamla daga þegar ég var lítil og gamla daga þegar amma var lítil sé bara mjög ólíkt endurtekur hann bara spurninguna.

Á leiðinni heim áðan frá heimsókn til Snjóku byrjaði hann að spá í málin. "Mamma, þegar þú varst lítil áttir þú þá fyrst heima í gamla daga og svo á Íslandi?", kallaði hann úr aftursætinu. Ég hváði við og fékk spurninguna endurtekna, aðeins ýtarlegri. Og þá sá ég að drengurinn hefur greinilega eitthvað misskilið þetta. Hann hefur trúað því að gamla daga sé staður, eða land. Allt sem gerist í gamla daga gerist í semsagt í einhverju furðulegu fjarlægu landi. Þar ægir saman víkingum, indjánum og alls konar skrítnu fólki, þar eru engir bílar og engar tölvur og ekkert sjónvarp. Ferlega skrítið land þetta Gamla daga...


Strokur virka...

Ég hallaði mér fram og hvíslaði blítt í eyrað á honum og strauk svo yfir það, hvíslaði blítt að honum ástarorðum. Hann lygndi aftur augunum og hjúfraði sig niður. Núna skipti ekkert í heiminum máli nema við, nema það sem til stóð.

Ég reisti mig við og teygði mig eftir olíunni. Ég tók lokið af og spreyjaði aðeins af ilmandi olíunni í lófann. Ég nuddaði saman lófunum, hratt, til að gera hendurnar heitar og mjúkar, einnig til að dreifa vel úr olíunni. Svo lagði ég hendurnar á bakið á honum og strauk blítt en ákveðið. "Þú ert svo sætur...", stundi ég lágt og vonaði að hann myndi heyra í mér. Að hann heyrði ekkert nema lága rödd mína. Að hann finndi ekkert nema blíðar strokur mínar.

Þegar ég var búinn að nudda og strjúka á honum bakið nokkra stund snéri ég mér að grannri bringunni. Bar örlítið meiri olíu í lófana. Byrjaði að nudda og strjúka efst á bringunni og færði mig svo hikandi niður bringuna, niður á maga, yfir síðuna, aftur á magann. Hann var grafkyrr og virtist líka athöfnin.

Ég reisti mig upp aftur og leit í kringum mig. Var kannski kominn tími á að skipta úr nuddinum og strokunum yfir í eitthvað annað? Eitthvað meira spennandi? Ég var til. En var hann til?

Ég taldi í mig kjark og lét svo bara vaða. Ef maður reynir aldrei nýja hluti breytist aldrei neitt. Ef maður sýnir aldrei frumkvæði gæti maður misst af spennandi upplifum. Svo ég lét bara vaða, sleppti fram af mér beislinu... eða þannig.

Ég teygði mig í rassvasann og dró upp hjálpartæki. Glansandi og kalt stálhjálpartæki. Og án þess að hika eða hugsa mig um beytti ég því fumlaust á herramanninn sem lá þarna. Ég hafði ekki þurft að hafa áhyggjur, hann var svo sannarlega tilbúinn í að bregða á leik.

"Ég þarf að ná betur á milli fótanna...", sagði ég hátt og ákveðin. Ásdís snéri Una á bakið um leið og ég greiddi eins vel og ég gat hrokkin hárin inná lærunum og á milli afturfótanna. Svo snéri Ásdís honum aftur rétt og ég greiddi einu sinni enn yfr bakið, bringuna og undir eyrunum. "Ertu ekki sætur?", spurði Ásdís Una og hann leit á hana eins og hann skyldi hana alveg.

Kattadómarinn og kennarinn höfðu treyst okkur til að snyrta Una, hrokkinhærða cornish rex kettinum sínum, áður en hann fór uppá svið til að keppa um "Best snyrti kötturinn". Við Ásdís tókum starfinu mjög alvarlega og lögðum okkar allar í að nudda feldinn með sérstöku olíunni og greiða honum með töfragreiðunni. Svo sátum við spenntar og nöguðum á okkur neglurnar af spenningi meðan Uni fór og keppti.


Ég er ekki í kreppu... enn

Ég er alveg ákveðin í að bloggið mitt verði ekki kreppublogg, ekkert væl um kreppu og þjóðfélag á leið til andskotans. Það eru nógu margir að tjá sig um þau mál þessa dagana, ég hef hvort sem er ekkert gáfulegt til að leggja. Og eiginlega má segja að ég sé komin í svona anti-kreppuskap. Ég er ákveðin í að halda þessu eins langt frá mér eins lengi og ég kemst upp með. Ef allt fer til andskotans er hvort sem er lítið sem ég get gert, ja, nema reyna að halda góða skapinu og detta ekki í þunglyndi. Ég er ekki til mikils gagns í vinnunni eða heima ef ég dett niður í þunglyndið. Bara alls ekki.

Svo fyrsta ákvörðunin var að hætta að hanga á kaffihúsinu í vinnunni og tala stanslaust um kreppu og góna á allt sem henni tengist í sjónvarpinu. Svo þegar eru blaðamannafundir og allir hanga yfir sjónvarpinu er ég bara inni að vinna. Eða trufla yfirmanninn með málum sem mér finnst mikið merkilegri, einhverjum svona verkefnamálum og slíku. Í dag ætlaði ég að fá mér kaffi en þegar ég sá að kaffistofan var full af fólki og kveikt á sjónvarpinu snéri ég bara við... mig langaði hvort sem er ekki svo mikið í kaffi. Svo fæ ég 3 mínútna update frá vinnufélugunum, mjög skilvirt.

Ég kveiki ekki lengur á sjónvarpsfréttum hérna heima. Ég sé ekki tilganginn. Ég vil halda þessu sem lengst frá börnunum mínum sem eiga bara skilið að fá að alast upp áhyggjulaus, laus við stress af því að þjóðfélagið sé að fara til andskotans. Ef allt fer á versta veg komast þau að því nógu snemma. Ef mig langar í fréttir kíki ég í blöðin eða í tölvuna, það nægir mér alveg.

Og ef þetta er allt að ná til mín og er á leiðinni að buga mig nota ég pottþétt ráð til að taka gleði sína að nýju. Jebb, það er lag. Reyndar finnst mér að það ætti að setja neyðarlög á alþingi um að þetta ákveðna lag ætti að vera spilað á öllum útvarpsstöðvum alla vega tvisvar á klukkutíma. Jebb. Þetta er "Daloon" lagið... einstaklega kátt og hamingjusamt lag. Prófið bara að syngja það, Þori að veðja að þið komist í aðeins betra skap. Daloon vorrúllur er líka fluttar inn af vinum mínum í Ölgerðinni sem ákváðu fyrr í vikunni að gera sitt til að vinna á móti þessu öllu með því að lækka vöruverðið sitt, skemmtilegt uppátæki það.

Og nú ætla ég að kíkja á grínmynd, syngja Daloon lagið, klappa köttunum og fara svo að sofa og dreyma eitthvað skemmtilegt


Disconnected

"Hvað ertu búinn að borða marga bananna?", spurði ég með furðu í röddinni, var hann botnlaus? "Ha? Engan!", svaraði alveg jafnfurðulostinn karlmaður af hinum endanum í símanum. Ég hló við og útskýrði fyrir nakta forritaranum sem var í símanum að ég hefði verið að tala við prinsinn, sem var að enda við að gleypa þriðja bananann á 15 mínútum.

Svo snéri ég allri athyglinni að nakta forritaranum sem beið þolinmóður. Við áttum saman ofsalega huggulegt kvöld. Ég kúrði uppí sófa með fæturnar dregna upp og með púða við bakið. Kúrði með besta vini mínum þessa dagana, "makka" litla, og með þann nakta í eyranu í gegnum símann.

Við höfðum samtengt tölvurnar okkar og ég hallaði mér aftur og blaðraði á meðan ég horfði á þann nakta flytja inn einingar, bera saman hluti og allskonar skemmtilegt í gegnum tengingu frá sinni vél til Bretlands. Öðru hvoru reyndi ég að koma að gáfulegum athugasemdum sem sá nakti hrósaði mér fyrir. "Ég vissi að það var ástæða til að hafa þig með...", hvíslaði hann í eyrað á mér og ég roðnaði. Svo hélt hann áfram að forrita og ég hélt áfram að horfa á, yfir mig spennt.

Ég og líffræðingurinn settum okkur háleitt markmið þessa vikuna, eftir að hafa unnið síðustu tvö kvöld til klukkan tíu. Markmiðið var að hætta einn dag í þessari viku fyrir klukkan fimm. Mjög háleitt markmið. Sem við náðum bæði í dag! Hann fór heim klukkan hálffimm og hefur ekki spurst til hans síðan. Ég náði að komast út tíu mínútur í fimm. Það var hins vegar ekkert sem sagði að ég mætti ekki fara að vinna aftur. Og ég notaði því tækifærið þegar mér bauðst þetta frábæra tækifæri á kvöldstund með nakta forritaranum. Einstakt tækifæri fyrir quality moment og í leiðinni náðum við að klára verkefnið sem lá á.

"You have been disconnected" birtist svo skyndilega á skjánum að ég fann hjartað hætta að slá. Þvílík höfnunartilfinning. Disconnected! Really? Hvernig gat hann verið svona kaldur að slökkva bara á mér? Ok, við vorum svo sem búin með verkefnið. Búin að stimpla okkur út. En hann gat samt hafnað mér á aðeins mýkri hátt.

"Nú ertu hætt að sjá mig, er það ekki?", sagði hann sinni karlmannlegu röddu og ég fann að það dró aðeins úr vonbrigðunum. Hann ætlaði þá að kveðja mig... kveðja mig seinna...

Eftir að ég hafði lagt á fór ég að spá. Þetta er eiginlega snilldarlausn til að enda sambönd. "You have been disconnected", myndi pompa upp á tölvunni hjá þeim sem verið er að skilja við. Þú ert bara aftengdur. Ekkert meira til að ná sambandi við. Einfalt og hreinlegt. Enginn grátur, engar beiðnir um einn enn séns, engar hótanir. Bara einföld skilaboð: "You have been disconnected"


Ótrúlegt ferðalag

Vindurinn kippti í tóma ferðatöskuna sem ég dró á eftir mér. Kippti í og svipti á loft. Það ryktist óþægilega í höndina á mér og snérist uppá í leið. Ég vatt upp á mig og barðist við að ná töskunni aftur á götuna. Eftir smá barning játaði vindurinn sig sigraðann og eftirét mér að labba af stað aftur með töskuna í eftirdragi.

Skyndilega ákvað vindurinn að stríða mér meira. Hann ýtti ákveðið og fast á töskuna, sem tók á sig vindinn og þaut af stað. Hún reyndi að taka fram úr mér en skall í staðinn hrannalega aftan á fótunum á mér og reyndi að ýta mér áfram. Ég stoppaði og ýti til baka, þrjósk á svip. Ég ætlaði ekki að gefa mig. Ég ætlaði að draga þessa tómu ferðatösku, virðulega og þokkafullt, á eftir mér í þessari kvöldgöngu útí rokinu. Jebb, þokkafull með stærðarinnar myndavél um hálsinn og ferðatösku í eftirdragi.

Ég komst skammlaust yfir hálfa götuna við hringtorgið. Þar tókst taskan aftur á loft og ég á eftir. Hún blakti í vindinum og sveiflaði handleggnum á mér upp og niður, til hægri og vinstri. Ég reyndi að setja upp bros og bera höfuðið hátt eins og þetta hefði verið planið allan tíman. Að planið hefði verið að standa á umferðareyju við fjölfarið hringtorg klukkan ellefu að kvöldi til og veifa stórri ferðatösku til allra sem keyrðu fram hjá.

Með þrjóskunni tókst mér að lokum að koma töskunni á jörðina. Ég hélt áfram að brosa og lést ekki sjá furðusvipinn á þeim sem keyrðu framhjá. Svo sat ég færist að trítla af stað aftur yfir götuna með töskubjánann á eftir mér. Mér datt ekki í hug að halda á henni, nei ég ætlaði að draga hana. Það er svo mikið meira cool. Kannski datt fólki sem keyrði fram hjá að ég væri að koma úr spennandi ferðalagi, þið skiljið, vopnuð myndavél og ferðatösku. Að ég hefði verið á framandi slóðum. Að ég væri að koma heim úr langri útlegð. Nú eða þá að ég væri að draga spariféð á eftir mér í ferðatösku, spariféð sem ég hafði bjargað úr bankanum.

Allt var eiginleg meira spennandi en raunveruleg ástæða. Eftir langan vinnudag sem stóð til tíu í kvöld brá ég mér í hlutverk fréttaljósmyndara og skrapp í hús til að taka myndir fyrir tímaritið mitt sem er að koma út næstu helgi. í heimsókninni sótti ég svo ferðatöskuna sem ég hafði lánað heimalingnum og svo var ekkert annað að gera en að labba heim, með myndavélina um hálsinn eins og besti túristi og með tóma óþekka ferðatösku í eftirdragi.


Óþekk eða þæg?

"mmmmmmm", sagði ég og pýrði augun þar sem ég hafði komið mér vel fyrir í horninu á sófanum og horfði á sjónvarpið. "Mmmmm... það er eitthvað við þá sem fær mig til að langa að vera bæði óþekk og þæg..." Heimasætan flissaði, sitjandi við borðstofuborðið, og tengdasonurinn greip fyrir andlitið. Ég held að hann sé enn að venjast okkur og því sem veltur uppúr okkur stundum. Sunnudagskvöld eru sjónvarpskvöld, ég hef alltaf jafn gaman að horfa á Hróa og félaga, hlaupa um á meðal trjánna í sætu búningunum sínum. Já, einmitt... bæði óþekkir og þægir strákar...

Það er notalegt að koma sér fyrir sófanum með prinsinn dormandi við hliðina á sér og heyra í vindinum úti, sitja inní hlýjunni og láta mata sig hugsunarlaust á efni. Þvílík afslöppun. Ég loggaði mig inní vinnuna og byrjaði að vinna en skipti svo um skoðun. Höfum þetta bara fríhelgi. Og svo notum við sjónvarpskvöldið sem fullkominn enda á svona "gerum ekkert" degi sem byrjaði á að við prinsinn sváfum til hádegis. Þreytt eftir sögulegt spilakvöld heima hjá kennaranum í gærkvöldi. Og fyrir utan heimsókn frá félaga prinsins gerðum við bara ekkert. Ja, nema þrífa, taka til, skrifa greinar fyrir næsta kattablað, ritstýrast, spjalla við vinkonurnar, skreppa út með Rebbý í smá leiðangur, elda, lesa og svona kannski eitt og annað.


Sumarvindur og frost

Nökkvi horfði á mig og heimalinginn með hortugum svip. Við horfðum til baka og brostum, góða og sætar. Nökkvi leit skyndilega niður fyrir sig en gjóaði áfram augunum að okkur og byrjaði að gefa frá sér hljóð. Við skiptum hið snarasta út brosunum fyrir furðusvip. Önnur eins hljóð hef ég ekki heyrt. "Uuuuuhhhhhhhhh...." heyrðist frá honum, stighækkandi. Hann hélt áfram að líta niður, eins og hann væri að reyna að hunsa tilveru okkar. Horfði niður og hélt áfram að reyna að ógna okkur með hljóðinu: "Uuuuuuhhhhhhhh......". Við stigum skref aftur á bak, hálfskelkaðar, ekki vissar hvernig við ættum að bregðast við.

Við mættum vel fyrir hádegi heim til kennarans í ákveðnum tilgangi. Jebb. Við vorum komnar til að blása hár. Snurfussa. Snyrta. Gera fínt. Við erum nú klárlega ekki vinsælasta fólkið sem hefur stigið þarna inn. Nökkvi, african grey fuglinn, reyndi að frysta okkur úti og hræða okkur í burti með urri. Þá erum við sennilega ekki mikið vinsælli hjá köttum kennarans og kattadómarans. Því nú á meðan kattadómarinn er í útlöndum að gera það sem kattadómarar gera stóð kennarinn í stórþvotti og við vorum mættar til að aðstoða við að blása hárið á, já, á köttunum.

Það er heljar aðgerð að snyrta kött svo hann verði boðlegur á sýningu. Fyrst þarf að greiða, tryggja að feldurinn sé hnútalaus og fínn. Svo þarf að baða. Sápa. Skola. Setja hárnæringu. Skola meira. Stundum þarf að endurtaka eitthvert skrefið. Nota þarf alveg sérstakt sjampó og hárnæringu. "Sumarvindur" er sérlega gott sjampó í skítuga ketti. Veit ekki hvernig nafnið er tilkomið, en ég sé alltaf fyrir mér kött sem stendur útí, með sumarvindinn í feldinn sem bylgjast um og fyrir vitin berst angan að blómum og ferskleika. Jebb, en það er bara mín sýn.

Þegar búið er að baða, sápa, skola og allt það þarf að blása. Ja, eða sko.. það er allavega betra að blása. Það þarf að ýfa feldinn á réttum stöðum og láta hann falla á öðrum stöðum. Svo er sérlega mikilvægt að blásta "stuttbuxurnar", hálskragan og hárin á maganum slétt. Þá þarf maður að munda bursta um leið og hárblástarann. Mikil snilld.

Það er alls ekki auðvelt að handleika blautan og sápugan kött. Þeir verða svo asskoti sleipir, auk þess sem kettir eru snillingar í að vinda uppá sig, snúa uppá sig, stökkva og príla. Þetta getur því orðið ágætist líkamsrækt. Maður reynir á vöðva sem maður vissi ekki að maður ætti til. Hey! Kannski er þarna hugmynd að líkamsrækt... Svo þegar blásturinn tekur við er betra að vera tveir. Köttum finnst almennt ekkert spennandi að láta blása sig. Svo þeir... einmitt, vinda uppá sig, snúa uppá sig, stökkva og príla og bæta jafnvel við að spóla með afturfótunum, nota klærnar og jafnvel reyna að bíta. Svo maður þarf að vera mjög snöggur og sveigjanlegur sjálfur. Bæði sá sem heldur kettinum, venjulega í undalegri stellingu, og einnig sá sem mundar burstann og blásarann og reynir að bera sig fagmannlega að.

Okkur tókst nú bara nokkuð vel upp og verðlaunuðum okkur með því að horfa á eina svona konurómantískahappyendingmynd og gráta pínulítið í leiðinni. Pössuðum okkur samt að gráta ekkert á hreinu og fínu kettina sem allir hafa það nú sameiginlegt að feldurinn á þeim bylgjast um eins og að þeir standi útí með sumarvindinn í fangið og af þeim leggur góður angann, af blómum og ferskleika...


Þið eruð að grínast! Er það ekki?

"Ég stoppa í Mjódd...", kallaði bílstjórinn aftur til farþeganna. Hann barðist við að halda bílnum á veginum. Bíllinn spólaði og rétt lúsaðist áfram. Engu að síður rann hann skyndilega til á veginum og beygjurnar voru varhugaverðar. Hann treysti sér ekki til að halda áfram með fullan strætó af fólki.

Heimasætan hringdi heim. "Mamma, geturðu sótt mig?", spurði hún og útskýrði að hún ætti enga leið heim úr vinnunni ef strætó héldi ekki áfram. Ég hristi höfuðið þar sem ég lá dúðuð undir sæng. Það var ekki spennandi tilhugsun að fara undan sænginni, klæða prinsinn, koma öllum útí bíl, skafa bílinn og keyra í hálku og snjó uppí Breiðholt. Nei bara alls ekki. Ég stakk uppá leigubíl, heilsan ekki að leyfa eitthvað útstáelsi. Strætóbílstjórin tilkynnti að hann ætlaði að reyna að keyra aðeins lengra og sjá svo til. Svo var ég í beinu sambandi við heimasætuna. Svona bein lýsing úr strætó á hættubraut.

Ég kúrði mig betur undir sængina svo bara nefbroddurinn stóð undan. Fyrir framan mig hoppaði prinsinn fáránlega léttklæddur miðað við kuldann og klappaði saman lófunum: "Það er kominn snjór! Það er kominn snjór!". Svo hljóp hann til að kíkja útum gluggann.

Þrautseigjan skilaði strætóbílstjóranum og farþegunum heilum uppí hverfið okkar. Heimasætan skrönglaðist köld og hnerrandi innum dyrnar. Glöð að vera loksins komin heim en pirruð á strætóferðinni sem tók klukkutíma. Það er um það bil 45 mínútum meira en venjulega.

Og ég held áfram að leika sæbjúga, búin að vefja sænginni þétt um mig og rugga mér. Ég er sæbjúga á botni sjávar, hér er enginn snjór og engin hálka. Bara ég og rólegheitin. Ég myndi ekki vilja vera uppá landi þar sem er kalt, það kyngir niður snjó og enginn kemst áfram. Nei, það hlýtur að vera grín... er það ekki?


mbl.is Hrina árekstra í hálkunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Vilma sjálf

Höfundur

Vilma Kristín
Vilma Kristín
The Worrying kind
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband