Sumarvindur og frost

Nökkvi horfði á mig og heimalinginn með hortugum svip. Við horfðum til baka og brostum, góða og sætar. Nökkvi leit skyndilega niður fyrir sig en gjóaði áfram augunum að okkur og byrjaði að gefa frá sér hljóð. Við skiptum hið snarasta út brosunum fyrir furðusvip. Önnur eins hljóð hef ég ekki heyrt. "Uuuuuhhhhhhhhh...." heyrðist frá honum, stighækkandi. Hann hélt áfram að líta niður, eins og hann væri að reyna að hunsa tilveru okkar. Horfði niður og hélt áfram að reyna að ógna okkur með hljóðinu: "Uuuuuuhhhhhhhh......". Við stigum skref aftur á bak, hálfskelkaðar, ekki vissar hvernig við ættum að bregðast við.

Við mættum vel fyrir hádegi heim til kennarans í ákveðnum tilgangi. Jebb. Við vorum komnar til að blása hár. Snurfussa. Snyrta. Gera fínt. Við erum nú klárlega ekki vinsælasta fólkið sem hefur stigið þarna inn. Nökkvi, african grey fuglinn, reyndi að frysta okkur úti og hræða okkur í burti með urri. Þá erum við sennilega ekki mikið vinsælli hjá köttum kennarans og kattadómarans. Því nú á meðan kattadómarinn er í útlöndum að gera það sem kattadómarar gera stóð kennarinn í stórþvotti og við vorum mættar til að aðstoða við að blása hárið á, já, á köttunum.

Það er heljar aðgerð að snyrta kött svo hann verði boðlegur á sýningu. Fyrst þarf að greiða, tryggja að feldurinn sé hnútalaus og fínn. Svo þarf að baða. Sápa. Skola. Setja hárnæringu. Skola meira. Stundum þarf að endurtaka eitthvert skrefið. Nota þarf alveg sérstakt sjampó og hárnæringu. "Sumarvindur" er sérlega gott sjampó í skítuga ketti. Veit ekki hvernig nafnið er tilkomið, en ég sé alltaf fyrir mér kött sem stendur útí, með sumarvindinn í feldinn sem bylgjast um og fyrir vitin berst angan að blómum og ferskleika. Jebb, en það er bara mín sýn.

Þegar búið er að baða, sápa, skola og allt það þarf að blása. Ja, eða sko.. það er allavega betra að blása. Það þarf að ýfa feldinn á réttum stöðum og láta hann falla á öðrum stöðum. Svo er sérlega mikilvægt að blásta "stuttbuxurnar", hálskragan og hárin á maganum slétt. Þá þarf maður að munda bursta um leið og hárblástarann. Mikil snilld.

Það er alls ekki auðvelt að handleika blautan og sápugan kött. Þeir verða svo asskoti sleipir, auk þess sem kettir eru snillingar í að vinda uppá sig, snúa uppá sig, stökkva og príla. Þetta getur því orðið ágætist líkamsrækt. Maður reynir á vöðva sem maður vissi ekki að maður ætti til. Hey! Kannski er þarna hugmynd að líkamsrækt... Svo þegar blásturinn tekur við er betra að vera tveir. Köttum finnst almennt ekkert spennandi að láta blása sig. Svo þeir... einmitt, vinda uppá sig, snúa uppá sig, stökkva og príla og bæta jafnvel við að spóla með afturfótunum, nota klærnar og jafnvel reyna að bíta. Svo maður þarf að vera mjög snöggur og sveigjanlegur sjálfur. Bæði sá sem heldur kettinum, venjulega í undalegri stellingu, og einnig sá sem mundar burstann og blásarann og reynir að bera sig fagmannlega að.

Okkur tókst nú bara nokkuð vel upp og verðlaunuðum okkur með því að horfa á eina svona konurómantískahappyendingmynd og gráta pínulítið í leiðinni. Pössuðum okkur samt að gráta ekkert á hreinu og fínu kettina sem allir hafa það nú sameiginlegt að feldurinn á þeim bylgjast um eins og að þeir standi útí með sumarvindinn í fangið og af þeim leggur góður angann, af blómum og ferskleika...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

hahaha sé ykkur alveg fyrir mér, með sunnanvindinn í fangið og norðangjóluna á köttinn

Hrönn Sigurðardóttir, 4.10.2008 kl. 16:21

2 identicon

He he he Nökkvi brosti út að eyrum þegar þið voruð farnar, hann hélt að hann hefði fælt ykkur í burtu, hann veit ekki hverju hann á von á í kvöld!!! Kettirnir liggja allir úrvinda úr þreytu og sofa og lyktin er sko góð!!

Hrund (IP-tala skráð) 4.10.2008 kl. 17:15

3 Smámynd: Vilma Kristín

He, he, aumingja Nökkvi þegar ég mæti aftur í kvöld og með Snjóku uppá arminn! Úff, hann á ekki von á skemmtilegu kvöldi :)

Vilma Kristín , 4.10.2008 kl. 17:17

4 Smámynd: Snjóka

Vilma ertu þá að meina að ég eigi eftir að hræða fuglinn svona mikið eða hvað? hehe 

Snjóka, 4.10.2008 kl. 22:58

5 Smámynd: Sigrún Óskars

innlitskvitt - skemmtileg færsla.

Sigrún Óskars, 5.10.2008 kl. 10:13

6 Smámynd: Rebbý

en aumingja þarna hvað hann heitir fuglinn sem hræddi úr mér líftóruna forðum, var hann bara sprækur í þessum látum?

Rebbý, 5.10.2008 kl. 13:33

7 Smámynd: Vilma Kristín

Jebb, Dracco tók þessu öllu með stakri ró og var bara nokkuð hress með að fá heimsókn held ég þá hefur hann líka tækifæri til að sýna flottu nýju kærustuna sína, hana Daisy

Vilma Kristín , 5.10.2008 kl. 13:53

8 identicon

Ég get ekki ímyndað mér að það sé skemmtilegt að vera sýningaköttur !

Bibba (IP-tala skráð) 5.10.2008 kl. 19:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Vilma sjálf

Höfundur

Vilma Kristín
Vilma Kristín
The Worrying kind
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband