Færsluflokkur: Bloggar
26.10.2008 | 15:19
Oh! I wanna dance with somebody...
"Oh! wanna dance with somebody. I wanna feel the heat with somebody", sungum við sykursætu stelpuröddunum okkar þar sem við gegnum í átt að leigubílaröðinni. Við fórum frekar hægt yfir þar sem við vorum að æfa okkur á að detta ekki í hálkunni. Við vorum kátar og hamingjusamar, örugglega kátasta edrú fólkið í bænum. Það að við værum svona hressar var bara nokkuð gott þar sem kvöldið hafði ekki byrjað svo gæfulega.
Ég skoppaði á eftir MögguBiddu í átt að leigubílnum þegar við loksins höfðum lagt af stað niður í miðbæ nokkrum klukkutímum áður. Hálfan meter frá bílnum tókst MaggaBidda skyndilega á loft, en samt einhvern veginn svona í Slow motion og kútveltist á gangstéttinni, í nýju gullbuxunum og flottu gullskónum. Ég verð samt að segja að byltan var óskaplega þokkafull. Enginn dettur eins tignarlega og hún. Klukkan orðin tvö um nótt, við standandi útí nístandi vindi og ekkert annað að gera en að skella plástrum á verstu skeinurnar og skipta um föt. Ekki hægt að fara í bæinn í rifnum og tættum fötum.
Svo það var ástæða fyrir því að við fórum varlega þar sem við þræddum leiðina í gegnum miðbæinn í átt að leigubílunum sem áttu að ferja okkur heim aftur. Heim eftir að hafa dansað og dansað og dansað. Dansað við stelpurnar. Dansað við alla sætu vini hennar Rebbýar. Dansað við hvora aðra. Einhvern veginn hafði fyrirhuguð áfengisdrykkja farið útum þúfur en það stoppar okkur nú alls ekki í því að hafa okkur að fífli. Og þarna trítluðum við gaulandi slagara frá gullaldarárum okkar, lög sem eru víst margir áratugir síðan þau komu út. "Oh! wanna dance with somebody. I wanna feel the heat with somebody". Fram úr okkur tók vingjarnlegur maður sem gjóaði augun á okkur og glotti við.
"Finnst þér við ekki hæfileikaríkar?", spurði ég hann og samstundis vorum við búnar að eignast nýjan vin og bandamann. Hann ákvað að vera samferða okkur og njóta söngsins þó hann vildi nú ekki gefa út að við værum góðar. Ungur maður, haldandi á pizzu, tók fram úr okkur. "Hey! Ætlarðu að borða þetta einn?", kallar MaggaBidda á eftir honum. Og samstundis vorum við búnar að eignast nýjan vin og bandamann. Ungi maðurinn með pizzuna ákvað að slást í hópinn og fræða okkur allt um það hvað hann gæti borðað án þess að skemma línurnar. Við hjúfruðum okkur saman í leigubílaröðinni til að reyna að vinna á móti nístandi kuldanum og blöðruðum svo mikið að við tókum ekki eftir að við vorum búin að stífla alla röðina, ja, ekki fyrr en fólkið fyrir aftan okkur fór að hrópa og kalla hvort við ætluðum ekki að færa okkur áfram.
Það voru ekkert þreyttar stúlkur sem hoppuðu uppí sitthvorn leigubílinn á leiðinni heim á leið. Við sem höfðum setið geispandi klukkan hálf tvö og varla nennt að tygja okkur af stað ætluðum varla að nenna að fara heim. En núna vorum við alveg í okkar fínasta formi, hressar og kátar. Ég endaði á að bjóða nágranna mínum og samferðamanni í leigubíl í áframhaldandi spjall um alla heima og geima því ég var ekki að nenna að fara að sofa. Kettirnir voru hæstánægðir með að fá gest sem nennti að tala við þær stanslaust og klappa og knúsa og ég hæstánægð að hafa ástæðu til að þurfa ekki að fara að sofa. Nú er hinsvegar spurning hvort risið verði hátt á mér í kvöld í grillveislu með vinunum, það er orðið dálíið langt síðan ég dansaði tvær nætur í röð... ekki viss um að aldurinn sé eins hress sem þetta og ég...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
25.10.2008 | 19:36
Backókí
Ég stóð skelfingu lostin fyrir framan hóp af fólki. Ég get ekki sagt að ég hafi sent fallegar hugsanir til líffræðingsins á akkúrat þessari stundu, nei bara allt annað en fallegar. En ég var ákveðin í að gefa ekki eftir. Svo byrjaði lagið að hljóma og sú vitneskja að ég kunni ekki lagið varð skelfilega augljós. Textinn byrjaði að renna yfir skjáinn og stjórnandinn söng fyrstu nóturnar, ég leit við á hann í von um að hann myndi bara slökkva en hann brosti bara uppörvandi. Ekkert annað að gera en að snúa sér aftur fram, ég leit snöggt á Sísí sem hafði komið með mér upp, svona til halds og trausts, og svo byrjuðum við bara.
Mér fannst lagið vera allavega hálftíma langt. Hálftími að píningum og fölskum tónum. Og löngum þögum þar sem ég reyndi að fatta hvernig lagið ætti að vera. Loksins var það búið og þegar við snéum aftur í sætin hvatti stjórnandinn fleiri til að koma upp: "Ef þær geta þetta þá geta allir komið upp!"
Þetta var svona þvingað karókí kvöld í vinnunni. Sko þvingað þannig að eiginlega enginn fékk að velja sitt lag sjálfur. Ég byrjaði með því að velja alveg fullkomið lag fyrir líffræðinginn sem passar hans stíl og hans rödd voðalega vel. Hann var kallaður upp og skoraðist ekki undan. Stóð sig með prýði. En í hefnarskyni fór hann til stjórnandans og þóttist hafa fundið miða með mínu nafni á gólfinu og þegar ég var kölluð upp var ekkert annað að gera nema láta bara vaða.
Kvöldið var alveg hins besta skemmtun, góðar veigar, skemmtilegur félagsskapur og misgóður söngur. Getur bara ekki klikkað. Reyndar byrjaði karókíið rólega, fólk eitthvað stressað við að fara upp en það rættist út því. En við vorum að spá. Stundum gæti bara verið gaman að fara upp og syngja bara bakraddirnar. Svona Backókí. Þá kæmust líka fleiri að, alveg þrír eða fjórir í einu og þurfa ekki að hafa sig eins mikið að fífli eins og ég þurfti að gera. Ég hefði til dæmis alveg verið til í að syngja smá "ahhhhhhh" eða "sjúmmmsjúmmmmsjúmmmm" í backókí í góðum hópi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.10.2008 | 00:01
Yfir þér vaka
Ég leiddi prinsinn og við hlupum eins hratt og við gátum. Sem var reyndar ekkert mjög hratt því við höfðum vindinn beint í fangið og hann blés hressilega. Óveðrið, sem hafði verið spáð, var greinilega að koma. Við hægðum á okkur þegar kom að stórri götu og ég fann hvernig prinsinn minn togaðist aftur á bak. Ég kippti honum að mér og svo hlupum við af stað aftur.
Kvöldið fór allt öðruvísi en búið var að plana. Ég ætlaði að klára helgartiltektina snemma, horfa á sjónvarpið og kanski dúlla mér í heitu froðubaði. En gerði ég eitthvað af þessu? Nei! Alveg óvænt lenti ég í yfirsetu yfir nýja litla vini mínum. Kettlingar heimalingsins eru ekki að þrífast og léttast bara... kominn tími til að bregðast við. "Hann kólnar bara upp", sagði pabbinn í símann og við það sama trítluðum við prinsinn í heimsókn til að kíkja á ástandið.
Lilleman, nýi vinur minn, var ósköp líflaus og brothættur. Auminginn litli. Ég hef aldrei séð svona lítinn og léttan kettling, innan við 70 grömm, þar sem hann lá í lófanum á mér og bærði varla á sér. Ég skoðaði hann í bak og fyrir og prófaði að pota í hann. Eiginlega engin viðbrögð. Og þar sem heimilisfólkið átti ekki annars kost en að skreppa út í smá stund varð úr að ég og prinsinn pössuðum gengið. Ég var ákveðin í að láta Lilleman ekki deyja á minni vakt og til að halda honum heitum og hafa hann rólegann setti lagði ég hann innan klæða ofan á barminn. Þar er heitt og mjúkt að liggja og Lilleman virtist kunna vel við sig.
Svo var kominn tími til að gefa öllum að drekka. Ósköp varlega, dropa fyrir dropa, nærði ég Lilleman var nú eftir blundinn allur sprækari og skrækti jafnvel aðeins. Hann var kannski ekki líflegur né hress að sjá, en lifandi og allavega ekki slappari en hann var í upphafi kvölds. Þegar ég hafði lagt heimilisfólki lífsreglurnar, skipað næturgjafir og eftirlit, hitateppi og vaktaskipti, lögðum við prinsinn af stað á móti óveðrinu og rétt komumst heim móð og másandi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
22.10.2008 | 22:35
Skottið á skjánum
Ég rýni og rýni en ég sé ekki skjáinn. Nei fyrir skjánum er dökk grátt loðið skott sem sveiflast til og frá. "Feiti köttur!", segi ég í ströngum tón. Millie lítur á mig með hneykslun. Sko hvað er ég að gera með tölvuna mína bak við skottið á henni? Ég get bara fært mig...hún er að standa þarna. Svo lítur hún aftur á sætukopp með eftirvæntingu, vill fá meira klapp, meiri gælur. Sætukoppur klórar henni á kollinn og hvíslar að henni blíðum rómi: "Ljóti köttur... feiti köttur". Millie malar og lygnir aftur augunum. Og sveiflar skottinu enn meira fyrir framan skjáinn. Ég yppti öxlum og verð bara að sætta mig við þetta. Sitja bara og bíða þar til prinsessunni dettur í hug að færa sig.
Hinu megin við mig stendur Mía uppá heimalingnum. Heimtar líka athygli, ást og umhyggju. Sem hún fær auðvitað. Skokkar svo í burtu þegar nóg er komið. Hún er þó allavega ekki að sveifla skottinu eins og feiti kötturinn. Ekki langt undan hvíla svo bumbukettirnir sig. Óskaplega þreytandi að vera svona óléttur, burðast um með bumbuna... já, ég held að það verði aldeilis fjör á bænum þegar allt fyllist af kettlingum, bæði þeim sem voru skipulagðir og svo litlu leynigestunum.
Skyndilega er Millie búin að fá nóg af keleríi með sætukoppu og heimasætunni og skoppar í burtu. "Bæ, feiti köttur...", kalla ég á eftir henni og er dauðfegin að fá tölvuna mína aftur til umráða. Ekkert meira skott á skjánum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
21.10.2008 | 23:13
Einn af þeim... þessum dögum
Sætukoppur heimasætunnar kann sænsku. Það finnst okkur heimasætunni alveg ljómandi og við sleppum ekki tækifæri til að reyna að fá hann til að segja eitthvað á sænsku. En hann þráast við beiðnum kærustunnar og tengdamömmunnar. "Nei! Ég ætla ekki að segja neitt...", segir hann ákveðinn og hristir hausinn. Og æsir okkur auðvitað upp í leiðinni.
"Huuuupaaa, huuuuuppaaa", kvökum við í kór með því sem okkur finnst vera sænskur hreimur. Hann hlær að okkur og tilkynnir að svona segir maður ekki hoppa á sænsku. "Hvernig segir maður það þá? Segðu það...", spyr ég og ég halla undir flatt. "Neiii", svarar sætukoppur. Ég og heimasætan grípum þetta um leið og byrjum: "Nei yfir? Við nei yfir?" svona í staðinn fyrir eigum við að hoppa yfir...
"Hvernig segir maður yfir? Segðu það...", held ég áfram. "NEI!", svarar ungi maðurinn. Ég, heimasætan og heimalingurinn tístum og segjum: "Neiii NEI". Sko með svona mjúkum tón fyrra nei-ið og mjög ákveðið seinna nei-ið. Sænska er greinilega mikið mál, maður þarf að segja sama orðið með mismunandi tóni. Svo höldum við áfram að reyna að pína unga manninn til að segja eitthvað sniðugt á sænsku en þegar við byrjum að syngja lög með Sven Ingvars með okkar frábæra framburði hótar sætukoppur að fara heim, stendur upp og arkar í burtu. Og skilur okkur eftir í hláturskasti.
Það var notalegt að eyða gæðastund í eldhúsinu með öllum unglingunum mínum eftir frekar þreytandi dag. Vinnudagurinn tættur í sundur með fundum í fundarherbergjum, símafundum og fundum hjá viðskiptavinum og mér leið eins og ég hefði ekkert gert þegar ég gekk útúr vinnunni. Og í ofanálag varð ég að hætta snemma þar sem prinsinn hringdi grátandi í mig, taskan hans með lyklunum horfin og hann læstur úti. Heilmikil sorg og ekkert annað að gera en að drífa sig að hugga sorgmæddan prins og hjálpa honum að leita að týndu töskunni. Án árangurs. Dagurinn nærri búinn og ekkert jákvætt. Jæja, best að reyna að gera það besta úr þessu og drusla bílnum í dekkjaskipti... segjum að það sé jákvætt. Kíkja á nýju kettlinga heimalingsins og versla í matinn.
Það var því extra notalegt að eiga áhyggjulausa og fjöruga stund með unglingunum svona rétt áður en barnið sem ég hafði tekið að mér að passa mætti á staðinn. Og viti menn! Skyndilega stóð ókunnugur maður á stéttinni hjá okkur með tösku prinsins. Hafði verið gripin í misgripinn og hann hafði lagst í leynilögguleik og haft heilmikið fyrir því að hafa uppá okkur. Uppskar bros frá prinsinum og þakklæti.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
20.10.2008 | 21:20
Vindurinn bítur
Saman trítla þau í átt að strætóskýlinu. Frostið bítur í sællegar kinnarnar og vindurinn togar í fötin þeirra. Veturinn er klárlega að koma, íslenskur vetur sem virðist gera það að gamni sínu að hrella saklausa unglinga með kulda, roki, rigningu, snjókomu eða bara því sem honum dettur í hug. Íslenskur vetur sem virðist hafa mest gaman þegar unglingarnir eru illa klæddir og ekki tilbúnir í að berjast á móti veðrinu.
Og þarna voru þau, tveir krúttlegir unglingar, úti að trítla að reyna að stætisvagninum sem vonandi væri hlýr og notalegur. Veturinn hló. Þetta var akkuat það sem hann vantaði, saklausir unglingar. Nú myndi hann skemmta sér sérstaklega vel. Hann blés eins köldu og hann gat og strauk vanga stúlkunnar reyndi að ná í eyrun, það er góður staður til að bíta í. En stúlkan hló og hristi kollinn sem var vel hulinn loðinni svartri húfu með bangsaeyrum. Þarna hafði hún leikið á hann.
Veturinn gafst ekki upp... best að reyna að leika á drenginn. Veturinn átti leynibragð sem hann ætlaði að reyna, svona eiginlega uppáhaldsleynibragð. Já, blása ísköldu lofti með nokkrum snjókornum ofan í hálsmálið. Hann reyndi sitt allra besta. En drengurinn virtist ekki taka eftir því, yppti bara öxlum, hló og spjallaði við stúlkuna. Vel varinn með hlýjum og þykkum trefli.
En veturinn átti en eftir að eitt bragð enn. Alveg óbrigðult ráð. Já, að ráðast á puttana á unglingum er gaman. Þeir hafa aldrei vit á að passa puttana. Og veturinn blés og blés og blés. En unga parið hélt áfram eins og ekkert hafði í skorist. Nei, hér var eitthvað skrítið á ferðinni. Eitthvað þess virði að skoða nánar. Og hann rýndi á hendurnar og honum mætti skrítin sjón.
Drengurinn var með vettling á vinstri hönd. Stúlkan var með vettling á hægri hönd. Og á milli þeirra var sameiginlegur vettlingur sem heimasætan prjónaði alveg sjálf, stór sameiginlegur vettlingur fyrir ástfangið par sem vill geta leiðst á köldum kvöldum, í sameiginlegum vettling. Ástarvettlingur fyrir ung og sæt pör til að leika á ískaldan veturinn.
Veturinn setti upp skeifu og hélt áfram för sinni að leita að hentugum fórnarlömbum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
19.10.2008 | 22:51
Ljósin á himninum
Ég og prinsinn vorum menningarleg í dag. Dirfum okkur í leikhús í boði Snjóku (takk fyrir það) og kíktum á ævintýrið um Gosa. Flott sýning og við sátum alveg spennt í sætunum. Það sem vakti mesta lukku var þó nefið á Gosa sem lengdist og lengdist með hverri lyginni. "Er þetta alvöru?", hvíslaði prinsinn að mér með augun galopin af undrun.
Prinsinn er kominn með áhugamál. Eitthvað sem hann er mjög spenntur fyrir. Dálítið óvenjulegt áhugamál fyrir átta ára peyja, en þetta er nú einu sinni sérstakur strákur. Nýja áhugamálið hans er friðarsúlan. Jebb, hann fylgist spenntur með henni. Hvernig hún er í hvert sinn. Hann skimar eftir henni þegar við erum á ferðinni og hrópar af spenningi þegar hann finnur hana. Stundum sést hún vel og stundum ekki eins vel. "Friðarsúlan! Friðarsúlan!", hrópar hann: "mamma, sjáðu hvað hún sést vel?" Og ég hlæ og tek undir með honum. Ég er reyndar líka heilluð af henni líka. "Hey, mamma mín er úti!", skrækti heimasætan í símann sinn þegar hún kom labbandi heim úr strætó og fann mig standandi útá stétt. Standandi og starandi á friðarsúluna.
En þetta er ekki það eina sem hann er kominn með áhuga á. Nei, og hitt áhugamálið hefur hann fengið í arf frá mér. Já, og tengist kannski aðeins friðarsúluáhuganum. Já, það er semsagt áhugi á tunglinu. "Sjáðu hvað tunglið er fallegt?", segir hann og bendir útum gluggan. Ég kíki út og samsinni.
"Tunglið er næstum eins og sólin, mamma, það skín á okkur", segir hann á meðan hann horfir á það og hallar höfðinu. Tunglið er í miklu meira uppáhaldi hjá okkur en sólin. Tunglið er svo margbreytilegt en umfram allt fallegt, friðsælt og fullkomið.
Næst er að reyna að vekja áhuga prinsins á norðurljósunum. Þá verðum við alveg að rokka.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
19.10.2008 | 00:01
Nei, takk... nei...
Í dag mótmælti ég, svona næstum því. En bara alveg óvart. Ég ætlaði bara að hafa rólegan dag án allra uppákoma. Nú heldur kannski einhver að ég hafi farið niðrá Austurvöll, en það er af og frá. Þanngað fór ég alls ekki. Hinsvegar kannaðist ég við ansi mörg andlit í myndskeiðinu frá mótmælunum sem hægt er að skoða á visir.is. Jebb, annað hvort þekki ég slatta sem fór eða bara fólk sem ég kannast við er sérlega lagið að koma sér í sjónvarpið.
"Þú kemur að mótmæla með mér næsta laugardag...", sagði kenarinn skipandi róm í símanum. Ég reyndi að andmæla, ég vildi bara hugsa skemmtilegar hugsanir... og ég var líka eiginlega sofandi. Hún náði mér þar sem ég var að reyna að leggja mig. Það gekk reyndar ekki vel þar sem síminn minn virtist vera mjög vinsæll. Kennarinn og kattadómarinn voru alveg yfir sig spennt yfir þessu og reyndu að sannfæra mig að það hefði bara verið mjög gaman. Right. Svo lagði ég á og hélt áfram að reyna að leggja mig fram að næsta símtali.
En snúum okkur aftur að því sem ég byrjaði að segja frá. Eftir skákæfingar og leti morgunsins drifum við fjölskyldan okkur í Kringluna. Ég jók hraðann þar sem ég skundaði eftir ganginum með krakkana á eftir mér. Skyndilega gengur að okkur kona með klemmuspjald í höndunum. Ég mæli hana út, einhver að gera könnun eða með undirskriftalista hugsa ég og reyni að auka enn hraðan. "Fyrirgefðu, má ég trufla þig aðeins?", spyr konan. Ég brosi til baka og segi: "Nei, takk" og held áfram. Þá tekur konan stökk til hliðar og gengu í veg fyrir okkur og heldur áfram að tala: "já, en ég er með undirskriftalista á móti ofbeldi á konum...." "Nei, takk...", endurtek ég án þess að stoppa. "HA? Viltu virkilega ekki skrifa undir þetta?", æpir þá konan á eftir okkur með fyrirlitningartón. Fólk allt í kring snýr sér við og ég finn að ég er að verða ansi pirruð. Ég meina, ég var búin að segja að ég vildi ekki láta trufla mig. Mig langaði ekkert að vita hvað hún var að dúlla sér við þarna og ekki laust við að mér hafi nú fundist hún pínulítið dónaleg að æpa svona á eftir okkur.
Og nú byrjaði það skrítna. Ég er viss um að allar undirskriftakonurnar eru með kalltæki eða talstöðvar því þarna spruttu þær fram út um allt. Alls staðar í kringum okkur. Þetta minnti pínulítið á svona atriði í hryllingsmynd. Þær nálguðust okkur úr öllum áttum. "Fyrirgefðu, má ég trufla aðeins?" "Viltu skrifa undir..." "Ég er hér með undirskriftalista..." "Má ég stoppa þig í tvær..."
Ég hélt brosinu bara á andlitinu, hélt áfram að ganga og sagði í sífellu: "Nei, takk... Nei, takk..." En var eiginlega hætt að lítast á þetta. Farin að kvíða því að þurfa að ganga til baka. Rétt þegar við vorum að koma að búðinni sem ferð okkar var heitið birist ein enn: "Má ég aðeins trufla?" "Við erum búnar að segja NEI!", stundi heimasætan áður en ég náði að segja eitthvað. Prinsinn minn sló þá í gegn þar sem hann stoppaði og sagði skýrt við konuna: "Nei þýðir NEI!". Hvar hann lærði þennan frasa veit ég ekki en ég gat ekki annað en flissað. Svo héldum við áfram í búðina og fengum alveg frið þegar við gegnum til baka.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
17.10.2008 | 21:39
Skammastu þín svo...
Af þónokkru öryggi ýtti ég á þrjá hnappa á lyklaborðinu í einu, sannfærð um að þeir myndu leiða mig áfram á nýja slóðir í tölvuheimum. Og þeir gerðu það... bara alls ekki á slóðina sem ég átti von á að lenda á. Alls ekki reyndar. Ég semsagt ýtti á alla þrjá hnappana þar sem ég sat við tölvu líffræðingsins og starði einbeitt á skjáinn. Skyndilega urðu báðir skjáirnir við tölvuna svartir. Ég glennti upp augun í skelfingu. Leit svo hikandi á líffræðinginn sem sat við hliðina á mér og vann í minni tölvu. Ég sá að hann gjóaði augunum yfir á svörtu skjánna hjá mér.
Áður en ég gat sagt nokkuð byrjaði að fæðast líf á öðrum skjánum. Úbbsss... nú var ég í vandræðum. Allt sem hafði verið á hægri skjánum birtist nú á vinstri skjánum. Hægri skjárinn virtist vera alveg steindauður. Líffræðingurinn renndi sér yfir til mín í skrifborðsstólnum sínum og ég byrjaði um leið að flissa. Alveg ósjálfrátt. Ég ætlaði alls ekki að flissa. Enda var þetta ekki fyndið. Ég búin að skemma tölvu líffræðingsins.
Hann byrjaði lífgunartilraunir og leit á mig hálf hneykslaður. Hvað hafði ég nú gert? Ég gat ekki hætt að flissa og smá saman breyttist flissið í óstöðvandi hlátur. Eiginlega var ég komin í hnút af hlátri. Líffræðingurinn hélt áfram að gera örvæntingartilraunir að bjarga skjánum. Og sko! Kviknaði ekki á hægri skjánum. Eina vandamálið að hann hagaði sér ekki rétt og það þurfti skrítnar tilfæringar til að geta dregið hluti inn á hann. Ég emjaði af hlátri og ég er ekki frá því að líffræðingurinn hafi verið farinn að brosa... jafnvel flissa lágt. Á milli hlátursroka sagði ég líffræðingnum sögu af skemmtilegri gangsetningu hjá stóru fyrirtæki þar sem akkúrat þetta sama hafði gerst á næstum öllum tölvu fyrirtækistins. "Varst þú að kenna þeim flýtilykla?", spurði hann og mér fannst vera smá hæðni í röddinni. Ég hló meira, fannst svo fyndið að ég skyldi hafa fallið í þessa gryfju... að hafa ýtt á þessa flýtilykla sem ég á að vita að framkvæma þessa skipun.
Eftir að líffræðingurinn var búinn að laga skjánna fékk náðursamlegast leyfi til halda áfram að vinna á tölvunni hans með loforði að fikta ekki meira. Ég hagaði mér óaðfinnanlega og þorði ekki fyrir mitt litla líf að ýta á nokkra samsetningu af lyklum. Í huga mér reyndi ég að af afsaka þessi bjánalegu mistök með því að við vorum orðin rugluð af þreytu enda búin að vinna allt of mikið, allt of lengi... en ég þorði ekki að reyna að afsaka mig upphátt.. nei, betra að hafa bara hægt um sig eftir allan hláturinn...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.10.2008 | 20:21
Búin
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Um bloggið
Vilma sjálf
Tenglar
Ég sjálf
Gamla bloggið mitt
- Gamla bloggið mitt Vilma Stína
Klúbbar og félög
Eitt og annað sem ég tengist
- Ofurhugar Kúlasta fólk í heimi
- Skógarkettir Skógarkattaklúbbur Íslands
- Kynjakettir kattaræktarfélag Íslands
Kisusíður
Hinar og þessar kisusíður
- Aliosha's Aliosha og Hrund
- Eldibrands Margrét Birna og hennar kisur
- Hlíðarenda Heimasíða Ásdísar
- Vetrarheims Heimasíðan mín
- Björgvinjar Áslaug vinkona mín á þessa síðu
Bloggarar
Hinir og þessir skemmtilegir