Færsluflokkur: Bloggar
7.11.2008 | 00:13
Fæðingar! Endalausar fæðingar!
"Hún er meira svona eins og bein og breið gata en hin meira eins og laugarvegurinn", sagði sætukoppur þar sem hann sat á gólfinu á móti mér. "He, he.. já... hún er eiginlega svona eins og þýsk hraðbraut", tók ég undir. "JÁ!", kallaði sætukoppur: "Autoban!"
"Hin er þá kannski ekki laugavegurinn heldur frekar gamli miðbærinn... ", tísti ég og sætukoppur greip hugmyndina á lofti: "Já! Svona allir að reyna að komast eitthvað, en enginn kemst neitt, eintómar einstefnur og svo er einn sem er að reyna að bakka til baka...." Við hlógum að eigin fyndni.
Heimasætan horfði á okkur með hneykslun á svip: "Þið gerið ykkur grein fyrir að þið erum að líkja köttunum okkar við gatnagerðarkerfi?" "Nei, nei", andmælti sætukoppur og hélt svo áfram: "við erum að líkja leginu í þeim við götur"
Þetta eru búnir að vera annasamir dagar. Og reyndar er dagurinn í dag þriðji dagurinn í röð sem ekkert er gert á þessu heimili, ekki einu sinni eldað. Fyrst var það útaf næturvakt líffræðingsins, í gærkvöldi var það vegna fæðingu á kettlingum hjá Þulu og í dag ákvað Graffiti að láta ekki bíða eftir sér og við sátum því aftur yfir kattafæðingu.
"Mamma, getur verið að Graffiti gjóti í dag?", spurði heimasætan í símann þar sem ég var stödd í vinnunni. Ég jánkaði, það var svo sem allt mögulegt þó það væru allavega 2 dagar í þetta. "Mamma... ég held hún sé með hríðir... Mamma... það er kettlingur!!! Komdur heim!!!", kallaði heimasætan þá í símann. Það tók mig nákvæmlega 5 mínútur að komast úr vinnunni og heim. Ég rétt komst inn um dyrnar heima til að grípa kettling númer tvö. Þetta var ómögulegt. Þarna sat ég í anddyrinu með fæðandi læðu og tvo nýfædda kettlinga sem höfðu fæðst á kattaklórunni. Ekkert tilbúið... við drifum að koma henni í gotkassann og horfðum svo steinhissa á kettlingana hreinlega detta í heiminn. Enginn áreynsla, ekkert mál.
Og nú erum við ofsalega rík af kettlingum. 4 í gær og 5 í dag... sem betur fer eigum við ekki fleiri kettlingafullar læður, þetta er nóg í bili.
Í huganum deildi ég þessu niður og ég sé að jólin verða viðráðanleg... sko ég er með 3 kettlingaheld jólatré.. 9 kettlingar.. það eru ekki nema 3 í hvert tré :)
Hægt er að sjá myndir af kettlingunum á www.internet.is/vilma
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
5.11.2008 | 23:28
Fjölbreyttur dagur
Ég settist uppí bíl um þrjúleitið í dag og hélt heim á leið. Hmmmm. Þetta var skrítið. Í fyrsta skipti í langan tíma fór ég í alvörunni snemma heim úr vinnunni. Skyndilega verkefnalaus, svona allavega í dag, og notaði tækifærið að prófa að hætta bara um miðjan dag. Ráfaði um Bónus og gerði stórinnkaupin sem ég hefur þurft að kaupa inn lengi. Hafði meira að segja tíma til að kúra uppí sófa áður en ég færi með prinsinn í karate.
En hvað nú? Prinsinn kemur bara alls ekki heim úr skólanum. Fyrst byrjar maður að hringja og tékka á vinunum. Enginn prins. Svo fer mamman í óvæntan göngutúr um hverfið þar sem vel þekktir staðir eru þræddir. Enginn prins. Þá er komið að því að hringja í lögregluna og athuga hvort einhverja aðstoð sé þar að fá. Fyrst þá lætur prinsinn heyra í sér.
Ég varla náði að sækja prinsinn þvert yfir hverfið þegar kettlingarnir hennar Þulu fóru að fæðast. Núna eru þeir fjórir og alveg óvenju myndarlegir og sprækir. Og litskrúðugir. Engir tveir í sama lit. Ein þrílit stelpa. Ein þrílit og bröndótt stelpa. Ein blá og hvít stelpa (sko það er steingrá fyrir leikmenn...). Einn ofsasætur svartur og hvítur strákur.
Ég og heimasætan erum því búnar að liggja á gólfinu hjá Þulu í allt kvöld, báðar orðnar þokkalega beyglaðar af kúrinu. Þarna erum við búnar að liggja og klappa þulu, nudda á henni magann, hvetja hana áfram, hjálpa henni með börnin, og bara vera til staðar. Alveg dolfallnar af þessum litlu kraftaverkum. Við verðum alltaf jafn hissa og alltaf jafn yfir okkur hrifnar þegar fæðasta kettlingar. Og nú eru bara þrír eða fjórir dagar í næsta got. Mmmmm... fullt af litlum kettlingamallakútum af kyssa...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
4.11.2008 | 21:40
Næturvakt
Hér var ekkert vaskað upp í kvöld. Ekki skúrað. Ekki tekið til. Ekki þveginn þvottur. Ekki eldað. Ekki þurrkað af. Ekki ryksugað. Bara ekkert gert. Og við gerðum ekkert á ábyrgð líffræðingsins. Þegar hann komst að því að ég hafði ekki séð næturvaktina var hann lengi að mæta með hana með sér í vinnuna. Núna erum við búin að horfa á fyrstu sex þættina og liggja í krampakasti af hlátri. Hituðum bara upp afganga frá í gær til að þurfa ekki að eyða óþarfa tíma í eldamennsku og tengdar athafnir.
Sex þættir í næturvaktarmarþoni með heimasætunni og prinsinum, japlandi á poppi og klappandi köttunum. Þessir þættir fóru alveg fram hjá okkur þegar þeir voru í sjónvarpinu... það er í góðu, það er mikið meira gaman að horfa á þetta í einum rykk.
"Hvenær á ég að skila þeim?", spurði ég líffræðinginn. "Bara þegar þú ert búin að horfa á þá", svaraði hann og hélt svo áfram: "Það tekur ruglega einhverja daga" En miðað við hvað við erum komin langt núna þá tekur þetta ekki daga heldur klukkutíma! Við erum samt að hugsa um að taka hlé núna, svona svo við eigum eitthvað eftir seinna meir. Eitthvað til að hlakka til.
Á meðan við horfðum á þættina sat heimasætan á gólfinu og pakkaði inn jólagjöfum. Hún er útsjónarsöm og sniðug og hefur afskaplega gaman af því að gleðja vini sína með akkúrat réttu gjöfinni. í gærkvöldi sat heimalingurinn hjá mér og söng jólalög. Nú vantar ekkert nema jólatré fullt af kettlingum til að fullkomna jólin.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
3.11.2008 | 23:27
Köttur borðar krakka?
Heimilið okkar hefur alltaf verið nokkurs konar athvarf fyrir dýr. Við höfum tekið á móti hinum og þessum dýrum. Sum þeirra búa hjá okkur enn. Fyrir nokkrum árum síðan tókum við að okkur að passa Þulu. Núna býr hún bara hjá okkur og er okkar köttur.
Fyrir nokkrum vikum tókum við að okkur að passa lítið kisuskott sem heitir Dimmalimm. Dimmalimm er svo sem skyld köttunum okkar og trítlaði bara hér inná heimilið eins og hún hafi aldrei farið. Við höfum gaman af litla skottinu sem er ósköp þæg og góð kisa. Það er bara eitt...
Sko Dimmalimm ELSKAR prinsinn. Elskar hann! Og hefur mikla þörf fyrir að sýna honum ástúð sína. Mikla þörf. Og hvenær er best að komast að prinsinum til að sýna honum ást? Jú, þegar hann er sofandi. Frábært alveg. Fyrir nokkrum nóttum síðan vaknaði ég við vælandi prins. "Farðu köttur... Farðu...", skældi hann. Og þegar ég kíkti betur kom ég að Dimmulimm að þvo drengnum um hárið. Hann ýtti henni frá og hún færði sig og byrjaði að sleikja á honum handlegginn. Ég fjarlægði ástglaða köttinn og prinsinn hélt áfram að sofa.
Í kvöld skreið prinsinn uppí rúm. Ég bauð góða nótt. Svo fór ég fram og hallaði mér aftur í sófanum, gott að hafa ró og frið. Unglingarnir allir lokaðir inní herbergi. Fuglarnir þögðu. Kettirnir voru stillti og prúðir. Ja, nærri allir. "Mamma, ég fer ekki að sofa...", var kallað lágri röddu innan úr herbergi. "Farðu að sofa..." kallaði ég til baka. "Nei, ekki fyrr en kötturinn er farinn..." er svarað. Ég kem mér inn tl að sjá hvað er í gangi og kem að Dimmulimm þar sem hún er að "kyssa" prinsinn ástríðufullum kossum á hvern blett sem hún náði í. Prinsinn sat með skeifu og reyndi að halda henni frá. Ég glotti þegar ég fjarlægði Dimmulimm og skellti henni inn til unglinganna.
Ég veit ekki hvað það er við prinsinn sem Dimmulimm finnst svona spennandi. Er hann bara svona sætur eða er hann svona góður á bragðið? Hvað sem það er er hún nú komin í næturbann nærri prinsinum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
2.11.2008 | 23:30
Bubbi byggir
Hinu megin við götuna mína er verið að byggja hús. í marga mánuði er búið að vera að undirbúa þessa byggingu. Það byrjaði með að svæðið vart girt með hárri járngirðingu sem sést vel í gegnum. Það var girt yfir göngustíginn og hann svo grafinn í sundur. Þá birtust menn með "brú" sem var sett yfir gapið svo virðulegir hverfisbúar kæmust nú í Bónus.
Svo fóru að týnast að risastórar vinnuvélar. Það var byggður sér vegur, nei... tveir sér vegir fyrir vinnuvélar og vörubíla. Gröfur hömuðust daginn út og daginn inn. Vörubílar brunuðu fram og til baka. Báru í burtu tonn eftir tonn af jarðvegi. Þetta var erfitt tímabil því mér er sérlega illa við vörubíla. En ég hugsaði, þetta hlýtur að taka enda.
Þá komu mennirnir sem höfðu það hlutverk að brjóta í sundur klöppina. Og þeir stóðu sig vel í vinnunni. Voðalega iðnir. "Bamb bamb bamb bamb bamb..." heyrðist daginn út og daginn inn. Stanslaust bank getur gert mann gjörsamlega brjálaðann. Trúið mér. Og af því þetta voru svo iðnir litlir vinnumenn lögðu þeir sig sérstaklega fram um helgar. Jebb. Stanslaust bank um helgar, mánuð eftir mánuð. Og vörubílarnir brunuðu fram og til baka. Báru í burtu tonn eftir tonn af klöpp.
Loksins var var klöppin farin. Allt tilbúið fyrir bygginguna. Við vörpuðum öndinni léttar. Engar meiri gröfur. Engir meiri vörubílar. Engir meiri menn að brjóta klöpp. Bara rólegheit við að byggja húsið sem er búið að vera undirbúa alla þessa mánuði. Og mikið rétt. Við verðum ekki vör við hávaða frá byggingarsvæðinu. Og það eru engir vörubílar lengur sem sóða út allar götur og ryðjast yfir saklaust fjölskyldufólk. Nei, bara friður og ró. En samt... samt... er byggingarvinnan fyrst núna að fara virkilega í taugarnar á mér.
Já, þeir sem sjá um bygginguna eru greinilega mjög stoltir af henni þar sem hún er að rísa uppúr jörðinni. Svo stoltir að þeir hafa komið fyrir ljóskastara sem lýsir upp framhliðina. Mjög flott. Maður getur skoðað húsið að degi eða nóttu. Ekkert mál. Og þetta angrar mig ekkert. Það sem verra er að þeir hafa flutt nýjan háan flottan byggingarkrana á svæðið. Alveg glæsilegan. Þarna gnæfir hann yfir allt og alla. Og á honum er fjórir sterkir kastarar sem lýsa niður á byggingarsvæðið. Og það sem verra er, lýsa inn um svefnherbergis gluggann minn. Slökkva þeir þegar þeir fara heim? Nei. Láta þeir loga ljós alla nóttina og lýsa upp sofandi Vilmu? Já. Og þeir eru að gera mig alveg bilaða. Ég hvæsi að þeim þegar ég dreg fyrir gluggann. En það er alveg sama hvað ég dreg vel fyrir alltaf finnur ljósið einhverja leið til að smeygja sér fram hjá og lýsa á koddann minn. Í alvörunni. Getið þið bara plís komið aftur með mennina að brjóta klöppina, komið aftur með gröfurnar, komið aftur með vörubílana og slökkt ljósin?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
1.11.2008 | 23:26
Ferð í miðbæinn
Ég fann að það var tosað laust í skotthúfuna sem ég hafði á höfðinu. Ég leit við til að sjá hvað gengi á. Þar stóð prinsinn minn glottandi, eitthvað að dúlla sér við að vefja uppá húfuna og leika sér með dúskinn. Prinsinn og nýr félagi sem hann hafði fundið. Ný félaginn brosti til mín og rétti mér dúskinn og þar með endann á húfunni. Ég tók þegjandi við og lagði endann yfir öxlina. Félaginn kinkaði kolli og hélt af stað. Ég horfði á eftir honum. Horfði á eftir Lalla Johns.
Það var fjölbreytt mannhafið á Austurvelli í dag. Á meðan Lalli Johns hjálpaði prinsinum mínum að dúllast með húfuna mína stóð Jón Baldvin og Bryndís aðeins nokkra metra frá okkur. Ungt reitt fólk með skilti. Gamalt þungbúið fólk. Feður sem reiddu börnin sín á hjólum. Fólk í tötrum. Fólk í leðurjökkum og loðskóm. Rólegt fólk. Æst fólk. Pólitískt fólk. Og svo fólk eins og ég.
Ég leit á kennarann. Kennarinn leit á mig. Við brostum báðar. Hrópuðum svo og klöppuðum saman höndunum. Búnar að þramma laugaveginn, mitt í öllum mannfjöldanum. Búnar að koma okkur vel fyrir nærri fremst á Austurvelli. Prinsinn snérist í kringum okkur og vildi jafnvel fara framar. Sjá meira. "Kemur ormurinn?", spurði hann og hallaði undir flatt - ekki alveg að sjá muninn á þessu og gay pride.
Allavega ég gerði mitt í dag. Mætti og sýndi að mér stendur ekki á sama. Mætti og sýndi að ég er ekki ánægð. Mætti og sýndi að ég vil aðgerðir. Ég gat tekið undir með flestum sem tóku til máls í dag. Flestum. Ekki einum. En ég sleppti bara að klappa þegar hann tók til máls.
Jæja, hver er svo með næstu helgi?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
30.10.2008 | 23:29
Tvíkvæni
Eiginlega hefðum við aldrei farið á þennan dansstað að eigin frumkvæði, en við ákváðum að fylgja Axaptagúrúnum inná hans annað heimili. Og þarna vorum við komin, ég, líffræðingurinn, Axaptagúrúinn, kindabóndinn og Þjónustuskutlan. Eitthvað fór nú lítið fyrir mannfjöld og ofturstuði, en við vorum komin til að skemmta okkur. Það munar öllu þegar maður lendir á frekar hallærislegu balli að vera með skemmtilegu og uppátækjasömu fólki.
Þjónustuskutlan hafði augun vel opin og var fljót að "spotta" þá flotturstu á staðnum. En það var ekki einn af þeim sem "spottaði" okkur skvísurnar þar sem við sátum við borð með líffræðingnum. Varlega nálgaðist hann borðið okkar og gjóaði augunum á borðið. Svo færði hann sig nær og gaf til kynna löngun sína að kynnast þjónustuskutlunni. Líffræðingurinn sá um kynningu. Þvílík var kynningin að dvergvaxni maðurinn hlammaði sér í sætið við hliðina á henni, mændi á hana ástaraugum og reyndi sitt allra besta. Þjónustuskutlan snéri sér undan og virtist ekkert hafa gaman að.
Líffræðingurinn kom til bjargar skutlunni. Hann byrjaði að reyna að senda manninn í burtu, höstum rómi. Vonbiðillinn vildi ekki standa upp. Líffræðingurinn stóð þá uppúr sætinu við hliðina á mér og byrjaði að tosa í manninn: "Þetta er konan mín! Láttu hana vera! Ég kann ekki við þetta...." Og með sannfæringarkrafti og tosi náði hann manninum á fætur og kom sér sjálfum fyrir við hlið "konu" sinnar.
Vonbiðillinn stóð hálf vandræðalegur við borðendann og skimaði í kringum sig. Ahhhh... svo kom hann auga á mig, þar sem ég sat ein á móti þeim "hjónum". Hann hlammaði sér við hliðina á mér og mændi á mig: "sæl eeeeeellllskan". Við það sama spratt líffræðingurinn á fætur og hrópaði: "Nei! Nei! Hún er LÍKA konan mín!"
Vonbiðillinn virtist örlítið ringlaður í augnablik en hristi svo höfuðið. Nei, það gæti ekki verið. Enginn á tvær konur. En líffræðingurinn hélt það nú. Hann átti sko 2 konur og hann vildi bara hafa þær í friði. Ég fann aðeins til með aumingja vonbiðlinum þegar hann tölti í burtu og hengdi haus, enda hafði hann ekkert komist áfram með flottustu konurnar á staðnum. Líffræðingurinn virtist finna til með honum líka, ja, annað hvort það eða hann var orðinn niðurbrotinn af álagi að eiga tvær svona vinsælar konur því þeir tveir enduðu í faðmlögum við barinn þar sem líffræðingurinn klappaði uppörvandi á bak vonbiðilsins.
Ég og skutlan hlógum og héldum áfram að blaðra um stráka og fylgjast með mannlífinu.. sem reyndar má segja að okkar hópur hefði svo sannarlega lagt sitt í púkkið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.10.2008 | 23:31
Feeling hot, hot, hot
Ég starði á ráðgjafann sem sat hinu meginn við borðið með vonleysi í svipnum. Ég var að bráðna. Það er bara ekki hægt að lýsa því öðru vísi. Ég var að bráðna úr hita og þarna sat hann í skyrtunni sinni, lopapeysunni og jakanum. Í alvörunni? Er einhver að gera gys að mér?
Hann hallaði sér aftur í sætinu, jafn svalur og ætið, og glotti til mín. Ég blés frá mér og kom við brennandi kinnarnar. Ég gjóaði augunum á líffræðinginn sem spurði mig, brosandi út að eyrum, hvort ég vildi ekki skreppa út á bílastæði í smá stund til að bræða klakann af því. Ég sendi honum bros til baka. Og leit svo aftur á svala ráðgjafann í ullarpeysunni.
"Farðu úr fötunum...", bað ég hann: "farðu úr fötunum, mér verður enn heitara að horfa á þig í þeim..." Svali ráðgjafinn flissaði og lofaði að spá í að fækka eitthvað fötunum... Þegar leið á kvöldið fór að verða þægilegra að horfa á hann, jakinn fékk að fjúka, lopapeysan fékk að fjúka og hitinn hjá mér að lækka.
Innri hitastillingin mín er stillt eitthvað öðruvísi en annara. "Opnum glugga", sting ég uppá við herbergisfélaga mína sem hrista hausinn og segjast vera kalt. Ég mæti í stuttermabol og berfætt í vinnuna og skil ekker hvernig herbergisfélagarnir hafast við í mörgum lögum af fötum.
Mér finnst mér vera of heitt meiri hlutan af deginum. Fólk horfir á mig og spyr hvort mér sé ekki kalt, ég neita. En vinnufélagarnir eru að ná þessu. Ef þeim finnst passlega heitt, er Vilmu of heitt. Svo ég eyði dögunum í að reyna að opna glugga og reyna að sannfæra fólk að fækka fötum því mér líður illa að horfa á of mikið klætt fólk þegar ég er að leka niður...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.10.2008 | 00:15
Ég er fyrirbæri!
Ég rýndi í skjáinn í leit að týnda tölvupóstinum. Rýndi og rýndi. Við hlið mér sat líffræðingurinn og stjórnaði músinni. Fumlaust skrunaði hann upp og niður skjáinn og ég fann hvernig augun í mér voru að detta úr kollinum á mér þegar ég reyndi að fylgja tölvupóstinum eftir.
"Hættu að rúlla póstinum svona yfir skjáinn!", sagði ég í skipandi tón og hélt svo áfram: "Ég verð alveg rugluð í kollinum við þetta". Líffræðingurinn leit ekki af skjánum þegar hann svaraði mér: "Það er nú ekki eins og það sé erfitt að rugla þig í hausnum...". Hann reyndi að halda alvarlegum svip en gat ekki leynt glottinu, þetta er svona sérstakt "stríðum Vilmu" glott. Ég setti upp skeifu og gaf honum olnbogaskot.
Við erum búin að sitja stíft við síðustu daga við undirbúning næstu gangsetningu útí Bretlandi og við þjónustu við síðasta fyrirtæki. Við erum orðin svo vön að skrifa alla tölvupósta á ensku að það liggur við að við eigum í erfiðleikum með annað.
Við erum annars fjögur í verkefnahópnum og svona um miðjan dag í dag snérist allt í einu umræðan um það hvernig ég skæri mig úr hópnum. Fyrir utan það augljósa sko, en ég er nefnilega eina stelpan og kann svo sem vel við það. Svo er ég yngst. Það munar reyndar ekki miklu á mér og þeim næsta á undan en nógu miklu til að ég geti sagst vera yngst. Svo er ég með lengsta nafnið (og það fallegasta...). Þegar þetta með nafnið kom í ljós kom líffræðingurinn með einhverja athugasemd um að það væri bara af því ég léti bera svo mikið á mér. Ég neitaði en sagði að þetta væri af því ég hefði flóknasta persónuleikann og nafnið túlkaði það.
Hann leit snöggt á mig, glotti, leit aftur á skjáinn og sagði svo frekar lágt; "Ja, þú ert allvega flóknasta fyrirbærið!"
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.10.2008 | 00:37
Hver fallega þeir syngja...
Ég er að velta fyrir mér hvernig fuglasöngur berst. Sko, nú búa 3 fuglar á okkar heimili. Perla sem er dísargaukur og býr ein í búri. Hún kann svo sem engin trix eins og blístra eða eitthvað slíkt. Nei, hún syngur bara stefnulausa fuglasöngvar. Í öðru búa svo gárarnir Trúls og Kíkí og þau svona syngja/garga í kór.
Ég er eiginlega löngu hætt að heyra í þeim, allavega eitthvað að ráði. Svo í dag var ég að spjalla við Rebbý í síman og hún kvartaði undan fallega söngnum hjá fallegu fuglunum okkar. Þeir voru að æra hana. Skræktu inní eyrun á henni. Og ég heyrði varla í þeim. Ferlega skrítið.
Svo spurningin er hvort fuglasöngur berist betur en mannsrödd í síma? Eða hvort fuglasöngur magnist upp á ferðalagi í gegnum símalínur? Eða eru eyrun á mér bara orðin ónæm fyrir hinum fagra fagra fuglasöng? Eða eru fuglarnir bara óstöðvandi hávaðaseggir?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Um bloggið
Vilma sjálf
Tenglar
Ég sjálf
Gamla bloggið mitt
- Gamla bloggið mitt Vilma Stína
Klúbbar og félög
Eitt og annað sem ég tengist
- Ofurhugar Kúlasta fólk í heimi
- Skógarkettir Skógarkattaklúbbur Íslands
- Kynjakettir kattaræktarfélag Íslands
Kisusíður
Hinar og þessar kisusíður
- Aliosha's Aliosha og Hrund
- Eldibrands Margrét Birna og hennar kisur
- Hlíðarenda Heimasíða Ásdísar
- Vetrarheims Heimasíðan mín
- Björgvinjar Áslaug vinkona mín á þessa síðu
Bloggarar
Hinir og þessir skemmtilegir