Færsluflokkur: Bloggar

Vinahelgi

Þessa helgi ætlaði ég að horfa á bíómyndir. Eins og helgina þar á undan. Árangur var frekar lélegur, eins og síðustu helgi. Ég náði þó að horfa á eina mynd. Það tók fjórar atlögur. En það hafðist. Svo horfði ég á næstum hálfa mynd í viðbót með kennaranum og kattadómaranum.

En í staðinn fyrir að eyða tímanum í sjónvarpsgláp eyddi ég honum í eitthvað dýrmætara. Já, þetta varð svona vinaleg helgi eða gæðastund með góðkunningjum. Á laugardaginn stóð ég með kattadómaranum og kennaranum innan um þúsundir manna og mótmælti. Svo kíktum við í listagallerí, fórum út að borða, bökuðum hollustupönnukökur og kúrðum yfir biói þar til það var komið að því að sækja Rebbý.

Ég eyddi líka fullt af tíma með Rebbý, reyndar hitti ég hana föstudag, laugardag og sunnudag - með tilheyrandi hlátrasköllum, slúðri og stelputali. Á sunnudeginum ákvað ég svo að eiga gæðastund með Möggu Biddu og bið brunuðum út á land í kattaskoðunarleiðangur, með tilheyrandi stelputali, slúðri og hlátrasköllum.

Vinir mínir eru voðalega dýrmætir. Þeir eru skemmtilegt og gott fólk sem ég elska að eyða tímanum með og ég reyni að leggja mig fram við að finna tíma með þeim öllum. Ég er sennilega heppnasta stelpa í heimi!


Frækileg björgun

"Bíddu! Bíddu!", kallaði ég þar sem ég lá á fjórum fótum í herbergi heimasætunnar. Ég teygði mig undir rúmið og togaði fram gamlan púða og saumavél og bækur og... og... "Er ekki allt í lagi?", kallaði ég blíðri röddu: "Svaraðu mömmu... má ég heyra í þér..." Hjartslátturinn var ör og ég fann spennuna byggjast upp. Þegar mér var svarað lágri röddu létti mér stórum og ég hélt áfram að draga dót undan rúminu. Hvernig stelpunni hefur tekist að setja þetta allt undir þetta eina rúm skil ég ekki. Þetta var ekkert að ganga... ég varð að finna nýtt ráð til að bjarga mínum heitelskaða.

Ég settist á gólfið og stundi. Hvað var til ráða? Hvernig ætlaði ég að leysa úr þessu. Úbbss, nú var komið langt síðan ég heyrði í honum. Ég lagðist á gólfið og rýndi undir það, teygði höndina undir í von um að ná í hans. "Ertu þarna, kúttið mitt?", spurði ég og fékk lágt og hálf dauft svar. Það lá örugglega ofan á honum, vonandi myndi ég ná að bjarga honum í tíma.

Ég settist aftur á gólfið og fór í huganum yfir stöðuna. Hvaða möguleika átti ég? Aha! Ég fékk nýja hugmynd en var samt hrædd um að framkvæma hana, allt rask gat látið eitthvað hrynja eða kremja minn heitelskaða þar sem hann hafði komið sér í sjálfheldu. En ég var orðin örvæntingarfull,röddin hans lækkaði og lækkaði í hvert sinn sem hann svaraði mér og ég var hrædd um að hann gæti ekki andað nógu vel.

Ósköp varleg dró ég rúmið aðeins fram. Millimetra fyrir millimetra og óttinn um að heyra hann veina ef ég drægi rúmið á hann jókst. Þegar ég hafði náð því fram um þónokkra sentimetra lagðist ég á rúmið og kallaði varlega til hans: "Ertu þarna ástin mín? Mamma er að koma? Viltu svara?" Hjartað tók kipp af gleði þegar hann svaraði strax. Ég teygð höndina niður og veifaði henni: "Geturðu komið til mín? Geturðu mjakað þér hingað?" Fyrst kom ekkert svar og vonbrigðin urðu gífurleg. Ég endurtók bón mína og nú fékk ég svar. Hann ætlaði greinilega að reyna. Ég hélt niðri í mér andanum og beið. Mér fannst líða langur tími en sennilega var það innan við mínútu þegar ég sá glitta í hann og hann kallaði til mín.

Brosandi teygði ég mig aftur niður og greip þétt en blítt um hann og lyfti honum upp. Ég kyssti hann allan og kjassaði. "Mömmu sinnar besti strákur! Þú er bestur og sætastur! Hvernig gátu stelpurnar gert þér þetta?", kvakaði ég á meðan ég strauk honum hátt og lágt til að fullvissa mig um að hann væri í heilu lagi.

Svo bar ég hann inní stofu og lét hann liggja í fanginu á mér á meðan ég jafnaði mig á ævintýrinu. Hann heill á húfi, og ég ekki komin með hjartaráfall. Við sátum þétt saman og þögðum, bæði jafn fegin. Að lokum varð ég að fara að gera mig til fyrir mótmælin. Ég bar litla manninn inní kassa til mömmu sinnar og hélt yfir henni fyrirlestur um mikilvægi þess að fela ekki börnin sín á svona hættulegum stöðum.

Það hafði tekið mig hálftíma að finna týnda kettlinginn og hátt í hálftíma að ná honum úr felustaðnum. Þreytt eftir útstáelsi næturinn og stressuð yfir því að verða of sein á mótmælin. Þetta var of mikið af því góða og nú er lokað inní herbergi. Ég ætla ekki að eyða meiri tíma í að leita að týndum kettlingum... og ég ætla snemma í rúmið ...helst áður en ég sofna á sófanum...


Velkomin til Íslands

"Dear customer, welcome to Iceland!"

Ég starði í undrun á furðulegt stórt pappaspjald sem hékk á stýrinu á bílkrílinu. Hmmm, velkomin til Íslands? En ég var alls ekki nýkomin til Íslands. Ég er búin að vera hér í áratugi. Marga marga áratugi. Ég bisaði við taka pappaspjaldið, sem auk þess að bjóða mig velkomna til Íslands skartaði stóru landakorti, af stýrinu.

Ég hristi höfuðið um leið og ég náði pappaspjaldinu af og lagði það í farþegasætið og settist inní bílkrílið. Mér fannst þetta skondin uppákoma. Sko hverjar eru líkurnar að einhverjir nýstigin útúr flugvél, nýlentur á landinu, sé að leigja bíl á réttingarverkstæði uppí Grafarvogi? Í alvörunni? Er virkilega þörf á að bjóða þá sem fá bíluleigubíl hjá réttingarverkstæðinu velkomna til Íslands?

Ég stýrði bílkrílinu útaf stæðinu og við höfum vináttu okkar. Ég þriðjudaginn fór ég semsagt loksins með Rúnu á réttingarverkstæði - láta gera við hurðina sem er búin að vera beygluð í marga mánuði, alveg síðan nágranni minn bakkaði á mína heitelskuðu. Ég ætlaði að vera löngu löngu búin að þessu. En það var alltaf svo mikið að gera. Enginn tími. Svo kom einn verkefnalaus dagur og ég dreif mig af stað... og kom Rúnu inn í þessari viku.

Í staðin fyrir Rúnu ek ég nú um á Míu. Mía er eiginlega ekki bíll. Nei, hún er bílkríli. Lipur og létt og ég er alltaf að standa mig að því að læðast upp yfir hraðatakmörkin. Það er alveg bannað. Og ég skamma aðeins Míu, sem glottir og ypptir öxlum. Svo skottumst við um útum allt.

En þó það sé gaman að Míu litlu bílkríli sem getur troðið sér allstaðar í stæði og sem getur keyrt í hring á bílastæðinu þá sakna ég Rúnu minnar. Ég meina sko, Mía er svo lítil að það er ekkert húdd og ekkert skott, með herkjum má troða inn fjórum manneskjum en þá má engin blása út magann. Rúna er þunglamalegri og öll einhvern veginn þyngri en mér finnst ég sitja í bíl þegar ég er undir stýri á henni. Alvöru bíl, ekki bílkríli.

Í hringdu þeir svo í mig af réttingarverkstæðinu í dag. Vildu endilega að ég kæmi að sækja bíl. Eina vandamálið að það var alls ekki minn bíll... nei nei.. ég átti að sækja einhvern Nissan. Ég setti upp skeifu og þakkaði gott boð, ég vidi frekar fá Rúnu og spurði örvæntingarfull hvort ég fengi hana ekki örugglega fyrir helgi. Mía er nefnilega líka dálítið villt og í dag áttum við sérlega spennandi stund þegar Mía keyrði of hratt og rann svo út á hlið heil langa leið... þetta gerir Rúna aldrei og ég vil endilega fá hana sem fyrst aftur. Á morgun er því vonandi síðasti dagur okkar Míu saman... ég ætla að skemmta mér með henni og svo skila ég henni, tek við Rúnu mína og ég ætla sko að segja henni hvað ég elska hana heitt og hversu mikið ég er búin að sakna hennar! Það verður ekkert velkomin til Íslands... nei það verður velkomin til Rúnu!

Vöðvabólgudagbókin:

Jógaæfingar: Daglega frá helgi
Heitur pottur: 1 x
Ástand: Höfuðverkur þriðjudag og miðvikudag


Vinur Davíðs

Ég ætla alls ekki að fara að hafa þetta kreppublogg, en samt snýst það um Davíð Oddsson. 
 
Ég á oft erfitt með mig, finn til með fólki af allskonar ástæðum.  Ég græt yfir sjónvarpsefni, ég græt yfir dagblöðunum, ég græt yfir sögum.  Ég veit að það er til illt fólk í heiminum en ég bara skil það ekki, ég varð alltaf jafnhissa og slegin.  Og ég vil trúa því að innst inni séu allir góðir.  Og á sama tíma og ég vil trúa því á ég mjög bágt með að treysta fólki.  Ég á alveg í meiriháttar vandræðum með að treysta fólki og hleypa því að mér, vil halda fólki sem lengst frá mér - af biturri reynslu.  Það er svolítið skrítið að vilja trúa því besta en treysta samt engum til að komast nálægt sálinni því þeir gætu verið vondir.  Ekki það að ég ætli að fara að hleypa Davíði nálægt hjarta mínu, af og frá.
 
En stundum er ég að spá.  Ég held ekki að hann sé vond persóna, ekki svona inn við beinið.  Hvernig ætli honum líði þessa dagana? Örugglega ekki vel.  "Gott á hann", segja örugglega margir og það getur vel verið að hann hafi kallað þetta allt yfir sig.  Og jú, hann virðist ekki ætla að hlusta á kröfu almennings um að hann víkji sæti.  En samt spái ég, hvernig líður honum?  Við hvern getur hann talað? Hver dæmir hann ekki?  Hverjum getur hann treyst? Og ætli hann sé að hugsa vel um sálinu sína í þessum ólgusjó sem hann er í núna?  Ekki það að ég sé að bjóða mig fram, nei nei.. langt í frá... ég tilheyri hópnum sem vill faglega skipaða stjórn seðlabankans og tilheyri hópnum sem vill sjá breytingar og að menn taki ábyrgð.
 
Ég sé alveg fyrir mér að hann hafi komið heim, úrvinda af þreytu, í gærkvöldi.  Eftir langan og annasaman og örugglega stressandi dag.  Dauðþreyttur og kannski örlítið úrillur, veit ekki, ef til vill að endurupplifa erfiðustu hlutina í kollinum eins og ég geri stundum.  Fara yfir daginn.  Kannski svangur og með blóðsykursfall, ekkert búinn að borða yfir daginn.  Keyrður heim í lögregluvernd, það eykur stressið. Og þar sem hann sér heimilið og griðarstaðinn sækja að honum blaðamenn.  Hann getur ekki meir, verður að komast inn og hvíla sig.  Og hver tekur þá á móti honum?  Jú, vinur hans Eldibrandur!
 
Eldibrandur  er hlýr og góður félagi. Honum er sama þó allir séu æfir útí karlinn.  Hann sér bara að þarna er maður sem þarf á hlýju að halda, félaga sem hægt er að treysta, félaga sem dæmir ekki og félaga sem hlustar.  Svo hann stendur við dyrnar og tekur á móti vini sínum.  Davíð hlýnar að innan og stoppar til að spjalla við kunningjan sem hefur alls ekki snúið við honum baki.  Kunningjan sem fer ekki fram á meira en smá klapp og kannski smá mat og borgar til baka með mali.
 
Jebb, Eldibrandur er vinur minn og hann er líka vinur Davíðs og hefur verið það lengi - það var bara fyrst í dag sem það var gert opinbert í Dagblaðinu. Það sem ég var samt hissa að sjá þennan kunnuglega afturenda í blaðinu (og þá er ég að tala um köttinn sko....).  Eldibrandur er ekki bara fjölskylduvinur, hann er líka pabbi hennar Þulu okkar og afi kettlinganna hennar.  Svo ég klippi út myndina og hengi upp fyrir ofan kassann... sjáið bara afa gamla, nú er hann orðinn frægur!
 

Davíð og Eldibrandur
(sjá nánar: http://www.dv.is/frettir/2008/11/18/david-strauk-skogarketti/ )

Dagatalakrísa

Ég er hrædd um að ég sé að festast í vítahring. Ég er búin að fjárfesta í jóladagatali fyrir prinsinn. Hann kom með mér að velja og hefur svo setið með stjörnur í augum og horft á pakkann. Og hann getur ekki beðið eftir að við byrjum að telja niður að jólum með dagatalinu.

Hann er reyndar svo spenntur að hann bað mig um að segja hvað væri langt í að við mættum byrja að opna dagatalið. Og síðan þá hefur hann talið niður. Jebb, hann telur nður að dagatalinu. Eiginlega þyrftum við að hafa dagatal til að telja niður að dagatalinu.

Ekki það að hann stendur sig mjög vel í að telja sjálfur niður. "Í dag eru 17 dagar í dagatalið...", kvakar hann og hoppar upp og niður af spenningi. Daginn eftir tryggir hann að ég sé með á nótunum með því að tilkynna mér, oft, að það séu aðeins 16 dagar eftir fram að dagatalinu.

Svo nú er ég hrædd um að lenda í dagatalavítahring. Sko fyrst fær maður sér jóladagatal. Svo dagatal til að telja fram að því og svo annað til að telja fram að því og áður en maður veit af er maður endalaust að telja niður með dagatölum.

Allavega má prinsinn eiga það að hann bíður spenntur og æfir sig í að telja niður!


Ég slaka á

Dökkhærði, myndarlegi og hávaxni maðurinn sveiflaði Snjóku í kringum sig og sveigði hana skyndilega afturbak svo hressilega að hún nam nærri við gólf. Ég studdi mig við súlu og hló innilega. Maðurinn hafði sérlega skemmtilegan dansstíl og var svo innilega glaður. Við vorum svo sannarlega að lifa lífinu og skemmta okkur. Litli vinur minn snéri aftur og brosti til mín, hann tók um hendur mínar og stýrði mér í þokkafullum dansi, snér mér, hélt þétt og dillaði sér við tónlista. Ég lék með og lét þetta gott heita. Skyndilega snérist maginn á mér á hvolf og ég fann að ég gat ekki meir.

Í örvæntingu minni snéri ég af dansgólfinu í átt að salerninu sem var yfirfullt. Stelpurnar fylgdu í humátt á eftir. Ég fann magann snúast og snúast og það var ekkert annað að gera en að koma sér undir ferskt loft. Því miður höfðu dansfélugum okkar nefnilega ekki bara fylgt fjör og skemmtilegheit. Nei, einnig sérlega sérkennileg og sterk líkamslykt sem erfitt var að venjast.

Eftir að hafa andað að okkur fersku lofti héldum við aftur á dansgólfið, þar sem dansfélagar okkar tóku á móti okkur. Við enduðum á að kíkja á fullt af stöðum, dansa helling og fylgjast með skemmtilegu mannlífi. Við enduðum reyndar með að flýja af þessum ákveðna stað til að fá að anda að okkur súrefni og sleppa við frekar óþægilega lykt. En það var gaman engu að síður. Ég var ekki komin heim fyrr en klukkan var langt gengin í fimm, þreytt í fótunum en glöð og kát.

Um ellefu leitið á laugardagskvöldið birtist sakleysisleg skilaboð í símanum mínum; ætlaði ég í bæinn? Ég svaraði um hæl; nei. En nú var búið að strá hugmynd í kollinn á mér og áður en klukkutími var liðinn vorum við, ég, Snjóka og Rebbý mættar útá lífið. En þetta var enn eitt af því sem breytti áætlunum helgarinnar.

Sko planið var að endurhlaða batteríin, allavega komast uppá næstu rim. Og föstudagskvöldið byrjaði ágætlega. Ég fékk lánaðar fullt fullt af bíómyndum hjá sætukoppi. Planið var að sofa mikið um helgina, horfa á fullt af sætukoppsbíómyndum og klára næturvakt líffræðingsins, sofa meira og slaka meira á. Gera ekkert. En gerði ég það? Nei, ó nei. Eins og Bibba benti mér á.. þá hef ég hangið svona á síðustu riminni í nokkurn tíma og virðist ekki kunna eða geta hlaðið meira. Svo í staðinn fyrir að sofa mikið og slaka á, þá vakti ég allt of lengi á föstudagskvöldið við tövuhangs og vaknaði svo snemma til að koma prinsinum á skákæfingu morguninn eftir. Svo notaði ég helgina til að þrífa íbúðina hátt og lágt, þvo tonn af þvotti, fá skemmtlega kisukonur í ævintýraheimsókn á laugardagskvöldið, fara útá lífið og dansa fram á nótt, vakna aftur fyrir allar aldir til að tala við vinkonur í símann, verslunarleiðangur í kringluna og í bónus, taka á móti kettlingaeigendum og fressaeigendum, elda og sinna hefðbundnum heimilistörfum, fara í bíltúr með kattadómaranum, þurrkaði upp flóð og leysa upp stíflur í niðurföllum, breyta og uppfæra heimasíðuna okkar, auk þess að sinna heimaverkefnum frá líffræðingnum. Jebb, enn bíða allar bíómyndirnar og þættirnir - ekkert búið að horfa á. Ég hafði svo mikið að gera að ég náði ekki einu sinni að klára heimaverkefnin og sinnti því bara um helmingnum, eins og sjá má í dagbókinni hér að neðan sem verður fastur liður næstu 3 vikur.

Vöðvabólgudagbókin:

Jógaæfingar: 2 x
Heitur pottur: 1 x
Ástand: Mikil spenna og þyngsli en enginn höfuðverkur.


Ég er farsími

Það kannast örugglega allir við þetta frá farsímunum. Síðasta rimin á rafhlöðumælinum. Bara ein rim eftir og enginn veit hversu lengi hún endist. Síminn pípir á mann til viðvörunnar. "Ég er bara að láta vita... ég er alveg að verða batterílaus... bráðum gefst ég upp". Maður hunsar þetta kannski smá stund. En svo þarf maður á símanum að halda og með dúndrandi hjartslátt freistast maður til að nota smá afl af þessari síðustu rim.

"Hjálp! Hjálp!", æpir síminn á mann. "Hjálp.... ég er að deyja.... af hverju ertu ekki búinn að hlaða mig?" Og þá fær maður samviskubit og leggur á eins fljótt og mögulegt er. Svo situr maður og mænir á mælinn. Hversu lengi endist þetta. Hversu lengi er maður á síðasta séns?

Ég er farsími. Farsími á síðasta séns með batteríið. Ég er ekkert svo þreytt líkamlega, meira bara svona lúin. En ég finn að ég verð að fara að stinga í samband og hlaða batteríið aðeins meira en bara uppá næstu rim. Ég verð að ná allavega svona þrír fjórðu hleðslu.. eða fullri hleðslu.

Ég er engan veginn uppá mitt besta og nú koma dramaköstin mun oftar uppá yfirborðið með minni fyrirhöfn. Ja, eða á ég frekar að segja að ég á erfiðara með að halda þeim niðri. Já, það lýsir því best að segja að ég sé ekki uppá mitt besta.

Svo þessa helgi á að hlaða batteríin eins og hægt er. Og ég er með háar hugmyndir. Haldið ykkur fast! Ég stefni á að hafa ENGA yfirvinnu í næstu viku, hætta á venjulegum tíma og stimpla mig ekki inn á kvöldin. Ég veit! Þetta eru framúrstefnilegar hugmyndir. Og kannski ekki miklar líkur á ða þetta takist þar sem líffræðingurinn er að fara til útlanda og ég tek yfir öll verkefnin sem við höfum saman. Og Bibba verður fjarri góðu gamni. Og slatti af fleira fólki. Svo álagið verður meira á okkur sem heima eru. Erfiðast verður þó að horfa á eftir líffræðingnum og jafnframt erfiðast að fylla hans skarð. Og ég legg af stað inní vikuna að fara vel með mig, hvíla og sleppa yfirvinnu.

Það er sko líka meiri ástæða til að sleppa yfirvinnu. Og það kemur inná það að ég kynni til sögunnar nýjan kafla á blogginu. Á morgun byrja ég nefnilega í annari meðferð. Ég verð ekki bara í meðferð á til að hætta að syngja Daloon lagið heldur líka verð ég í róttækri vöðvabólgumeðferð að hætti líffræðingsins. Ég er búin að lofa að standa mig vel næstu 3 vikurnar og halda dagbók um árangurinn á blogginu. Og til að hafa tíma í meðferðina verð ég eiginlega að hætta snemma... allavega svona til að byrja með á meðan ég næ tökum á þessu...

Með öllu þessu trúi ég að næstu helgi verði ég sterk, kát og fullhlaðin :)


Það er Daloon dagur í dag...

"Já, komdu bara til okkar! Við tökum fagnandi á móti þér", svaraði viðskiptavinurinn glaðlegur í símanum um leið og hann náði andanum aftur eftir hláturskastið. Það er ekki slæmt á þessum síðustu og verstu að ég geti skemmt viðskiptavininum svona. Mér var nefnilega alls ekki skemmt... eða þannig. Ég ákvað að nota tækifærið og klaga herbergisfélaga mína í viðskiptavininn. Hún hló og hló þegar hún heyrði hvað gekk á hjá okkur.

Sko málið er að í morgun ákvað "herbergisráðið" að halda aðalfund í hererginu okkar, þar sem meirihlutinn (það eru sko þau tvö hin) ákvað að taka aftur upp refsingar í herberginu okkar. Já, og hverjum á að refsa? Mér auðvitað! Já, nú eru komnar refsingar við að syngja Daloon lagið. Og þessar refsingar eru settar á mér til höfuðs. Ekkert annað.

Sko, ég viðurkenni fúslega að ég hef haft þetta lag illilega á heilanum. Síðan í febrúar. Ég syng það þegar ég er leið og það er erfitt. Þá geri ég þetta meðvitað til að reyna að gleðja mig og létta lundina. En það sem er kannski verra er að ég syng lagið, hátt og hressilega, þegar ég er glöð og hamingjusöm og þá geri ég það alveg án þess að taka eftir því sjálf.

Glerlistakonan horfir á mig og segir: "Þetta er svo innilega gleðilegt hjá þér, þú ljómar öll og brosir útaf eyrum og brestur í söng.. ÞEtta er greinilega hamingjutengt." En svo snýr hún sér að líffræðingnum og veitir því atkvæði sitt að refsa mér fyrir sönginn. Og refsa mér harðlega.

Ég viðurkenni alveg að kannski er þreytandi að hlusta á einhvern syngja sama lagið á 10 mánuð, án þess að hann taki eftir að hann syngi það helminginn af tímanum. Allskonar útgáfur af laginu. Í allskonar útsetningum. Já, ég trúi alveg að það sé ekki skemmtilegt en mér er bara ekki sjálfrátt.

Og þá segir líffræðingurinn að þessi refsing sé tekin upp af umhyggju fyrir mér. Til að bjarga mér frá sjálfri mér. Meðferðin á að taka þrjár vikur og þá á ég að vera orðin laus við lagið úr kollinum. Dagurinn í dag var erfiður og ég er strax komin í skuld við herbergisfélagana.

Og því var ég svo ánægð þegar viðskiptavinurinn hringdi. Viðskiptavinurinn sem er umboðssölumaður Daloon vorrúlla á Íslandi. Ég hef setið dag eftir dag hjá þessum viðskiptavini og sungið lagið hátt og hressilega fyrir þau svo hún veit svo sem alveg hvað herbergisfélagarnir eru að ganga í gegnum. En samt hló hún og bað mig bara um að koma og syngja svolítið fyrir þau, svona um leið og hún lofaði að tékka betur á hvort hún ætti ekki bara gömlu auglýsinguna svo ég gæti spilað hana í vinnunni. Svo tók hún undir að þetta væru ósanngjarnar refsingar og lífið væri ekki sanngjarnt... enda vill hún að ég syngi þeggar sem hæst, sem oftast og sem víðast... enda gangandi auglýsing í leiðinni.


Á svikaslóðum

Ég kinkaði ákaft kolli og hlustaði af athygli á manninn í símanum. Á hinum endanum var virðulegur og tiltölulega hátt settur maður á vegum ríkislögreglustjóra. Hann var alvarlegur og talaði hratt. Ég jánkaði á réttum stöðum og hripaði hjá mér minnisatriði. Þetta var sko greinilega alvöru leynilögga sem hafði grafið upp númerið mitt og hringt til mín í vinnuna eftir að ég sendi til hans smá fyrirspurn. Ok, það er kannski ekki erfitt að finna númerið mitt, en þetta var nú pínu spennandi engu að síður. "Ég er ekki búinn að lesa allt sem þú sendir mér en ég bara varð að hringja í þig og fara yfir þetta...", sagði hann og ég skyldi að þetta var svo sannarlega alvörumál sem ég hafði blandast í.

Ég var búin að eyða klukkutímanum á undan í rannsóknarstörf. Svona í leynilögguleik. Og með smá athugun og eftirliti var nú aljþjóðlegt svikamál að opnast, svikarar að afhjúpast. Og nú var lögreglan farin að blandast í málið. Hringja í mig. Ræða við mig af alvöru. Hringja aftur í mig með óskir um kæru og leiðbeiningar. Hjartað sló aðeins örar og ég fann að ég varð dálítið reið, reið fyrir hönd fórnarlambana en um leið glöð að ná að leika á leiðindapésana.

Heimalingurinn minn, saklausasta stúlka í heimi, lenti klóm samviskulausra svikara sem er greinilega ekkert heilagt. Nokkurs konar nígeríusvindl, svona útsmogið nígeríusvindl sem erfitt var að sjá í gegnum. En einhvern veginn hringdi málið viðvörunarbjöllum, svona hjá hinum og þessum. Og þegar allt var lagt saman og við lögðumst í rannsóknarvinnu á internetinu í dag og krufðum tölvupóstana frá svikurunum í tætlur afhjúpaðist málið og við náðum að koma í veg fyrir að þeir fengju peninga.

Þetta nútíma svindl byggir á að gabba stúlkur sem skráðar eru hjá umboðsstofum sem au pair. Svikararnir þykjast vera fjölskylda í leit að stúlku. Bjóða góð laun, létta vinnu og góða aðstöðu á spennandi stað. Senda myndir. Og um leið og þeir fá einhvern til að bíta á er "umsóknarferlið" sett í gang hjá "góðri" ferðaskrifstofu. Eina sem stúlkan þarf að gera er að borga ferðaskrifstofunni ágætan pening fyrir hinu og þessu. Hljómar allt mjög sannfærandi til að byrja með. En ef eitthvað hljómar of vel til að vera satt þá er það yfirleitt niðurstaðan og svoleiðis var það líka í þessu máli. Svo tekur við innheimtuferli. Tölvupóstar að reka á eftir greiðslum. Símtöl frá fjölskyldunni að biðja um peninginn. Síðastliðinn laugardag talaði ég sjálf við "heimilisföðurinn", hann vildi ekkert ræða um sjálfan sig eða heimalinginn. "When can she pay the money?", spurði hann og ég útskýrði að allir bankar væru lokaðir. "She go monday morning?", hélt hann áfram og ítrekaði óskirnar með símtölum við heimalinginn í morgun. Mjög mikilvægt að borga. Og borga núna. Ekki seinna en strax.

Og með eftirgrenslun, rannsóknum og samtölu við sérþjálfaða lögreglumenn í svindlum blasti þetta ljóst við. Sama fólkið var fjölskyldan og ferðaskrifstofan. Ferðaskrifstofan var auðvitað ekkert annað en kjánalegur frontur með ókeypis netfangi. Ekkert finnst um fjölskylduna neins staðar. Heimasíðan sem vísað var á hefur vafasamar umsagnir. Og um fram allt það dularfyllsta var að ekki átti að borga peningana inná bankareikning heldur afhenda þá peningaflutningsfyrirtæki sem gerir allar greiðslur órekjanlegar og er víst vinsæl aðferð svindlara og þeirra sem hafa eitthvað að fela.

Nú erum við heimalingurinn að undirbúa kæruna. Það þarf að undirbúa hana vel, safna saman öllum gögnum, skrifa hjá sér hvernær símtöl fóru fram og hvað var sagt. Það er bæði þreytandi og ánægjulegt að vera uppljóstrari og rannsóknaraðili. Við erum hæstánægðar með okkur og stoltar árangri dagsins. Best af öllu var samt fyrir heimalinginn að geta sagt svikaranum sem hringdi miður sín yfir að hafa ekki fengið peningana sína að láta sig bara hverfa... engir peningar hér...


hápunktur dagsins

Hápunktur dagsins var að ég eldaði kvöldmat, næringarríkan og hollan mat. Nei, reyndar lýg ég því... Eftir þrjá daga án kvöldmatar og án alls... fékk ég heimalinginn til að elda á meðan ég lá fyrir með höfuðverk aldarinnar. Það ættu allir að fá sér einn svona heimaling, algjörlega ómissandi!

Heimalingurinn eldaði dýrindis kjúkling og bakaði kartöflur fyrir mig, sjálfa sig og prinsinn. Ég slakaði á. Heimalingurinn og prinsinn útbjuggu svo gómsætan eftirrétt og þá rétt skrönglaðist húsmóðurinn (það er sko ég ef einhver skyldi ekki vera að fatta...) og rembdist við að vaska upp. Svo var bara kominn tími til að hvíla sig aftur og kíkja á litlu kisubörnin.

Kisumömmurnar eru að springa úr stolti og hamingju þar sem þær liggja hlið við hlið. Ég rýndi ofan í kassana... hmm... eitthvað skrítið hér á ferð... Ó, já... þær hafa víxlað á börnum. Graffiti er komn með börnin hennar Þulu. Þula er komn með börnin hennar Graffiti. Og allir hamingjusamir. Svona er lífið skemmtilegt.

Heimasætan og sætukoppur rétt kíktu inn í síðbúinn kvöldmat og eftirrétt. Heimalingurinn og prinsinn spiluðu. Húsmóðirinn kannaði netheima. Mikil gleði og hamingja á heimilinu núna.. og nú er kominn tími til að kúra með heimalingnum og prinsinum undir fuglasöng... góða nótt...


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Vilma sjálf

Höfundur

Vilma Kristín
Vilma Kristín
The Worrying kind
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband