Færsluflokkur: Bloggar

Operation "Jólin"

Aðgerðin að sækja jólaskrautið útí geymslu leystist uppí vitleysu og fíflagang. Við dúðuðum okkur upp og héldum útí bylinn til að drösla skrautinu úr geymslunni. Jólaskrautið var auðvitað innst í yfirfullri geymslunni og það var því fyrirséð að þetta yrði nokkur burður, bæði bera dót út og svo aftur inn. Það var einróma samþykkt að senda heimasætuna inn, enda er hún sennilega sterkust af okkur öllum. Við hin, sætukoppur, prinsinn og ég, stóðum úti og tókum á móti allskonar kössum, dóti og húsgögnum og röðuðum um gangstéttina. Svo byrjuðum við að veiða jólaskrautskassana frá og bera allt annað aftur inn. Og þá.. þegar allt var að smella saman... fékk einhver smá hugmynd. Smá hugmynd sem áður en varði hafði breiðst út með allsherjar snjóstríð.

Þetta var svona allir á móti öllum snjóstríð. Vopnaður skóflu ærslaðist prinsinn áfram og henti snjó í allar áttir. Sætukoppur sérhæfði sig í velmótuðum snjóboltum og virtist nokkuð hittinn, já sérhæfði sig í snjóboltum og "spældum eggjum" á höfði heimasætunnar sem hljóp skrækjandi út um allt bílaplan en snéri svo óvænt vörn í sókn og elti sætukopp einbeitt með fullar hendur af snjó. Ég var vopnuð stóru plastloki og náði órtúlegu magni af snjó í einu sem ég jós í allar áttir. Og áður en við vissum af voru allir orðnir rjóðir í kinnum, kaldir, blautir og máttlausir af hlátri.

Loksins tókst okkur að koma öllu jólaskrautinu inn og jólatrjánum líka. Sætukoppur starði á okkur stórum augum þegar ég og heimasætan með æfðum handtökum byrjuðum að taka upp jólakskrautið og pakka öðru dóti niður. "Hvað eigið þið eiginlega mikið?", spurði hann og við hlógum. "Ekki nóg! Ekki nóg! Við verðum að kaupa meira í ár..." Drengirnir byrjuðu á því að pússla saman jólatrjánum, Míu hinni mögnuðu til mikillar ánægju sem byrjaði strax að príla.

Og núna eru jólatré um allt gólf, jólakskraut flæðir af eldhúsborðinu þrátt fyrir að við erum búin að fylla alla skápa, skennka og hengja neðan í ljósakrónurnar... við eigum enn heilmikið verk fyrir höndum... en mikið svakalega er gaman að jólin eru að koma í húsið okkar!


Nöfn kettlinganna

Jæja, það er búið að taka okkur 4 vikur að finna akkúrat réttu nöfnin á öll börnin okkar... Við ætluðum að setja inn nýjar myndir um helgina, en náðum því ekki þar sem jólahreingerningar, innkaupaleiðangrar og "lúll" var að þvælast fyrir okkur (já, trúið þið því að ég lagði mig í dag!!!).

En hér koma nöfnin fyrir börnin Þulu:

Von - elskulega litla kelurófu hárbomban okkar (sú þrílita með engu hvítu)
Sigurlín Pera - kötturinn með tásýkina.. hún bara má ekki sjá berar tær án þess að sleikja þær (sú þrílíta með hvítu)
Konráð - kúrukarl með meiru (svarti og hvíti strákurinn)
Lukka - geimveran okkar, spretthlaupari og frumherji (bláa og hvíta stelpan)

Og nöfn á börnin hennar Graffiti:

Snepill Snær - hvíti og bröndótti strákurinn
Elíana Eik - hvíta og bröndótta stelpan
Tópías Týr - bröndótti strákurinn
Míana Mey - Ljósa bröndótta stelpan
Kalina Kaja - Dökk bröndótta stelpan


Ég og stiginn minn

Ég reyndi að standa eins kyrr og ég gat. Beitti sjálfa mig hörku til að kreista fram bros á meðan ég minnti mig á að anda inn... anda út... anda inn... anda út... Ég var skelfingu lostin, hálf tryllt af hræðslu og reyndi að láta ekki á neinu bera. Alveg frá því að ég gerði mér grein fyrir að viðskiptavinur minn ætlaði að stoppa mig á stigapallinum til að spjalla hafði litla hjartað mitt barist um og reynt að slíta sig laust.

Hvað gerir maður ekki fyrir viðskiptasambönd? Auðvitað stoppaði ég og stóð nú þarna í brjálaðri innri baráttu við sjálfa mig sem vildi helst skríða æpandi niður stigann. En nei, ég stóð þarna, grafkyrr. Ég var með hraðan hjartslátt, þurr í munninum og gleymdi að anda. Á meðan kinkaði ég kolli og kreisti fram brosið. Skyndilega bættist við á pallinn. Sálfræðingurinn mætti og stillti sér upp við hliðina á mér. Ég freistaði þess að gjóa augunum niður. Var pallurinn nokkuð að gefa sig? Stóð ég bita? Loksins kom að því að viðskiptavinurinn vildi halda áfram upp, sem þýddi að ég mátti halda áfram niður. Enn og aftur barðist ég við löngunina að skríða niður, skælandi.

"Nei! Ég átti ekki von á að finna þig hér að spjalla!", kvakaði í Snjóku sem kom á urrandi siglingu upp stigann. Sálfræðingurinn hló og tók undir þessa undrun Snjóku. Ég gat hins vegar ekki beðið að komast að stigahandriðinu, grípa í og fikra mig niður á meðan ég reyndi að fá öndunina í lag. Aldrei aftur. Aldrei aftur ætla ég að stoppa á þessum stigapalli.

Ég var nú samt nokkuð stolt af mér að hafa stoppað þarna, að láta mig hafa það. Ég er hins vegar ekki svo viss um að ég hafi hljómað gáfulega eða að það hafi komið uppúr mér eitt orð af viti enda var heilinn gjörsamlega í lamasessi á meðan á þessu stóð. Á hverjum degi storka ég sjálfri mér og fer upp og niður þennan fjárans stiga. Samband míns og stigans er mjög sérstakt. Og samband okkar sveiflast líka til og er tilfinningaþrungið. Suma daga kemst ég þetta nokkuð auðveldlega, og get jafnvel farið þetta þó að það sé einhver í sömu tröppu og ég. Oftar á ég þó í erfiðleikum með hann. Ég fer hægt yfir og þarf stundum að hvetja sjálfa mig til að taka næsta skref. Ég get alls ekki farið stigann nema halda mér í handriðið, fast, og sem betur fer virðast flestir vinnufélagar mínir virða það og víkja fyrir mér. En ég held áfram, einhvern daginn.... einhvern daginn get ég hlaupið upp og niður glerstigann án þess að finna fyrir lofthræðslunni. Kannski ekki alveg strax, en ég læt hann allavega ekki stoppa mig...


Pínulitlu kisurnar gera jólahreingerningu

Pínulitlar kisur hlupu á eftir mér eins og ég væri súperstjarna! "Mí, mí, mí", skræku þeir í kór sem ég þýddi sem : "Gerðu það haltu á mér! Gerðu það taktu mig upp, ó, þú frábæri eigandi..." Ja, allavega eitthvað í þá átt. Ég ákvað í kvöld að besta leðin til að slaka á eftir yfirálag síðustu vikna væri að þrífa. Svo ég réðst á herbergið mitt og skrúbbaði hátt og lágt. Um leið ýtti ég við lífi kettlinganna sem deila með mér herbergi. Aldrei áður hefur nokkuð svona spennandi gerst í þeirra lífi.

Kassarnir þeirra fluttir til og endurinnréttaðir, allt rifið úr hillum og dreift um allt herbergi, þurrkað og þrifið áður en gengið var frá aftur og á meðan var opið fram í íbúð. Vá! En spennandi fyrir pínulitlu kisurnar mínar... ofur forvitnar skakklöppuðust þær hugrökkustu í gegnum opna hurðina fram í forstofu. "Mí, mí, mí!" skræki Sigurlín Pera framan úr forstofu. Ég þýddi það sem: "Gerðu það bjargaðu mér! Ég er pínulítil og vitlaus kisa og er alveg týnd í stóra heiminum... og ég er hrædd!" Auðvitað stökk eigandi til (það er sko ég þar til ég afhendi hana líffræðingnum) og bjargaði aumingja alveg týndu kisunni. Það tók góða stund að róa pínulitlu kisuna niður og á meðan sat ég með hana og spjallaði: "Hver er dædust... dædust...? Digurlín... Digurlín peeeeeera er dædust... og bestust... mömmu sinnar besta tjetlan..." Sigurlín Pera horfð á mig eins og ég væri að segja eitthvað rosalega merkileg og róaðist smátt og smátt. Ég lagði hana frá mér og hélt áfram að þrífa.

Þegar ég þurfti að skjótast fram í eldhús ákvað Lukka, sú hugrakkasta af öllum að elta mig... trítl trítl trítl... pínulitla kisan hljóp eins hratt og hún gat með litlu fótunum sínum á eftir mér, skrækjandi. Ég hló og bar hana með mér inn. Hún var ekki hætt og ákvað að prófa að príla uppí rúm. "Mí, mí, mí", skræki hún þar. Ég þýddi það sem: "Það er rosalega hátt niður og ég kann ekki að komast þanngað sjálf... gerðu það bjargaðu mér!" Að sjálfsögðu brást góði kattareigandinn hratt við og bjargaði pínulitlu kisunni. Aftur. Og aftur. Og aftur. Og aftur.

Von ákvað að taka þátt í rannsóknarleiknum og trítlaði fram í forstofu og til baka aftur og fram í forstofu og til baka og fram í forstofu og til baka aftur og fram í forstofu og til baka aftur.... þið náið innihaldinu væntanlega.

Og þá byrjað það mest spennandi af öllu. Kattareigandinn byrjaði að skúra gólfið. Von lét ýta sér áfram á rassinum. Tóbías hoppaði ofan á moppuna og fékk sér far um gólfið. Snepill og Lukka reyndu að veið moppuna á meðan flestir fældust fyrir. Elíana Eik gerði sitt allra besta til að fóta sig á blautu gólfinu undir hlátrasköllum kattareigandans. Nú eru allar pínulitlu kisurnar sofandi eftir mesta ævintýri lífsins... eftir jólahreingerninguna...


Týnd og fundin

"Svona er þetta...", hvíslaði nakti forritarinn í eyrað mér. Ég starði fram fyrir mig tómum augum, einhvern veginn ekki að horfa á neitt. Svo hélt hann áfram: "sérðu kóðann? Sérðu það sem ég er að tala um?" Ég hrökk við. Ó, átti ég að vera að horfa á eitthvað, skoða forritskóða? "Nei, heyrðu ég sé þetta ekki...", svaraði ég. "Ég stend nefnilega útí glugga með þig", hélt ég svo áfram og snéri mér frá glugganum og bar símann með mér aftur í sætið. Nakti forritarinn hló innilega og ég gat eiginlega ekki annað en tekið undir með honum. "Er þetta orðið svona slæmt? Stóðstu bara útí glugga, tilbúin að stökkva ef þetta virkaði ekki?", hló hann og áður en ég vissi af vorum við búin að spinna hugsanlega atburðarrás lengra... þar sem örvinglaði forritarinn biður þess að forritið virki, bíður á milli vonar og ótta á brúninni, tilbúinn að stökkva fram af klettinum ef allt fer í klessu. Já, forritarar geta sko alveg verið mjög dramatískir.

Ég hafði hinsvegar ekkert verið að plana að kála mér útaf kóðanum, hafði bara trítlað að glugganum til að teygja úr mér og tekið nakta forritarann með mér í símanum. Ég held að "headset"-ið mitt sé að gróa fast á eyrað. Ég er búin að tala sennilega yfir 7 tíma í símann í dag, stundum er ég meira að segja að tala bæði í borðsímann og gemsann, það er góð nýting.

Þetta eru skrítnir og langir dagar í vinnunni núna, líffræðingurinn er að vinna við að setja upp nýtt kerfi í danaveldi og gítarleikarinn er í fríi svo það eru bara ég og nakti forritarinn sem erum eftir til að sinna bullandi þjónustu, forrita breytingar og stunda prófanir - gaman hjá okkur. Eiginlega er ég orðin týnd í vinnu og sé ekki alveg fram úr þessu. Maraþon vinna um helgina og hún hvarf bara einhvern veginn án þess að ég tæki almennilega eftir því, tók mér samt frí á laugardaginn til að mótmæla.

Börnin mín störðu á mig og virtust ekki þekkja mig þegar ég mætti skyndilega heim seinnipartinn í gær til að sækja þau og drösla þeim á konfektgerðarnámskeið. Við náðum tveimur rólgegum klukkutímum í að gera fyllingar og konfekt áður en ég skutlaði þeim heim svo ég gæti drifið mig aftur í vinnunni og náði að vinna vel fram á nótt og mæta svo fyrir allar aldir í morgun.

Ég náði þrátt fyrir allt að skilja nakta forritarann eftir einan í dag og stinga mér á "jóla" hlaðborð á VOX með grillklúbbnum - þvílík snilld! Við erum alvarlega að íhuga að hafa þetta bara vikulegt! Maginn er enn fullur enda náði ég að fara margar margar ferðir....mmmmm


Nígeríusvindlari enn á ferð

Vinur okkar frá Nígeríu er aftur kominn fram á sjónarsviðið. Nú í hlutverki einhleyps tveggja barna faðir í Lundúnum. Hann vill endilega fá heimalinginn í vist sem au pair. Hann býður heimalingnum glimrandi góð laun og vikulega bónusa. Í staðinn þarf heimalingurinn bara að passa aðeins börnin sem eru ein heima eftir að mamman skyldi við manninn.

Hún fær stórt sérherbergi með sérbaðherbergi, fullt af frítíma, stutt í búðir... allt sem ungar stúlku vilja. Ég og heimalingurinn emjuðu við lesturinn á boðsbréfinu. Vinir okkar í Nígeríu höfðu ekki einu sinni fyrir því að breyta stílnum á bréfunum. Neibb, bara sami stíll og á öllum fyrri svindlarabréfunum. Og það besta við þessa nýju tilraun er að maðurinn ber sama nafn og maðurinn sem átti að senda peninga á í fyrra svindli. Frábær undirbúningur. Ég var meira að segja að spá í dag hvort ég ætti kannski að reyna að selja þeim gagnagrunn til að halda aðeins betur yfir upplýsingar um fólk sem verið er að svindla á.

En nú höfum við snúið vörn í sókn, við skrifuðum til baka... fullar af áhuga og bíðum nú spenntar yfir nýjum nígeríuævintýrum...


Valið mikla

Ég og kennarinn hjúfruðum okkur saman á sófanum og rýndum á tölvuskjáinn. Við vorum að ná smá il í kroppinn eftir mótmælastöðu dagsing. Og þarna höfðum við komið okkur vel fyrir og kennarinn var að hjálpa mér við erfitt verkefni. Það er nefnilega komið að því að nefna börnin, alla níu kettlingana. Og nú eiga 3 kettlingar eftir að fá nöfn og maður þarf að velja vel. Vanda sig.

Kennarinn er sniðug og áður en ég vissi af var hún búin að finna nokkrar sniðugar heimasíður sem gefa uppástungur af nöfnum. Kennarinn ýtti og ýtti á "random" hnappinn og nýja og nýjar tillögur pompuðu upp. Inná milli komu góðar uppástungur sem við skifuðum hjá okkur en þess á milli veltumst við um af hlátri yfir möglegum tvínefnum.

Lawton Bellmont! Apollonius Segundo! Hobbes Pollux! Thurgood Heinz! Við veltumst um á sófanum og héldum áfram að skoða úrvalið.

"Vilma! Do you have eggs?", spurði skyndilega kattadómarinn sem hafði setið og skoðað úrvalið af sjónvarpstöðvum. Ég jánkaði... vissi ekki betur en að það væru til egg. "Ok, do you have suger and cocoa?", hélt kattadómarinn áfram og ég jánkaði aftur og áður en ég vissi af var ég mætt inní eldhús að kíkja hvort það væri ekki allt til sem kattadómarinn taldi upp. Júbb, allt til. "Great!", sagði hann og hélt svo áfram: "I really want to make a cake in 15 minutes!"

Ég brosti, sko maður neitar ekki karlmanni sem býðst til að baka handa manni köku um að aðgang að eldhúsinu. Alls ekki! Nei, maður færir sig til hliðar og reynir að aðstoða. Reyndar erum við mjög góð saman í eldhúsinu, komumst að því þegar við undirbjuggum afmæli kennarans. En núna réð kattadómarinn í eldhúsinu og viti menn, áður en 15 mínúturnar runnu upp var ég komin með volga súkkulaðitertu á diskinn og nú gátum við kennarinn frussað súkkulaðiköku útúr okkur um leið og við flissuðum yfir fyndnum nöfnum.

Það er samt eitt nafn sem er enn að vefjast fyrir mér og ég var spá hvernig ykkur lýst á: Eastwood Cockburn ?


Ég er ekki listamaður

"En þú ert nú enginn listamaður...", sagði sænski skátinn og hristi kollinn til áherslu. Ég glotti og kinkaði kolli. Tími til kominn að horfa á staðreyndir, en sænskur skáti segir að maður sé ekki listamaður þá er það sennilega rétt. Og þetta voru svo sem engar fréttir fyrir mig.

Sænski skátinn hélt enn í höndina á mér og virtist ekkert ætla að sleppa. "Þú ert agalega dugleg í vinnunni", sagði hann og hélt svo áfram þar sem hann rýndi í lófann á mér: "þú er svona frama kona. Og sjáðu þessi lína hjá þér er sérlega djúp og breið hér, á þessum tímum. Þú þarft ekki að óttast um vinnuna". Ég vona að hann hafi nú rétt fyrir sér, það væri bara ágætt að sigla í gegnum kreppuna án þess að missa vinnuna.

Svo snéri sænski skátinn aðeins uppá hendina á mér og benti mér spenntur á að þarna væri nú sennilega að finna mann fyrir mig. Hann væri reynar dálítið ógreinilegur, en hann væri þarna og biði. "Það er ekki langt í hann. Á næstu árum alveg...", sagði hann sannfærandi. Og ég var svo sem ekkert svo ósátt við þennan spádóm. Á næstu dögum ætlum við að halda áfram að spá í framtíðina, ég og hann. Verður gaman að sjá hvað kemur útúr því.

Svo stóðum við hlið við hlið og skoðuðum skóauglýsingar og ræddum verðlagið. "Þetta eru líka fallegir skór", sagði hann og benti á þá sem mér þóttu flottastir:" og ég sé þig alveg fyrir mér í þeim... þetta er svo mikið þinn stíll" Og ég gat ekki annað jánkað því svona rétt áður en ég trítlaði aftur í sætið mitt til að halda áfram greiningu á kostnaðarvirði birgða fyrir vini mína í Bretlandi.


Sætust og flottust

Skvísan mín er alveg ómótstæðileg þessa dagana. Algjörlega. Ég get varla hætt að horfa á hana. "Vá! Rosalega flott!", sagði líffræðingurinn þegar ég dró hann að minni hlið til að sýna honum nýju fínu hurðina á Rúnu. Engin meiri beygla! Nei, hún er slétt og falleg, glansandi blá og smart.

Það tók mig tæpa níu mánuði að fara með Rúnu í viðgerðina á beygluðu hurðinni - þrátt fyrir að ég þyrfti ekki að borga krónu fyrir það. Var bara einhvern veginn ekki í forgangi. En nú er svo hrein, fín og flott og það liggur við að ég vilji helst fara með hana á réttingarverkstæði reglulega - þeir þrífa nefnilega líka bílana. Geggjað alveg.

"Á næsta ári kemurðu kannski fyrr?", benti maðurinn í skoðunarstöðinni mér á og sagði mér svo að ég mætti bara alveg koma í janúar - þrátt fyrir að eiga ekki að koma fyrr en í júlí. Ég brosti og ákvað að sleppa að segja manninum að ég væri bara alls ekkert svo sein þetta árið... á minn mælikvarða. En auðvitað stóðst Rúna skoðunina með prýði og hlaut skoðun án athugasemda.

Ég brosti alla leiðina í vinnuna, á glansandi og fína nýskoðaða bílnum mínum... og Rúna hló og launaði mér með því að vera extra þægileg í akstri.


Á yfirsnúningi

Suma daga ræður maður bara ekki alveg við. Dagurinn í dag var einn af þeim. Þar sem við líffræðingurinn börðumst við erfitt og snúið rannsóknarmál sem þurfti að leysa fyrir bretana og þrættum þess á milli jókst einhvern veginn stressið. Og snúningurinn á heilanum jókst í beinu samhengi við það. Svo leið tíminn og venjulegur vinnudagur var búinn og við áttum eftir að prófa áður en ástralarnir vöknuðu. Og stressið jókst og snúningurinn á heilanum.

"Við erum svöng.. hvenær er matur?", kvökuðu börnin í símanum við mömmuna sem var að tapa heilanum. Og tíminn leið. Skyndilega var hálftími í að börnin áttu að vera mætt i piparkökumálningu niðrí bæ og ég enn í vinnunni. í millitíðinni átti ég eftir að fá mér að borða, skrifa bréf með heimalingnum, fara út í búð með prinsinum að sækja ákveðin verðlaun og koma börnunum í miðbæinn.

Nú fyrst var ég að komast á yfirsnúning og þegar ég rauk inn um dyrnar heima talaði ég svo hratt að enginn skyldi mig, ég gerði heiðarlega tilraun til að gera allt í einu og baðaði út höndunum, skipaði fyrir, las yfir bréfið... og einhvern veginn tókst þetta.

Ég endaði með að mæta of snemma í saumaklúbbinn, enn á yfirsnúningi með hjartslátt eins og ég væri allt allt of sein. En í félagsskap stelpnanna tók ég loks að róast. Og maginn sem hafði ekkert fengið nema smá skyr um miðjan dag kættist aldeilis við allar veitingarnar hjá Valdísi. Mmmmmm.... og nú er ég alveg róleg... og södd... og sæl... og á morgun fer ég að snúast aftur


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Vilma sjálf

Höfundur

Vilma Kristín
Vilma Kristín
The Worrying kind
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband