Færsluflokkur: Bloggar
22.12.2008 | 19:18
Og við stækkum aftur...
Dýrlæknirinn hló og stundi upp: "Þú hefur ekki ætlað að taka neina sénsa, Vilma!" þegar ég útskýrði fyrir henni að seinni kettlingurinn sem ég dró upp væri viðmiðunareintak... svona svo hún gæti séð hvernig heilbrigður einstaklingur ætti að líta út. Dýralæknirinn skoðaði Elíönu Eik fram og til baka, hún var látin labba, látin sitja, látin standa, látin hanga. Potað í hana, tosað í hana, klipið í hana. Og viðmiðunareintakið var líka látið labba, sitja, standa, handa, potað í hana, tosaði í hana og klipið í hana. "Þetta var aldeilis góð hugmynd hjá þér, engum öðrum hefur dottið í hug að koma með viðmiðunareintak... ", sagði dýralæknirinn um leið og við vorum að klára skoðunina.
Elíana Eik hefur nefnilega ekki komið sér almennilega uppá lappirnar. Hún er kiðfætt. Og þó það sér ofsalega sætt að horfa á hana hlaupa um og lappirnar renna útum allt þá var eiginlega kominn tími til að láta kíkja á þetta. Kalína Kaja kom sérlega vel út sem viðmiðunareintak og dýralæknirinn er búinn að panta að hún komi líka með sem viðmiðunareintak þegar Elíana Eik mætir í myndatöku eftir þrjár vikur. Þá á úrskurða hvort þetta eru slök liðbönd eða sjúkdómur í brjóski. Þanngað til eigum við að þjálfa hana og fá okkur fleiri mottur sem veita góðan stuðning við kettlingafætur sem renna í allar áttir.
Þetta var dagurinn sem ég ætlaði að þrífa og klára að gera fínt fyrir jólin, fyrsti dagurinn í jólafríinu mínu. En ég gerði allt annað en að þrífa. Jú, ég dreif mig með Elíönu Eik til dýralæknis og útréttaði allskonar smáhluti um allan bæ. Ég talaði við vinnuna og skipti mér að málum þar. Við kláruðum að setja upp grenilengjur úti og hengja á þær seríur (mun betur gert þeim megin sem ég og sætukoppur vorum heldur en heimasætan en voða fínt samt).
Við drösluðumst um bæði Bónus og Hagkaup og náðum að klára að kaupa inn allt sem þurfti fyrir jólin... en then some. Ótrúlegt hvaða hugmyndir maður fær svona útí búð! Allavega, ekki meiri búð fyrir jól... neibb, allt búið.
Svo tókum við svona séríslenksa útgáfu af möndlugjöfinni. Þessi útgáfa heitir "niðurfallsgjöfin" og er þannig að vopnuð skóflum leitar maður um allt bílaplan að niðurfallinu. Sá sem er fyrstur að finna það undir íshellunni vinnur. Ég fann fyrsta niðurfallið. Sætukoppur fann niðurfall númer tvö. Og svo hömuðumst við við að brjóta frá ís og koma honum frá og útúba ræsi á planið til að hleypa vatninu af því. Mikið svakalega fannst okkur við vera dugleg! Duglegust í húsinu allavega.
Rebbý kom svo færandi hendi og nú á ég ótrúlega ótrúlega flott dagatal fyrir konur (þið skiljið hvað ég á við), útgefið af Íslenska gámafélaginu. Þvílíkt flott hjá strákunum og alveg á hreinu hvert ég leita ef ég þarf að láta losa gám!
Seinni partinn tókum við svo meðvitaða ákvörðun um að fjárfesta í nýjum félaga fyrir Kiki sem var svo aum í búrinu sínu. Mér fannst ekki eiga skilið að vera ein. Alls ekki. Og hvort sem þið trúið því eða ekki þá er þetta fyrsti fuglinn sem við tökum svona meðvitaða ákvörðun um að bæta við. Og sá fyrsti sem við kaupum í búð. Við vorum því voðalega spennt að fá að velja sjálf... og við fáum sjálf að ákveða nafn! Smá valkvíði... en svo kom þetta. Og við fórum heim með óskaplega fallega gul/græn skellótta stelpu sem er enn verið að máta nöfn á. Hún og Kiki eru nú að kynnast og vonandi verða þær góðir vinir fljótlega...
Og nú ætla ég að fara að þrífa! Og moka kattasand... veiiiiii...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
21.12.2008 | 23:05
Einfaldlega Trúls
Trúls var aldrei sá fjörugasti, sá fallegasti eða söngelskasti. En hann var alltaf jafn krúttlegur og kjaftfor. Eins og allir aðrir fuglar sem hafa komið inná okkar heimili var hann "notað" gæludýr, við tókum hann semsagt að okkur þegar fyrri eigendur fluttu af landinu.
Þá var hann orðinn nokkuð vel við aldur og við fengum hann með þeim skilaboðum að hann og félagi hans ætti nú örugglega ekki langt eftir. Síðan þá hefur hann lifað bæði upprunalega félaga sinn og óvænta félaga sinn, hina gullfallegu Evu. Og á þessum tíma hefur hann líka náð að lifa lengur en Gabríel og Fjöður sem fluttu til okkar á svipuðum tíma og hann.
Það lýsir mikið hversu blíður hann var að hann átti þrjá félaga og var blíður og yndislegur við þær allar. Heitast af öllum elskaði hann þó hana Kiki, litla óvissufuglinn okkar.
En nú hefur Trúls yfirgefið okkur, enginn meir sem syngur falskt og hátt og óheflað. Enginn meir sem situr og hjúfrar sig uppað Kiki. Enginn meiri Trúls. Og aldrei þessu vant er hljóð á heimilinu í kvöld. Ég sakna hans strax... ég vil bara fá Trúlsinn minn aftur.
Hér að neðan eru slóðir á nokkrar færslur þar sem Trúls kemur við sögu, ég mæli sérstaklega með ástarsögunni þó ég geti ekki lesið hana sjálf núna nema gráta - já, eða fjarvistarsönnuninni þar sem Trúls spilaði stórt hlutverk:
Spéhræddi fuglinn
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
18.12.2008 | 20:09
Blue christmas
Ég og líffræðingurinn erum komin í jólastuð. Eða kannski aðeins meira ég. En allavega hann umber jólastuðið mitt allavega. Og þessu jólastuði fylgir hungur í jólatónlist. Endalausa, endalausa jólatónlist. Ég fæ bara ekki nóg. Ekki nóg. Og uppfull af jólastuðinu og jólalagahungrinu dreg ég líffræðinginn lengra og lengra inní minn heim.
Í dag ákváðum við því að halda stuðinu bara uppi. Og spila jólalög. Og þá á ég sko ekki við að hlusta á tónlistina með heyrnartólunum eins og venjulega heldur í hátalaranum. Slíkt er frekar fátítt á okkar vinnustað, enda eigum við að vera að einbeita okkur, forrita og svoleiðis. Þar að auki sitjum við í frekar opnu umhverfi svo það er dálítil hætta á að tónlistin okkar teygi sig yfir í næstu sellur. En við (eða sko ég) vorum í jólaskapi og vildum heyra jólatónlist... á meðan við unnum saman og blöðruðum.
Og líffræðingurinn stillti á jólatónlist og kveikti á hátölurunum. Og það átti sko ekki að spila neitt svona nútíma eins og Last Christmas. Nei, það var byrjað á menningarlegum og hátíðlegum útfærslum. Svo byrjuðum við að hafa þema.
"Þetta er eins og að labba inní gamla mynd...", sagði gesturinn sem stakk inn nefinu þegar við vorum í miðju "svart/hvíta" þemanu. Svona amerísk jólatónlist frá örugglega 1950... hátíðlegar og hástemmdar útgáfur. Nat King Cole sló líka í gegn í þessu þema. Svo var það Haukur Mortens þemað. Reyndar hefur hann verið í uppáhaldi hjá okkur uppá síðkastið. Ég meina, maðurinn gat sko sungið... og svo er fólk að segja að Bubbi sé góður? Í alvörunni?
Svo var það blús þemað þar sem B.B.King tróndi sem ókrýndur kóngur blúsjólalaganna. Við vorum nú alveg að tapa okkur í jólastuðinu og ýmist dönsuðum eða rauluðum með. Nema þegar voru sérstök lög... þá blístraði líffræðingurinn. Svo hátíðlegt.
Aðalþema dagsins var samt "Blue christmas" þemað og þá fyrst gerði ég mér grein fyrir því hversu umburðarlyndur líffræðingurinn er. Allavega var ekki mikið mál að gabba hann í þetta... en við síuðum "Blue christmas" lagið úr öllum tónlistargrunninum og fengum þónokkuð margar útgáfur af laginu. Sem við spiluðum. Allar í róð. Í sífellu. Þrír klukkutímar af Blue christmas eru fljótir að líða. Elvis í tónleikaútgáfu, Willie Nelson, Celine Dion, Elvís í húlaúgáfu, Engilbert... og fleiri og fleiri. Ég ætla að stinga uppá annari atlögu að laginu á morgun..
I'll have a blue christmas without you...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
17.12.2008 | 23:26
Dansi, dansi
Ég þrammaði hring eftir hring. Og söng. Kannski ekki fallega en ég söng allavega. Með mér dró ég prinsinn, vin hans og heimalinginn minn. Jólaball er algjör skylda að mæta á. Og í ár var óvenju glæsilegt jólaball í vinnunni, hljómsveit, 2 jólasveinar, heitt súkkulaði með rjóma, smákökur... you name it... bara allt eins flott og hægt var.
Allt nema kannski ég. Ég hafði ætt heim að sækja barnaskarann til að dröslast á ballið, dreif þau í dansinn - enn í vinnufötunum, og hálfstressuð. Enda hafði ég bara rétt tíma ti að kíkja inn og njóta mín í smá stund, svo var meiri vinna fram á kvöld. Öllum bökunarplönum frestað og staðin slakað á í eins og klukkutíma... eða svo.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
16.12.2008 | 22:56
Jólabakstur að okkar hætti
Í kvöld, eftir langan og strangan dag, datt okkur Snjóku í hug að taka skurk í jólabakstrinum. Lakkrístoppar voru efstir á óskalista barnanna og okkar svo við brunuðum um búðina og tættum úr hillunum súkkulaði, lakkrískurli og eggjum á ótrúverðum hraða.
Samvinnan og sannur jólaandi sveif yfir öllu þegar unglingarnir hópuðust að okkur og heimtuðu að fá verkefni. Ekkert mál. Og verkefnin tættust niður. Snjóka skyldi eggjahvítur frá rauðum eins og sannur bakari. Þrjú í skál. Þrjú í skál. Þrjú í skál. Og vigtaði svo fullt af skömmtum af púðursykri. Unglingarnir söxuðu súkkulaði eins og óðir væru, suðusúkkulaði og rjómasúkkulaði, og skálarnar fylltust og dreifðust um borðið. Á meðan vann matvinnsluvélin á fullu og þeytti eggjahvítur fram og til baka. Ég reyndi að gera mig ómissandi í að blanda súkkulaði varlega saman við loftþeyttar eggjahvítur. Á meðan spiluðum við jólalög á fullu og sungum öll, hvert með sínu nefi. Snjóka setti reyndar upp smá efasvip þegar hún gerði sér grein fyrir að það eru engar tölur á ofninum svo hann er stilltur eftir tilfinningu. Það var allt að gerast og stefndi í glæsilegan árangur. Það er að segja þar til Snjóka fór að láta ljós sitt skína.
Ofurvarlega vigtaði hún akkúrat rétt magn af súkkulaði til að setja í uppskriftana á vigtinni. Og hellti svo afgangnum af súkkulaðinu útí eggjahvíturnar. Augnablik stóðum við með skelfingarsvip en skelltum svo bara uppúr og til að vera alveg viss um að þetta væri nóg bætti ég smá meiru útí og svo skelltum við þessu á plötu.
Snjóka tók svo fagmannlega út bökunarplötu úr ofninum. Ofurvarlega því platan var heit. Hún tók þétt um plötuna með ofnhanskanum og kramdi um leið fremstu kökurnar. Úbbss... og við hlógum.
Snjóka ákvað að flytja ein nýbakaðar kökur á milli borða með því að taka í miðjuna á bökunarpappírnum sem var undir. Það gekk ljómandi fyrstu sekúnduna en svo var það ekkert annað en hundaheppni sem kom í veg fyrir að nýbökuðu kökurnar féllu í gólfið. Og við hlógum.
Þetta var nú samt að ganga ágætlega... við breyttum út bökunarpappír og skelltum á plötur, rifum út plötur, losuðum kökur. Gekk fínt. Þar til Snjóka gleymdi að setja bökunarpappír undir og skellti kökunum beint á álpappír. Við hrundum næstum niður að hlátri þegar við tókum kökurnar út. Og eiginlega viljum báðar eiga heiðurinn af þessu smá klúðri... Þetta var of brilliant.
"Hvenær settum við þær inn?", spurði Snjóka þar sem við stóðum og góndum inní tilfinningastillta ofninn minn. "Uhh.... man ekki...", sagði ég og yppti öxlum. Svo á endanum voru flestar kökurnar bakaðar bara svona sirka tíma í sirka stilltum ofni útbúnar úr sirka uppskrift.
Svo ákváðum við að við værum það góðir bakarar að við myndum ráða við að spila við unglingana (heimasætuna, heimalinginn og sætukopp) og prinsinn. Við gleymdum okkur Partý og co - og fyrst nú fórum við að klúðra bakstrinum... eða svona næstum. Við stóðum upp frá spilinu til að skipta um plötu, en ég fór að vaska upp og Snjóka að raða á nýja plötu og við steingleymdum plötunni sem átti að taka út. Rétt slapp fyrir horn. Svo nú ætluðum við að passa okkur og spruttum á fætur til að taka út næstu plötu en fundum hvergi ofnhanskana frægu... smá panikkast... fundum nýja, drifum plötuna út bara til að horfa á kökurnar falla í pínulitlar klessur, hálfhráar, frekar ólystugt. Og hugmyndaríku bakararnir skelltu þeim bara aftur inn seinna um kvöldið, ánægðar horfðum við á þær rísa fallega bara til að finna vonbrigðin ná yfirhöndinni þegar þær féllu aftur.
Nú erum við hálfnaðar með að baka toppana... önnur atlaga verður gerð seinna í vikunni. Á endanum tekst okkur að gera sannfærandi jólasmákökur... ég er viss um það...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
15.12.2008 | 22:25
Ég lifi af...
Eftir því sem nær dregur desember magnast kvíðinn inní mér. Það eru þó ekki jólin sem orsaka þennan kvíða, nei af og frá. Jólin einmitt frekar ná að láta mig aðeins gleyma lamandi kvíðanum. Nei það fær mig til að skjálfa og fara yfir um á taugum er að afmæli prinsins er um miðjan mánuðinn. Og því fylgir barnaafmæli. Ekki eitt, heldur tvö... það dugar ekkert minna. Sko eitt fyrir vini okkar og fjölskyldu. Og eitt fyrir bekkjarfélagana.
Ég er afskaplega lélegur gestgjafi og glötuð að halda veislur. Ég var nú nærri búin að klúðra veislunni um helgina en mínar dásamlegu vinkonur björguðu mér... og í dag var komið að bekkjarafmælinu. Ég var að farast úr stressi þegar nær dró, skalf og nötraði, ofandaði. Hvernig færi þetta. Heimasætan prísaði sig sæla að vera í vinnunni en heimalingurinn minn mætti á vaktina með mér enda svo röggsöm með drengina.
Svo sló klukkan og bjallan byrjaði að klingja. 10 níu ára guttar í fullu fjöri eru ekkert grín. Þeir ákváður að fara í rúbbí í stofunni. Í alvörunni. Og ég andaði eiginlega léttar, þeir voru þá allavega að hafa ofan af fyrir sér sjálfir. Þeir æfðu höfrungarhopp yfir pulluna svo ég tók andköf þar sem ég óttaðist um ljósakrónuna mína. Það var ekki nokkur leið að heyra sínar eigin hugsanir fyrir hlátrasköllum, köllum og skrækjum. Það var rétt á meðan við nærðum þá sem hægt var að tala saman, svona næstum því. Það tekur líka á að gefa öllum þessum skara að borða í einu... allir vilja fá eitthvað, og maður er varla búinn að fara hringinn þegar sá fyrsti byrjar aftur.
Við tóku skylmingar og ærslafullur feluleikur, æsispennandi pakkaleikur og meiri gerfi slagsmál. Á endanum var afmælið svo skemmtilegt að gestirnir dvöldu hálftíma fram yfir skipulagðan tíma á meðan ég og heimalingurinn reyndum að halda í geðheilsuna. Nú er ár í næsta afmæli og ég finn bara hvað ég anda léttar. Hjúkk, enn eitt afmælið sem ég slepp lifandi frá og þó þetta hafi verið hið fjörugasta og hávaðasamasta frá upphafi þá er það yfir sig hamingjusamur prins sem ljómar inní stofu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.12.2008 | 01:09
Ég geri ekkert
Tiltekt eftir afmælið og uppvask, glápa á jólamynd með unglingunum, talning á kettlingum, baka afmælisköku, baka sörur með aðstoð unglingana, fá fullt af kattaeigendum í heimsókn til að skoða litlu kisubörnin sín sem stækka, talning á kettlingum (nokkrum sinnum), út að borða með kennaranum og kattadómaranum, blaðra í símann við Möggu Biddu, talning á kettlingum, jólasveinaleiðangur með heimasætunni, saumapælingar með heimalingnum, hanga á internetinu og skoða sig um, talning á kettlingum, upprifjun á föstudagskvöldinu (úbbasíííííííí...), borða afganga úr afmælisveislunni, talning á kettlingum, þvo þvott, sofa út, njóta dagsins og lífsins... Ég gerði semsagt ekki neitt í dag og mikið svakalega var það skemmtilegt.
Og nú er ég þreytt eftir allan dansinn með unglingunum mínum. Við erum búin að æfa púðusykurdansinn, kúrekadansinn, Dominos dansinn, Super Mario dansinn, týna epli/týna sveppi dansinn og marga marga aðra... og syngja með tónlistinni um leið... rosalegt stuð hjá okkur... en samkvæmt sætukoppi lítur það vís pínulítið skringilega út þegar fólk gengur fram hjá á göngustígnum og sér okkur inn um gluggann að æfa sporin. Skítt með það, okkur er sama þó einhver flissi yfir okkur, bara betra að ná kannski að létta lundina hjá einhverjum leiðum sem getur skemmt sér yfir okkur að æfa Dominos dansinn...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
13.12.2008 | 23:40
Bestu vinir í heimi
Ég fann það um leið og ég opnaði í augun í morgun, allt of snemma eftir svefnlitla nótt, að þetta yrði ekki minn dagur. Að heilsan ætlaði ekki að vera með mér, hvoki maginn né höfuðið lét að stjórn. Jú vissulega hafði ég kannski kallað þetta yfir mig sjálf með dansi og skemmtun fram á nótt, en ég hafði nú samt farið heim á nokkuð skikkanlegum tíma. Sennilega spilaði líka inní að ég útkeyrð eftir vinnutörn síðustu vikna. Allavega, þarna skrönglaðist ég um og hélt að mín síðasta stund væri runnin upp. Mín síðasta stund og það stóð til að halda hátíðlegt afmæli prinsins seinni partinn.
Engar veitingar tilbúnar og þegar ég leit í kringum mig var líka sorglega ljóst að húsmóðirin hefur verið að sinna starfsframanum síðustu vikur en ekki tiltekt og þrifum. Heilsan gjörsamlega horfin. En þegar allt leit sem verst út og ég var farin að plana að fresta veislunni miklu byrjuðu mínar yndislegu vinkonur að skjóta upp kollinum.
"Má ég ekki baka köku?" stóð í sms frá kennaranum og áður en ég hafði áttað mig hafði hún tekið að sér veitingahlutann af veislunni. Þá var bara tiltekin eftir og uppúr hádegi dröslaðist húsmóðirin á fætur og með hjálp heimalingsins þrifum við íbúðina hátt og lágt. Snjóka og Rebbý bættust svo í hópinn og með samstilltu átaki stóð glæsilegt veisluborð, hlaðið veitingum, í hreinu stofunni minni korteri fyrir veislu. Geri aðrir betur.
Hvað ég hef gert til að verðskulda svona vinkonur veit ég ekki, en ég er sennilega heppnasta lélegasta húsmóðir í heimi!
Síðasti sólarhringur hefur verið fjölbreyttur. Óvenju annasamur og stressandi dagur í vinnunni þar sem ég missti af jólasöngnum og jólagjafaúthlutun á meðan ég vann í gegnum margfalda tengingu á vél bretans með aðstoð nakta forritarans á Egilstöðum. Tæknin er ótrúleg. Stressuð og allt of sein druslaðist ég heim og hafði mig til á mettíma til að mæta í fertugs afmæli líffræðingsins sem breyttist óvænt í brúðkaupið hans. Þetta var hin skemmtilegasta veisla þar sem afmælisbarnið/brúðguminn fór á kostum og hélt uppí stuðinu með rokkuðum útgáfum af sunnudagaskólalögum og Elvis slögurum. Við létum ekki eina afmælisveislu nægja heldur drifum okkur niðrí bæ þar sem við héldum uppá afmæli kindabóndans með tilheyrandi stuði og skrítnum uppákomum. Allt fullt af fólki sem við þekktum og fullt af fólki sem við þekktum ekki... voða gaman. Náði svo ævintýralegustu leigubílaferð ævi minnar þegar ég ákvað snöggt að stökkva uppí næsta bíl og bruna heim enda heilsan þá þegar farin að dofna. Eftir stutta leið með jólalagagetraun og spjalli þekki ég þennan leigubílstjóra sennilega bara betur en marga af vinum mínum!
Þá tók við afmælisveisludagur prinsins sem byrjaði með heilsubresti og endaði með fullum sófa að fullorðnu fólki að horfa saman á teiknimyndir. Fjölmenn veislan heppnaðist ljómandi vel, þar sem veitingum mínum (einmitt... veitingum kennarans) var hrósað í hástert. Prinsinn sat hæstánægður og glaður með gjafirnar sínar og voðalega hamingjusamur með afmælið.
Á morgun ætla ég að eiga rólegan dag... gera ekkert... nema taka til eftir afmælisveisluna og undirbúa næstu veislu sem er á mánudaginn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
10.12.2008 | 23:19
Ég fer í bíltúr
Kindabóndinn hló og snéri stýrinu fimlega og hratt. Ég greip fyrir augun og hélt niðrí mér andanum. Rósan sveiflaði afturendanum til og frá, frá og til. Glannalega. Kindabóndinn staðhæfði að hann vissi alveg hvað hann væri að gera, þetta væri ekkert mál, akkúrat svona ætti að fara að þessu. Ég efaðist um það, stórlega. Ég hafði aldrei heyrt um það að bílar ættu að keyra upp brekkur á hlið. Neibb, ég hafð bara aldrei heyrt um svoleiðis.
Mig grunar að það hafi verið akkúrat þetta sem kindabóndinn hafði í huga þegar hann bauð mér í bíltúr á Rósunni í hádeginu á mánudaginn. Akkúrat þegar það var snjór á götum og hálka. Það á auðvitað ekki að vera neitt mál, það eru allar götur í Grafarholti eru upphitaðar.. einmitt, allar götur nema gatan sem við vinnum við. Svo héldum við af stað saman útí mat, ég og kindabóndinn... á Rósunni sem er svosem ekki þekkt fyrir að vera nýjasti eða flottasti bíll í heimi.
Ég var tiltölulega róleg á leiðinni í burtu þó ég þyrfti að berjast við löngunina um að halda mér í á leiðinni niður brekkuna. Kindabóndinn róaði mig með því að segja mér hvað þetta væri lítið mál, hann vissi alveg hvað hann var að gera, ekkert mál. Ef maður bara reiknar aldrei með því að bíllinn láti af stjórn er allt í lagi.
En á leiðinni heim þurftum við að fara upp snjóuga og hála brekkuna. Og þá fyrst var kindabóndinn í essinu sínu. Svo sannarlega. Hló og tísti á meðan hann hann vippaði bílnum til og frá og sikkasakkaði upp brekkuna. Mér fannst hann óhaminn og stjórnlaus. Hann vildi meina að hann væri alveg með þetta á hreinu. En ég er enn á því að bílar eiga ekki að keyra úr á hlið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.12.2008 | 22:38
Vonlausa ég
Ég var að spá... ég er svolítið svona týpa sem nærist á vonleysi, sút og öllu misheppnuðu... Kannski er það því ég samsvara mér mikið betur með klúðri og óskipulagi og óheppni heldur en fullkomnleika og heppni.
Ég held að það sé engin tilviljun að uppáhaldslögin mín eru flest lög um misheppnum ástarsambönd eða geðveilu eða um allt sem maður fær ekki og þarf að lifa án. Ég mætti í úfnu skapi í vinnuna í morgun, hlammað mér í sætið án þess að heilsa herbergisfélugunum og kveikti á i-podnum. Það virkar ekkert eins vel á að koma mér aftur á rétt skrið og hlusta í hálftíma á hvern söngvarann á fætur öðrum syngja um einmannalega og ömurlegt líf sitt. Ekkert betra til að ná brosinu aftur á mig.
Og fullkomið fólk! Ég get bara varla lýst hvað fullkomið fólk fer í taugarnar á mér... ég gæti bara ælt. Í alvörunni. Til dæmis svona konur sem hafa alltaf allt hreint, líta alltaf fullkomlega út, börnin alltaf hrein og strokin... og þæg. Alltaf með matinn á réttum tíma, allt í röð og reglu og eiga svo í kaupbæti fullkominn eiginmann, búa í húsi en ekki íbúð og keyra um að nýlegum bíl. Sífellt jarmandi um uppskriftir og þrif... já, eða bara að dásama fullkomna lífið sitt. Gubb.
Nei, má ég þá frekar biðja um venjulegt fólk með allskonar vandamál og allskonar sérlund. Sko ég ætla nú ekki að móðga neinn... en ég er rosalega heppin að eiga fullt af vinum sem enginn er fullkominn! Nei, þau eru öll svo dásamlega mannleg og sérstök og fjölbreyttur hópur. Stundum grunar mig þó að ég setji met í óheppni og skringileg heitum eða eins og sálfræðingurinn sagði í dag um leið og hann hló: "Vilma! Þú ert bara öðruvísi... þú hefur alltaf verið öðruvísi en hinir og sér á báti... og þannig vil ég hafa þig..."
Ég veit ekki... er fullkomna fólkið eitthvað hamingjusamara en ég? Fyllir allt skipulagið og fullkomleikinn líifð af tilfinningum og hamingju. Gefur það manni lífsfyllingu að stíga aldrei feilspor? Að láta aldrei ná sér með drasl? Að elda aldrei kvöldmat klukkan tíu heldur hafa hann alltaf á réttum tíma? Að klára alltaf verkefnin á réttum tíma? Að skrá tímana sína svo maður lendi ekki á svörtum lista hjá yfirmanninum... er það kannski leiðin að lífshamingunni?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Um bloggið
Vilma sjálf
Tenglar
Ég sjálf
Gamla bloggið mitt
- Gamla bloggið mitt Vilma Stína
Klúbbar og félög
Eitt og annað sem ég tengist
- Ofurhugar Kúlasta fólk í heimi
- Skógarkettir Skógarkattaklúbbur Íslands
- Kynjakettir kattaræktarfélag Íslands
Kisusíður
Hinar og þessar kisusíður
- Aliosha's Aliosha og Hrund
- Eldibrands Margrét Birna og hennar kisur
- Hlíðarenda Heimasíða Ásdísar
- Vetrarheims Heimasíðan mín
- Björgvinjar Áslaug vinkona mín á þessa síðu
Bloggarar
Hinir og þessir skemmtilegir