Færsluflokkur: Bloggar
6.1.2009 | 08:52
Meiri börn, meiri börn
Þula lætur eins og óhemja þessa dagana. Nú á hún bara eitt barn eftir heima og þó hún fái fúslega lánuð börn hjá Graffiti er það bara ekki nóg. Alls ekki. Hún vill fleiri börn. Mikið fleiri börn. Og svona eins og læður gera þá fór hún að breima. Vá, eins og það er nú skemmtilegt.
"Máááráááááárááááááá", emjar hún og dregur sig áfram um gangana, nuddar sér uppvið allt og alla. Mjög þreytandi. Gífurlega þreytandi. Kettlingarnir stara á hana með furðu og skilja ekkert af hverju hún lætur svona.
"Þula!", æpir prinsinn þegar hann kemur að Þulu enn og aftur að nudda sér upp við nýja legó kastalann hans. Nýja lego kastalann sem þolir ekkert sérlega vel að fullorðinn köttur nuddi sér upp við hann. Kastalinn sem við höfum þurft að endurbyggja oftar en okkur langar að muna eftir að Þula leggur veggina niður með nuddinu sínu.
Það versta við þetta allt saman er að Dimmalimm sem er í pössun hjá okkur fannst þetta góð hugmynd. Nú vill hún líka kettlinga. Marga. Og labbar hún gólandi á eftir Þulu, emjandi um að fá börn, fá kettlinga. Ég vil líka.
Ég veit svo sem alveg að þetta er svolítið mér að kenna. Ég hef aldrei verið mikið í því að gefa læðunum mínum pilluna enda breima þær yfirleitt bara sjaldan. Ég er bæði full óskipulögð til að standa í að muna að gefa þeim alltaf pilluna á ákveðnum tíma. Svo finnst mér það bara líka pínu óþarfi það er að segja þegar þær eru bara heima og ekkert fress í augsýn... en mikið svakalega eru þær leiðinlegar rétt á meðan, gólandi í kór... úfff....
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.1.2009 | 21:35
Happy new year!
Eftir útréttingar hjá mér og prinsinum í dag lagðist ég í sófann og horfði á doktor Phil. Hann talaði heil ósköp með að það væri komið nýtt ár. Happy new year. Og svo talaði hann heilmikið um það hvernig maður á að sjá til þess að árið verði akkúrat það... hamingjusamt sem sagt. Og skyndilega laust niður í kollinn á mér smá hugsun. Hvernig stendur á því að útí heimi segja menn "Happy new year" eða "Hamingjusamt nýtt ár" en hér á skerinu segum við "Gleðilegt nýtt ár" sem gæti útlagst sem "Joyful new year".
Afhverju ætlum við íslendingar að hafa gaman á nýju ári á meðan aðrir leggja uppúr því að verða hamingjusamir. Er það af því að við erum hvort sem er hamingjusamasta þjóð í heimi (eða erum við búin að detta niður af listanum?). Eða er það af því að við erum svo brjálæðislega óhamingjusöm að það er ekki séns að við verðum hamingjusöm en það er smá séns að við verðum glöð einhvern tíman á árinu?
Ég stefni reyndar á að hafa þetta ár bæði gleðilegt og hamingjusamt, hvernig sem mér tekst svo til...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
3.1.2009 | 01:15
Ég skemmi!
"Váááááá.....", sagði heimasætan og klessti framan í sig brosi um leið: "Vááááááá, en flott!"
Svo leit hún á mig og hvæsti á milli samanbitinna tannana: "Hvað ertu búin að gera? Þú ert búin að skemma hann!!! Hann er ónýtur!!!" Ég hló við og reyndi að afsaka hegðun mína. Ég hafði alls ekki ætlað að skemma prinsinn eins og heimasætan var sannfærð um að ég hefði gert. Nei, ég hafði bara á endanum gefið eftir 2 ára suði og bónum. Loksins látið eftir þegar ég sá að drengir í kringum hann virtust fá þetta án þess að þurfa að suða.
Já, ég lét loksins eftir drengnum og leyfði honum að fá gat í annað eyrað. Þetta var stór stund fyrir lítinn mann. Hann var hljóður og stóreygur þegar við stigum inní úrabúðina til að velja lokka. Hann tók sér góðan tíma til að velja akkúrat rétta lokkinn. Helst vildi hann bleikan. Það er sko uppáhaldsliturinn. En kannski var lán í óláni að bleikur var ekki til. Í staðinn er hann nú kominn með gyltan lokk með glærum steini, mjög pent og smart. Og hann er ofsalega stoltur af þessu og sýnir hverjum sem við rekumst á.
Systir hans er ekkert sérstaklega hrifin og skýtur enn á mig föstum skotum að ég hafi eyðilagt eyrað á barninu, það liggur við að ég geti allt eins skorið það af í hennar augum. Skítt með það þó hann hafi í gegnum árin náð að fá ör á nefið... nei, það er allt í lagi... að hafa gat í eyranum þýðir ónýtt eyra. Vonandi lærir hún að lifa með þessu því gatið er víst ekkert á förum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
1.1.2009 | 17:25
Sorgardagur
Það var erfitt að vakna þennan fyrsta dag ársins, ég og prinsinn kúrðum uppí rúmi og eftir að hafa gert misheppnaða tilraun að því að vakna um klukkan ellefu datt ég aftur útaf og steinsvaf... Jebb, steinsvaf þar til líffræðingurinn vakti mig með sms sendingum. Hann virðist því hafa tekið alveg að sér það hlutverk að vekja mig þegar ég er í fríi. Ágætt að geta treyst á eitthvað.
Og árið byrjar sorglega. Við sitjum og hálfskælum hér. Jebb, það er komið að því að kettlingarnir hennar Þulu flytji að heiman og það er hræðilegt! Hræðilegt! Fyrst flutti Lukka, litla fallega blá lukkan mín. Fjölskyldan sem fær hana hefur fylgst með henni frá fæðingu og umvafði hana. En ég fékk samt sting í hjartað mitt þegar ég vinkaði henni bless.
Ég vinkaði Lukku bless og tók á sama tíma á móti næstu nýju kattareigendum. Líffræðingurinn mættur á stéttina með fjölskylduna að sækja Sigurlín Peru. Pínulitla krúttulega peruskottið mitt sem ætlar að fara að vera stór kisa útí bæ. Ég reyndi að þykjast vera "cool" á því þó að mér væri skapi næst að loka hana inní skáp og fela.
Nú sitja leðir unglingar í sófanum og ríghalda í Konráð sem fer næstur að heiman og mun flytja til kindabóndans. Þetta er það sem er erfiðast kattastússið er að sjá á eftir litlu skottunum útí stóra hættulega heiminn þar sem ég er ekki til staðar til að passa þau. Sem betur fer eiga kettlingar Graffiti eftir að vera hjá okkur í 4 vikur í viðbót. Hjúkk!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
31.12.2008 | 01:51
Ég slaka á
"Halló! Hvað er klukkan?", umlaði ég í símann sem ég hafði gripið af borðinu. "Vilma! Varstu sofandi? í alvörunni?", æpti líffræðingurinn í símann steinhissa á þessum kolleka sínum sem virðist vera kominn með svefnsýki á háu stigi. Ég skil svo sem að hann sé hissa og pínulítið hneykslaður. í gærmorgun beið hann og beið og hringdi svo í mig klukkan hálf ellefu til að vera viss um að vekja mig ekki... en náði mér steinsofandi uppí rúmi.
Svo þegar hann þurfti að ná á mig í morgun beið hann enn lengur og ég sé hann alveg fyrir mér að fylgjast með klukkunni. Klukkan hálf tólf tók hann af skarið og hringdi. Náði mér aftur steinsofandi uppí rúmi. Ég má nú reyndar eiga það að ég er snögg að skipta úr svefni yfir í vinnu... eldsnögg, ekkert mál.
Svo tveimur mínútum eftir að ég vaknaði í gær var ég farin að gefa ráð um eftirreikning kostnaðarverð og komin í djúpar pælingar um autobatch, reikningsfærslu innkaupa, gengi, fjárhagslegt virði birgða og uppfærslu kostnaðarverðs. Einstaklega spennandi. Kíkti svo í "heimsókn" til líffræðingsins eftir hádegi þar sem við héldum áfram þessum spennandi pælingum og bættum við að auki hugleiðingum um bókun talninga - enda er sá tími kominn.
Í dag var ég aðeins þyngra sofandi og varð líka að bíða þar til líffræðingurinn hætti að flissa yfir að vekja mig um miðjan dag. Engu að síður gat ég lagt margt mjög gáfulegt til varðandi allskonar vöruhúsamál og birgðamál, okkar líf og yndi. Svo mætti ég í vinnuna klukkan tvö og vann til sex. Svo gaman að vera í fríi! Á morgun reikna ég með að þurfa bara að vinna kannski í klukkutíma og ég ætla að vakna sjálf.. snemma og hringja í líffræðinginn og vekja hann.
Annars ætla ég ekkert að vinna þessi áramót, ég ætla ekki að koma of seint í áramótamatinn enda er hann heima hjá mér að þessu sinni og ég ætla ekki að gleyma eftirréttnum heldur eftirláta mun ábyrgari persónu að sjá um hann, henni Snjóku. Svo ég get sagt að ég hafi bætt mig heilmikið, þar sem ég vann allan gamlársdag 2007 mætti of seint í matarboðið og gleymdi eftirréttnum sem ég átti að sjá um heima... vaknaði svo snemma á nýársdag og vann hann allan núna. Hver ætlar svo að halda fram að ég hafi ekki lært að slaka á?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
30.12.2008 | 00:56
Ég vinn! Not!
"Þegar ég er búin að lesa má spyrja, en það þarf fyrst að lyfta upp hönd...", sagði kennarinn strangur á svip og hvessti á okkur augunum. Við þorðum ekki öðru en sitja stllt og prúð og hlusta. Ég rétti upp hönd og beið eftir að röðin kæmi að mér að spyrja spurningar. Kennarinn gaf mér augnaráð og sagði: "Ég ætla að klára að lesa um húsin, Vilma, svo mátt þú spyrja..." Ég er alveg viss um að þessi kennari hafi fulla stjórn á hvaða óþekktarormum sem er...
"Ég á þetta! Ég á þetta!", æpti ég seinna um kvöldið og hoppaði upp og niður í sætinu: "Ég á þetta! 5000 krónur!" Kattadómarinn lét peningana að hendi með skeifu og athugasemd um að ég væri að rúa hann inn að skinni. Ég hló. Kennarinn kastaði teningunum og maður sá spennuna skína úr augunum: "Ég á þetta sjálf!" tilkynnti hún en Snjóka hélt nú ekki: "Nei! Ég á þetta! Nú komstu upp um þig... 1800 krónur!"
Átti frábært spilakvöld með uppáhalds spilafélugunum. Kennarinn, kattadómarinn og Snjóka kíktu öll við og við eyddum kvöldinu í Monopoly, hrikalega spennandi! Fljótlega fór kennarinn fram úr okkur öllum hinum í spenningi og græðgi þó það skilaði henni bara öðru sæti. Snjóka var öllu settlegri en hún er nú samt klárlega músin sem læðist og þegar okkur tókst að gabba kennarann og sleppa Snjóku þannig við að borga leigu hjá henni gat ég ekki leynt gleðinni. Kattadómarinn tók hlutverk sitt sem bankastjóra alvarlega og sinnti því ábyrgðarfullur þó kennarinn væri eitthvað að ýja að því að hann svindlaði.
Það fylgir því hávaði þegar við spilum. Einhvern veginn mögnum við upp æsinginn í hverju öðru og allt virðist vera leyfilegt. Frasar eins og :"Ohhh, Shut up!", "Þegiðu!" eða "Hey, þú svindlar!" fá okkur bara til að skríkja af kátínu og svo höldum við áfram. Við ræddum það nú samt í kvöld að við ættum kannski að reyna að læra að hegða okkur svo einhverjir fleiri vilji spila við okkur... sérstaklega eftir að fjölskylda kennarans hefur eiginlega útilokað hana og kattadómarann frá fjölskylduspilunum... það eru kannski ekki allir til í hamaganginn og hrópin og æsinginn... Við erum nú þegar farin að spá í næsta spilakvöld og hvað eigi að spila þá, kannski Trivial spil Snjóku?
Annars er það næsta að frétta af mér að ég er að fara að gifta mig og ykkur er öllum boðið... ég á reyndar eftir að finna manninn en það bara hlýtur að vera þar sem ég endaði í fjórða og síðasta sæti í kvöld á meðan Snjóka "Músin sem læðist" trjóndi á toppnum með allt allt of mikið af peningum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
29.12.2008 | 00:33
Heimalingurinn flýgur!
Fyrir um níu árum síðan kom lítið stelpuskott inní lífið okkar og lífið hefur ekki verið samt síðan. Nei, lífið hefur verið betra og skemmtilegra. Stelpuskottið hefur gert allt mögulegt með okkur og er fyrir löngu síðan orðin hluti af fjölskyldunni. Það kemur engum lengur á óvart þegar ég drösla þessu stelpuskotti, sem er löngu búið að vaxa mér yfir höfuð, með mér hingað og þanngað. Í ferðalög innan lands, í heimsóknir, til útlanda. Það er bara eðlilegt að hún gisti hér og sé í mat, enda er hún með lykla að húsinu og gengur um eins og henni sýnist.
Þa erum ekki bara við í fjölskyldunni sem höfum dálæti á stelpuskottinu, nei vinir og vandamenn hafa líka dálæti á henni og keppast við að vilja fá hana í alls konar uppákomur. Mest af öllum í heiminum elskar prinsinn minn hana, hann sér ekki sólina fyrir henni og dýrkar hana. Hún elskar hann líka og hefur endalausa þolinmæði í hitt og þetta. Heimasætan hefur eiginlega verið samvaxin stelpuskottinu í öll þessi ár og það hefur verið mjög sjaldgæft að sjá aðra án þess að hin sé í eftirdragi.
Þetta stelpuskott er heimalingurinn minn og núna er komið að hinu óhugsandi. Snemma í fyrramálið sest heimalingurinn uppí flugvél sem mun bera hana langt langt í burtu frá okkur þar sem hún mun búa næsta árið og vinna við að líta eftir heppnum börnum. Ég fór með henni núna fyrir jólin að kaupa ferðatöskur sem hún gæti tekið með sér og þá fyrst varð þetta raunverulegt. Hún er virkilega að fara.
Það er skrítin tilhugsun að sjá hana ekki meir í heilt ár og ég er ansi hrædd um að það verði tómlegt hér á bæ. Enginn heimalingur til að drösla með sér? Enginn heimalingur til að hjálpa til? Enginn heimalingur til að leika við prinsinn? Enginn heimalingur tl að kúra uppí sófa? Úff, tilhugsunin er bara hræðileg. En það er víst komið að því að þessi unga dama fljúgi að heiman og takist á við ný ævintýri. Við munum bara sitja eftir heima og sakna hennar og reyna okkar besta til að vera í góðu sambandi, ég þakka fyrir tölvupóst og símasamband. Án þess yrði þetta óbærilegt fyrir okkur öll, og nú er komið að því að prinsinn minn læri að senda heimlingnum tölvupóst og fari að skrifast á við hana.
Í gærkvöldi var kveðjukvöldverður, við öllu og sætukoppur. Í kvöld eru heimasætan og sætukoppur að kveðja heimalinginn, það er semsagt annar í kveðju...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
27.12.2008 | 14:35
Rólegheit
Nú sit ég í stofunni og er að eiga rólegan dag.
Fullorðnu kettirnir, allir fimm, eru reyndar ekkert að haga sér eins og fullorðnir kettir. Þar að auki eru níu fjörugir kettlingar að hoppa og skoppa um. Perla kallar úr búrinu sínu og langar held ég að leika við kettlingana, sem er ekki svo góð hugmynd... Unglingarnir mínir eru að baka pizzu inní eldhúsinu sem opið inní stofu og til að halda uppi fjörinu eru þau með tónlistina á fullu og syngja með. Það eru þrír sérstakir drengir sem leika sér í kubbaleik á gólfinu, alltaf líf og fjör þegar þessir þrír mjög svo sérstöku og ólíku drengir koma saman. Kiki og Koko eru svo búnar að spennast upp við tónlistina og "syngja" af líf og sál með.
Já, það er gott að eiga rólegan dag.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
25.12.2008 | 12:22
Jólin fara vel með okkur
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.12.2008 | 00:17
Kettlingar og jól og kökur og og...
"Mmmmm, þetta hljóta að vera hollar kökur... það eru möndlur í þeim...", sagði heimalingurinn og sleikti útum í leiðinni. Við heimasætan litum á hana furðulostnar og svo sprungum við allar úr hlátri á sama tíma. Einmitt! Sörur eru hollar! Það eru sko möndlur í þeim.. skítt með allan sykurinn, smjörið, súkkulaðið... möndlurnar telja mun meira. Síðan þá er þetta frasi sem er notaður óspart á mínu heimili.
Það varð nú ekki mikið úr jólabakstri hér, neibb. Sörur og lakkrístoppar. Thats is. Ég var að spá í að kaupa kókóstoppa, mér finnst þeir ómótstæðilegir en svo ákvað ég að allt sælgætið sem er til muni bara nægja. Ég held að ef við fáum ekki þeim mun meiri hjálp þá þurfi hver fjölskyldumeðlimur á þessu heimili að torga svona 3 kílóum! Í alvörunni. Skil ekki hvernig þetta komst allt hingað heim!
Hér sjáið þið svo mynd af myndarlega hópnum mínum, allir níu kettlingarnir í einni hrúgu. Svo friðsælir og stilltir. Einmitt. Þarna já, kannski... en núna? Nei! Þeir hoppa og skoppa og hlaupa og stökkvar og læðast og gera árás úr leyni. Þeir príla í húsgögnum og kattaklórunni og umfram allt í jólatrjánum. Þeir draga klósettpappír um alla íbúð og hamast við að "drepa" hann. En vildi ég hafa þetta öðruvísi? Nei, alls ekki - það er svo gaman hjá okkur núna og það er svo dásamlegt að vera komin í smá jólafrí til að njóta allra prakkarastrikana hjá þessum fjörkálfum. Ég þoli alveg þó það sé prílað í jólatrjánum, öðru hverju tíni ég þá niður úr því. Ég get hlegið endalaust af eltingarleikjunum, árásunum og stökkunum. Og hvað með það þó ég sé með klósettpappír útum allt gólf, þeir skemmta sér svo vel við að drepa hann að ég hef ekki hjarta í mér að taka hann af þeim. Í morgun reyndi ég að pakka inn gjöfum. Það fær enginn fallega innpakkaða gjöf frá okkur þetta árið. Það er nefnilega meiri háttar mál að pakka inn með níu vitleysinga hoppandi allt um kring.
Annað kvöld birtast svo hrúgur af pökkum undir hvíta jólatrénu (sem kettirnir halda reyndar að sé bara fyrir þá) og þá má nú búast við fjöri. Við reiknum fastlega með að fá fullt af aðstoð þetta árið við að "drepa" jólapakkana. Ég hlakka til.
Ég var að setja fullt af nýjum myndum af þeim á heimasíðunni okkar: http://www.internet.is/Vilma endilega kíkið á börnin mín og sjáið hvað þau eru hrikalega sæt...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Um bloggið
Vilma sjálf
Tenglar
Ég sjálf
Gamla bloggið mitt
- Gamla bloggið mitt Vilma Stína
Klúbbar og félög
Eitt og annað sem ég tengist
- Ofurhugar Kúlasta fólk í heimi
- Skógarkettir Skógarkattaklúbbur Íslands
- Kynjakettir kattaræktarfélag Íslands
Kisusíður
Hinar og þessar kisusíður
- Aliosha's Aliosha og Hrund
- Eldibrands Margrét Birna og hennar kisur
- Hlíðarenda Heimasíða Ásdísar
- Vetrarheims Heimasíðan mín
- Björgvinjar Áslaug vinkona mín á þessa síðu
Bloggarar
Hinir og þessir skemmtilegir