Færsluflokkur: Bloggar
18.1.2009 | 22:58
Ég skoða bæinn
Herra Janúar skoppaði um og vildi endalega fá álit mitt á stæltum afturendanum. Þar sem ég er svo vel upp alin gat ég ekki sagt nei, leit yfir og gaf álit mitt á þessum annars ágæta líkamshluta. Áður en við komumst í bæinn var ég komin með eiginhandaráritum hans á bringuna sem vakti verðskuldaða athygli hér og hvar um bæinn.
Hjálpsami innflutningsmaðurinnn reyndi að hjálpa mér, óumbeðinn, að ná eiginhandarárituninni af... samstarfskonu hans ekki til mikillar ánægju. Mjög sérkennilegt "moment" sem ég deildi með þessum ókunnuga manni. Ég og Snjóka hlógum og héldum svo áfram að borða Hlölla bátinn okkar sem við höfðum pantað eftir forskrift herra Janúar.
Svo var það "stalkerinn" sem ákvað að elta okkur af dansgólfinu til að geta setið á stól fyrir aftan okkur. Og af því ég er svo vel upp alin gat ég ekki neitað honum þegar hann loksins lét verða af því að bjóða mér uppí dans. Kurteisislega dansaði ég passlega nógu mikið til að vera ekki dónaleg þegar ég snéri aftur til stelpnanna.
Ég rakst svo á stælta sölumanninn sem ákvað þá á stundinni að vernda mig fyrir öllum perrunum í miðbæ Reykjavíkur. Og það sem er mikið af perrum! Ótrúlega mikið! Og vitið þið hvernig á að þekkja þá úr? Þumarputtareglan er að menn í brúnum hálfsíðum frökkum eru perrar... alla vega menn sem hafa eitthvað að fela, mjög varhugaverðir.
"Hvað ertu hár?", spurði ég mann sem stóð við hliðina á okkur á barnum og við störðum upp til hans. "Nógu hár", svaraði hann. Ég ákvað að giska, enda kannski ekki erfitt - maðurinn var risi: "Ertu 1.90?" Og hann kinkaði kolli. Ég leit á stælta sölumanninn og við kinkuðum bæði kolli: "Perri" Ég meina það hlýtur vera eitthvað að fólki sem er yfir 1.80. Ég og sölumaðurinn sannfærðum okkur um að það væri eitthvað að fólki sem er svona hávaxið... og um leið breyttist skemmtistaðurinn, helmingurinn af fólkinu inni var ýmist í brúnum jökkum eða of hávaxið til að hægt væri að treysta því.
Ég skoppaði svo aftur til stelpnanna og við héldum heim á leið þegar fór að líða að morgni. Sunnudagar eru frábær uppfinning fyrir þreytt fólk sem er búið að eyða viðburðaríkri helgi í félagsskap skemmtilegustu vina í heima.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
17.1.2009 | 20:37
Ég læri...
Ég lærði nokkuð á síðasta sólarhring... veit ekki hvort ég man það næst þegar ég lendi í svona aðstöðu samt. Sko ég lærði það að vaka í 23 klukkutíma og vinna 19 klukkutíma af því, sofa svo í 3 tíma og mæta aftur í vinnu er ekki sniðugt. Alla vega ekki þegar maður er kominn svona vel við aldur eins og ég. Nú er annað ástralíu námskeið í næstu viku, kannski ég reyni að sleppa snemma í vinnu á miðvikudaginn..
Ég hélt að þetta yrði ekkert mál. En um þrjú leitið í gær var ég orðin hálf glær. Þá átti ég eftir að útrétta fullt og svo átti ég að fara með prinsinn til stuðningsfjölskyldunnar fyrir kvöldmat og mæta svo í matarboð um kvöldið. Einhvern veginn tókst mér að troða inn tíma til að leggja mig í klukkutíma. Svo var brunað í matarboð hjá Bibbu. Allur grillklúbburinn mættur og við ræddum heimsmálin, hlógum, borðuðum á okkur gat og fengum svo spá í kaupbæti frá húsmóðurinni. Klukkan var orðin um tvö þegar við skröngluðumst heim. Og ég átti hreinlega ekki séns á að vakna í morgun.
Þegar ég vaknaði um hádegisbilið var ég hins vegar full af orku og er búin að ná að taka slatta til, fara á mótmælin og svo á kaffihús með kisugenginu og stefni á bæjarrölt fram á nótt með Rebbý og fleiri góðum félögum. Hver veit nema ég finni ljóta manninn sem Bibba er búin að spá mér...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
16.1.2009 | 03:05
Ég fer til Ástralíu... almost
Mér leið svolítið eins og Palli sem var einn í heiminum. Það var enginn á ferli og ég gekk inní galtóma búðina. Ég litaðist um eftir afgreiðslufólki en það var hvergi að finna. Hmmm. Engir viðskiptavinir, ok, slíkt getur hent. Engir starfsmenn, það er eitthvað skrítið. Ég týndi til þessa hluti sem ég taldi mig vanta og fór að kassanum. Ég var svo sem búin að labba framhjá mannlausum afgreiðslukassanum áður og enn var þar enga sálu að finna. Ég þrammaði fyrir framan mjólkurkælinn í þeirri veiku von að ná að vekja athygli á mér. Að einhvers staðar væri einhver að fylgjast með búðinni.
Þá sá ég glitta í hann. Jebb, inni á skrifstofu með hurðina í hálfa gátt. Þar sat öryggisvörðurinn og... og... svaf? Ég reyndi að þramma meira en það heyrist ekki mikið í gúmmísólunum á skónum. Ræskti mig. Stillti mér svo upp við hurðina og sagði glaðlega: "Góða kvöldið..." Ég fékk eitthvað svar sem var á þessa leið: "Hrmppphhhhfffff" og svo stóð hann letilega á fætur. Hann hafði þá bara dottað ekki steinsofið. Svo afgreiddi hann mig og horfði tómum augum útí loftið á meðan hann sagði: "eeeeeþþþþþsjfttttttttnnnnn" sem útlegst sem eittþúsund og átján... en það sá ég á skjánum. Ég borgaði og horfði stíft á hann, brosti mínu breiðasta og sagði hátt og skýrrt: "Takk fyrir kærlega". Hann snéri sér við og trítlaði inná skrifstofur aftur.
Ég ákvað nefnilega, eins og oft áður, að koma við í búðinni á leiðinni heim. Rétt hlaupa inn og grípa 3 eða 4 hluti, svona til að redda morgundeginum. Það hefði líka venjulega verið allt í lagi en núna var klukkan orðin rúmlega hálf þrjú um nótt og það er greinilega ekki reiknað með að glaðvakandi og hresst fólk sé að versla á þessum tíma. Kannski hefði öryggisvörðurinn átt að innbyrða jafnmikið af orkudrykk og ég og austlendingurinn.
Þetta var nefnilega skemmtilegur endir á fjölbreyttum degi. Ég byrjað á því að vakna klukkan fimm (sem þýðir að nú vantar mig bara 2 tíma uppá að hafa vakað sólarhringinn) og mætti spræk í vinnu klukkan átta eftir langan og dásamlegan morgun heima. Átta er frekar snemmt fyrir mig að mæta í vinnu, ég er eiginlega ekki morgunpersóna.
Um miðjan dag sáum við, ég og austlendingurinn, geimskip útum gluggan. Ég klappaði saman lófunum og sagði: "Loksins förum við heim!" Austlendingurinn var álíka spenntur. Vá, kominn í höfuðborgina og fengi að hitta geimverur. En þá hvarf geimskipið með öllum sínum ljósum jafn snöggt og það hafði birst. Ég setti upp skeifu og reyndi að fara í fýlu.
Svo tók við undirbúningur fyrir kvöldið. Við skrifuðum leiðbeiningar og settum upp gögn og prófuðum ýmsa fídusa. Allt fyrir námskeiðið sem við vorum að fara að halda. Hálftíma fyrir námskeið hlýddi ég austlendingnum sem stakk uppá flóknari prófun... og úbbasíííí... hluti af kerfinu hætti að virka. Skelfingu lostin litum við hvort á annað og skelltum svo uppúr! Gaman, gaman.... alveg á síðustu stundi tókst að laga næstum öll gögnin eftir "prófanirnar" mínar og við settum okkur í stellingar. Tilbúin að fara að kenna.
Smá saman fórum við að sjá merki um nemendurnar á skjánum og heyra í þeim í símanum. Þetta endaði með að vera mjög skemmtilegt námskeið þar sem ég held að nemendurnir hafi haft jafngaman af þessu og við. Og þetta var líka svolítið sérstakt. Kennararnir voru á Íslandi, drulluþreyttir eftir alltof langan vinnudag, þegar þeir byrjuðu að kenna klukkan tíu umkvöld. Nemendurnir voru enn með stýrur í augunum, nývaknaðir - enda hinu megin á hnettinum. Við vorum semsagt með nemendur bæði í Brisbane og Melbourne í Ástralíu og rúlluðum þessu auðvitað bara upp. Svo er aftur námskeið í næstu viku en þá kenni ég með líffræðingnum sem verður vonandi kominn úr útlegðinni í danaveldi. Já, ég ekki sagt að vinnan mín sé einhæf...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
14.1.2009 | 22:57
Að skafa eða ekki skafa...
Eiginlega það eina sem ég saka við það að eiga mann er það að enginn skafi bílinn fyrir mig. Ég þarf alltaf að skafa bílinn, alveg sama hversu kalt er eða hversu mikið er frosið utan á honum. Einn aðalkosturinn við að eiga mann er að geta stundum bara farið út, sest inní bíl og einhver annar (hann semsagt) skefur bílinn.
Það hjálpar svo ekki til að ég er auðvitað svona sköfunarfrík. Svona verð að skafa alla gluggana. Vel. Mér nægir ekki að skafa smá gat. Helst vil ég taka allan snjó af toppnum og húddinu. Og ljósunum, auðvitað. "Nú skil ég af hverju þér finnst leiðinlegt að skafa bílinn...", kallaði líffræðingurinn til mín eitt kvöldið þegar við vorum að fara heim og vorum hvort um sig að skafa bílinn sinn. "Nú?", svaraði ég. "Jú, það lítur út fyrir að þú sér að bóna bílinn en ekki skafa hann", kallaði hann til baka. Ég stóð svo í góðar 10 mínútur og hélt áfram að skafa eftir að hann hafði ekið af stað á mjög svo illa sköfuðum bíl. Skamm, skamm.
Svo á mánudaginn síðasta átti ég erindi á fund með Svala Ráðgjafanum. Hann er auðvitað svo ótrúlega mikill herramaður og karlmenni að hann sagðist sjá um að skafa, ég þyrfti ekki að hafa neinar áhyggjur. Og ég varð svo hrifin að ég gat ekki farið inní bíl heldur stóð og góndi á hann beita sköfunni á allan mögulegan hátt. Ohh, hann lét þetta líta út fyrir að vera svo auðvelt. Og mikið er gaman þegar einhver annar er að skafa.
En það var önnur ástæða fyrir að ég var úti. Það var til að vera viss um að hann myndi skafa nógu mikið og allstaðar. Ég held að hann hafi nú grunað það því hann leit glettinn á mig og spurði hvort ég væri ekki örugglega þessi týpa sem vildi skafa mikið. Ég hló og jánkaði og benti honum svo á rúðu sem mætti alveg skafa betur. Og Svali ráðgjafinn hélt áfram að brosa og skóf afturrúðuna. En stóðst svo ekki mátið að stríða mér með því að segja að dekkin á bílnum væru slétt...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
13.1.2009 | 15:50
Veik? Hvað er nú það?
Ég er ekki góður sjúklingur. Engan veginn. Eiginlega er ég glataður sjúklingur. En núna verð ég að reyna að vanda mig að vera góð svo ég komist aftur á fætur.
Ég var að sjálfsögðu að vinna í gær eins og venjulega og var bara nokkuð hress. Eilítið lystalaus sem var hentugt því Bibba staðhæfði að fiskurinn í hádeginu hefði ekki verið góður. Prinsinn minn kom með mér og hjálpaði mér að halda fundi og vinnustofur. Svo man ég eftir að við lögðum af stað um hálf sex leitið heim. Og svo man ég eiginlega ekki meira fyrr en um hálf átta leitið þegar svangur prins pottar í mig og stingur hæversklega uppá því að móðir hans fari og versli inn eitthvað matarkyns.
Ég semsagt veiktist á leiðinni heim. Einhvern veginn komst ég heim og uppí sófa og náði að leggjast niður. Mig rámar í að biðja prinsinn um teppi... eða allavega ég hlýt að hafa beðið hann um teppi... man að mér var rosalega kalt og þegar ég vaknaði aftur var ég með teppi ofan á mér. Mér var líka flökurt og illt í höfðinu, svakalega illt í höfðinu og máttlaus.
Svangi prinsinn fékk því bara "instant" núðlur í kvöldmat. Húsmóðurin ekki neitt.. fyrrgreint lystarleysi sko á ferðinni. Og eftir svefnlitla og erfiða nótt ákvað ég að vera "veik" heima. Ég er samt búin að vinna með framkvæmdarsjóranum að ýmsum greiningum, spjalla við drengina á skype oftar en einu sinni, standa í bréfaskriftum við bretlands og Ástralíu, skipuleggja námskeið... svona svo eitthvað sé upptalið. En ég er enn með hausverk og slöpp í maganum, enn máttlaus svo það er greinilega ekki satt að maður hristi svona af sér með því að vera veikur heima. Kannski hefði bara verið betra að fara í vinnuna?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
11.1.2009 | 23:23
Ég ætla að gifta mig.
Einhvern veginn gerðist það að ég, konan sem er margbúin að lýsa yfir að hún muni aldrei giftast aftur, er komin í keppni upp að altarinu. Og það er nú einu sinni þannig að ég tek ekki þátt í keppnum til að vera með... nei, ég tek þátt til að vinna. Svo sennilega fáið þið öll boðskort í brúðkaupið mitt áður en langt um líður.
Jebb, ég var að blaðra við MögguBiddu vinkonu mína í síman í dag. Við eigum stundum löng og innileg samtöl þar sem við þykjumst getað leyst lífsgátuna... ja, allavega leyst allt sem miður hefur farið í lífi okkar. Og einhvern veginn snérist umræðan uppí brúðkaup, eiginmenn og alsælu (yeahh...). Fyrst ræddum við hennar tilvonandi brúðkaup.. sem verður að mér skilst 2013, en auðvitað háð því að hún finni mann í millitíðinni. Ég reyndi að hvetja hana til að flýta þessu, drífa þetta bara af og útfrá því færðist umræðan yfir í mitt brúðkaup. Ekki aftur snúið og nú er keppni um hvor nær að draga einhvern saklausan vesaling uppað altarinu á undan. Spennandi tilhugsun eða þannig.
Og hvað kemur á eftir brúðkaupi? Jú, barneignir... og við alveg búnar að gleyma okkur í rósrauðum framtíðardraumum þar sem við verðum giftar bestu mönnum í heimi og svífum um á skýi. Þá er ekkert eftir nema að fylla heiminn að fullkomnum börnum. Fullt af þeim.
Ég malaði frjálslega um brúðkaup og barneignir og hvenær og hversu mörg á meðan ég snérist um sjálfa mig í eldhúsinu. Sætukoppur sem var að hjálpa mér að taka til á eldhúsborðinu og leggja á borð (af því heimasætan var löt) horfði á mig með svip sem var svona bland af furðu og skelfingu. Veit ekki hvort það voru háleitar hugmyndir mínar um makaval eða tilhugsunin um að fá fleiri börn á heimilið.
En allavega, brúðkaup skal það vera. Og í þetta skipti hugsa ég að ég prófi að gera allt rétt þar sem síðasta brúðkaup var ekki alveg hefðbundasta í heimi. Nei næst verður það risastór hvítur kjóll sem flæðir um allt, brúðarmeyjar, hringberi, brúðarmarsinn... allt sem ég sleppti síðast þegar ég tapaði glórunni og gifti mig. Svo verður stór veisla með margra hæða köku og brúðarvalsi... og brúðkaupsferð til Hawaii. Jebb. Svo takið frá næstkomandi ár... og ekki láta líða yfir ykkur þegar boðskortið (gulláletrað að sjálfsögðu) birtist! Ég veit allavega um einn sem yrði glaður ef þetta yrði að veruleika og það er brúðkaupsóði prinsinn minn sem myndi sennilega vilja arka inn gólfið sjálfur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
9.1.2009 | 21:54
The Sweetchops syndrom
"Víííí!", sögðum við sætukoppur í kór um leið og hann snéri kjötsneiðinni við á pönnunni. "Vííííí!", skræktum við aftur þegar næsta sneið fékk sömu meðferð. Heimasætan stóð hjá og setti upp smá svona "ég er móðguð" skeifu en úr augunum skein gletni.
Þetta var "pakkaður" dagur. Ég þurfti að vinna rúmlega fullan vinnudag... endaði daginn á sáttaviðtali við líffræðinginn en okkur hafði orðið sunduroða fyrr í dag. Það er ekki góð tilfinning að vera ósáttur við góðan vin sem er staddur í vinnutörn erlendis. Svo við ákváðum að leggja ágreininginn til hliðar. En þar sem við tókum þennan símafund komst ég ekki heim fyrr en klukkan var að verða sex. Þá þurfti að pakka Von inní búr, með jólahandklæði og jólapúða, og bruna útá Reykjavíkurflugvöll þar sem ég átti stefnumót við ókunnugu konu sem ætlaði að ferja litlu kisuna austur á Egilsstaði.
Ég var búin að leggja gítarforritaranum lífsreglurnar um uppeldi katta og hringdi í hann til að tryggja að tæki á móti litlu kisunni sem mér þykir svo vænt um. Og um leið og ég var búin að koma kisu í flug varð ég að bruna heim með viðkomu í búð. Því ég átti að taka á móti prinsinum og vini hans og ætla að bera ábyrgð á þeim kauðum næsta sólarhringinn. Og bara af því að það var ekkert að gera bókaði ég líka áhugasama konu í kattaheimsókn á næstum sama tíma.
Svo það var mikið að gera, að moka úr kössum og laga aðeins til áður en allt þetta fólki kæmi. Og ég fékk unglingana til að hjálpa til við eldamennskuna. Heimasætan byrjaði en þegar sætukopp ofbauð að hlusta á skrækinni í henni (æ, þetta er heitt... ú, allt of heitt...), tók hann við. Og hún stóð á kantinum og skipaði fyrir. "Snúðu þeim oft við...", skipaði hún en bæði ég og sætukoppur mótmæltum. "Hvað heldurðu að kjötið sé í tívolí?", spurði ég og uppfrá stóðum við sætukoppur og sögðu: "Víííííí" fyrir hönd kjötsins við hvern snúning sem urðu þó nokkrir því þetta var svo skemmtilegt.
Á leiðinni heim, nokkru áður, kom við við í búðinni og ætluðum rétt að hlaupa inn og kaupa eitthvað fljótlegt að elda. Rigth. Ég, heimasætan og sætukoppur. Við þrömmuðum um gangana. "Ú, mig langar í þetta...", sagði sætukoppur og benti uppí hillu. "Ú, ég vil kaupa svona...", sagði hann og dró upp grillaðan kjúkling. "úúúúú". Ég fann að lokum það sem allir sættust á og við lögðum af stað á kassann. Ég ætlaði að fá sósu með kjötinu: "ú, já mig langar í svoleiðis" tók sætukoppur undir . Eða ættum við að fá kryddsmjör: "Úúú, mig langar líka í svoleiðis..."
"Ú, mig langar í ÍS!", sagði sætukoppur og ljómaði. Ágætis hugmynd og ég sendi unglingana þanngað á meðan ég hljóp í mjólkurkælinn. Með ísinn í fanginu skunduðum við á kassann. "ú, mig langar í nammi..", hélt sætukoppur áfram. En ég lagði blátt bann við því... með þessu áframhaldi myndum við kaupa alla búðina. Það er alltaf eitt enn "úúúú" á leiðinni á kassann.
Ég kannast svo sem alveg við svona. Ég fer stundum útí búð og man ekki hvað ég ætlaði að kaupa og ráfa þá um gangana og kaupi allt sem mér langar í, þá stundina. En nú hef ég ákveðið að kalla þetta sætukopps syndromið... sem hann snaraði sjálfur yfir á ensku sem the sweetchops syndrom (hvernig hann fékk út að sætukoppur væri sweetchop er annað mál...)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
8.1.2009 | 23:07
Drengirnir mínir
Það hefur löngum verið sagt að stelpur blaðri mikið í síma, en ég held að strákar tali alveg jafn mikið í síma. Ég ætlaði snemma heim í dag, svo þegar klukkan fór að nálgast fimm fór ég að ganga frá. En þá hringdu þeir. Drengirnir mínir. Allir í einu. Við áttum svona hópsímtal á Skype. Ég í Reykjavík, Nakti forritarinn og Gítarforritarinn á Egilsstöðum og að lokum líffræðingurinn sem er staddur í Danmörku.
Ég komst varla að fyrir öllu blaðrinu í drengjunum mínum. En það var eiginlega bara allt í lagi. Það er alveg nógu gaman að hlusta á þá... svo þegar þeir fara að sveigja útaf réttu brautinni stekk ég inní samtalið og kem þeim aftur á rétt slóð. Bjargvætturinn ég. Og þegar allir þessir drengir eru samankomnir að tala um okkar líf og yndi (sem eru sko vöruhús og birgðahald) er ekkert til sem heitir stuttur símafundur. Klukkan var því farin að ganga sjö þegar ég komst af stað heim. En í staðin vorum við búin að leysa lífsþrautina... svona næstum því.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
7.1.2009 | 20:10
Ég er hlussa!
Það fer væntanlega ekki fram hjá neinum sem þekkir mig að ég er nú engin mjóna. Ég hef, eins og Snjóka segir, barist við offitupúkann í mörg ár. Stundum unnið áfangasigur en oftar tapað. Misstórt samt.
Og nú er komið nýtt ár sem á svo sannarlega að vera betra en árið í fyrra sem var sko ekki gott vigtunarlega séð... ég kenni of miklu stressi og of mikilli vinnu um... en það er nú kannski bara léleg afsöku hjá mér. Hver veit?
Nú til að tryggja að allt gangi aðeins betur núna tróð ég mér inní vigtunarklúbb með nokkrum aldeilis frábærum konum. Flestar þeirra þekki ég vel og hef þekkt lengi en þarna eru þó tvær dömur sem ég hef bara aldrei séð. En allavega, mér tókst að troða mér inn og í dag var innvígsludagur. Ég átti í fyrsta skipti að skila inn tölum en þetta fer þannig fram að maður setur markmið og vikulega þarf að opinbera nýjustu þyngd fyrir öllum í klúbbnum sem veita manni svo aðhald á móti. Stórsniðugt.
Ég var því yfir mig spennt þegar ég vaknaði í morgun og skoppaði fram á bað í morgun til að vigta mig. Í fyrsta skipti í langan tíma hlakkaði ég til að stíga á vigtina sem hefur reyndar fengið frí síðan fyrir jól. Ég kveikt á henni, en í staðin fyrir að sýna 0 áður en ég steig á hana sýndi hún 1122. Ég varð hugsi því vigtin á bara að vera fyrir hámark 300 kg svo hvernig hún gat ákveðið að þetta væri byrjunin skil ég ekki. Ég reyndi að slökkva og kveikja á henni með engum árangri (vel þekkt ráð úr tölvubransanum), hún var alveg viss að 1122 væri upphafið. Til að núllstilla hana tók ég batteríið úr. Enn var upphafið 1122. Hvarð var nú til ráða?
Varlega prófaði ég að stíga á hana og við það sýndi hún 1675 sem er ekki tala sem ég vildi sjá. Úfff! Þetta getur ekki staðist! Ég bý nú svo vel að eiga tvær vigtir svo ég fór inní herbergi til að prófa hina. Allt of sein og aðeins að verða stressuð lagðist ég á fjóra fætur og veiddi vigtina undan rúminu. Hún var orðin rykfallin sem segir mikið um notkunina á þessum annars ágæta grip. Ég mátti ekki klúðra inngöngunni í vigtunarklúbbinn góða! En nú vildi svo til að vigtin kveikti bara alls ekki á sér. Engan veginn. Skipti um batterí með engum árangri.
Nú voru góð ráð dýr, einhverri þyngd varð ég að skila inn. Samkvæmt mínum útreikningum segir baðvogin mín að ég sé 553 kg (1675 1122) og verð ég sennilega að lifa með þeirri staðreynd í dag. Þetta gefur mér hinsvegar svigrúm til að ná gífurlegum árangri strax í næstu viku þegar verður búið að græja þetta vigtarmál á mínu heimili. Svo samkvæmt þeim markmiðum sem ég hef sett mér stefni ég á að ná því við næsta markmiðadag að vera 547 kg. Geri aðrar hlussur betur!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
6.1.2009 | 23:14
Aðgát skal höfð í nærveru matar!
Rebbý horfði á mig og heimasætuna til skiptis og hló: "Já hún er greinilega dóttir ÞÍN!" sagði hún svo við mig að lokum. Ok, ok, ég hefði sennilega ekki átt að gera grín að matarvenjum heimasætunar því um leið afhjúpaði ég furðulegar matarvenjur mínar.
"Þú ert eins og Monk..", hafði ég sagt við heimasætuna í stríðnislegum tón þar sem ég horfði á velskipulagðan diskinn hennar og hélt svo áfram: "maturinn má greinilega ekki snertast". Það þurfti ekki mikla rannsóknarvinnu hjá Rebbý, sem var hjá okkur í matarboði, að sjá að dóttirin á ekki langt að sækja þessa sérvisku.
Og ég skal bara viðurkenna það. Fúslega. Aðgát skal höfði í nærveru matar. Já. Það skiptir sko máli hvernig maður raðar á diskinn. Mér finnst til dæmis mjög ógeðslegt þegar fólk sullar sósu bara yfir allan diskinn sinn, yfir kjöt, baunir kartöflur, grænmeti og maturinn sullast svo bara um í sósufljóti. Jakkkk. Nei, sósu verður að hemja. Það má alls ekki allur matur fá á sig sósu. Alls ekki.
Sósa má fara á kjöt. Sósa má fara á kartöflur. Þar með er það eiginlega upptalið. Sósa má alls ekki vera á grænmeti eða rauðkáli eða hrásalati eða neinu slíku. Svo maður raðar kartöflunum og kjötinu þannig að maður sósan leki ekki útaf sínu aðgreinda svæði. Til öryggis setur maður grænar baunir við hliðina á kjötinu. Og þær verja annan mat á disknum ef ske kynni að sósan slyppi út.
Kartöflumús má ekki koma við neitt nema kannski kjöt... það gæti verið í lagi. Og það er hræðilegt ef safi af súrum gúrkum eða rauðkáli fer á flakk. Nei, slíkt á bara að vera á sínum stað, það sama á við safa af grænum baunum og gulum.
Þetta er alls ekki svo mikið vesen heldur bara skynsemi og með smá lagni og útsjónarsemi verður hver matartími að ævintýri :)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Um bloggið
Vilma sjálf
Tenglar
Ég sjálf
Gamla bloggið mitt
- Gamla bloggið mitt Vilma Stína
Klúbbar og félög
Eitt og annað sem ég tengist
- Ofurhugar Kúlasta fólk í heimi
- Skógarkettir Skógarkattaklúbbur Íslands
- Kynjakettir kattaræktarfélag Íslands
Kisusíður
Hinar og þessar kisusíður
- Aliosha's Aliosha og Hrund
- Eldibrands Margrét Birna og hennar kisur
- Hlíðarenda Heimasíða Ásdísar
- Vetrarheims Heimasíðan mín
- Björgvinjar Áslaug vinkona mín á þessa síðu
Bloggarar
Hinir og þessir skemmtilegir