Færsluflokkur: Bloggar

Dag einn mun ég lifna við á ný...

Já, ég held það bara.. að ég geti tekið undir með þessu ljómandi skemmtilega lagi og sagt: Dag einn mun ég lifna við á ný...

Var að hlusta á lagið áðan í bílnum og bara næ því ekki úr kollinum á mér. Það og þá sérstaklega þessi eina lína náðu alveg innað beini á mér. Og nú er ég að spá það ... það er ýmislegt sem ég hef ekki í lífinu núna sem ég væri til í að fá aftur inní lífið. Og það er ýmislegt sem ég vil losna við, eins og kvalir út af gigt. Kannski verð ég einhvern tíman búin að ná svo góðum tökum á lífinu að ég get aftur náð inní það því sem vantar og get útilokað það sem ég vil ekki hafa. Og þá mun ég lifna við á ný... gæti það ekki verið?


Ævintýrinu lokið, ég drep svikarann...

Ég sendi tölvupóst í morgun, með nokkrum trega. Ég vissi að ég myndi finna fyrir eftirsjá og söknuði eftir að ég ýtti á "send" hnappinn. En svona er þetta bara, lífið. Það er flókið og enginn sagði að það ætti að vera auðvelt. Og nú var komið að þeim tímapunkti í lífi mínu að ég þurfti að enda samband. Það er aldrei auðvelt að segja einhverjum upp. Sérstaklega ekki þegar hinn aðilinn lifir í afneitun og vill ekki sleppa.

Ég hafði samið uppsagnarbréfið í gær, og látið lesa það yfir. En ég dró aðeins að senda það. Þetta er eitthvað svo endanlegt. Að slíta alveg samskiptin við aðra manneskju. Að slíta samband sem hefur staðið yfir í tvo mánuði. Það er kannski ekki langur tími, ég hef svo sem slitið samband sem hefur staðið lengur. En það er nógu langt til að byggja upp væntingar og vonir.

Að segja einhverjum upp með tölvupósti er kannski ekki flott aðferð. Ég veit það. En í þessu tilfelli var eiginlega ekki um annað að ræða. Enda allt sambandið byggt uppá tölvupóstsamskiptum. Já, ég hef svosem aldrei séð persónuna á hinum endanum. Veit ekki einu sinni hvort það er einn eða fleiri, eða hvar þeir eru í heiminum þó ég hafi mínar grunsemdir. Við ákváðum semsagt að það væri kominn tími á að enda sambandið við "nígeríusvindlarann" okkar. Drepa hann má eiginlega segja.

Síðustu tvo mánuði höfum við skrifast á við "James Green" og mjög merkilega umboðsskrifstofu. James Green fann okkur, hafði samband og réð okkur sem au-pair stúlkur. Að sjálfsögðu er enginn alvöru James Green á hinum endanum, nei, þetta er partur af stórum svindlhring sem herjar á stúlkur sem skrá sig á umboðssíðum fyirr au-pair stúlkur. Svindlhringur frá Nígeríu. Við höfum rekist á þessa kauða áður. Nema núna ákváðum við að sjá hversu langt við gætum gengið.

Við réðum okkur í starfið. Og stóðum í stanslausum bréfaskriftum. Erfiðlega gekk nú að fá James Green til að senda myndir eða til að segja frá fjölskyldunni. En í öðru bréfi byrjaði hann að biðja okkur í guðanna bænum að borga bara 550 pund til umboðsskrifstofunnar. Á hverjum degi, stundum oft á dag, höfum við skrifað bæði James og umboðsskrifstofunni sem ýta fast á eftir greiðslu svo hægt sé að ganga frá pappírum fyrir okkur.

Við höfum gefið ímyndunaraflinu lausan tauminn. Fyrst áttum við ekki nægan pening og fengum James Green til að borga 100 pund á móti okkur. Yeahh right. Svo kom snjór á Íslandi og við komumst ekki úr húsi. Við höfum lent í hverri hrakningunni á fætur annari og alltaf erum við á leiðinni að borga peningana... sem við áttum að senda með Western Union money transfer sem samkvæmt lögreglunni á allt heiðarlegt fólk að forðast... alþekkt leið svindlara til að fá órekjanlega peninga. Og þá gerðum við allt vitlaust! Við semsagt settum peningana í umslag og sendum með póstinum!

James Green fékk áfall. Umboðsskrifstofan bilaðist. Vitum við ekki hvað það er hættulegt? Bréf geta týnst. Og dag eftir dag báðu þeir okkur að fara og sækja bréfið aftur á pósthúsið. Við sögðumst hafa farið. Og við lentum í allskonar veseni á pósthúsinu. Á endanum skrifaði starfsmaður pósthúsins bréf þar sem útskýrt var að skv. uppskálduðum lögum mætti ekki skila aftur bréfi. Starfsmaður pósthúsins var að sjálfsögðu bara við með nýju netfangi. Þá kom babb í bátinn. Umboðsskrifstofan neyddist til að loka pósthólfinu sínu þar sem svo mikill póstur var að týnast. Við dóum næstum úr hlátri! En við vorum bjartsýn og alveg viss um að pósturinn skilaði sér. Póstmaðurinn í Glasgow myndi bara fletta upp heimilisfangi umboðsskrifstofunnar (sem er auðvitað ekki til í alvörunni) eða ná að finna starfsmann hennar sem okkur hafði verið gefinn upp ( að sjálfsögðu er hann ekki til heldur). Og svo báðum við þá um að vakta heimilisfangið ákveðinn dag, sem bréfið átti að berast skv. póstyfirvöldum.

Auðvitað skilaði bréfið sem við aldrei sendum til umboðsskrifstounnar sem ekki er til aldrei. Flókið... Og þá tók við biðtími eftir að bréfið yrði endursent. Á meðan skemmtum við okkur við að biðja um upplýsingar um áhugamál og ýmis persónuleg mál og sendum allskonar myndir frá snævi þökktu Íslandi. Bara gaman. Enn var ýtt á okkur að redda pening svo hægt væri að byrja á pappírsvinnu enda þurfti að redda okkur vegabréfsáritun og vinnuleyfi.. (ha, ha ha, einmitt). Gætum við ekki fengið pening lánaðann?

Birtist þá ekki í sögunni hún gamla veika amma okkar sem á pening. James Green og umboðsskrifstofan kættust nú mjög og hvöttu okkur áfram í að biðja gömlu konuna um penina. En svo fór ég að mótmæla og gleymdi að svara í nokkra daga... óþekka, óþekka au-pair stúlka! Vinir okkar í Nígeríu að fara yfir um á taugum. Hvar vorum við? Vildum við ekki koma? Við þurftum að senda pening! Núna! Til að gera söguna ævintýralegri skálduðum við upp sorglega sögu um að veika amman hafði veikst meira, farið á spítala og loks dáið! Mjög dramatískt. Og þegar James Green tók fréttunum ekki með nógu mikilli virðingu - reiddumst við og hótuðum að hætta við að koma. Uppskárum hvert afsökunarbréfið á fætur öðru. James Green var "so so sorry"... endilega borgið.. börnin hlakka til að hitta þig.. hugs and kisses... Við lofuðum að fara og borga á ákveðnum tíma og þegar þeir fóru að athuga með greiðsluna sendum við kveðjubréfið... þetta var sársaukafullt og leiðinlegt... en nauðsynlegt... nígerísvindlarinn gerði eina lokatilraun... þóttist ekki skilja alveg bréfið... vorum við að stríða þeim? Vorum við ekki að koma? Við hlógum og skrifuðum lokabréfið. Ekki skrítið að þeir vildu ekki sleppa okkur við erum búin að láta þá snúast um okkur í 2 mánuði og búin að kosta fullt af vinnu...

Nú snúum við okkur næst að Grace, ekkjunni sem ætlar að gefa okkur 12 milljónir punda til að styrkja okkur í að opna heimili fyrir fátækar ekkjur... við ætlum að stofna samtök eins og rauða krossinn ... þau eiga að heita "Icesave"...


Tómlegt heimili

Fyrir 12 vikum fæddust 5 litlir kettlingar hér á heimilinu, aðeins degi eftir að 4 kettlingar höfðu fæðst hjá annari læðu. Þessum fimm litlu krílum lá svo mikið á í heiminn að fyrsti kettlingurinn fæddist á meðan mamman sat á kattaklórunni. Og áður en við komum hinni fæðandi móður í gotkassann fæddist kettlingur númer tvö í forstofunni þar sem ég tók á móti honum, enn í úlpu og útiskóm. Síðustu þrír duttu svo bara í heiminn þegar mamman var komin á réttan stað.

Fyrstu vikurnar voru þeir rólegir, vöktu athygli fyrir þetta. Lágu bara í kassanum, drukku í sig móðurmjólkina og ultu um. Sýndu enga tilburði til að skoða heiminn. Við vorum ánægð með rólegu og góðu börnin... en svo fóru þau að stækka og rembast við að apa allt eftir "eldra" gotinu. Nú er svolítill tími síðan það got flutti að heiman. Og við höfum "bara" haft fimm kettlinga síðustu vikurnar.

Þau eru löngu hætt að vera róleg. Þau eru snarbrjáluð. Á kvöldin hlaupa þau hér um í hóp, á og yfir allt sem er fyrir. Þau sýna eldri köttunum enga virðingu - og þá sérstaklega ekki Míu hinni mögnuðu. Stundum sitjum við bara og andvörpum þegar þau eru uppá sitt besta... eða eigum við að segja versta.

En núna... núna er komið að því að börnin fari að heiman og tilhugsunin er skelfileg. Míana Mey fór fyrst að heiman og yfirgaf okkur í kvöld með nýja eigandanum sem ljómaði af hamingju. Við sátum eftir með skeifu og tár í augunum. Á morgun flytja Tóbías Týr og Snepill Snær... og þá verður orðið tómlegt... Um helgina fara svo Kalína Kaja og Elíana Eik... Hræðilegt!

Heimilið verður svo tómlegt þegar það verða bara eftir fullorðnu kettirnir fimm, gárarnir tveir, dísargaukurinn og fiskarnir... við verðum að gera eitthvað í þessu...


Of hvítt eitthvað

Ég hef aldrei verið mikil snjómanneskja. Nei, snjórinn er ekki fyrir mig. Fínt að hafa hann uppí fjöllunum bara. Þar sem hann er ekki að þvælast fyrir mér. Ekki misskilja mig, ég hata ekkert snjóinn. Mér finnst alveg gaman að vera útí að gera snjókarl með prinsinum mínum, eða bara að vera úti þegar dúnmjúkur snjór fellur til jarðar. Og það getur alveg verið gaman að renna sér á snjóþotu - skíði eru hinsvegar verkfæri sem ég skili ekki... Og að moka stéttina, það finnst mér óskaplega gaman. Ég hefði farið út áðan að moka ef ég hefði ekki haft svona mikinn höfuðverk.

Þannig að ég get alveg haft gaman af honum og svo sannarlega gerir hann umhverfið dulúðugt og fallegt. Það er eitthvað svo saklaust við snjóinn. En þetta er svona um það bil allt sem ég þoli af honum. Ég þoli ekki að þurfa að reyna að ná nýþungum blautum snjó af bílnum mínum. Sérstaklega ekki þegar svo mikið kemur niður að maður nær aldrei að skafa allan hringinn (jebb, ég er ein af þeim sem verð að hafa allar rúður vel skafaðar áður en ég legg af stað). Ég þoli ekki að þurfa að klofa háa snjóbynga til að geta skafið bílinn minn. Ég þoli ekki allan snjóinn sem berst inn hjá okkur og bráðnar í polla svo það er ómögulegt að fara í forstofuna án þess að blotna.

Umfram allt þoli ég ekki að keyra í snjó. Ég er frekar lélegur og óöruggur bílstjóri og Rúna mín er sko enginn jeppi. Svo ég er stanslaust með í maganum og öran hjartslátt þegar ég þarf að keyra í snjó, tala nú ekki um snjó eins og var í kvöld. Ég sífellt hrædd um að festa mig... og hvað þá? Ekki er hægt að treysta á aðstoð frá náunganum. Neibb, ég er enn skelfingu lostin yfir því þegar ég festi bílinn minn síðast (það var árið 1994)... þar kom að maður sem ég vonaði að ætlað að hjálpa mér. Hann æddi að bílnum mínum, reif upp bílstjórahurðina og æpti á mig að ég ætti bara að vera heima... helvítis kerlingar ættu ekkert með að keyra! Ég trúði honum og ég heyri enn hann æpa á mig þegar ég nálgast skafl... "Ekki láta mig festa bílinn... ekki láta mig festa bílinn...", hvísla ég á milli saman bitinna tannana og vona að ég geri ekki í mig af hræðslu.

Og í dag með dyngjandi höfuðverk og ljósfælin var snjórinn ekkert nema til óþurftar. Líffræðingurinn sýndi mér fádæma tilltissemi og samþykkti að dregið yrði fyrir gluggana svo glampinn af snjónum gengi ekki frá mér. Á þeirri stundu ákvað ég að flytja til heitari landa. Einhvers land þar sem helst er alltaf sama veðrið, og aldrei snjór. Á stað þar sem kerlingar geta keyrt án þess að vera fyrir...


Fórnir búsáhaldabyltingarinnar

Ég og kennarinn tókum ekki frí í dag, enda bara um áfangasigur að ræða - við viljum meira - við viljum nýtt lýðræði. Við skunduðum niður á Austurvöll og skelltum okkur í fámennan hóp mótmælanda, við stilltum okkur upp í hringnum og trommuðum á pottana. Ég var svo einbeitt að ég tók ekki einu sinni eftir því að það rigndi. Tók ekki eftir því fyrr en við gengum af stað í bílinn.

Hundblautar með allan krakkaskarann á eftir okkur hoppuðum við uppí bílinn sem er á erlendu bílalánunum og brunuðum af stað. Rétt í því sem við sleppum útaf bílastæðinu fýkur miði af framrúðunni. Shit! Við litum hvor á aðra... úbbbsss.... við gleymdum að borga í stöðumæli og nú þyrftum við að borga sekt. Jebb, við erum að fórna okkur fyrir mótmælin. En hvað áttum við að gera? Sektarmiðinn fokinn útí veður og vind.

Jú, við deyjum ekki ráðalausar. Bílnum lagt hið snarasta og við út að leita af helvítis sektarmiðanum sem fauk eitthvað útí veður og vind. Börðumst áfram í roki og rigningu, hlaupandi um götuna og bílastæðið. Og viti menn! Þarna lá miðinn og hafði rifnað í sundur. Kennarinn lagði sig í lífshættu við að tína hann upp af götunni á meðan bílarnir ættu framhjá.

Annars er búsáhaldabyltingin farin að kalla á fleiri fórnir. Ég braut eina sleifina mína áðan, í tvennt. Úbbbss, hugsaði ég og yppti öxlum... nota þessa kannski ekki mikið meira. Eggjapannan okkar er komin í spað, öll beygluð og krambúleruð. "Hvað ertu búin að gera?", spurði kattadómarinn með skelfingu í röddinni og starði á pottlokin sín. Kennarinn gat ekki neitað að hafa notað þau í mótmælunum. Eftir umfangsmiklar hljóðprufur höfðu þessi öldruðu pottlok skapað mestan hávaða. Þau höfðu nýst vel sem hávaðagjafi síðustu daga... reyndar voru þau farin að láta á sjá. Haldið hafði brotnaf af öðru og hitt var örlítið dældað. Kattadómarinn horfði á pottlokin og andvarpaði: "Já, en þetta eru elstu pottlokin mín! Þau eru af fyrsta pottasettinu mínu, sem ég eignaðist þegar ég fór að búa.. Þau eru tuttugu ára gömul!". Og síðan þá hafa þau fengið að sitja heima, dælduð og án halds - en geta aldeilis sagt sögur!

Í staðin hefur kennarinn dröslast á mótmælin með annað og ekki eins merkilegt pottlok og sleif sem hún erfði eftir mömmu sína. Nú er pottlokið orðið rispað. Erfðagripurinn, sleifin sem örugglega hefur séð ýmislegt í gegnum árin, er orðin brotin en getur enn sinnt sínu hlutverki sem ásláttaráhald á dældað pottlokk. Lifi byltingin!


Gáðu að því hvar þú stígur

Það var dimmt. Ég og börnin stefndum þvert yfir bílastæðið. Ég hélt þétt um hönd prinsins og heimasætan skoppaði á undan. Ég sá stóran poll framundan sem leit út fyrir að vera djúpur og ofan á honum flutu íshrönglar. "Passið ykkur að stíga ekki í pollinn!", sagði ég ákveðin og dró prinsinn nær mér og starði stíft á heimasætuna tipla fram hjá pollinum. Starði svo stíft að ég sá ekki pollinn sem var hinum meginn við mig. Pollinn sem ég steig beint ofan í, uppað ökla.

Ískallt vatn fyllti skóinn og buxurnar blotnuðu. Ég beit saman jöxlunum. Bévítans ólukka. Það borgar sig sem sé ekki að passa svo vel uppá ungana sína að maður gleymir að gá að sjálfum sér. Ísköld á tásunum hélt ég áfram yfir stæðið og stökk uppí Rúnu og brunaði heim á leið.

í dag var hvíldardagur. Hvíld frá eiginlega öllu. Ég reyndar dröslaðist í að versla inn fyrir vikuna. Dró óánægðan ungling á eftir mér um Krónuna þar sem hún lýsti óánægju sinni við hvert tækifæri. Ja, þar til okkur datt í hug að taka lagið aðeins, uppfrá því fór búðarferðin öll í uppnám og endaði með að systkinin fóru í slag með hreingerningarhönskum sem þau fundu á tilboði. Annars var bara gott að eiga hvíldardag :)


Skemmtilegustu mótmælendurnir

Ég og kennarinn létum ekki yfirvofandi aðalfund og árshátíð kattaræktarfélagsins stöðva okkur. Nei, nei, við héldum á Austurvöll. Með smá kvíða kannski. Við vonuðum að það væri góð mæting en á sama tíma óttuðumst við að úthugsað útspil Geirs, loforð um kosningar og reiði í garð Harðar hefði kannski dregið úr fólki að koma. Það var af og frá. Þvílíkur mannfjöldi. Glæsilegt hjá íslendingum. Glæsilegt! Bara svona: "Ha?! Hélduð þið að við myndum hætta að mótmæla? No Way!"

Ég held að við séum heppnar að hafa tækifæri á að taka þátt í "búsáhaldabyltingunni". Og ég get svo sannarlega mælt með þáttöku fyrir hvern þann sem er reiður og fúll yfir ástandinu og endalausa bullinu. Samstaðan er ólýsanleg. Kraftur er endalaus. Og við erum að skipta máli, ég er sannfærð um það. Og að sjá allt þetta fólk í dag - brjálæðislegt!

Uppfullar af krafti mótmælanna drifum við okkur á aðalfundinn og árshátíðina í beinu framhaldi. Enn kraftmiklar fengum við bilaða hugmynd og endurvöktum sofandi skemmtinefnd... og þó við værum bara tvær á staðnum úr skemmtinefndinni. Jebb, skipulögðum skemmtiatriði yfir forréttinum, 2 atriði og það þriðja spunnum við upp bara á staðnum... þið vitið svona bara standa upp og bulla eitthvað... og enduðum með að fá lófaklappa allra viðstadda. Semsagt göldruðum fram 3 atriði! Geri aðrir betur. Sannfærðar um að við hefðum "bjargað" árshátíðinni. Alveg pottþétt bara.


Vanhæf ríkisstjórn

Miðaldra dökkhærð kona hallaði sér að okkur og spurði: "Hvað eru þau að syngja?" Ég og kennarinn litum hvor á aðra og brostum. Þessari spurningu gátum við svarað, enda alltaf að mótmæla. Kennarinn hallaði sér fram og sagði hátt: "Vanhæf ríkisstjórn!". Konan kinkaði kolli og bakkaði til baka. Ég og kennarinn glottum og kinkuðum líka kolli. "Við hefðum getað gefið henni þrjár útgáfur...", sagði kennarinn og hló.

Það hafði líka tekið okkur tíma að ná aðalslagorðinu. Við hefðum kannski átt að spyrja einhvern. Þegar við héldum heim á leið í gærkvöldi frá þjóðleikhúsinu viðkenndi kennarinn hún hefði til að byrja með misheyrt slagorðið sem við höfðum verið að æpa. Hana hafði alltaf heyrst að mótmælendur æptu: "Bæ bæ ríkisstjórn" en nú væri hún búin að ná þessu. Ég hló og viðurkenndi að ég hefði líka misheyrt... nema ég hafði alltaf heyrt mótmælendur æpa: "Banvæn ríkisstjórn".

Í dag fór ég tvisvar að mótmæla, í hádeginu með líffræðingnum og með kennaranum um kvöldið. Það er eitthvað sögulegt að fara að gerast og ég ætla svo sannarlega að taka þátt. Ég er einbeitt og ákveðin. Friðsöm mótmæli. Ég er ekki hlynnt ofbeldi. Innan lögreglunnar eru aðilar sem hafa gengið of langt. Það afsakar ekki atburði síðasta sólarhrings. Ekkert réttlætir það. Eftir að hafa verið viðstödd mótmælin er ég sannfærð að lang lang fjölmennasti hópur þeirra er friðsæll, á ekkert sökótt við löggæslu eða hvern annan. Og nú er enn mikilvægara en áður að friðsamt fólk mæti og að við látum ekki óþekktarangana ræna okkur mótmælunum.


Ég og potturinn minn

"BAMM BAMM Bamm-bamm-bamm" Við stóðum fjölmörg í hnapp og slógum sama taktinn og hrópuðum slagorð þar á milli. Ég og potturinn minn slógumst í för með kennaranum og pottlokunum hennar. Svo stóum við, hlið við hlið, slógum taktinn og hrópuðum. Í góðum takti með öllum hinum.

Einhvern veginn virðist þetta vera eðlilegt þegar maður er þarna. Það er bara eðlilega að ganga um bæinn með pott í hönd, eðlilegt að standa með ókunnugu fólki og finna samstöðuna. Það er jafnvel að verða eðlilegt að hafa óeirðalögregluna örfáa metra frá sér, víkja fyrir þeim þegar þeir ganga í hópum fram hjá manni. Ég horfi á þá sem persónur, fólk eins og mig, sem eru ekki öfundsverðir af starfinu sínu núna, innst inni eru þeir örugglega hræddir og reiðir - meirihluti þeirra á hrós skilið fyrir einstaka þolinmæði.

Þarna stóðum við þegar kjarninn sem við vorum hjá tvístraðist. Nýja hugmyndin æddi á milli mótmælanda. Við myndum færa okkur um set. Ég og kennarinn þrömmuðum af stað, berjandi potta, og dreifuðum í leiðinni fréttunum. Við gengum fram hjá hóp af lögreglumönnum sem voru ringlaðir á svip. Voru mótmælendur að gefast upp? Ég er viss um að þegar þeir áttuðu sig á hvert við vorum að fara hafa örvænting gripið þá. Óþekku mótmælendur. Komið aftur! Verum frekar bara áfram á Austurvelli... Don't leave me this way...

En við þrömmuðum áfram í hóp, með hávaða, samstíga. Ég og kennarinn vorum með þeim fyrstu sem náðu upp að þjóðleikhúsi, löngu á undan lögreglunni. Við völdum að fara ekki inná fundinn. Í staðinn stóðum við rétt við innganginn. Innst í þvögunni. Stemmingin var ólýsanleg. Krafturinn svo mikill að maður gat næstum snert hann. Venjulegt fólk sem er búið að fá nóg. Venjulegt fólk sem kemur sjálfu sér á óvart með aðgerðunum.

Þegar maður sér þetta á myndbandi næst alls ekki að koma þessu öllu til skila. Þetta virðist hættulegt, eða jafnvel ófriðlegt. En fremst í miðri þvögunni stóðu tvær venjulega konur og slógu í potta og hrópuðu með öðrum mótmælendum og stemmingin er friðsöm, allir eru vinir, við brosum hver til annars - stillum okkur saman. Við komum heim uppfullar af orku. Ég er búin að finna leið til að hlaða batteríin, ég er til dæmis ósofin núna... eftir námskeið til Ástralíu til fjögur í nótt og eftir að vakna klukkan sjö... en ég kom endurnærð heim. Þegar við héldum heim á leið tóku unglingarnir mínir við. Ég og potturinn minn ætlum að hvíla okkur...


Ég var þar!

Maðurinn sem stóð við hliðina á mér nikkaði til mín áður en hann beygði sig niður, opnaði bakpokann sinn og dró uppúr honum pott og sleif. Svo rétti hann úr sér, leit til mín og brosti andartak, byrjaði svo að slá í pottinn sinn með sleifinni. Með sama takti og ég sló í minn pott með minni sleif.

Ég hefði ekki viljað missa þessum degi. Ég mun muna hann alla ævi. Áður en ég lagði af stað í vinnuna gerði ég hljóðprufu heima og valdi þá sleif sem olli sem mestum hávaða. "Gerum við byltingu í dag?", spurði saxafónleikarinn mig við kaffivélina rétt um hádegisbilið. Ég kinkaði kolli, hann spurði til baka hvort ég væri vel búin og ég jánkaði aftur, sagðist vera með pott og sleif. "Plast eða tré?", spurði hann sem sjálfur var á leiðinni niðrí bæ til að mynda. Ég sagðist að sjálfsögu hafa tekið með tré sleif enda skapaði hún meiri hávaða. Svo rétt áður en ég hélt úr húsi kom fótboltaráðgjafinn og fékk að prófa: "Já, þetta virkar..." sagði hann með glampa í augum eftir að hafa slegið nokkrum sinnum í pottinn.

Og svo áður en varði var ég stödd, fremst við alþingishúsið, berjandi pottinn minn á meðann kennarinn sló saman pottlokunum sínum af mikilli snilld. Kraftur þarna og samheldnin er ólýsanleg. Þetta er svona "you had to be there" móment. Fyrir utan rólegt rölt í kringum alþingishúsið þar sem við misstum ekki úr takt héldum við okkur að mestu framan við húsið innan um fullt af allskonar fólki, stóðum og gerðum hávaða. Með lúðra þeytta fyrir aftan okkur og sírenur á fullu. Þarna var fólk með heilu trommusettinn og fólk með kökubox. Alls konar fólk. Fólk eins og ég. Bara venjuleg húsmóðir úr Grafarvogi sem ofbýður spillingin, hrokinn og sem kvíðir framtíðinni með síhækkandi lánum og samdrætti. Þarna var aldrað fólk og unglingar. Allir sáttir. Allir með sama tilgang. Við erum kannski ekki öll sammála um hvað má betur fara eða hvernig á að bæta það. En við erum öll sammála um að eitthvað þarf að gera. Einhver þarf að bera ábyrgð. Einhver þarf að bregðast við. Þarna var fólk sem þreytt og búið að fá nóg.

Hávaðinn var ærandi. Þegar við gengum í burtu söng í eyrunum á okkur og ég fann til í þeim í þónokkuð langan tíma. Enda þegar ég gaf nokkrum vinnufélugum mínum sem fylgdust með beinni útsendingu smá hljóðdæmi þoldu þau um 3 sekúndur. 3 sekúndur af bara mér með einn pott. Sjónvarpið og myndirnar ná ekki að túlka nema brot af hverngi var að vera þarna. Bara brot af hávaðanum. Bara brot af samkendinni. Bara brot af þrautseigjunni.

Við vorum venjulegt fólk að framkvæma óvenjulegan gjörning. Standandi, skapandi sársaukamiknn hávaða. Flest örugglega fólk, eins og ég, sem hefði ekki látið sér detta í hug að mótmæla fyrir nokkrum mánuðum síðan. Ég hefði aldrei, aldrei, trúað því að ég ætti eftir að standa þarna... berjandi minn pott... að reyna að skipta máli. Eftir endalausar stöður á Austurvelli á laugardögum þá var þetta svona næsta skref. "Þið viljið ekkert hlusta, þið kallið okkur skríl, viljið þið elsku bestu... vakna uppaf blundinum? Vakna og sjá að þjóðin er kvalin?" Ég hef hingað til talið mig hluta af þjóð, ég fer auðvitað og mótmæli fyrir mig, fyrir mig og framtíð barnanna minn. Ég hef ekkert umboð til að mótmæla fyrir aðra, en ótrúlega margir segja "takk fyrir að nenna... takk fyrir að fara", en ég er samt bara að gera þetta fyrir mig og koma minni skoðun á framfæri. Vonandi tekur fólk sem er líka óánægt við sér og mætir, allavega á laugardagsmótmælin.

Ég er kannski skríll núna en ég er líka hluti af þjóðinni. Ég skilgreini mig þó aðalega sem húsmóðir og forritara, hvorki róttæk né pólitísk - sem vill bara að þeir sem stjórni landinu grípi fastar um þjóðinni og leiti allra leiða til að stöðva spillingu. Að alþingi einbeiti sér að stórum og mikilvægum málum en ekki því hvort selja eigi áfengi í almennum verslunum.


mbl.is Þjóðin var í Alþingisgarðinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Vilma sjálf

Höfundur

Vilma Kristín
Vilma Kristín
The Worrying kind
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband