Færsluflokkur: Bloggar

Hláturinn lengir lífið...

"Það minnir mig á besta brandara sem ég hef heyrt....", sagði Raggi hálf flissandi þar sem hann sat á endanum á sófanum. "Það var ekki einu sinni brandari, heldur var þetta í alvörunni...", hélt hann áfram og hló meira. Við sátum allar stelpurnar og biðum spenntar. Raggi byrjaði hægt en komst ekki almennilega inní söguna: "Hún sagði.... ha ha ha ha ha... hún sagði..... ha ha ha ha... hún.... ha ha ha ha ha...." Raggi hélt fyrir andlitið og hálfgrét úr hlátri. Smá saman breyddist hláturinn útum hópinn og áður en við vissum af veltumst við um, sex "miðaldra" forritarar um í sófanum og emjuðu af hlátri. Enginn nema Raggi vissi af hverju við vorum að hlægja en það var ekki nokkur leið að hætta. Ekkert annað að gera en að halda áfram að hlægja og vona að við kæmumst einhvern tíman yfir þetta.

Það er ekkert leyndarmál að mér finnst gaman að borða. Og gott líka. Jebb, held að sé eiginlega bara svona staðreynd sem flestir þekkja. Þessvegna eru klúbbakvöld í algjöru uppáhaldi hjá mér. Og maður leggur mikið á sig til að mæta. Ég mætti til dæmis í klúbb einu sinni eftir að hafa unnið 26 tíma í vinnunni og vakað í 36 tíma. Ég var reyndar hálf stjörf af þreytu en það var klúbbur heima hjá Valdísi og ég ætlaði sko ekki að missa af honum.

Fyrir utan góðan mat, sem er nú yfirleitt alltaf grillaður þar sem klúbburinn er grillklúbbur, er boðið uppá einhvern besta og vandaðasta félagsskap sem til er. Jebb. Þar sem 7 "gamlir" forritarar koma saman þar er gaman! Við vorum öll að vinna saman og erum samheldinn hópur. Svo í gærkvöldi var komið að mér að hafa klúbb, ég á reyndar ekki grill svo ég varð að fá undanþágu og fá að elda í ofninum (ég henti nefnilega grillinu þegar ég tók til í fyrrasumar).

Heildarniðurstaða kvöldsins er að við erum að eldast. Orðin gömul. Og svona til að afsanna það sátum við yfir spjalli langt fram á nótt. Glær af þreytu og geispandi. Hlustuðum á barnageisladisk og hlógum. Slúðruðum og hlógum. Gerðum grín af okkur sjálfum og hlógum. Það er mikið hlegið í þessu klúbb, enda ekkert sérstaklega alvarlegt fólk sem eru meðlimir. Nei, meira svona kjánaprik og fólk sem tekur sig bara mátulega alvarlega.

Nú á að nota afganginn af helginni til að hvíla sig... ég er nefnilega snillingur í að skipurleggja of mikið. Gerði það líka þessa helgi þar sem ég hafði deildarpartý heima hjá mér á föstudagskvöldið (úff, saga að segja frá því) og matarklúbbinn á laugardagskvöldið bara svona til að hafa örugglega nóg að gera! Pínulítið þreytt núna (þar sem ég er orðin svo gömul) en verð að hrista það af mér... þegar búið að skipuleggja kvöldið í heimsókn til nýjasta íslendingsins í vinahópnum.


Herra janúar

Það lá við uppþoti í vinnunni í dag. Ja, svona næstum. Við sátum í mestu rólegheitum í mat og smjöttuðum á pastana og skoluðum því niður með vatni. Ræddum um daginn og veginn. Allt voða huggulegt. En þá skyndilega renndi ruslabíllinn upp að húsinu. Já, sko eða bakkaði uppað húsinu - svona eins og gerist oft í matartíma - ekkert til að kippa sér upp við.

Út úr bílnum stökkvar tveir ungir menn, tilbúnir í slaginn, ég gaf þeim svona létt auga. Gjóaði augunum svona til þeirra án þess að vera að spá í einhverju sérstöku. Skyndilega stoppaði ég að tyggja matinn. Gat þetta verið? Var ég örugglega að sjá rétt?

"Hey, herra Janúar!", hvíslaði ég að líffræðingnum sem sat við hliðina á mér og snéri um leið uppá mig til að sjá betur út. "Ha? Er það? Þessi í hvítu?", spurði hann til baka og snéri líka uppá sig. Akkúrat þá hvarf herra janúar inní ruslageymsluna. "Hvað eruð þið að spá?", var spurt hinum af borðinu.

"Þetta er herra janúar þarna...", tilkynnti líffræingurinn og ég kinkaði kolli. "Virkilega?" Ég jánkaði og sagði að það væri þessi í hvítu peysunni. Líffræðingurinn kom með stutta útskýringu fyrir þá sem ekki þekktu til hvað um var að ræða, á Íslenska gámafélagið hafði gefið út þetta flotta dagatal með hálfberum mönnum - og þarna stæði sjálfur herra janúar á stéttinni hjá okkur.

"En hinn.... er það herra febrúar?", var spurt. Allir á borðinu farnir að góna út um gluggann og mæla út mennina. Aldrei áður hefur það vakið jafn mikla athygli að ruslið okkar er sótt. Aldrei áður hefur hálft borðið snúið sér við til að sjá betur. Einhverjir voru nú ekki alveg að trúa mér. Ég staðhæfði enn og aftur að þetta væri hann í alvörunni. Ég væri bara alveg viss. "Í alvörunni?", hló einn ráðgjafinn: "Ég hélt að þú hefðir bara verið að spinna þetta upp..."

Og svona fyrir þá vantrúuðu og þá sem ekki áttu nú þegar dagatal mættu fulltrúar Íslenska gámafélagins bara á staðinn og deildu út nokkrum eintökum, við mikla gleði kvennmannana og aðeins dræmari gleði strákanna.


Þyrnirós

Ég er að tapa sjálfri mér. Jebb, ég er hætt að vera Vilma og er búin að breytast í Þyrnirós. Svona er þetta bara, ekkert við því að gera. Þetta byrjaði fyrir rúmri viku. Ég skellti mér létt útá lífið á föstudagskvöldinu með Rebbý og kindabóndanum. Ekkert mál. Vaknaði til að koma prinsinum af stað á skákæfingu, eftir of lítinn svefn. Og síðan þá hef ég verið syfjuð.

Ég lagði mig á meðan prinsinn tefldi. Vaknaði og mótmælti með kennaranum. Fór heim og svaf þar til var kominn tími á að borða kvöldmat með kennaranum. Fór heim og sofnaði. Svaf eins og steinn fram á morgun. Vakti í tvo tíma og varð svo að leggja mig.

Ég held að ég hafi sofnað öll kvöld í vikunni fyrir ellefu eða rétt yfir tíu. Stundum fyrir tíu. Um tíu leitið er ekki lengur hægt að tala við mig, ég þreytt og pirruð og allt sem tefur mig í að leggjast á koddann fær að kenna á því. Það má sko ekkert koma á milli mín og svefnsins. Yfir átta tíma svefn allar nætur semsagt. Ég hefði haldið að það myndi duga mér. En nei... Í tvo daga varð ég að vera heima með veikann prins. Hvað geri ég þá? Jú, legg mig og næ 2 til 3 auka svefnstundum yfir daginn.

Helgin var svo alveg til að kóróna það. Ég átti að taka íbúðina í gegn... en gerði ég það? Nei, ég þóttist myndast við að taka til... en notaði hvert tækifæri sem ég náði í til að leggjast niður og stela smá svefni... og samt komin í rúmið fyrir tíu á laugardagskvöldið. Svaf til átta á sunnudagsmorgun. Klukkan tíu var ég búin á því og fór að sofa aftur. Og lagði mig líka einhvern tíman um miðjan daginn.

Svo ég hlýt að vera breytast í Þyrnirós. Og ég get sagt ykkur það að allur þessu svefn er SVO þreytandi. Ég kem heim úr vinnunni um sex... geispandi og gapandi... nú er klukkan að nálgast níu og ég er að detta útaf á meðan prinsinn er í fullu fjöri. Ég veit ekki kannski er batteríið að reyna að hlaða sig... en ég óttast að það sé bara orðið bilað, því eftir allan þennan svefn þarf ég bara meiri svefn og þoli minni vökutíma...


Ertu kúkalabbi?

Þegar ég mætti í vinnuna á fimmtudaginn var ég, einhverra hluta vegna, með orðið "kúkalabbi" á heilanum. Hvernig þetta gerðist skil ég ekki... en ég réð bara engan veginn við mig. Þetta datt útúr mér við hvert tækifærið á fætur öðru. "Ohhh, þetta eru kúkalabbar...", stundi ég á meðan ég var að bögglast við tölvuna.

Þetta fór auðvitað ekki fram hjá herbergisfélugunum. Glerlistakonan sem venjulega deilir herbergi með mér og líffræðingnum er löngu hætt að kippa sér upp við svona smámuni og hristi bara kollinn þegar ég missti orðið útúr mér. Í fjarveru líffræðingins sem er við vinnu erlendis kom nakti forritarinn í heimsókn í höfuðstaðinn og kom sér vel fyrir í okkar herbergi. Hann gaf mér auga þar sem ég sat og fannst allir í heiminum vera "kúkalabbar".

"Þetta er orð dagsins!", sagði ég og nikkaði til hans. Hann horfði á mig til baka með óræðum svip. Eftir hálfan dag af öllu þessu kúkalabbatali fórum við hinsvegar að greina það. Og niðurstaðan var að þetta er í raun hrósyrði. Maður á eiginlega að vera upp með sér ef maður er kallaður "kúkalabbi". Ég reyndi líka að sýna að þetta gæti verið gæluyrði þegar ég spjallaði við líffræðinginn í símanum: "Ohhhhhh, kúkalabbi....", sagði ég með minni allra sætustu rödd... þessari sem ég nota þegar ég er að gæla við kettina. Líffræðingurinn þekkir mig vel og hló hinu meginn, nokkuð upp með sér.

Okkar skilningur á orðinu er einhver sem sem labbar í kúk, það er svona í orðisns fyllstu... En ef maður tekur þetta aðeins lengur þá er þetta kannski frekar einhver sem er í vandræðum eða slæmum málum. Þar að auki þá tengist þetta orðinu "skítalabbi"... Það er nefnilega það sem skilur okkur frá dýrunum, þau skíta... og þau er hægt að kalla skítalabba, á meðan mannfólkið eru kúkalabbar. Kindur að vetri til eru til dæmis í orðsins fyllstu merkingu skítalabbar. Þar sem þær trampa á sínum eigin skít. Og þær gera sér ekki grein fyrir að það sé eitthvað athugavert við það, þeim finnst það bara í fínu lagi.

Þannig að ef maður er kallaður "Skítalabbi" þá er það eiginlega argasta móðgun, þá ertu í djúpur skít, slæmum málum, og finnst það bara allt í lagi. Aftur á móti ef einhver kallar þig kúkalabba þá er bara verið að segja að jú, þú ert í vandræðum, slæmum málum, en þú ert skynsamur og veist af því! Ert jafnvel að vinna þig útúr því. Semsagt hrósyrði.


Út með ást!

Eftir vinnu í dag fór ég í leiðangur með Rebbý. Svo sem ekkert frásagnarvert við það. En þarna þræddum við hverja búðina á fætur annari í leit að skreytingum fyrir Valentínusarþorrablótið sem verður á laugardaginn í vinnunni hennar. Það þarf að hafa rauð kerti og vasa undir rauðar rósir og ég veit ekki hvað. Allt óskaplega rómantískt og dúllulegt.

Ég veit ekki hvað ég varð að miklu liði. Ég reyndi að stinga uppá svörtum kertum þegar okkur gekk illa að finna akkúrat rétta rauða litinn (já, já... þið vitið svona ástarrauður). Eiginlega var þetta svona tilraunaferð hjá mér, koma mér úr þægindahringnum. Ég er nefnilega öfugsnúin þessa dagana yfir ást, rómantík og ástföngnu fólki. Kannski er ég svona illa haldi af ástarþrá, svona rosalega afbrýðisöm eða bara skynsöm.

Og nú er ég með plan. Kannski stofna ég bara hóp á facebook til að afla mér fylgis. Allavega, planið er að fá öll ástaratlot og rómantík bannaða á opinberum stöðum. Svona svipað og með reykingarnar. Svona til að gefa okkur einhleypa bitra fólki færi á að fara á bar, veitingarhús eða búð án þess að þurfa að horfa uppá fólk leiðast, faðmast eða kyssast. Það hljóta allir að sjá að þetta er sanngjörn krafa.

Ég meina, þetta er klárlega heilsuspillandi. Alveg pottþétt! Þarna er maður í sínu mesta sakleysi. En allt í kringum mann er fólk að mæna ástaraugum hvert á annað, strjúka hverju öðru... eða eitthvað þaðan af verra. Og hvernig er þetta heilsuspillandi? Jú, í hvert sinn sem maður sér fólk leiðast eykst einmannaleikinn. Höfnunartilfinningin vex í hjarta manns í beinu hlutfalli við kossa sem maður neyðist til að horfa uppá. Þunglyndið tekur völdin um leið og ástúðleg faðmlög eru í augsýn. Þannig að andlegri heilsu hrakar hratt þegar maður er innan um svona ástaratlot.

Þá eru óátalin öll líkamlegu einkenninn: verkur í hjarta, ógleði, svimi, grátbólgin augu, ekki... þarf ég að telja upp meira. Og eins og þetta sé ekki nóg þá, ef maður er mjög óheppinn, þarf maður að hlusta á ýtarlegar lýsingar af ástalífi sem stundað er í tíma og ótíma... á meðan maður sjálfur er jafnvel háður því að þurfa að treysta á rafknúin tæki sem dýrt er að knýja áfram (kannski ættu einhleypir að fá styrk frá ríkinu?). Þannig að ef maður er óheppinn bætist við eyrnaverkur og höfuðverkur. Það hljóta því allir að sjá að það er engin önnur leið boðleg en að banna allt svona ástarstúss þar sem það getur valdið einhleypum varanlegum skaða... jafnvel ótímabærum dauða... Já, út með ást... það er nýja slagorðið mitt!


Ég heyri...

Ég þóttist svo sem sjá í gærkvöldi í hvað stefndi. Ekki það að ég sé skyggn eða hafi spádómsgáfu. Nei, það voru meira eyrun sem staðhæfðu að ég myndi örugglega ekki vera í vinnu í dag. Prinsinn minn hóstaði og hóstaði, með ljótan og dimman hósta sem virtist ekkert passa við lítinn skrokkinn. Jebb, þessi hósti hljómaði ekki vel.

Og nú er komið í ljós að eyrun mín höfðu rétt fyrir sér. Því eftir því sem leið á nóttina fann ég prinsinn hitna meira og meira og hósta dýpri og dýpri hósta. Ekkert annað að gera en að hringja hann inn veikan í morgun og ekkert annað fyrir mig að gera en að hanga heima með honum. Af tilefni af þessu öllu lagðist ég svo bara aftur á koddann í morgun og við sváfum til hálf ellefu.

Það er því spennandi dagur framundan hjá okkur. Við erum að reyna að ákveða hvenær við eigum að henda okkur í smá tiltekt í barnaherberginu og hversu lengi við eigum að góna að barnaefni í sjónvarpinu. Allt saman mjög svo spennandi ákvarðanir.

Og þetta varð svo líka til þess að ég komst ekki niðrí Seðlabanka í morgun eins og ég ætlaði mér. Sem var sennilega bara alveg ágætt því annars væri ég kannski sjálf orðin veik af því að þurfa að hlusta á Bubba. Úfff... en það kemur dagur eftir þennan dag og vonandi næ ég nú að leggja þessu eitthvert lið.

Sem betur fer eru eyrun núna að hvísl að mér að prinsinn verði örugglega fljótur á lappir aftur enda er hann þokkalega hress þar sem hann situr á leikfimiboltanum og syngur "This is my life..." og hóstar sama og ekki neitt.


Sérðu mig? En núna?

Við vorum að fá nýtt "dót" í vinnunni. Verið að setja upp innanhús-samskiptaforrit á netinu. Mjög spennandi. Ég og líffræðingurinn drifum okkur í að setja þetta uppá föstudaginn, enda eyjamaðurinn búinn að gera athugasemd við að ekki væri hægt að tala við mig í gegnum þetta skemmtilega samskiptaforrit.

Við byrjuðum á að setja þetta upp. Ég í minni tölvu. Líffræðingurinn í sinni. Við sitjum hlið við hlið í vinnunni og bara um það bil meter á milli stólanna okkar... það er að segja þegar við sitjum ekki saman við eina tölvu. Nú, og þegar við vorum búin að setja forritið upp var komið að því að prófa.

"Heyrirðu í mér?", spurði líffræðingurinn mig. "Já, ég heyri vel í þér...", svaraði ég og hélt svo áfram: "Heyrir þú í mér?" "Nei, ég heyri ekkert í þér... bíddu, ég breyti... prófaðu að segja eitthvað aftur...", svaraði líffræðingurinn. "Halló! Halló! Heyrirðu í mér?", sönglaði ég í míkrafóninn og brosti til líffræðingsins um leið. En ekkert gekk. Og svona hélt þetta áfram um skeið. "Heyrir þú í mér ennþá?", spurði líffræðingurinn. "Já, heyrir þú í mér?", svaraði ég. "Nei! Það hlýtur að vera eitthvað bilað hjá þér...", svaraði hann. Pínulítið spaugilegt þar sem við sátum hlið við hlið með innan við meters bil á milli okkar og heyrðum auðvitað ósköp vel hvort í öðru... bara ekki í heyrnartólunum. Líffræðingurinn renndi sér til mín og fiktaði í stillingunum hjá mér... "Segðu eitthvað!", skipaði hann. "Eitthvað... Eitthvað... heyrirðu núna?", sönglaði ég og gjóaði augunum á hann þar sem hann sat um það bil tuttugu sentimetra frá mér. Hann hristi kollinn vonsvikinn að sjá.

Nú var þetta orðið þreytandi og við snérum okkur að því að prófa að deila tölvunum eins og á að vera hægt að gera með þessu sniðuga forriti. "Sérðu mig?", spurði líffræðingurinn. Ég leit af honum á skjáinn: "Já, þarna ertu... sé þig!" Ég prófaði til baka: "Sérðu mig?". Enn heimskulegra að sitja og spyrja þessara spurninga, auðvitað sá hann mig og heyrði í mér... bara ekki á skjánum og ekki í heyrnartólunum.

Skyndilega varð stórbreyting á... Ég byrjaði að hljóma í hátalaranum hjá líffræðingnum. Geðveikt! Nú gat ég setið við hliðina á honum, sungið Daloon lagið og það ómaði í hátalaranum. Bibba stakk inn hausnum og virtist ekki finnast við neitt sérstaklega gáfuleg með "Sérðu mig"... "Heyrirðu í mér" spurningunum og mig á fullu blasti í hátalaranum. "Ég er ein í hátalarnum...", gaulaði ég og líffræðingurinn var farinn að svitna við að reyna að ná mér úr hátalaranum og í heyrnartólin. Á endanum náðum við þessu og bara af einskærri gleði ákváðum við að hafa samskipti þarna í gegn í nokkurn tíma á eftir...


Af frægum og fullum...

Við sátum í bíl á rauðum ljósum, tilbúin að kíkja á heiminn... skoða lífið. Skyndilega rennur upp að hliðinni á bílnum fullur bíll af sætum strákum. Þeir brosa til okkar. Veifa til okkar. Ok! Cool! Einn þeirra rennir niður rúðunni og gefur okkur skýr merki um að gera hið sama. Vá, við varla lögð af stað og strax sætir strákir sem geta ekki hamið sig. Við rennum niður rúðunni. "Hey!", kallar strákurinn við gluggann: "Hey! Er þetta ekki Mugison aftur í hjá ykkur?"

Ég og Rebbý litum hvor á aðra og skelltum uppúr og kölluðum til baka: "Júbb, einmitt! Þið þekktuð hann..." Svo brunuðum við af stað aftur. Kindabóndinn sat nokkuð rogginn aftur í. "Mugison? hmmm, þetta hef ég ekki heyrt áður...", sagði hann og hélt svo áfram: "Ég hélt þeir hefðu áhuga á ykkur en svo var það bara ég sem þeir voru að spá í". Þetta litla atvik nægði til að skemmta okkur langleiðina niður í bæ þar sem stefnan var sett á Boogie nights. Stefnan að dansa.

Og við dönsuðum og dönsuðum. Við túlkuðum lög og tilfinningar í áhrifamiklum dansi og reyndum jafnvel að dansa lífsblómsdansinn. Eina vandamálið var að það voru fleiri í sömu erindagjörðum og við. Jebb, dansgólfið var yfirfullt af mistillitsömum dönsurum. Svo við fengum okkar skerf af hrindingum, olnbogum, höfuðskellum og Rebbý tókst meira að segja að verða fyrir fljúgandi kertastjaka sem einn dansherran sveipaði af stað með jakkanum sínum.

Til að hvíla okkur á dansinum kíktum við á fleiri staði, bara svona til að sjá hverju við værum að missa af. Stoppuðum aðeins á Dubliners þar sem við náðum að skemmta okkur ljómandi vel þrátt fyrir skrítinn samansöfnuð af fólki. "Farðu á barinn... og sæktu manninn fyrir mig í leiðinni...", sagði Rebbý og vildi fá að spjalla aðeins meira við krúttulega sénsinn sem hún hafði rétt svo stungið af þegar hún settist með mér og kindabóndanum.

Ég trítlaði af stað. Renndi augunum yfir karlmennina sem stóðu við barinn. Úbbbss, ég er ekki mjög mannglögg. Hér var meira en nóg af karlmönnum og ég átti að sækja einn ákveðinn. Ég stillti mér upp við barinn og beið afgreiðslu. "Ég er hræddur...", hvíslaði maður í eyrað á mér.. Ég leit við og spurði: "Við hvað ertu hræddur?" "Bara allt, hræddur við að vera hér inni....", svaraði hann og hélt svo áfram að blaðra. Ég horfði á hann... hmmm, var þetta ekki bara maðurinn sem ég átti að sækja. "Hey, komdu með mér að borðinu okkar...", sagði ég frökk og held að mér hafi tekist að koma Rebbý hressilega á óvart með að drösla manninum til baka.

Það kom reyndar í ljós að maðurinn var ekkert sérlega skemmtilegur og jafnvel hálf ruglingslegur.... svo á meðan kindabóndinn brá sér á salernið hafði Rebbý útskipti. Út með hrædda manninn og inn með unga manninn. Kindabóndinn skellti sér við hliðina á mér ég bekkinn og starði í undrun á unga manninn: "Hey! Sat ekki annar hér fyrir mínútu síðan? Hvað gerðist?"

Við enduðum svo á meira balli með meiri dansi... meiri dansi.. meiri troðningi... Og þreytta fólkið sem ætlaði bara rétt að kíkja í bæinn svona á föstudagskvöldi endaði með að vera fram á morgun. Þreytt, kát og sæl. Jebb, stundum er óskipulögðu kvöldin bara þau skemmtilegustu og við þrjú höfðum svo sannarlega náð að hafa gaman.


Ég lendi í tímaflakki

"Ég býð ykkur góðan dag á þessum fallega fimmtudagsmorgni, 5. febrúar...", sagði þulurinn í útvarpinu. Ég var nærri búin að keyra útaf... Fimmtudagur? 5. febrúar? Í alvörunni? Sko ég mundi eftir að það var þriðjudagur... en ég mundi ekkert eftir miðvikudeginum. Ok, ég er búin að vera þreytt en gat verið að ég hafði verið svo þreytt að ég hafði sofið af mér miðvikudaginn? Og var ég þá búin að fara með barnið á réttan stað? Hvað með verkefnin?

"Er fimmtudagur?", kallaði ég til líffræðingsins um leið og ég mætti.. enginn tími til að bjóða góðan daginn. Hann leit á mig, örlítið hissa á svip, og svarði svo rólegur: "Nei, Vilma. Það er miðvikudagur". "Hjúkk!", stundi ég og hlammaði mér í stólinn. Hjúkk... ég var ekki bún að týna heilum degi úr lífinu.

Ég sagði líffræðingnum frá ruglaða útvarpsþulinum. hann hristi hausinn og sagði: "Þetta er ástæðan fyrir því að plötukynnar í útvarpinu eiga ekki að vera að gaspra". Ég er bara að spá, hversu margir ætli hafi haldið að þeir hefðu týnt degi eins og ég í morgun.


Dúllurnar mínar!

Um helgina fór ég í afmæli, sem endaði sem sérlega ánægjulegt kvöld með sérlega skemmtilegum stelpum. Þarna sátum við og blöðruðum um allt á mili himins og jarðar. Kalmenn, hannyrðir, mataræði, nám... hvað sem er... Og mitt í öllu blaðrinu duttum við eiginlega niður á fullkomna pick up línu fyrir karlmenn... fullkomin pick up lína fyrir góðar hannyrðakonur.

Og svona yrði það:

Hún situr ein við barinn. Hún er snyrtilega klædd, kannski í svörtu pilsi - ekkert glannalegu stuttu - og í huggulegum topp. Þarna situr hún, frekar kæruleysisleg, og drekkur flottan kokteil í gegnum rör. Hún er klárlega ein á ferð og vekur athygli karlmanna á staðnum.

Hann ákveður að kæfa óttann, og sest við hliðina á henni. Hún horfir í hina áttina og fitlar við rörið. Hann ræskir sig, vonar að hún líti við honum. Hann nær að klára bjórinn áður en hún virðist taka eftir honum. Skyndilega lítur hún á hann og brosir. Hann notar tækifærið, kynnir sig, er djarfur og bíður henni í drykk.

Og þarna eiga þau notalega stund við barinn. Hann álítur sig frekar heppin. Kannski á hann möguleika. Hann vegur og metur aðstæðurnar á meðan þau spjalla um dagleg mál. Ætti hann að bjóða henni í dans? Ætti hann að biðja um símanúmerið? Og þá, þegar hann er í miðju ákvörðunarferli, kemur hún honum á óvart. Hún horfir á hann seiðandi og leggur aðra höndina á læri hans og spyr: "Viltu koma með mér heim og sjá dúllurnar mínar?"

Það liggur við að það standi í honum. Vá! Fara með henni heim... sjá "dúllurnar".. það liggur við að þetta sé ósiðlegt tilboð.... hversu fljótt geta þau komist út? Hann nær ekki að koma upp orði, en kinkar kolli, ákaft. Það er allt of langt síðan hann hefur litið "dúllur" augum. Saman hlaupa þau að næsta leigubíl og bruna heim.

Þau leiðast upp að íbúðinni hennar og hún leiðir hann að sófanum. Hún biður hann um að láta fara vel um sig á meðan hún hafi sig til og blikkar hann. Hann andar ört á meðan hún hverfur inní herbergi. Á hann að fara úr einhverju? Á hann að halla sér aftur? Er þetta virkilega að gerast?

Og áður en hann veit af er hún mætt aftur... hún tiplar til hans og hefur ekki augun af honum á meðan... gengur að honum. Og honum til mikillar furðu dreifir hún úr hekluðum dúllum á stofuborðið. Blikkar hann svo og segir: "Þú hefur ekki séð svona flottar dúllur lengi, er það?"

Það þarf varla að taka fram að við ætlum allar að skrá okkur á námskeið í hekli hjá heimilisiðnaðarfélaginu...


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Vilma sjálf

Höfundur

Vilma Kristín
Vilma Kristín
The Worrying kind
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband