Færsluflokkur: Bloggar

Með heiminn á herðunum...

"Þið vilduð bara hitta mig aftur...", kallaði verndarengillinn til okkar hlæjandi frá pallinum. Þarna var hann mættur aftur, dagur tvö í afslöppun, kalda vatnið horfið og við búnar að kalla út viðgerðarmanninn. Hann byrjaði á að skoða stillingar. Örugglega allt frosið. Tengikassinn opnaður og skoðaður. Úbbbssss. Nei, þarna sprautast vatn í allar áttir. Kíkja á kranana. Fullt af vatni. Úbbsss. Þarna vorum við búnar að sitja án kalda vatnsins meiri hluta dagsins, kalla út viðgerðarmann, láta hann keyra langa leið... bara til að komast að því að vatnið hafði verið tekið af sveitinni og small aftur í kranana um það leiti sem verndarengillinn renndi í hlað. En það var allt í lagi, við höfðum gaman af því að fá hann aftur í heimsókn.

Við fylgdumst spenntar með aðförum verndarengilsins. Fylgdumst með og reyndum að læra. Kíktum yfir öxlina á honum, gægðumst fyrir horn. Prinsinn hoppaði upp og niður af spenningi yfir þessu öllu saman og skríkti af kátínu þegar vatnið sprautaðist úr tengikassanum. Þetta var sko ævintýri.

Á laugardaginn var enn frost en til að gera eina tilraun, örvæntingarfulla tilraun, kveiktum við á rennslinu í pottinn. Kannski, bara kannski, væri þiðnað í leiðslunum. Potturinn kallaði á okkur: "komið inn... komið inn..." Við störðum ofan í tóman pottinn með vonarglóð í auga. Kannski, bara kannski, færi vatnið að renna. Kannski, bara kannski, myndi hann fyllast af heitu dásamlegu vatni sem við gætum buslað í. Ekkert gerðist.

Hvað var nú til ráða? Innst í einhverju skoti hugans kviknaði hugmynd. Hmm, við höfðum fylgst með. Og svo tók við "operation heitur pottur". Okkur leið eins og við værum pínulítið óþekkar þegar við fórum útí verkfærageymslu og sóttum verkfæri og slöngu. Svo héldum við inná baðherbergi þar sem vaskur var snögglega aftengdur, slöngunni komið fyrir uppá rörinu og hert að. Jebb. Allt tilbúið. Þegar heitt vatn var farið að streyma úr slöngunni skoppaði ég upp fyrir bústaðinn og gerði mig til. Ég fikraði mig nær, lagðist á magann og smeygði mér innum lítið gat. Og þar með byrjaði ferðalag mitt undir bústaðinn.

Steinarnir á jörðinni voru beittir og skárust inní hnén og lærin. Með slönguna sem úr sprautaðist heitt vatn í annari hönd mjakaði ég mér áfram á maganum í átt að rörum sem lágu úr heita pottinum. Ég mundaði slönguna og sprautaði á rörin. Slangan hitnaði og hitnaði og ég varð að biðja Rebbý að koma með tusku til að setja utan um slönguna. Eftir nokkra stund mjakað ég mér lengra. Æ, sprautði óvart á hausinn á mér. Kom mér betur fyrir, ef hægt er að segja það. Hélt áfram að sprauta heitu vatni á rörin. Heitt vatn lak um allt og ég fann að ég lá í polli af heitu vatni, um það bil að brenna mig á maganum. Að mér sóttu óþægilegar hugsanir þar sem ég rifjaði upp samtal mitt við líffræðinginn frá því daginn áður. Mýs. Væru mýs undir bústaðnum? Hvað ætti ég að gera ef þær kæmu?

Komið að mér að færa mig aftur, undir fleiri bita. "Æ!", hljóðaði ég: "Ég er föst..." Þarna lá ég ofan í polli af heitu vatni, föst undir bita... föst undir sumarbústað. Ég reyndi að ýta mér áfram með takmörkuðum árangi. Ég heyrði Rebbý veina af hlátri af pallinum... "Á ég að hringja á björgunarsveitirnar?", kallaði hún og ég reyndi að hemja hláturinn. Það er annars frekar óþægilegt að liggja fastur, rennandi blautur undir sumarbúsað.. dauðhræddur um að ein lítil mús stingi upp kollinum. Ég andaði eins mikið frá mér og ég gat og tókst einhvern veginn að bakka til baka. Jebb, ég kæmist ekki lengra hér. Ég mjakaði mér á maganum til baka og greip andann á lofti þegar ég fór beint úr heitum pollinum í ískaldan snjóinn.

Komið að því að færa sig og skríða undir hinu meginn. Rebbý kom slöngunni út hinu meginn á meðan ég reyndi að labba þanngað og hunsa það buxurnar voru að frjósa utan á mér. Þegar ég opnaði gatið hinu megin til að skríða undir mætti mér volgur lækur. Hmm... skrítið... ég skreið undir og kannaði aðstæður. Ó! Þarna var rör í sundur! Rörið sem átt að leiða heitt vatn í heita pottinn var alveg í tvennt. Ekkert annað að gera en að vera frumlegur. Ekki veit ég hvernig ég fékk þá flugu í höfuðið að ég hefði hæfileika sem pípulagningarmaður... en þarna lá ég undir bústaðnum, reyndi að hunsa það að ég var blaut og bæði köld og heit, hunsa það að vinnuaðsætður væru ömurlegar og að vöðvabólgan í öxlunum æpti á mig. Hunsa að grjóið undir mér var beitt og skar mig. Nei, ég full sjálfstraust. Ég meina hversu erfitt getur reynst að skeyta saman röri?

Uhh, það reyndist bara ansi snúið. Og eftir langan tíma og margar tilraunir varð ég að játa mig sigraða. Kannski ég ætti að skrá mig í kvöldskóla í pípulagningar, svona til að vera betur tilbúin. Það er merkilegt hversu fljótt heitt vatn frýs. Frýs í fötunum mínum, utan á mér. Og ísköld bögglaðist ég inní bústað, hoppaði í náttfötin og reyndi að koma í mig hita. Kannski ég færi bara aftur á morgun og reyndi aftur...


Verndarengill á vetrarkvöldi

Það var nístingskuldi. Nístingskuldi. Ég andaði frá mér og fylgdist með andadrættinum breytast í þétta gufu. Svo hjúfraði ég mig aðeins betur ofan í sófann og dró eina sængina betur upp að andlitinu. Ég teygði vinstri höndina varlega undan sængunum og undir aðra hrúgu, þreifaði mig áfram undir sængur, inn undir ullarteppi og létti þegar ég fann heitar tær á prinsinum. Kippti höndinni til baka undir mína sængurhrúgu. Það var kalt. Ískalt.

Ég leit til hliðar á Rebbý sem hálf lá í sófanum við hliðina á mér, hún kíkti aðeins undan sænginni sem hún var með breidda upp fyrir haus. Hún andaði frá sér, flissaði yfir gufunni og nikkaði til mín. Ég brosti til baka. Var þetta ekki alveg týpískt fyrir okkur? Svo reyndum við að gera aðgerðarplan, svona plan A... plan B...

Þarna vorum við staddar lengst uppí sveit. í afslöppunarferð. Í sumarbústað. Á köldu vetrarkvöldi. Nístingsköldu vetrarkvöldi.

Ferðin hafði byrjað vel. Ég var reyndar meira en klukkutíma of sein heim úr vinnunni, kemur kannski sumum ekki á óvart. Svo var ég ekki alveg búin að pakka, enda óskipulögð með afbrigðum. Svo áttum við eftir að versla smá mat. Okkur var boðið uppá Daloon vorrúllur í búðinni og konan með kynninguna uppskar Daloon lagið í kaupbæti. Svo brunuðum við... á hæfilegum hraða... austur á bóginn. Tilbúnar að slaka á í 3 daga, liggja í heita pottinum, sofa, borða góðan mat, góna á kellingarmyndir og leysa lífsgátuna. 3 dagar í að gera ekki neitt.

Ég veit ekki hvort ég get mælt með því að reyna að finna sumarbústað í myrkri að vetri til í ómerktu sumarhúsahverfi eftir dularfullu korti. "Er það kannski þessi gata?", spurði Rebbý. "Er þetta gata?", svaraði ég. Svona þvældumst við góða stund um. í gegnum skafla, upp brekkur, hægri beygjur, vinstri beygjur. "Eru engar merkingar?" Við vorum nú ekkert á því að gefast upp svo við héldum áfram að reyna að láta hverfið passa við kortið. "Erum við komin?", gaulaði prinsinn úr aftursætinu í þúsundasta sinn. Þetta ævintýri okkar um sumarhúsahverfið skilaði þó einu. Jebb, Rebbý er orðin ótrúlega góð að bakka upp brekkur, í snjó á myrku kvöldi eftir ótrúlega margar svoleiðis ferðir. Við vorum sko ekkert að keyra bara beint áfram...

Loksins fundum við bústaðin. Fullar af eftirvæntingu stukkum við útúr bílnum og hömuðumst við að bera allt inn, ganga frá á rétta staða. "Ahhhh...", heyrðist í Rebbý um leið og við hentum okkar á sófann. "Er ekki svolítið kalt?", spurði ég. Við höfðum nú farið eftir öllum leiðbeiningum um stillingar og vorum búnar að hækka á ofnunum. Við gerðum skyndiathugun. Allir ofnar ískaldir. Ískaldir. Út í hitageymslu. Á þetta að vera svona? Á þetta að vera hinseginn? Var að renna heitt vatn? Eða ekki?

Á endaum urðum við að gefast upp. Hringja í Verndarengilinn okkar. Viðgerðarmanninn vígalega. Hann sagðist ætla að bruna til okkar. Væri ekki nema klukkutíma akstur frá. Vandamálið núna var að það var yfir tíu stiga frost úti. Og yfir tíu stiga frost inni. Prinsinn að sofna og við að frjósa. Prinsinum var hið snarasta pakkað kyrfilega inn í ullarteppi og sængur. Og við tók biðin kalda. Við styttum okkur stundir við að búa til gufu og reyna að horfa á sjónvarpið. Og tala um hvað okkur væri kalt.

"Bíll! Hann er kominn!" Við höfum aldrei verið jafn glaðar að hitta nokkurn mann. Verndarengillinn brosti og hóf strax störf. Eftir rúman hálftíma vorum við komnar með heitt vatn... og um klukkan tvö um nóttina var líka komið kalt vatn. Þvílíkur lúxus. Verndarengillinn hló að okkur og gerði lítið úr áhyggjum okkar af því að halda honum vakandi langt fram á nótt. Ekkert mál fyrir svona menn að stökkva af stað að bjarga dömum í neyð.

Við kúrðum áfram undir sængunum og biðum eftir að hitinn bærist um húsið. Hægt og rólega jókst hitinn og fjögur leitið kominn nægilegur hiti til að við treystum okkur til að skríða uppí rúm og bíða spenntar eftir næsta degi í afslöppunarhelginni miklu.


Matur í bílnum

"Nú verð ég að keyra eins og manneskja...", stundi Rebbý um leið og hún lokaði skottinu. Ég leit á hana hneyskluð: "Hvað af því að það er matur í bílnum? Þurftiru ekki að keyra eins og manneskja með mig og prinsinn í bílnum?" Rebbý flissaði og viðurkenndi það.

Strætisvagninn sem var fyrir framan okkur á leiðinni heim tók óratíma í að skipta um akrein, hægði á sig og gerði sitt allra besta til að vera fyrir okkur. Rebbý skammaðist pínulítið: "Hann átti fyrir löngu að vera kominn yfir á hina akreinina..." Ég leit á hana og svaraði að bragði: "Ja, kannski er hann að keyra varlega... hann gæti verið með mat í bílnum" "Ég fæ aldrei að gleyma þessu, er það nokkuð?", flissaði Rebbý og tók glannalega sveigju á milli akreina.


Enda...hvað?

"Mamma, hver er tilgangurinn með að hafa þetta skilti þarna?", spurði heimasætan mig og benti um leið á botnalangaskilti. Ég virti skiltið fyrir mér og, jú, staðsetningin á þessu umferðarskilti örlítið undarlega. Útúr kú kannski. Við sátum í bíl á bílastæði og biðum eftir sætukoppi. Og þarna, inn á því sem var greinilega bílastæði fyrir mér og heimasætunni var botnlangamerki, þrátt fyrir að við hefðum keyrt fram hjá einu slíku þegar við beygðum uppað bílastæðinu. Og ekki nóg með að þetta væri annað botnlangamerkið í röð og væri á bílastæði, þá var það líka hálffalið bak við tré. Ég sá fyrir mér að á sumri til með tréð í fullum skrúða væri erfitt að sjá þetta annars ljómandi fína merki.

Ég reyndi að finna skýringu fyrir heimasætuna, en átti erfitt með það. Þetta virtist eitthvað svo tilgangslaust. Svo datt skýringin bara í kollinn á mér, fyrirhafnarlaust. Ég snéri mér að heimasætunni og sagði: "Það er af því hér býr ríkt fólk og þá þarf að setja niður ákveðið mikið af skiltum. Skilurðu?" Heimasætan kinkaði kolli, glettin á svip. Svo hélt ég áfram: "Aftur á móti búum við í svona verkamannahverfi. Þar eru ekki til peningar fyrir neinum skiltum, ekki einu sinni biðskyldum" Heimasætan skellti uppúr. Við búum nefnilega í örugglega stærsta "hægri rétts" hverfi landsins, maður þarf alltaf að vera að vara ferðalanga við... "Passa sig, hér er hægri réttur... jafn skrítið og það er..."

Sætukoppur kom nú skoppandi inní bílinn og fékk uppfærða útskýringu á skilti ríka fólksins, þó hann vildi nú ekki kannast við að þarna byggi sérlega ríkt fólk. Eftir smá umræður sættumst við á það að þetta væri allt eitt allsherjar samsæri á vegum vegagerðarinnar sem væri að sjálfsögðu stýrt af vonda vonda sjálfstæðisfólkinu. Samsæri um að láta auðvaldssinna heimsins njóta óhóflegra skilta á meðan almúginn keyrir hver á annan af því að það eru ekki til biðskyldur...


Ó nei, ekki annar dagur...

"Ég veit hvað er að þér!", sagði líffræðingurinn sigri hrósandi, spratt á fætur og strunsaði fram. Ég lá fram á borðið mitt og andvarpaði. Ég var til í næstum hvað sem var til að fá einhvern kraft, til að geta allavega sest uppí stólnum mínum. Á skammri stundu kom líffræðingurinn til baka, vopnaður kexkökum og banana, og skipaði mér að borða þetta. Hratt. Ég væri í blóðsykursfalli. Hlýðin og góð tróð ég kökunum uppí mig eins hratt og ég gat. Skolaði þeim niður með vatni. "Ég get ekki borðað... mér er svo flökurt...", vældi ég. Fékk skipun til baka að borða þetta bara víst, flökurleikinn væri bara gerfitilfinning, mér myndi líða betur. Og mikið rétt, eftir smá stund fór ég að verða hressari. Af hverju ég hrapaði svona í blóðsykri er bara leyndardómur því ég hafði alveg passað mig á að borða, en svona er víst lífið.

Ég gat allavega setið við borðið þó að ég væri enn máttlítil, með höfuðverk og svima. Við færðum okkur inní fundarherbergi til að ganga frá verkefni sem við áttum að leysa. Þrátt fyrir að vera orðin mikið hressari fékk ég ekki aftur lit í andlitið. Ég fékk ekki aftur máttinn. Ég losnaði ekki við svimann. Og það sem verra var, ég gat ekki haldið mér almennilega vakandi. Ég dottaði í stólnum. Ég dottaði fram á borðið. Ég reyndi að fara út og fá mér súrefni. Örvæntingarráðið var að reyna að slá sjálf á lyklaborðið. Á endanum játaði ég mig sigraða. Líffræðingurinn keyrði mig heim þar sem ég var ekki í ökuhæfu ástandi. Ég varla náði heim áður en ég skilað kexkökunum og öllu öðru, skreið uppí rúm og rankaði ekki við mér fyrr en um átta leitið.

Ég náði því að vera veik annan daginn í röð. Bara allt önnur veiki, ég virðst bara vera að hrynja niður þessa dagana. Ég er pínupirruð á þessu... langar ekki að bloggið breytist í sjúkrasögu Vilmu. Get ekki beðið eftir að komast í langt helgarfrí og slaka á í nokkra daga.


Kattadómari til bjargar

Ég engdist um og reyndi að anda. Anda rólega. Það hlaut að vera málið. Unglingarnir horfðu á mig með áhyggjusvip. "Á ég að blanda meira?", spurði heimasætan og ég kinkaði kolli. Heimasætan kom til baka að vörmu spori með fullt glas af "meðali" (vatn og matarsóti)... Ég drakk það án þess að gretta mig, allt fyrir smá slökun á verkjunum sem ætluðu ekkert að fara.

En "meðalið" ætlaði ekkert að virka. Heimasætan strauk mér um bakið og spurði hvort ég vildi ekki fara til læknis. Ég hristi hausinn. Fara til læknis? Nei, nei. Þetta myndi örugglega líða hjá. Tíminn leið. Ég fann enga stellingu sem mér leið bærilega í. Anda. Anda rólega. Ég reyndi að standa. Ómögulegt. Sitja. Ómögulegt. Liggja. Ómögulegt. Á endanum virtist besta stellingin vera að sitja í indjánastellingu á gólfinu og halla höfðinu fram á við upp að sófanum og hélt um bringuna. Mjög virðulegt.

"Ég er að deyja...", hugsaði ég og eftir rúman klukkutíma af þessu gafst ég upp. Vælandi hringdi ég í kennarann og kattadómarann, ég treysti mér engan veginn í að keyra. Kattadómarinn birtist örstuttu seinna heima hjá mér, áhyggjufullur á svip, og brunaði með mig til læknis. Manneskju með brjóstverki er kippt framfyrir á biðstofunni og fær þessa fínu skoðun.

Ungi læknirinn potaði, hlustaði, potaði meira, hlustaði meira... og komst að þeirri niðurstöðu að ég væri ekki að fá hjartaráfall, ekki í þetta sinn. En í staðinn er ég kominn með magasýru í vélindað sem einmitt veldur þessum ótrúlega skemmtilegu einkennum. Send heim með tvenns konar lyf, sem ég þarf að taka samviskusamlega í 3 vikur. Eftir það þarf ég meiri skoðanir til að sjá hvort þetta gerist aftur og hvort það þurfi að grípa til aðgerða. Allt mjög spennandi, not.

Frammi beið þolinmóður og áhyggjufullur kattadómari sem fylgdi mér aftur heim og í bónus fékk ég skemmtilegar samræður við vininn minn. Alltof sjaldan sem ég á gæða tíma með honum. Verst að þurfa að verða veikur til að ná honum :)

Núna líður hins vegar mikið betur, kannski af því er ég búin að taka bæði lyfin sem ég að hægja á framleiðslu magasýru og lyfin sem ég að slá á einkennin frá vélindanu. Eina sem ég er að spá er afhverju læknirinn ákvað að láta mig taka tvöfaldan leyfilegan skammt... ja, hvað um það... ef það virkar þá er það bara frábært.


í ökkla eða eyra...

"Svona er lífið, Vilma, annað hvort í ökkla eða eyra...", sagði sálfræðingurinn við mig, hallaði sér aftur í stólnum og hló. "Má ég þá frekar biðja um að hafa það sem oftast í eyra", svaraði ég að bragði og glotti við. Við eigum okkar reglulegu spjöll þar sem við ræðum lífið og tilveruna... og auðvitað vinnuna þar sem hann er yfirmaður minn. Þvílíkur lúxus að hafa sálfræðing við höndina, sérstaklega fyrir fólk eins og mig.

En það er þetta með ökkla eða eyra, það á við svo margt. Í alltof langan tíma var ég þyrnirós, mátti ekki setjast niður án þess að sofna. Lagði mig á hverjum degi auk þess að þurfa að lágmarki 9 tíma svefn hverja nótt. Já, þurfti helst að sofa hálfan sólarhring til að líða vel. Skyndilega var svo slökkt á þyrnirósar hlutverkinu. Og síðustu viku hef ég sofið allt allf of lítið.

"Ég var að hugsa í nótt....", byrjaði ég og leit á líffræðinginn sem sat á sínum vanalega stað við hliðina á mér. Hann hló við: "Vilma, í nótt? Ertu hætt að sofa?" Ég kinkaði kolli og hélt svo áfram að segja honum frá því sem ég hafði verið að spá. Á hverjum morgni hef ég mætt í vinnuna með nýjar hugmyndir eða lausnir sem ég hef náð að finna um nóttina, liggjandi andvaka uppí rúmi. Eiginlega kann ég betur við þetta ástand heldur en þyrnirrósar ástandið.

Svo kom ég heim úr vinnunni í gær, settist niður og það slökknaði á mér. Síðan hef ég varla vaknað. Ég bara settist niður og varð að fara að sofa. Rebbý hringdi og reyndi að tala við mig... mig rámar í að hafa reynt að svara einhverju. Unglingarnir potuðu í mig og báðu um mat. Ég bað um að fá að sofa aðeins lengur. Kattadómarinn hringdi og ég gat varla opnað augun á meðan ég talaði við hann. Einhvern veginn tókst mér nú á endanum að komasta á fætur og elda heimsins besta lasagne og var svo að detta inn og út allt kvöldið. Ég svaf eins og steinn í nótt og lagði mig svo í dag.

Svo nú auglýsi ég eftir svefnjafnara. Svona svo ég geti jafnað þetta pínulítið út. Það e ragalegt að vita ekki hvort ég þarf að sofa hálfan sólarhringinn eða bara 4 tíma. Væri flott ef það væri eitthvað svona tæki sem ég gæti bara stillt... einhver?


Allt er fertugum fært.

Eyjamaðurinn andvarpaði og horfði fram fyrir sig með örlitlum mæðusvip. Svo leit hann á mig, yppti öxlum, glotti og sagði: "ohh, jæja..." Svo dró hann inn magann og gerði heiðarlega atlögu. Hann skáskaut sér inná milli bílanna. Ég stóð í öruggri fjarlægð og fylgdist með. Passaði mig samt á að verða ekki fyrir fólksbílum sem skutust um og passaði mig líka á að verða ekki fyrir flutningabílunum sem voru útum allt.

Ég glotti á meðan eyjamaðurinn gerði þessa skemmtilegu tilraun. Hann snéri framhlutanum að bílnum okkar, opnaði varlega bílstjórahurðina og stakk öðrum fætinum inn og ýtti sér áfram. Hann hristi kollinn í uppgjöf, lagði hurðina aftur og fikraði sig til baka. Hann stóð fyrir aftan bílinn smá stund og mat ástandið. Ég rúllaði augunum og sleppti því að gera athugasemd um stirða miðaldra menn... (maðurinn er nú einu sinni orðinn fertugur!). "Gott að það er nægt pláss hjá þér... ", sagði hann hugsandi og gaf mér snögg augnaráð.

Eftir að hafa metið ástandið stutta stund gerði eyjamaðurinn aðra tilraun. Í þetta sinn snéri hann bakhliðinni í átt að bílnum okkar, opnaði hurðina... varlega... Ég skoppaði að minni hurð og reif hana upp, nóg pláss. Í gegnum opinn bílinn fylgdist ég með aðförum eyjamannsinn. Hann stakk öðrum fæti inní bílinn. "Viltu kannski koma inn mín meginn?", spurði ég og glotti. Eyjamaðurinn hélt áfram, einbeittur. Á eftir fætinum fylgdi afturhlutinn. Nú var hann kominn hálfur inní bílinn... og var hálfur fyrir utan hann. Ótrúlega fimur samt. Í vinstri hönd hélt hann á möppu, hátt á lofti. Smá saman smaug hann lengra og lengra inní bílinn þar til ekkert var eftir fyrir utan nema mappan. Sjúmmm... og hún hvarf inní bílinn líka.

"Þetta var ótrúlega þokkafullt...", sagði ég hálf hlæjandi um leið og ég hlammaði mér í sætið. Eyjamaðurinn nikkaði til mín, nokkuð búralegur. Næst tók við að ná bílnum útúr ofurþrönga stæðinu þar sem hann stóð hættulega nálægt næsta bíl, bak við okkur hafði einhver lagt flutningabíl og hvergi var mikið pláss. Eyjamaðurinn sýndi fádæma færni og lipurð þegar hann mjakaði bílnum út og kom okkur öruggum útaf þessu bölvaða bílastæði.


aaaffffffslöppun

Eftir deildarpartýið á föstudagskvöldið, matarklúbbinn á laugardagskvöldið og heimsóknarkvöldið á sunnudagskvöldið ákvað ég að nú ætti ég skilið hvíld. Hún felst í því að gera bara sem allra allra minnst heima. Barnlausa helgin sem hefði átt að vera notuð í hvíld var notuð i allt allt annað. Og áður en kom að henni hafði ég staðið á hvolfi að "taka til"... svona my way. Svo í kvöld vaksaði ég bara upp einn vask og skyldi afganginn bara eftir skítugan. Hitaði bara upp afganga í staðinn fyrir að elda.

Svo fór ég í heitt og gott bað. Lengi. Lengi. Ég stal freyðibaði frá heimasætunni og sat á baðbrúninni og beið eftir að geta hoppað ofan í. Ég held að það sé ekki til betri leið til að slaka á en að liggja í heitu baði og hlusta á góða tónlist (já, ég er með frábæran tónlistarsmekk). Ég náði hinni fullkomnu afslöppun, held ég hafi alveg náð í einn auka bar í betteríið mitt.

Prinsin hoppaði upp og niður, upp og niður, og heimtaði að fara í bað líka. Líka með froðu. Og með bát. Og með hákarli. Og veiðimanni. Ég prílaði uppúr mjúka fína freyðibaðinu mínu til að gera til fyrir prinsinn. Unglingafreyðibaðið hafði skemmtilega aukaverkun. Mér fylgir dásamleg kókóslykt um allt og í raun er ég eins og risakókósbolla... namm namm...

Segið svo að ég kunni ekki að kúpla mig út og hvíla mig. Reyndar notaði ég tímann í baðinu til að rifja upp "verkefnið" síðan í fyrra sem á eins árs afmæli um þetta leiti. Ég spáði líka aðeins í verkefnið sem er í gangi í Bretlandi. Og fyrirspurnunum frá Ástralíu. Og greiningunum sem ég á að vera að vinna í... ætti ég kannski að tengjast í vinnuna og vinna smá?


Skál fyrir ábúanda!

Hópur af fólki var samankominn í stofunni hjá mér. Allir lyftu glasi og líffræðingurinn sagði hátt og skýrrt: "Skál fyrir ábúanda". Ég brosti. En skemmtilegt að láta skála fyrir sér. Þetta var það besta á dagskránni. Pottþétt. Ég trítlaði fram í eldhús og las yfir dagskránn. Jú, þarna stóð skýrum stöfum að það ætti að skála nokkrum sinnum fyrir ábúanda. Það er allavega fjórum sinnum og svo harðneitaði ég að halda dagskránni áfram nema það væri búið að skála þrisvar í viðbót. Það þarf að gera þetta rétt sko.

Einhvern veginn varð þetta svo vinsælasti liðurinn. Ég tróð þessu atriði að hér og þar í dagskránna og áður en ég vissi af voru fleiri farnir að taka uppá að skála svo ég þurfti ekki að gera það í sífellu sjálf. Það er víst mjög mikilvægt að hafa dagskrá í partýi og það gafst svo sannarlega vel. Það var reyndar fámennt í fordrykknum, enginn nema kindabóndinn og svo rétt náði líffræðingurinn í endann. En það voru allir viðstaddir þegar kom að ræðu ábúanda.

Auðvitað hafði ég átt að undirbúa hana fyrirfram en til þess vannst enginn tími. Eiginega var heppni að ég og líffræðingurinn náðum að mæta í partýið okkar, þar sem við lentum í krísu í vinnunni og sátum föst þar til klukkan sex. Ég skorast nú ekki undan því að standa upp og tala fyrir framan hóp svo ég lét bara vaða. Ekkert mál. Viðbrögðin voru reyndar pínumisjöfn en annars held ég bara að ræða mín um bætt samskipti í deildinni hafi bara komið ljómandi vel út.

Síðan tók hver liður við af öðrum. Það var spilað á harmonikku, sungið, tekin óskalög. Það var drukkið og geði blandað. Og það var spilað Fimbulfamb! Og liðið mitt vann... veiiiiii.... Og eftir meiri skemmtun og skemmtilega bæjarferð þar kindabóndinn varð alveg óvænt fórnarlamb mitt hélt ég heim á leið með þjónustuskutlunni. Já við verðum að hafa partý aftur fljótlega... enda hafa mér borist nokkrar áskoranir nú þegar :)


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Vilma sjálf

Höfundur

Vilma Kristín
Vilma Kristín
The Worrying kind
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband