Færsluflokkur: Bloggar

Annasamur dagur

Ég velti mér í rúminu og reyndi að koma mér vel fyrir. Svo fann ég svefninn miskuna sig yfir mig og ég sveif inní draumalandið. það var notalegt að liggja á mjúkum koddanum undir heitri sænginni og ég fann hvað svefninn gerði mér gott.

Ég rumskaði við að gsm síminni sem ég hélt á í vinstri lófa pípti lágt undan sænginni. Ég opnaði augun og dró símann fram, slökkti á vekjaranum og leit á klukkuna. Jebb, kominn tími til að kíkja á tölvupóstinn. Ég rétti aðra höndina letilega út og strauk létt yfir músasvæðið á mac-anum mínum sem svaf værum svefni við hliðina á mér uppí rúmi. Tölvan kveikti á sér um leið og ég snerti hana og ég renndi hratt yfir tölvupóstinn. Hjúkk, ekkert sem lá á að bregðast við. Ég stillti vekjarann í flýti á hálftíma í viðbót, dró sængina upp að höku og fór aftur að sofa.

Ég byrjaði að finna fyrir einhverjum krankleika í gær. Mér var illt í hálsinum og hóstaði stanslaust, ég fann hitann hækka og orkuna minnka. En þar sem ég þurfti að leysa smá verkefni í vinnunni um miðnætið varð ég að harka af mér. Sannfærði sjálfa mig um að þetta væri bara aumingjaskapur, ekkert annað.

Vaknaði svo svo veik í morgun að ég fann að ég kæmist ekki í vinnuna. Og sko þegar ég sleppi vinnunni vegna veikinda þá er ég veik. Dröslaði prinsinum af stað í skólann og skreið svo uppí rúm með tölvuna og gemsann. Þetta var nefnilega dagur sem ég mátti eiginlega alls ekki vera veik, lá mikið undir. Stór gangsetning á kerfinu okkar útí Bretlandi og líffræðingurinn á ferðalagi til Akureyrar. Svo til að ná öllu rumskaði ég á hálftíma fresti til að sjá hvort eitthvað væri að gerast í útlandinu, hvort einhver þyrfti aðstoð.

Svona náði ég að dotta og liggja í hýði fram eftir degi. Hóstandi og sofandi til skiptis. Um eitt leitið dró til tíðinda. Síminn hringdi. Ég svaraði eftir bestu getu. "Vilma? Ert þetta þú? Ertu veik? Ég þekkti þig ekki!", bunaði líffræðingurinn útúr sér. Ég reyndi að ræskja mig og svara þannig að það skyldist hvað ég sagði. Og upp frá þessu varð enginn meiri friður til að vera veikur. Allt fór af stað í útlandinu og þar grétu ráðgjafar að ná ekki í vini sína á Íslandi.

Um fimm leitið gafst ég upp og dreif mig uppí vinnu, mælti mér mót við líffræðinginn sem var að koma úr flugi. Fyrst ég var komið út á annað borð gat ég alveg eins mælt mér mót við Rebbý í kvöldmat, þá myndi ég sleppa við að elda fyrir prinsinn. Taldi mér trú um að þetta væri akkúrat málið. Svo settumst við yfir tölvumálin, þvílík snilld að geta setið í vinnunni sinni á Íslandi (já, eða sitja uppí rúmi heima hjá sér undir sæng) og vera að vinna á tölvu útí Lemington í Bretlandi. Algjör snilld.

Auðvitað dróst þetta allt, ég hóstaði og ræskti mig og reyndi mitt besta að hósta ekki á líffræðinginn þar sem við rýndum í kóða, röktum gögn, gerðum próf og sendum tölvupósta. Rebbý sendi sms til að spyrja hvenær hún fengi að borða. Höfuðið á mér var að springa og ég var með beinverki og hálsinn var allur bólginn og aumur. Ég sendi til baka að það færi að styttast í okkur.

Verkjalyf eru auðvitað bara það besta í heimi og ég náð að sitja lengur í vinnunni þegar hausverkurinn gaf sig. Meiri rýni, meiri gögn, meiri skoðun. Forrita smá hér og forrita smá þar. Prófa meira. Og áður en við vissum af var klukkan orðin níu. Rebbý orðin tryllt af hungri, börnin orðin svöng heima og hitinn að skríða uppá við aftur. Þar sem ég var veik fannst mér að ég mætti fara úr vinnunni og dreif mig út að borða með liðinu. Svo á rúntinn eftir að koma börnunum heim. Skreið heim um ellefuleitið alveg úrvinda, hóstandi og slöpp.

Mikið var ég annars ánægð með að hugsa svona vel um mig í veikindunum, þvílíkur lúxus að geta leyft sér að vera heima þegar svona stendur á


Á ég að hætta að vinna?

"Eruð þið að segja að ef ég fæ mér mann, þá geti ég hætt að vinna? Af hverju sagði mér þetta enginn?", spurði ég drengina þrjá og horfði á þá með furðu. Það hafði bara ekki hvarflað að mér þessi möguleiki, að ég gæti bara verið heima og látið sjá um mig. Dúllað mér við að vera húsmóðir. Kannski vinna hálfan daginn... eða eitthvað.

Fjárbóndinn strauk skeggið hugsandi á svip og sagði svo um leið og hann glotti: "Vilma, ég held reyndar að þú viljir vinna og ekki eiga mann..." Það tísti í líffræðingnum og nakta forritaranum. Ég kímdi, fjárbóndinn þekki mig greinilega og ég varð að viðurkenna að þetta væri nú bara að öllum líkindum rétt til getið hjá honum. Bæði finnst mér gaman að vinna og á erfitt með að slíta mig frá vinnunni, eins kann ég vel við sjálfstæðið.

Annars var nakti forritarinn í bæjarferð í dag. Alltaf aðeins meira fjör þegar hann kíkir við hjá okkur, ekki það að það sé leiðinlegt hjá okkur dags daglega, nei, nei alls ekki. En nakti forritarinn er með skemmtilega nærveru og nær vel til okkar herbergisfélaganna. Reyndar er ég orðin dálítið ringluð eftir daginn í dag.

Eins og oft áður festumst við, ég og sá nakti, í forritunarverkefni og áður en ég vissi af var klukkan orðin meira en sjö og hungruð börn héngu í símanum. Hvar var ég? Hvar var maturinn? Var ég búin að yfirgefa þau? Ég fann samviskuna bíta í hælana á mér og ýta hressilega við mér. Úbbasííí, drífa sig heim og redda málunum áður en ég myndir stimpla mig inn aftur.

Og nú er kominn tími til að vinna smá... sofa seinna... úff hvað lífið væri leiðinlegt ef ég ætti einhvern sem sæi bara um mig...


Ég er það bara ekki! Tapsár það er að segja...

Ég hringaði saman bleiku perlufestina og kastaði henni eins fast og ég gat í skellihlægjandi líffræðinginn. Svo náði ég hörðu kúlunni sem sálfræðingurinn gaf mér um daginn og mundaði hana. Sölumaðurinn skellti uppúr og hafði vit á að stinga af úr herberginu. Ég skil ekki hvað fólk er alltaf að segja að ég sé tapsár. Því ég er það ekki. Bara alls ekki.

Líffræðingurinn hefur mikið gaman af því að rifja endalaust upp þetta eina skipti sem við spiluðum saman Partý og co. Hans lið vann. En þau svindluðu líka. Vildu ekki fara eftir réttum reglum og beygðu svo reglurnar og teygðu til þar til þau dæmdu sjálfum sér sigurinn. Eftir þetta kvöld var ég nærri búin að henda spilinu.

Sko ég hef oft spilað þetta spil við aðra vini mína og þá vinn ég alltaf. Enda svindla hinir vinir mínir ekkert. Ég er einfaldlega bara aðeins betri í að spila en þau.. svo ég vinn... Svo er ég líka svo óheppin í ástum, því fylgir sjálfkrafa að vera heppin í spilum. Og það er ég.

Svo var það keppnin síðustu helgi. "Jói & the girls" liðið hafði grunsamlega oft rétt fyrir sér. Grunsamlega oft. Ég meina, það gat ekki verið að þau væri betri en mitt lið. Er það? Og ég hef eftir nokkuð áreiðanlegum heimildum að ekki hafi verið farið alveg reglunum. Ekki allavega eins og ég myndi hafa haft reglurnar. Og svo er mér strítt á því að vera tapsár! Það er líka svindl.

Sko í alvörunni. Okkar lið var alveg rosalega gott sem sýndi sig í sérstaka bikarleiknum sem var leikinn eftir "upphitunarleikinn" sem Jói & the girls svindluðu út sigur á. Við möluðum alveg bikarleikinn og ég hlusta ekki á eitthvað bull um að við höfum svindlað í þeirri viðureign... nei, þeir sem saka okkur um það hafa eitthvað óhreint í pokahorninu.

Svo er það þetta með keppnirnar á vordögum fyrirtækisins. Mín lið taka heiðarlega þátt, það er meira en ég gat sagt um lið líffræðingsins. Það tók viku að ná aftur friði í herberginu okkar eftir þessa keppni. Ég ætla nú ekkert að tala mikið um þetta hér... en sko... vonbrigði þessa síðasta vordags voru skátarnir. Eiga þeir ekki að vera voðalega eitthvða heilbrigðir og heiðarlegir? Ha? En nei... ég vildi að það væri til svona yfirskátaráð þar sem ég gæti kært þessa skáta sem sáu um leikina síðast. Þeir bara gáfu liði líffræðingsins þetta bjánalega viðurkenningarskjal (sem mig langar ekkert í by the way) svo hann gæti endalaust setið og montað sig af því. Flottu verðlaunin sem mitt lið vann standa svo fyrir framan bjánalega viðurkenningarskjalið (sem mig langar enn ekkert í) og skyggja á það.

Helst vil ég spila við kattadómarann og kennarann. Þau vinn ég alltaf. Og hef gaman af. Meira! Meira! Og svo spilum við trekant, póker eða eitthvað borðspil. Þau tapa. Ég vinn. Bara alveg eins og það á að vera! Þau taka því reyndar misvel að tapa. Við erum öll með mikið keppnisskap og oft falla grimmileg orð á meðan leikar standa sem hæst. Eftir stendur svo sigurvegari (ég) sem skellihlær og taparar sem gráta.

Það er bara einn sem ég er sátt við að tapa fyrir og það er prinsinn minn. Hann er afskaplega lunkinn í spilum og einstaklega heppinn (sonur hennar mömmu sinnar). Og ég er til í að tapa fyrir næstu kynslóð.. svona stundum allavega


Hossasí Hossasa

Við sátum þétt saman og hossuðumst upp og niður. Sveifluðumst til og frá. Hoppuðum upp, skullum niður. Skullum saman, rákumst saman og ýttumst í sundur. Mitt í öllum þessum veltingi svaf bleik klædda prinsessan svefni hinna saklausu. Mitt í draumlandinu fylgdi hún hristingnum. Skyndilega hurfu sætin undan okkur og bleik klædda prinsessan tókst á loft og flaug í fallegum boga úr sætinu fram á gang þar sem gítar líffræðingsins tók af henni fallið. Til allar lukku spratt hún upp óslösuð og minnti okkur hin á að nota öryggisbeltin.

Við vorum á leiðinni heim úr velheppnaðri haustferð fyrirtækisins. Við erum búin að þvælast hingað og þanngað um hálendið. Skoða alls konar staði og náttúru undur. Og nú hossuðumst við upp og niður í Fjalla - Fúsa. Við sem höfðum valið að sitja aftast hoppuðum upp og niður, skríktum í verstu hoppunum. Öll skoppin gerðu ferðina bara meira spennandi og við aftursætis fólkið tilbúin að leggja það á okkur að skoppa meira en fólkið frammí.

"Ó, það er kviknað í..", sagði ég og benti á bálið sem logaði fyrir framan mig. Einhvern veginn náði þetta ekki að koma mér úr jafnvægi, en í agalega góðu jafnvægi eftir allan bjórinn og vínið sem ég hafði innbyrt. Sem betur fer var bjargvættur nálægt og slökkti í logandi pokanum. Við vorum reyndar heppin, tvisvar kviknaði í snakkpoka á borðinu. Snakkpokar eru greinilega óskaplega eldfimir og fuðra alveg upp á engri stundu.

Eftir ótrúlega skemmtilegan dag þar sem við veltumst um í rútunni á milli skoðunaferða tók við kvöldvaka ársins. Með söng og tralli, blaðri og alveg heilmiklum hlátri. Að ógleymdum hörkuspennandi leik sem "fambinn" (leikinn af líffræðingnum) stjórnaði. Ég var búin að reyna að koma mér undan því að taka þátt... ég á nefnilega við smá vandamál að stríða. Ég tek bara þátt til að vinna, og á til að gleyma mér pínulítið. "Þau svindla! Þau svindla!", æpti ég á fambann. Sannfærð um að lið 2 væri að svindla, að þau væru að lesa réttu svörin í gegnum blað fambans. Til mikillar lukku vann mitt lið svo "Bikarleikinn" sem nægði til að fá aftur bros á andlitin. Ég fékk svo enn í dag að heyra upprifjanir á því hvað ég er tapsár. Ég vil hinsvegar meina að ég er alls ekki tapsár, alls ekki. Það eru bara alltaf hinir sem svindla. Og ég er bara með svo ríka réttlætiskennd, ég vil bara að þeir réttlátu og saklausu vinni og að svindlararnir fái ekki að komast upp með sín brögð.

Það var samt óendanlega gott að komast heim í dag. Þreyttir ferðalangar sem stigu útúr rútuni og ég get ekki beðið eftir að komast í heitt og gott bað og láta þreytuna smjúga út. Það verður líka gott að sofa... það fór víst eitthvað lítið fyrir svefni síðustu nótt þar sem kvöldvakan varð dálítið fjörugri en til stóð... og heilsan var ekki alveg með besta móti þegar við skriðum um borð í rútuna fyrir allar aldir til að geta tekið skoðunarferðir um hálendið.


Ég er debugguð

Ég held að kannski ætti ég að fara að kalla mig dr. Vilma. Ég er nefnilega búin að sjá að ég er næstum eins og heimilislæknir. Ég eyði stórum hluta af vinnudeginum í að gera við eitthvað og betrum bæta og að ráðleggja viðskiptavinum hvernig þeir geta bætt heilsu tölvukerfisins. Og þegar koma sérlega erfiðir sjúkdómar þarf ég að "debugga"... þá er maður að grafa sig ofan í málið, jafnvel setja upp logga, gera tilraunir. Já, alveg eins og heimilislæknir.

Í dag fór ég að bila. Smá saman fann ég hvernig ég dofnaði í hálfu andlitinu. Ég prófaði að pota í það til að fá hvort það væri þarna ennþá. Prófaði að klípa í það. Ja, það virtist vera þarna ennþá en ég fann ekki mikið fyrir því. Skyndilega fór það bólgna að mér fannst. Ég spurði líffræðinginn sem var alveg hættur að skilja í öllu þessu poti mínu hvort ég væri orðin bólgin, hann hristi höfuðið og sagði mér að fara til læknis. Ég hló. Einmitt.

Svo leið dagurinn og ég notaði hann aðalega til að kanna þann hluta af andlitinu sem ég virtist ekki þekkja lengur. Það virkaði bólgið, svo var það dofið, svo var það stíft... og ég alltaf að prófa að pota og klípa til að sannfæra mig um að allt væri á sínum stað. Þá byrjaði augað að reyna að stinga af. Og mér hætti að standa á sama.

Ég ákvað að drífa mig til læknisins og um leið og ég kom út varð mér ískalt, eins og ég væri að frjósa á bilaða helmingnum. Alveg merkileg upplifun. Ég trítlaði inná heilsugæsluna mína rétt áður en lokaði og bjargaði alveg degi læknisins. Alveg áhugaverðasta tilfelli dagsins. Hann tók þessu öllu mjög alvarlegra. Hann var örugglega búinn að eyða stórum hluta af vinnudeginum í að gera við eitthvað og betrum bæta og ráðleggja viðskiptavinum sínum hvernig þeir geta bætt heilsu sína. Og nú var komið að því að dubugga. Hann potaði og kleip og togaði í hárið. Niðurstaðan er brenguð taugaskynjun í andlitstaug. Semsagt er andlitstaugin mín orðin biluð og farin að senda allskonar skrítin skilaboð, eins og ofurkulda og doða. Mjög skemmtilegt allt saman. Það geta verið 4 mismunandi ástæður að baki þessu... en hver er sú rétta er erfitt að giska á. Svo læknirinn þarf að debugga. Prófa smá svona og fylgjast með, setja upp logg eiginlega. Ég á svo að mæta aftur í næstu viku (vonandi orðin góð þá) og þá verða næstu rannsóknir ákveðnar (það er að segja ef ég er enn biluð). Ef ég er heppin gengur þetta yfir á næstu dögum en þanngað til get ég átt von á allskonar uppákomum sem áhugasami læknirinn útlistaði.

Ég dreif mig svo með hálfa venjulega andlitið mitt og hinn helminginn sem ég þekki alls ekki lengur og ræð ekkert við í leikhús með Snjóku þar sem við sáum "Fló á skinni". Ég kafnaði næstum úr hlátri og æpti á leikarana (jebb, ég er ekkert skárri í leikhúsi). Í miðri sýningu fór mig að svíða í hálft ennið, jebb.. bilaða tauginn að reyna að gabba mig til að halda ég væri búin að brenna mig. Ferlega skrítið. En það fékk mig samt ekki til að missa athyglinni af sýningunni og öllum hamaganginum þar, ég, andlitið mitt og óþekkti helmingurinn skemmtum okkur öll vel.


Þú getur komist í þitt besta form

Handrukkarinn stendur og starir stíft á fölan miðaldra mann, sem stendur hnýpinn á miðju gólfi. Föli miðaldra maðurinn reynir að rétta úr sér og draga inn bumbuna í þeirri von að handrukkarinn skipti um skoðun. Hann sér æðarnar tútna út á hálsi handrukkarans, það veit ekki á gott. Það veit aldrei á gott. Dauðhræddur um að gera í buxurnar stynur hann upp afsökunarorðum. Hann muni reyna sitt besta til að uppfylla alla vonir handrukkarans.

Handrukkarinn hnykklar vöðvana og setur í brýrnar, sleppir ekki augunum af miðaldra manninum með bumbuna. Hægt og yfirvegar lyftir handrukkarinn hægri hönd og potar ákveðin í bringu miðaldra mannsins og segir ógnandi: "Ég veit hvar þú átt heim góðurinn!". Miðaldra maðurinn kyngir munnvatni og finnur kaldan svita spretta út á bakinu, hann er í vandræðum. Meiri vandræðum en nokkru sinni áður og hann veit það. Handrukkarinn heldur áfram að pota í bringuna á honum og heldur áfram: "Ég veit hvar þú átt heim og ef þú gerir ekki 20 armbeygjur í viðbót áttu ekki von á góðu!" Miðaldra maðurinn hættir að reyna að afsaka sig, hann vill ekki fá þennan mann heim til fjölskyldunnar. Nei, til að verja fjölskylduna kemur hann sér í stellingar á gólfinu og byrjar að gera armbeygjur undir talningu handrukkarans.

Þetta er viðskiptahugmynd sem ég ætla að kynna líkamsræktarstöðvunum á næstu vikum. Ég held nefnilega svona í ljósi umræða í þjóðfélaginu síðustu daga um handrukkara og störf þeirra að það séu mestu mistök að nýta ekki störf þeirra í líkamsræktarstöðvunum, í staðinn fyrir að reka þá í burtu (og nú er ég sko ekki að segja að einn eða neinn sé handrukkari, þetta er bara hugmynd sem skaut upp kollinum í dag). Viðskiptahugmyndin er því svona "Boot camp extreme" - undirtitillinn í auglýsingunni gæti verið: "skelfist í form".

Þetta er svona pottþétt leið til að koma sér í frábært form á stuttum tíma! Þú mætir á stöðina og færð úthlutað þínum ekta handrukkara. Hann ber svo ábyrgð á því að koma þér í form á fjórum vikum. Hann vakir yfir þér, hótar þér þegar þú ert að gefast upp. Að leggja eigin líf og limi undur er frábær hvatning.

"Guðmundur! Þrjátíu magaæfingar í viðbót eða ég kveiki í bílnum þínum!", hvæsir handrukkarinn að föla miðaldra manninum sem án þess að mótmæla kastar sér í gólfið og hefst við að gera magaæfingar af miklum móð. Til að reyna að kaupa sér góðvild gerir hann fimm aukalega, bara til að reyna að komast í mjúkinn. Handrukkarinn er aldrei ánægður: "Og nú skaltu hlaupa 10 kílómetra. Ef þú stoppar klippi ég rófuna af hundinum þínum..." og föli miðaldra maðurinn hleypur af stað og vonar að hann hrynji ekki niður á leiðinni svo Snati fái að halda rófunni.

Viti menn, fjórum vikum seinna kveður handrukkarinn miðaldra manninn sem er hvorki fölur né með bumbu lengur. Nei, kominn í besta form ævi sinnar - rakinn áfram af stanslausum ótta, búinn að fara í sprautubrúnku og strípur... og kominn á lyf út af of háum blóðþrýstingi :)


Ég hef áhuga á meltingu

Í dag héldum við, ég og nakti forritarinn, óvæntan símafund. Ég kom mér vel fyrir inní fundarherbergi og hallaði mér aftur á meðan við rausuðum um ýmis mikilvæg málefni á meðan við biðum eftir að líffræðingurinn birtist á svæðinu, nakti forritarinn þurfti að eiga við hann orð. "Hann er örugglega að borða, þá verður hann ekki lengi. Hann trúir nefnilega ekki á að melta matinn í munninum", sagði ég og hélt svo áfram: "Ég held að maður eigi bara að opna munninn og ýta matnum niður" "Já, sko... hann hefur menntunina til að hafa skoðun á þessu. Ekki við", svaraði nakti forritarinn.

Þarna höfðum við dottið niður á spennandi umræðuefni. Meltingarumræður. Ég greip á lofti þessa athugasemd. Já, auðvitað. Hvað þykjumst við vita? Þarna er líffræðingurinn eiginlega svona atvinnumaður í meltingu. Svona akademískur meltandi. Við hin erum bara amatörar - áhugameltendur. Við getum svo sem eins og allir svona áhugamenn almennt haldið eitthvað, reynt að mynda okkur skoðanir en svona í endan þá eru það atvinnumennirnir og sérfræðingarnir sem raunverulega geta sagt til um hvernig hlutirnir eiga að vera.

Og þá kemur það sér nú aldeilis vel fyrir svona áhugameltara að hafa aðgang að sérmenntuðum atvinnumeltara sem getur dreift til okkar gullmolum og vitneskju á meðan við sitjum við fætur hans og hlustum af einlægni. Or not... Held reyndar að við séum alls ekki góðir nemendur. Við viljum alltaf maulast með matinn heillengi uppí munninum, smjatta á honum og treina bragðið... alveg óháð því hvernig það fer með blessaða meltinguna.

Við áhugameltendurnir ræddum málin um stund áður en alvara lífsins tók aftur við og við förum að ræða .net connector vs. com connector, handtölvur, klasa, föll, system köll og ég veit ekki hvað.... og nú vorum við aftur orðnir atvinnumenn en ekki amatörar. Atvinnuforritararnir, ég og nakti forritarinn, hættum að tala um málefni sem við skiljum ekki og héldum áfram þar sem frá var horfið í tölvutalinu. Stundum er gott að vera atvinnumaður og fá að segja hvernig hlutirnir eiga að vera :)


Söngfuglinn

"Mamma! Mamma, viltu syngja mama mia lagið?", spyr ljóhærði prinsinn og hallar undir flatt. Það er ekki hægt að neita þegar svona falleg blá augu stara biðjandi á mann. Svo ég hóf upp raustina, söng eins vel og ég gat lagið sem ég hef gaulað síðustu vikur. Prinsinn leit ekki af mér og fylgdist grant með. Ég er mjög meðvituð um það að ég er laglaus en vonaði að ég væri að standast kröfurnar.

Þegar ég lauk söngnum brosti prinsinn út að eyrum, klappaði saman höngunum og sagði: "Mamma! Þú ættir að fara í sjónvarpið!"

Prinsinn minn hefur klárlega ofurtrú á mér. Ég er mamman sem getur allt og kann allt. Hann hefur fylgst nokkuð vel með auglýsingum í sjónvarpi uppá síðkastið. Og þar hafa gengið auglýsingar fyrir nýja þáttinn "Singing bee" og í einni af þeim eru keppendur að reyna sig á "Mama mia" laginu. Og nú er prinsinn sannfærður um að ég sé akkúrat rétta manneskjan í sjónvarpið. Engin önnur er eins góð í að syngja þetta blessaða lag.

Ég sver það barnið er algjörlega "tone deaf". Annað hvort það eða hann er bara svona viss um að mamma sé best. Ég sjálf er mjög meðvituð um það að ég er laglaus þó mér finnist óskaplega gaman að syngja og nota hvert tækifæri til þess. Þið vitið, sturtuna, bílinn, uppvaskið, IKEA (góður hljómburður), vinnuna, snjómokstur (sem ég fæ ekki nóg af)... bara hvar sem mér dettur í hug. En ég er nógu mikið í tengslum við raunuveruleikann til að detta ekki í hug að fara í sjónvarpið og gaula fyrir framan alþjóð. Nei... held ekki... jafnvel þó prinsinn sæti á fremsta bekk og klappaði!


Fleiri en færri

Mín hin magnaða nálgaðist búrið með varúð. Hún hnusaði með fyrirlitningu af svarta kettinum sem rak hausinn út úr búrinu. Það þurfti nú ekki meira en smá sniff af svarta kettinum til að Mía gæti metið aðstæður. Hún setti upp kæruleysislega svipinn og kinkaði kolli, eins og hún vildi segja: "Ó, hæ! Ert þetta þú? Bara komin heim?". Svo snéri Mía hin magnaða við og trítlaði í burtu, nennti greinilega ekki að spá meira í þessu.

Svarti kötturinn kannaði heimilið og lagði sig svo á mottuna inní stofu, eins og hún hefði aldrei búið annars staðar. Kettirnir mínir skiptu sér ekkert af svarta kettinum heldur héldu bara áfram sínum vanalegu störfum, sem felast aðalega í því að þvælast fyrir mér.

Dagurinn í dag var dagurinn sem fjölskyldan okkar stækkaði. Ég og prinsinn drifum okkur útí gæludýrabúðina okkar og stilltum okkur upp við fiskabúrin. Prinsinn tók sér góðan tíma í að velja akkúrat réttu fiskana, einn strák og tvær stelpur. Við erum enn að ákveða nöfn. En þeir sóma sér vel í fiskabúrinu sem er inná baði.

Seinnipartinn flutti svo Dimmalimm aftur heim, ja, tímabundið. Á meðan mamma hennar endurbyggir húsið sitt ætlar Dimmalimm, sem er dóttir Þulu og því fædd á heimilinu okkar, að búa hjá okkur. Bara í svona tíu mánuði kannski. Og heimkoman var mun auðveldari en nokkur þorði að vona. Hún virðist bara passa beint í hópinn okkar, við sem áttum von á einhverjum erjum svona til að byrja með. Mikið eru þetta nú annars vel upp aldir og góðir kettir sem ég á.

Þannig að nú telur fjölskyldan: Einn fullorðinn, einn ungling, eitt barn, 4 fiska, 1 dísargauk, 2 gára, 1 húskött og 4 norska skógarketti. Ofan á þetta má bæta tengdasyninum, heimalingnum og einstaka flækingum. Aldeilis ljómandi fín fjölskylda finnst mér.


Too late

Ég hljóp um búðina í æðisgengnu kapphlaupi. Ýtti á undan mér risastórri innkaupakerrunni. Kerran og háu hælarnir gerðu mig stjórhættulegu og óskaði þess heitt að innkaupakerrur hefðu flautur. Þá hefði ég allavega getað varað aðra gesti verslunarinnar við að ég væri að koma.

Ég æddi áfram á ljóshraða. Tætti úr hillunum það sem ég hélt að ég þyrfti á að halda. Og bætti svo einhverjum slatta við, bara tl að vera örugg. Um leið og kerran var orðin full þaut ég að kassanum og ruddist fram hjá nokkrum eldri konum. Ég var á hraðferð. Stappaði niður fótunum óþolinmóð á meðan nýliðinn á kassanum renndi vörunum í gegn. Reif innkaupapoka af höldunni og henti vörunum óþægilega harkalega ofan í pokana. Einn, tveir, þrír. Flott allt búið. Borga og hlaupa út.

Fyrir utan beið prinsinn minn á hjólinu sínu, hafði brunað uppí búð að hitta mömmu eftir langan dag. Ég kastaði á hann kveðju og fékk hann til að fylgja mér að bílnum. Pokunum kastað inn og brunað heim. Of sein! Of sein! Of sein! Kastaði frá mér pokunum fyrir utan heima og skipaði tengdasyninum að sækja þá... sem hann og gerði blessaður. Á meðan stakk ég mér inná baðherbergið og sinnti baðherbergismálum. Ég þakkað mínum sæla fyrir að ég hafði allavega komið heim áður en matargestirnir bönkuðu uppá.

Ég hafði boðið Rebbý og Snjóku í "stelpukvöldmat" klukkan hálfátta. En var ég komin heim í tíma? Var ég með matinn tilbúin? Var ég búin að taka til? Nei, ég hékk í vinnunni niðursokkin í verkefni með líffræðingnum. Klukkan fimm tókum við ákvörðun um að vera góð við okkur og fara snemma heim, föstudagur og þá á maður allt það besta skilið. En svo gerðum við aðeins meira og aðeins meira og áður en við vissum af vorum við orðin ein eftir á hæðinni, lokuð inní fundarherbergi í rannsóknarvinnu. "Shit! Ég er með matarboð eftir innan við hálftíma og ég á eftir að versla matinn!", stundi ég þegar ég fattaði hvað tímanum leið. Við pökkuðum saman á mettíma og ég keyrði eins hratt og ég þorði uppí búð.

Stelpurnar voru sem betur alveg afslappaðar yfir þessu. Sátu bara og horfðu á mig elda, skáru niður gulrætur ( þær sem þær átu ekki ). Einhvern vegin tókst mér að skella matnum saman og koma honum á borðið klukkutíma of seint. Endaði í ágætist afslöppunarkvöldi með góðum mat (þó ég segi sjálf frá) sjónvarpsglápi og smá spjalli inná milli.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Vilma sjálf

Höfundur

Vilma Kristín
Vilma Kristín
The Worrying kind
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband