Færsluflokkur: Bloggar

Pikksaddur prins

"Takk fyrir mig! Ég er pikksaddur..", tilkynnti prinsinn þegar hann stóð upp frá morgunverðarborðinu. Hann er sjúkur í hafragraut þessa dagana, eins og húsmóðurin, svo dagurinn byrjar ekki fyrr en við erum búin að útbúa slíka máltíð. Prinsinn fann alveg sjálfur upp orðið "Pikksaddur". Hann hafði heyrt og notað pikkfastur og yfirfærði þetta yfir á vera saddur... alveg svakalega saddur. Nokkuð gott hjá honum. Með þessu áframhaldi á drengurinn sko alveg eftir að passa við mig og heimasætuna.

"Ég... og... uhhhh.... þú veist.... sjúúúúmmmmm....", sagði ég og notaði hendurnar til að útskýra fyrir unglingunum hvað ég átti við. Sætukoppur hló og hristi hausinn. Ég prófaði hin ýmsu orð áður en ég fann það rétta og gat haldið áfram með söguna. "Ég elska hvernig þig talið saman...", sagði sætukoppur og hermdi eftir mér.

Við heimasætan virðumst báðar vera haldnar þeim sjúkdóm að við eigum oft erfitt með að finna rétta orðið. Eins og orðin finni ekki leið að munninum. Við vitum alveg hvað við ætlum að segja en rétta orðið lætur aðeins bíða eftir sér.

Þetta skapar engin vandamál hér heima. Hér heima sleppum við bara orðum ef þannig liggur á okkur. "Mamma, hvar er shikkú shikkú?", spyr heimasætan og ég svara: "Æ, þarna hjá shhhinnnng..." "Þið og orðaforðinn ykkar!", stynur sætukoppur. Hann er þó allur að koma til drengurinn. "Hey, ég skyldi þetta...", æpir hann kannski allt í einu þegar hann nær merkingu á einhverju hljóði.

Reyndar er þetta eitthvað sem kemur bara alveg að sjálfu sér. Ekkert skipulagt. Og það sem flækir málið fyrir utanað komandi er að sama hljóðið getur þýtt margt. Það þarf að skoða það í sambandi við tóntegund og líkamstjáningu. Sjúp er því alls ekki það sama og sjúúpp...


Staðbundin... eða ekki...

Ég er alltaf að reyna að segja vinum mínum og kunningjum að vinnan mín sé í alvörunni spennandi og skemmtileg. í alvörunni. Ég vinn reyndar við þjónusta viðskiptahugbúnað. Þið vitið, stundum er ég ráðgjafi og reyni að ráðleggja notendum um notkun. Stundum er ég forritari og forrita allskonar krúsidúllur inní hugbúnaðinn. Þetta hljómar kannski ekki spennandi. Ég meina, ég er ekki að forrita einhverja flotta leiki eða að finna upp nýja tækni. En þetta er samt skemmtilegt.

Ég sá hinsvegar í dag að maður hættir að taka eftir ýmsu þegar maður flækist um óravíddir fjárhagsbókhalds allan liðlangan daginn. Í dag var ég að grúska í kerfi sem ég hef þjónustað í 10 ár. Við hliðina á mér sat kollegi minn. Hann starði stórum augum á skjáinn, fylgdist spenntur með enda allt nýtt og spennandi hjá honum.

"Hvað er þetta?", spurði hann forviða og benti á sakleysislegan hnapp sem var útí horni. Ég gjóaði augunum á hann. Staldraði svo við. Ég hefði nú svo sem séð þennan hnapp þúsund sinnum áður. En allt í einu, þar sem "nýliðinn" benti mér á hann fékk hann alveg nýja meiningu og varð allt í einu pínulítið... pínulítið dónalegur... og þó ekki.

"Staðbundin tól" stóð þarna á hnappnum og æpti á mig. Kollegi minn benti enn á skjáinn og horfði á mig með eftirvæntingu. Beið spenntur eftir svari. "Ja...", svaraði ég: "staðbundin tól.... sko...." Ég glotti við og hélt svo áfram: "Staðbundin tól... það er nú það... hvað heldur þú?" Í raun er þetta hinn saklausasti hnappur...

En ef maður spáir í þessu þá er þetta nú bara nokkuð pent orðasamband yfir ákveðinn líkamspart. Er það ekki?


I remember when...

Það er svona sérstakt áhugamál hjá mér að "útsetja" lög og syngja fyrir börnin mín í nýjum útgáfum. Venjulega við frekar fálega dóma. Ég gefst samt ekki upp, heldur útset fleiri og fleiri lög.

"Vilma, ekki útsetja...", grátbað heimalingurinn þar sem við sátum í sófanum. Ég var í tölvunni og söng mínar eigin útfærslur af ýmsum lögum, til dæmis Daloon laginu. "Mömmu finnst sérstaklega gaman að útsetja...", sagði heimasætan með smá hæðni í róminum þar sem hún sat og prjónaði af miklum móð. "Verst er þó þegar maður fær hennar útgáfur af lögunum á heilann", hélt hún svo áfram: " svo gleymir maður hvernig upprunalega útgáfann er og er bara með hundleiðinlegt lag á heilanum".

Ég hló og rifjaði upp mína bestu útfærslu: "I remember wwwwhhhhhhhheeeeeeeennnnnn...." Heimasætan greip fyrir eyrun. Heimalingurinn hallaði undir flatt: "Ég kannast við þetta hvernig er lagið í alvörunni?". Heimasætan tók við af mér og söng réttu útgáfunu. "Ó, já, þetta er þetta lag...", svaraði heimalingurinn og hélt áfram að prjóna.

Ég held hins vegar að það eigi bara eftir að uppgvötva mig sem útsetjara. Þanngað til held ég áfram að safna sérstökum útfærslum í heilann á mér. Ég á til dæmis örugglega 5 útfærslur af Daloon laginu tilbúnar!


Páskabíltúr.

Við stóðum á tjarnarbakkanum og fóðruðum allt sem við náðum í. Prinsinn fóðrarði fiðurfénað. Ég fóðraði Rebbý. Ég get alveg mælt með fóðrum mannvera við tjörnina. Skemmtileg tilbreyting. Tókum páskabíltúr ársins í ár og eftir heimsókn í ísbúð í Kópavog skilaði skyndihugmynd okkur niður að tjörn. Með smá brauð í poka blönduðum við okkur í baráttuna um þá fáu fugla sem ekki voru nú þegar afvelta af áti. Páskarnir fóru vel með fuglana á tjörninni.

Áfram hélt páskabíltúrinn og önnur skyndihugmynd skilaði okkur uppí Árbæ þar sem björt bros voru lögð undir til að reyna að gabba góðlega sendibílstjórann að gera okkur greiða. Stóran greiða. Hvernig er hægt að standast svona vonarsvip og bros? Það er bara ekki. Svo áður en við vissum vorum við farnar að bera grillið hennar Rebbý sem hafði verið í vistun í Árbænum útí sendibílinn sem skilaði því heim til mín.

Fyrsta grill sumarsins (já, það er komið sumar) var tilraunagrill. Maturinn var alveg ljómandi. Alveg glimrandi. Það tók hinsvegar 3 tilraunir að elda hann. Grillsérfræðingarnir skelltu kjöti, kartöflum og grænmeti á grillið og biðu. "Þetta er örugglega tilbúið...", sagði ég og við veiddum allt af. Settumst við borðið. Ohhh. Kjötið hrátt. Aftur á grillið. Ný tækni prófuð. Allt veitt af og aftur sest við borðið. Hmmm... mætti vera aðeins meira eldað fyrir smekk heimasætunnar og húsmóðurinnar. Allt skorið í sneiðar og skellt, eldsnöggt, aftur á grillið. Útkoman var fullkomin. Ekkert minna. Svo fína páskamatarboðið okkar með heimalingnum og Rebbý fékk frábæran endi. Og nú getur grillsumarið mikla byrjað.


Ég er slök

"Ég ætla ekkert að klæða mig í dag! Ég ætla að vera innipúki!", tilkynnti prinsinn um hádegisbilið. Ég kinkaði kolli. Fínt markmið, svona útaf fyrir sig. Og svo eyddum við páskadegi í bara ekki neitt, eftir að við vorum búin að leita að eggjunum okkar í morgun. Indælt alveg hreint. Ég held að ég sé alveg að ná þessu "slappa af" dæmi. Ég er svo slök að það er bara ekki fyndið.

Annars er ég búin að sitja og skæla hálft kvöldið. Við fengum Rebbý yfir til að sýna henni Marley og ég. Ég ætlaði að vera sterk. Sterk. Sterk. Sterk. En ég brotnaði fljótt og grét fögrum tárum. Og fyrst ég var komin í gírin skellti ég "konumynd" í tækið þegar prinsinn var orðinn öruggur í draumalandi, og skældi meira. Þvílíkt ástand á mér.

Annars byrjaði dagurinn á páskaeggjaleitinni árlegu. Svo tók hver skemmtilegheitin á eftir öðru. Heitt froðubað. Bókalestur. Páskaeggjaát. Bíómyndgláp. Svefn. En á morgun kemur nýr dagur og þá er hætt við því að ég þurfi að vekja húsmóðurina úr dáinu og ýta henni út í það að gera eitthvað. Annað hvort það eða slaka bara meira á...


Spilakvöld

"Sýndu spilið þitt!", skipaði ég. Kennarinn hristi höfuðið einbeitt. Kattadómarinn las leiðbeiningarnar: "It says here... every player shows their highest card!" Kennarinn hristi enn höfuðið svo einbeitt að ég hélt að það myndi detta af. "Nei, ef þið eruð með hærra spil en ég ætla ég ekki að sýna það...", sagði hún og setti í brýrnar.

Kattadómaranum fannst nóg komið, stóð upp og hætti. Vildi ekki spila þetta spil lengur. Ég var ekki á því að gefast upp. Af og frá. Viss um að ég myndi ná að sigra þrjóska kennarann. Enda var það málið á endanum. Ég malaði bæði kennarann og prinsinn. Og hefði malað kattadómarann ef hann hefði ekki staðið upp og farið.

Við vorum samt ekkert hætt. Eftir tvö Uno Spin var tekið upp alvöru spil. Monopoly. Ég verð bara að horfast í augu við það að ég er ekki peningamanneskja. Nei, um leið og spilið gengur út á viðskipti og að safna sem mestum pening er ég bara úr leik. Eða svo til. Ég náði öðru sæti í kvöld. Kennarinn hló og tísti. Ef hún hefði getað hefði hún baðað sig uppúr peningunum.

Við erum að færa út kvíarnar í spilamennskunni. Fyrr um páskana spiluðum við Rummikub, svaka gaman. Uno Spin í fyrsta skipti í kvöld áður en við reyndum aftur við Monopoly. Svo er á morgun eitthvað amerískt spil á dagskránni. Kattadómarinn ætlar að vinna.

Ég get alveg unnt honum að vinna einu sinni. Ég er nefnilega enn yfir mig hamingjusöm yfir að hafa unnið Partý og co í kræklingapartýinu með vinnunni. Sýndum þvílíka takta að annað eins hefur ekki sést... Góðir spilapáskar núna :)


Bíókvöld

Ég byrjaði að sjúga upp í nefið.  Bar aðra höndina varlega að augunum og þerraði tár sem lak niður kinnina.  Ég ætlaði að vera sterk.  Ég ætlaði að halda aftur af mér.  Ég ætlaði... Ég ætlaði...

Svo brast flóðgarðurinn sem ég hafði barist við að koma upp og ég hágrét. "Buhhuuuuuu".  Ég hafði enga stjórn á mér lengur.  "Nei, nei... buhuuuuhuuuu....", emjaði ég og tárin spýttust í allar áttir.  Sætukoppur spratt á fætur og hljóp fram á bað.  Skottaðist til baka og rétti mér pappír svo ég gæti þurrkað augun.  Heimasætan setti upp skeifu, ég er ekki frá því að eitt eða tvö tár hafi lekið niður hjá henni líka.  Heimalingurinn starði á mig: "Vilma, þú ert einstök..."

Við höfðum komið okkur saman í sófanum, bíókvöld.  Ég og unglingarnir mínir.  Áður en við byrjuðum að horfa sagði ég ákveðin að ég ætlaði sko ekki að fella tár. Það væri búið.  Ekkert meir svoleiðis.  Jebb, einhverjir hafa kannski giskað á það en við vorum að fara að horfa á mynd... um hund.  Sama hund og ég grét yfir þegar ég las bókina.  Hágrét yfir.  Sama hund og ég grét yfir þegar ég sá myndina í fyrsta sinn.  Þrátt fyrir fögur fyrirheit og óhemju mikla sjálfstjórn hélt ég ekki út alla myndina.  Nei, ég grét o grét... og saknaði hundsins sem ég hafði aldrei átt.  Merkilegt alveg.  

Ég er hins vegar búin að reikna út að ég þarf bara að horfa á myndina svona 4 eða 5 sinnum í viðbót til að læknast. Ég grét heldur minna núna en síðast - þó ég hafi skilið sætukopp og heimalinginn eftir furðu lostin.  Svo nú horfi ég bara á myndina einu sinni á dag og læknast af þessu. Jebb, sæki handklæði og horfi stíft. 


Kræklingur. Í alvörunni.

"Vá, sjáðu þennan!", skríkti prinsinn og rétti mér eitthvað sem í fyrstu leit út eins og skítur og steinar. En þegar betur var skoðað kom í ljós þessi fínasti kræklingur. Ég tók við honum, skoðaði og setti svo ofan í fötu. Ég rétti úr mér og horfði yfir fjöruna. Hingað og þangað mátti sjá fólk vopnað gúmmíhönskum og fötum. Fullt af fólki að týna krækling. Heimalingurinn og heimasætan skoppuðu um og virtust skemmta sér konunglega.

Á skírdag var loksins komið að hinni fyrstu árlegu kræklingaferð sem líffræðingurinn og ég höfðum boðað til. Við byrjuðum að plana þetta í haust en urðum of sein, það var orðið allt of kalt. Svo við lögðum hugmyndina á ís þar til við drógum hana fram fyrir um það bil mánuði. Við erum búin að vera að spuglera og spá og undirbúa. Við buðum svo vinnufélugum okkar að slást í för. Þeir voru nú ekki allir ginkeyptir fyrir hugmyndinni. En engu að síður var það myndarlegur hópur sem hélt í hann snemma á skírdag.

Fjöruferðin reyndist hin besta skemmtun fyrir fjölskylduna. Líffræðingurinn hélt fræðslufyrirlestra í fjöruborðinu og við skoðuðum alls konar lífverur sem fundust þarna svona á milli þess sem við týndum í kvöldmatinn. Samvinnan skipti sköpum og eftir týnsluna héldum við í vinnuna þar sem við höfðum fengið lánaða frábæra aðstöðu. Allt kapp lagt á að gera allt reiðubúið fyrir veislu kvöldsins.

Eftir sturtuferð og smá lúr hittumst við aftur, prúðbúin í þetta sinn... og allavega ekki í lopapeysum og með gúmmíhanska, elduðum í sameiningu og héldum svo þessa fínu veislu. "Mmmmm", sagði ég og leit á fólkið í kringum mig: "Þetta er gott!" Alls staðar mátti sjá brosandi andlit. Við ætlum svo sannarlega að endurtaka þennan leik við gott tækifæri. Frábært í kreppunni, 20 manna veisla á 2500 kr. - það er vel sloppið.

Partýdýrin héldu svo áfram fram á nótt. Við spiluðum partý og co. - og til að tryggja að ég myndi vinna skipaði ég sjálfa mig í lið með líffræðingnum. Okkar 4 manna lið sýndi frábæra takta sem skiluðu okkur alla leið. Eftir spilið var svo haldið "heimapartý" þar sem Perla dísargaukur sló í gegn. Hún er sko alvöru "partyanimal".

"Mamma, þið spiluðuð tónlistina hátt", tilkynnti ofurábyrga heimasætan í morgun. Unglingarnir höfðu fengið stopulan svefn þessa nótt. Þó voru vakin upp með rómantísku harmonikuspili einhvern tíman eftir miðnættið. Ég reyndi að sannfæra þau um að þetta væri toppurinn á tilverunni. Ég meina hvað er rómantískara en að sofa uppí rúmi með ástinni sinni við harmonikku undirleik?

Mikið var gott að dagurinn í dag var langur. Ég þurfti að leggja mig. Taka á móti gestum. Leggja mig meira. Taka á móti fleiri gestum. Blaðra við unglingana. Skila ketti. Hugsa um mína ketti. Leggja mig. Og núna er lífið og heilsan loksins komin í nógu gott lag til að elda veislumatinn. Uppvaskið og tiltektin má bíða.

Niðurstaðan er samt sú að við erum ekki orðin gömul. Það var nefnilega meira fjör, meiri hávaði og meira drasl í partýi gamla fólksins heldur en í unglingapartýinu kvöldið áður. Ha!


kvöld miðaldra húsmóður

Ég, kennarinn og pottarnir okkar að mótmæla.
Ég, kennarinn og prinsinn á veitingarstað að borða saman.
Ég, kennarinn og kattadómarinn að horfa saman á sjónvarpið.
Ég, kennarinn og kattadómarinn að spila... og spila... og nota heilann.
Ég og kattadómarinn að horfa á vídeó og emja af hlátri.
Ég og prinsinn að keyra.

Uppskrift að frábæru kvöldi með frábæru fólki... en umfram allt það besta við kvöldið... húsið mitt stendur enn eftir 18 ára afmæli heimasætunnar. Hjúkk!


Allt gamla fólkið

Ég skil ekki hvaðan það kom. Allt þetta gamla fólk. Gamla fólkið sem umlykur mig. Gamla fólkið sem er allt í kringum mig. Það læddist að mér, hægt og rólega. Og nú er það allt í kring, útum allt. Og sækir enn á. Ég sé það læðast að mér, skríða í áttina til mín.

Svona þar til ég varð 36 ára hafði ég bara varla komið í fertugsafmæli. Þekkti varla einhvern yfir fertugu. Allavega ekki marga. Svo síðustu tvö árin heftur afmæliboðunum rignt yfir mig. Það er eins og það sé skyndilega í tísku að verða fertugur. Eins og enginn sé maður með mönnum nema eiga afmæli. 40 ára er svo "in" að það er ekki fyndið.

Ég sit eftir hálfringluð. Ég, unglambið, er í endalausum veislum hjá öllu þessu gamla fólki. Hvaðan kom það? Hvernig kynntist ég því? Hvernig fór ég að því að kynnast svona mörgum gömlum á bara svona tveimur árum? Það hefur ekkert með það að gera að ég er að nálgast fertugt sjálf? Nei, það getur ekki verið.

Og núna virðist ég ná þremur fertugsafmælum á mánuði. Á mánuði! Ég var síðasta laugardagskvöld í sérlega skemmtilegu fertugsafmæli hjá Öddu hlaupagauk. Fyrir ekki svo löngu varð kattadómarinn fertugur og stóri bróðir minn ætlar svo að loka þrennunni og ná þessum vinsæla aldrei.

Eftir sit ég. Næ ekki að fylgja tískunni. Horfi á eftir kennaranum, hinum hobbitanum, líffræðingnum og ég veit ekki hverjum hverfa yfir yfir á fimmtugsaldurinn eins og ekkert sé sjálfsagðara... Halló? Hvað með mig? Á ég nú bara að elta gamla fólkið... reyna að ná þessum aldri og sjá hvað er svona merkilegt?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Vilma sjálf

Höfundur

Vilma Kristín
Vilma Kristín
The Worrying kind
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband