Færsluflokkur: Bloggar

Ferskara en ferskt

"Vá, voru þjónar?", spurði prinsinn úr aftursætinu. Ég jánkaði, jú, jú, við sáum einhverja þjóna um helgina. "Var hann með brúnt hár?", hélt prinsinn áfram. Ég lagði mig fram við að svara spurningum forvitna prinsins. Hann vildi vita allt um ferðalagið sem ég var að koma úr.

Vinnan mín fór árshátíðarferð um helgina. Við héldum á Stykkishólm á föstudaginn og erum búin að bralla heilmikið síðan þá. Á laugardaginn fórum við dásamlega siglingu um breiðafjörðinn. Það kom skemmtilega á óvart að sjóveikin sem ég beið eftir kom aldrei. Ég kom mér fyrir fremst við hliðina á trillukarlinum og hlustaði á hann útskýra fyrir mér hluta af skipinu. Við góndum á fugla og eyjar og spáðum í straumnum.

Hápunkturinn á siglingunni var þegar við fórum að "veiða"... sko einmitt, við veiddum auðvitað ekki neitt en starfsmenn á bátnum veiddu fyrir okkur allskonar skemmtileg heit. Við biðum spennt við borðið og kölluðum að kátínu þegar allskonar sjávarfang og lífverur birtust.

Við skoðuðum krabbana áður en við slepptum þeim aftur í sjóinn. Héldum á krossfiskum. Og svo fengum við að smakka. Mmmmmm. Spriklandi fiskur úr hörpuskel rann beint úr skelinni uppí munn og ofan í maga. Hrognin fylgdu svo á eftir og saman var þetta ofurferska hráefni með sterkum sjávarkeim og léttu saltbragði. Ég stillti mér upp við hliðina á manninum sem var að verka svo ég ætti nú örugglega greiðan aðgang að gómsætinu.

Skyndilega var boðið uppá nýjan rétt. Ég reyndi að sleppa að horfa þegar ígulkerin voru rist upp en fljót að rétta fram lófann til að fá smakk. Nammi namm. Ígulkerahrogn eru nýja uppáhaldið mitt. Sæt og skemmtileg í munni. Ég barðist við löngunina um að klappa saman lófum en hvatti í staðin Rebbý áfram í smökkuninni. Hún tók stórkostlegum framförum! Konan sem borðaði ekki Sushi fyrir viku síðan var núna farin að borða hráan fisk og hrofn beint úr skel, frábært!

Það voru þreyttir og glaðir ferðafélagar sem trítluðu frá borði á laugardagseftirmiðdegi. Við lögðum af stað í átt að hótelinu. Eyjamaðurinn slóst í för með mér og Rebbý. Líffræðingurinn trítlaði líka með okkur og spilaði á harmonikkuna. Úr varð okkar eigin litla skrúðganga í gegnum Stykkishólm þar sem við marseruðum í fremst með harmonikkuspilandi líffræðinginn á hælunum. Svona stundir eru ómetanlegar.


Örflensa

Þetta er totally málið. Totally. Örflensa. Ég var alveg slöpp fram eftir degi í gær. Slöpp þegar ég fór að sofa. Vaknaði svo mikið hressari í dag. Mikið. Ég held að þessi 2 ja tíma veikindadagur sem ég tók hafi breytt öllu. Algjörlega. Til hvers taka heilan veikindadag eða 2 tímaru eru nóg?

Ég er en með smá kvef en ekkert til að tala um. Örflensan er að hverfa á braut. Og ég að verða betri en ný. Sem er ljómandi það stendur mikið til um helgina. Árshátið með öllu tilheyrandi. Þið vitið góðum mat, dansi og auðvitað skemmtiatriðum sem við útbúum sjálf. Ég notaði hluta af deginum í að undirbúa okkar atriði enda er ég að hluta til höfundur atriðisins.

Mikil spenna í gangi, það er eiginlega eins og við höfum aldrei áður haft árshátíð. Ég bíð spennt eftir hinu árlega happadrætti. Og svo auðvitað bara eftir því að skemmta mér með öllum skemmtilegu vinnufélugunum.

Nú stefni ég hins vegar á rúmið, enda er það planið að sofa mikið til að losna við leifarnar af örflensunni...


Ég er með markmið

Ég vaknaði og fann strax að það var eitthvað að. Eitthvað öðruvísi en það átti að vera. Ég leit á klukkuna. Nei, á þessum tíma á maður að vera í fasta svefni. En þarna lá ég glaðvakandi á milli þrjú og fjögur um nótt. Og ekki nóg með það að ég var vakandi á þessum ókristilega tíma heldur var ég líka stífluð og illt í hálsinum.

Ég reyndi að sofna. Prófaði að bylta mér í rúminu. Ekkert gekk. Endaði með að fara á fætur, kíkja aðeins á sjónvarpið. Ég fann þreytuna aukast og skreið aftur uppí rúm. Ahhh, hvað það yrði gott að sofna. Ég ætlaði að einbeita mér að því að losna við bévítans kvefið enda enginn tími fyrir það útaf öllu sem stendur til.

Ég steinsofnaði og dreymdi voðalega fallega drauma. Að sofa er þvílíkur lúxus. Skyndilega virtist heimurinn hrynja og vaknaði upp við stökkvandi kött. Kjánakisan mín ákvað að þetta væri prýðilegt tækifæri til að æfa stökk. Ofan af hillu. Ofan af hárri hillu. Með mig sem lendingarpall. Það er ekkert grín að fá hoppandi kött ofan úr hárri hæð ofan á sig. Ég settist upp með andköfum og nuddaði auman fótlegg sem hafði fengið að kenna hressilega á klómun á kjánakettinum.

Ég bölvaði og lagðist útaf aftur. Einbeitti mér að því að sofna aftur. Þetta var ekkert grín. Maður á sofa á nóttunni. Ekki fá ótímabært kvef eða stökkvandi ketti. Loksins miskunaði svefninn sig yfir mig. Draumarnir vour nú ekki eins ljúfir og góðir, en langt frá því að vera martröð. Ég fann þreytuna líða í burtu og hlakkaði til að sofa fram á morgun.

En hvað nú? Af öllum nóttum ársins valdi prinsinn þessa nótt til að lenda í slysi. Uppí mínu rúmi! Af öllum nóttum. Ég hrökk upp þegar bleytan breiddi úr sér. Stökk fram úr rúminu og tosaði í steinsofandi prins. Of seint. Ekkert annað að gera en að fara að standa í allskonar tilfæringum með rúmið og drífa okkur prinsinn í sturtu. Ég gat allavega ekki kvartað undan að þetta væri viðburðarsnauð nótt.

Loksins voru allir orðnir hreinir og fínir og búið að gera viðkomandi ráðstafanir. Hægt að leggjast aftur til hvílu. Reyna að ná klukkutíma svefni í viðbót. Ég bylti mér. Ég snéri mér. Hvar var svefninn eiginlega núna? Eftir það sem mér fannst óratími skreið hann óvænt inn. Og draumarnir fylgdu með. Erfiðar og dimmar draumfarir. Ekkert líkt skemmtilegu draumur fyrri hluta nætur.

Ég var svo ekki tilbúin til að takast á við lífið þegar ég vaknaði við klukkuna og dreif prinsinn á fætur. Druslaðist í vinnuna en varð að játa mig sigraða. Ákvæð að vera skynsöm, stimplaði mig út, skráði mig veika og dreif mig heim í svona "power" veikindadag. Semsagt heim og svaf í tvo tíma áður en ég stökk í vinnuna til að taka þátt í álagstesti aldarinnar.

Nú sit ég undir teppi ákveðin að láta kvefpestina hverfa í nótt svo ég verði betri en ný á morgun... og ég ætla að sofa í alla nótt... í einum rykk...


Allt í einu

Ég er ekki alveg að skilja þessa kreppu. Neibb. Einhvern veginn er alveg brjálað að gera hjá mér. Bara brjálað. Það er svona "allt í einu" ástand. Það er þanng að ég á að vera að vinna í öllum verkefnum mínum í einu og helst klára þau öll í einu. Agalega mikið at. Dagarnir þjóta hjá og þegar ég sit eftir eins og keyrt hafi verið yfir mig skil ég ekki í hvað allur dagurinn fór.

Vissulega er mikið að gera í símtölum. Ég er að reyna að halda allskonar "boltum" á lofti sem þýðir að spjalla við forritara út um allt land og vinna með þeim að úrlausnum. Ekki leiðinlegt að spjalla við alla þessa skemmtilega stráka, oft á dag jafnvel. Svo er ég að bögglast í samskiptum við viðskiptavini, allt að gerast á þeim vígstöðvum. Hringja og spjalla og tékka... Og tollstjórinn er líka í essinu sínu þessa dagana og þarfnast athygli. Ekki leiðinlegt heldur.

Ofan á þetta er ég að rembast við að ráðgjafast. Á fundum að láta ljós mitt skína. Greina og skrifa skýrslur. Og svona ráðgjafatala við hina ráðgjafana... það er sko eitthvað sem forritarar skilja ekki. Og áður en ég veit af er klukkan orðin hálf sjö og líffræðingurinn stappar niður fótunum og heimtar að ég hætti að vinna.

Síðustu mánuði hef ég smá saman verið að færa mig til í vinnunni, alveg óvart reyndar. Frá því að vera frábær forritari yfir í að vera ráðalaus ráðgjafi. Og það er sko bara snúnara en það leit út fyrir að vera að rembast við ráðgjafastarfið. Núna horfi ég með söknuði um öxl til þess tíma þegar ég fékk að forrita. Og ég held barasta að stefnan verði sett á það aftur... jebb, best að nota næstu mánuði til að reyna að færa mig aftur um sess...

En þanngað til... mikið svakalega er gaman að ráðgjafast í öllu þessu sem stendur til núna... og mikið svakalega verður gott þegar það verður rólegra... bráðum...


Sjálfhelda

"Uhhhh.... ohhhh....", stundi ég og gerð heiðarlega tilraun til að snúa mér við. Þetta var allt annað en þokkafullt. Allt annað. Hvað í andskotanum var ég búin að koma mér útí. "Í alvörunni.... er einhverjum sem finnst þetta gaman?", hugsaði ég og gerði örvæntingarfulla lokatilraun til að losa mig úr sjálfheldunni. Flllluuuuuuupppppp.... og skyndilega slapp ég úr prísundunni. Hjúkk, þarna slapp ég frá því verða mér endanlega til skammar.

Hálf móð eftir æfingarnar og átökin teygði ég mig eftir næstu þraut. Ég andvarpaði og byrjaði svo slaginn. Ég heyrði Rebbý flissa þar sem stóð og ég þakkaði mínum sæla fyrir að hún varð ekki vitni af aðförunum. "Það er fyndið að heyra hljóðin", tísti hún þegar ég bölsótasðist og stundi upp að þetta kynni ég ekki.

Við vorum semsagt í árlegum leiðangri að kaupa kjól fyrir árshátíðina. Þetta er ekki uppáhaldið mitt. Sko það að kaupa kjól. Það þýðir að maður þarf að þramma búð úr búð. Og það sem verst er, maður þarf að máta alveg heilan helling af flíkum sem ég hef bara ekki skilning á. Engan veginn. Sem betur fer hef ég Rebbý með mér sem er ótrúlega þolinmóð að aðstoða við að finna mögulega kjóla og aðstoða mig þegar ég festi mig. Umfram allt er hún duglega að aðstoða við rennilása. Sem er apparat sem vill ekki þýðast mig.

Og þarna þvældumst við búð úr búð. Ég eyddi meiri hluta tímans á nærfötunum inní pínulitlum klefa í annarlegum stellingum. Að tosa eitthvað yfir höfuðið. Að hysja eitthvað upp um mig. Að draga niður pils. Að tosa á rétta staði. Að teygja mig eftir bjánalegu rennilásunum.

"Þú mátt renna núna...", andvarpaði ég og dró tjaldið frá. Og Rebbý spratt á fætur og renndi upp. Ég snéri mér í hring. Vóg og mat stöðuna. Nógu síður? Of síður? Góður litur? Gott snið? Hmmmmmm.... "Þú mátt renna núna.."... og Rebbý spratt á fætur og renndi niður.

Ótrúlegt en satt þá endaði ég með að eiga í vandræðum með að velja á milli tveggja kandídata. Og nú er bara allt tilbúið. Bara fínt. Og ég varð mér ekki opinberlega til skammar. Og það þurfti ekki að sækja skæri og klippa neitt utan af mér. Og mér tókst næstum alltaf að losa mig sjálf... næstum.


Afi gamli.

"Mamma...", sagði prinsinn þar sem hann stóð á miðju stofugólfinu og sparkaði blöðru til og frá. "Já", svaraði ég. "Mamma, þú átt ennþá pabba á lífi?", hélt prinsinn þá áfram. "Já, já", svara ég og velti fyrir mér hvað hann sé að spá núna drengurinn. "Áttu pabba á lífi? Það er geggjað skrítið", tístir í honum og eitt augnablik finnst mér eins og hann sé að komast á gelgjuna. "Af hverju er það skrítið?", spyr ég. "Af því hann er þá geggjað mikið gamall!", svarar hann með svona pínulítið hortugum tón og heldur svo áfram: "Hvað er hann gamall?" Ég hugsa mig um andartak: "60 ára" "60 ára!", æpir gelgjulegi prinsinn: "Vá!"

Og skyndilega fann ég að mér finnst ég ekkert vera gömul lengur. Og mér finnst pabbi minn ekkert gamall heldur. Bara alls ekki. Ég á bara ungan pabba. Og ef mamma mín væri á lífi væri hún líka enn yngri. En þetta segir kannski svolítið um það hvað prinsinn umgengst lítið eldra fólk. Í hans augum er það ótrúleg staðreynd að hann eigi afa sem hafi náð þessum ótrúlega aldri.

Annars er hann mikið að spá í kvöld blessaður. "Hvað er amma mín gömul?", spyr hann eftir dágóða stund og sættir sig við aldurinn hennnar. "Hvað voru mamma þín og pabbi gömul þegar þau giftust?", hann hallar undir flatt og ég skil ekkert hvað er að gerast í þessum fallega litla kolli. "Þau giftust aldrei", svara ég. Aumingja prinsinn sem er með brúðkaup á heilanum og kemur svo úr svona syndafjölskyldu.

"Afhverju voru mamma þín og pabbi aldrei gift?" "Afþví þeim langaði það ekki...", styn ég og er dauðhrædd um að það sé verið að leiða mig í gildru. "En voru þau samt ástfangin?", spyr hann og er greinilega að reyna að ná áttum. "Kannski smá.. í stutta stund....", svara ég og vona að ég sé komin úr kastljósinu.


Sumardagurinn fyrsti

Ég stóð og horfði á. Naut stundarinnar. Skyndilega flaug annar kjuðinn úr hönd trommuleikarans. Án þess að missa takt hélt hann áfram að slá trommurnar með einum kjuða á meðan hann hló. Eiginlega var hann í hláturskasti en hélt samt áfram. Túbuleikari greip tækifærið þegar færi gafst og beygði sig eftir kjuðanum og rétti hann til hins hlæjandi trommuleikara.

Regnið kastaðist af trommusettinu. Saxófón leikarinn virtist ekki sjá á nótnastatífið enda rann regnvatnið niður andlit hans. Ég stóð í hópi fólks og fylgdist spennt með þessari einbeittu lúðrasveit sem ætlaði sko ekki að láta verðrið stoppa sig í tónleikahaldi.

Hálftíma áður höfðum við, ég og prinsinn, stillt okkur upp fyrir aftan lúðrasveitina. Tilbúin í skrúðgöngu. Eins og við gerum alltaf á sumardaginn fyrsta. Við vorum í sólskinsskapi þó að það rigndi. Og rigndi. Og rigndi. Á tímabili áttu skátarnir fremst í smá erfiðleikum með að komast áfram með fánanna. En íslenski skátar láta veður ekki stoppa sig (ekki frekar en íslenskar lúðrasveitir) svo þeir settu undir sig höfuðið og börðust áfram uppí veðrið.

Og þarna þrömmuðum við. Í skrúðgöngu. Blautri skrúðgöngu. Og ótrúlegt en satt þá var bara ágætist mæting í skrúðgönguna. Þegar á hátíðarsvæið svar komið tóku við gegnsósa hoppukastalar, svo blautir að það voru engar biðraðir að komast í þá. Og tónleikar með hinni rennandi blautu en ákveðnu lúðrasveit.

Ég fann að vatnið var farið að seitla innum alla sauma. Og vatnið streið upp fótleggina á mér. En ég þurfti þó allavega ekki að vera að spila á klarinettið mitt í leiðinni. Þakklát fyrir það druslaðist ég hundblaut heim á leið.


Lok, lok og læs?

Mér finnst alltaf gaman þegar eyjamaðurinn kemur í heimsókn. Við skemmtum okkur alltaf ágætlega og við höfum alveg sérstakt samband. Alveg síðan við reyndum í sameiningu að drepa okkur á vinnu í fyrra. Það er eitthvað sem gerist þegar fólk lendir í svona ástandi eins og við lentum í... svona lífsháska.

Og í dag var eygjamaðurinn "minn" í heimsókn í höfuðstaðnum. Við ákváðum að nota tækifærið og hafa vinnufund í verkefninu okkar. Við hreiðruðum um okkur í afskekktu fundarherbergi á annari hæð en ég vinn venjulega. Við létum fara vel um okkur, hringdum í norðanmann og blöðruðum og blöðruðum. Tíminn þaut áfram og áður en við vissum af var kominn tími að fara heim. Við trítluðum út úr álmunni og skelltum þjófavarnakerfinu í gang. Príluðum upp stigann að álmunni minni.

Eyjamaðurinn bar aðgangskorið fimlega upp að skynaranum. Rautt laus. Allt læst. "Þú þarft að slá líka inn kóðann...", sagði ég og beið þolinmóð. Skelfingarsvipur breyddist yfir andlit hans. Hann leit á mig og sá hvað var að. "Mannstu ekki kóðann þinn?", spurði ég. "Nei! Þú sagðir ekkert um kóða bara hvort ég væri með kortið...", sagði hann og angistin skein úr augunum.

Ég er auðvitað hálfviti að upplagi svo ég flissaði létt. Þarna stóðum við læst fram á gangi. Og húsið okkar er þannig að maður þarf kort og kóða til að komast í læstar álmur og maður þarf lykil til að komast úr húsinu. Við gerðum léttar tilraunir með kort eyjamannsins og kóðann minn. Ekkert virkaði. "Ertu með lykla?", spurði ég og velti fyrir mér hvort við kæmumst úr húsinu. Eyjamaðurinn minn hristi höfuðið: "Lyklarnir mínir eru þarna inn". Hann benti inn um læstu hurðina. Hálvitinn ég var komin í keng. Þetta var svo fyndið. Örvæntingarfullur reyndi eyjamaðurinn að slá inn ýmsar útgáfur af kóðum. Ekkert virkaði.

Ég var farin að sjá fram af að þurfa að hringja í yfirmanninn til að koma og leysa okkur úr sjálfheldunni. Og ég flissaði áfram á meðan eyjamaðurinn hélt áfram að reyna að bjarga okkur. Skyndilega tókst honum að detta niður á rétta kóðann. Hjúkk... við kæmumst inn að sækja lyklana svo við kæmumst út úr húsinu.

En við erum tölvufólk. Við göngum ekkert framhjá tölvu án þess að kíkja aðeins... tékka á póstinum... og svoleiðis nauðsynjar. Og ég tafðist aðeins þarna við borðið mitt. Jæja, tími til að fara heim. Ég kastaði kveðju á eyjamanninn og trítlaði af stað út. En hvað var þetta? Útidýrahurðin var eitthvað skrítin. Lásinn sem hafði verið þar rétt áður var horfinn. Ég starði útum gat á hurðinni og húsið var galopið. Svona gat þetta ekki átt að vera.

Mér fannst eiginlega ótrúlegt að mér hafði tekist á innan við hálftíma að standa læst úti í vinnunni yfir í það að geta ekki læst. Ég hringdi í sálfræðinginn. Hvað var til ráða. Eftir öll innbrotinn var ekki í stöðunni að skilja húsið eftir óvarið.

Mér til lukku kom riddari á gráum smábíl. Hann stökk út úr bílnum og veifaði framan í mig lás. Viðgerðarmaðurinn mættur á svæðið. Nú tók handlagna Vilma yfir og ég aðstoðaði viðgerðarmanninn. Stóð hjá og dáðist að handverkinu og kom sterk inní prófanir á nýja lásnum. Allt innifalið í vinnudeginum. Með læst hús brunaði ég af stað heim...


Regluhorn líffræðingsins

Það er smá ástand í herberginu mínu í vinnunni þessa dagana. Jebb. Annars er þetta venjulega skemmtilegt og líflegt herbergi. Held að ég sé svo heppin að hafa bestu herbergisfélagana. Allavega herbergisfélaga sem passa mér mjög vel. Venjulega. En núna er ástand.

Sko í "stjörnuherberginu" fær fólk venjulega að tjá sig. Frjálslega. Svona nokkuð allavega. Og það geri ég. Daglega. Ok, ég er fyrst að viðurkenna það að ég er kannski ekki besti söngvari í heimi en ég er allavega voðalega innileg. Ég syng þegar ég er leið. Ég syng þegar ég er glöð. Ég syng þegar ég er stressuð. Og yfirleitt án þess að taka eftir því.

Og lagavalið? Lagavalið er svona úr öllum áttum. Daloon lagið fræga er þó efst á vinsældarlistanum og það er það lag sem ég raula oftast þegar ég brest í ósjálfráðan söng. Því til stuðnings á ég til að syngja lag Kamillu úr Kardímommubænum. Ég veit. Frumlegt. Mér finnst það líka.

Herbergisfélagarnir virðast hins vegar ekki kunna gott að meta. Líffræðingurinn setur upp skeifu. Hann notar allt sem honum dettur í hug til að fá mig til að hætta. Glerlistakonan styður hann. Stendur þétt við bak hans þegar hann reynir að þvinga mig til að hætta að syngja hið sívinsæla Daloon lag. Þau reyndu að setja á sektargreiðslur... sem ég innti ánægð af hendi og hélt svo áfram að syngja. Jebb, ég get ekki sagt að glerlistakonan og líffræðingurinn séu aðdáendur.

Og núna er komið alveg nýtt. Líffræðingurinn er búinn að skipa sig reglugerðarmann herbergisins. Til þess hefur hann dröslað inn auglýsingastandi. Þið vitið, svona standi á fæti sem hægt er að setja auglýsingu á þannig að hún blasir við. Á auglýsingastandinum... regluhorni líffræðingsins... stendur ein regla. Það er herbergisreglan. Bannað að syngja.

Ég reyni að hemja mig. Gleymi mér stundum og biðst þá innilega afsökunnar á því að brjóta "regluna"... þessa heilögu reglu sem er beint bara að mér. Ég get ekki neitað því að ég er frekar sár. Eða á ég að vera upp með mér?

Um daginn stóð ég líffræðinginn hins vegar að því að reyna að stela öðrum auglýsingastandi. Væntanlega til að setja upp aðra reglu. Ég sendi honum hvasst augnaráð og hann lagði standinn frá sér samstundis. Ég meina, það eru nú mörk fyrir því hvað maður þolir margar reglur.


Innrásin!

Ég byrjaði að myndast við að þrífa íbúðina í dag. Ég er svona skorpumanneskja. Ég hvorki tek til né þríf í langan tíma, eyði svo fullt af tíma í að reyna að gera húsið íbúðarhæft aftur. Og í dag var komið að því að gera eitthvað. Ég setti heyrnartólin á hausin, hækkaði í ipodnum, dillaði mér í takt við tónlistina og söng hástöfum með. Prinsinn var nógu kurteis til að kvarta ekki.

Eftir að baðherbergið var farið að glansa af hreinlæti, eftir mig og Ajax brúsann, snéri ég mér að herbergi prinsins. Einbeitt snéri ég mér í barbaga við Lego karla og Playmo dót, bolta og liti. Ég var rétt komin inní herbergið þegar ég sá þá fyrstu. Þarna lá hún, sakleysisleg yfirbragð hennar gabbaði mig augnablik. Ég hallaði undir flatt og brosti. Oh, hvað hún var sæt. Oh, hvað hún var friðsæl.

Nei, úbbsss.. þarna var önnur. Oh, hún var alveg jafn sæt. Oh, hún var alveg jafn friðsæl. Ég beygði mig eftir þeim, teygði fram höndina en við hreyfingu þutu þær af stað. Hmmm, komið aftur... bað ég. Komið aftur. En þær virtust hlægja af mér og komu sér fimlega undan.

En hvað var þetta? Þarna var önnur! Og önnur! Og þarna var heil fjölskylda. Hvað var í gangi hérna. Ein var sæt. Tvær voru sætar. Og friðsælar. Og pínulítið himneskar. En hundrað? Nei, það var annað mál. Ég yrði að ná stjórn á þessu. Núna. Strax. Áður en þetta færi úr böndunum.

Ég gerði tilraun til að ná hvikum hóp með hjálp tuskunar en hópurinn tvístaðist. Þaut í allar áttir og ég var viss um að ef ég hefði lagt við eyrun hefði ég heyrt þær hlægja. Bölvaðar skammirnar. Ég setti í brýrnar og lagði á ráðin. Ég þyrfti plan. Fullkomið og útsmogið plan. Ég þyrfti að koma þeim á óvart. Koma aftan að þeim. Ná þeim varnarlausum. Ég blístaraði kæruleysislega, eins og ég hefði engar áhyggjur í heiminum, og laumaðist fram í eldhús.

Ég kom til baka vopnuð sóp og fægiskóflu. Ég stökk á fyrsta hópinn og náði helmingnum með sópnum áður en hinn helmingurinn náði að flýja. Ég hamaðist og hamaðist og eftir dágóða stund hafði ég náð þeim öllum. Fullnaðarsigur. Fullnaðarsigur mín og sópsins míns. Veiii!

Ósköp varlega kom ég þeim fyrir í poka, tilbúin að koma þeim úr íbúðinni. En hvaðan komu þær? Ég horfði á hrúguna í pokanum. Hrúgu af fjöðrum. Fjöðrum sem þjóta frá manni við minnstu hreyfingu. Að mér læddist grunur. Gat verið að kettirnir hefðu náð í fugl? Voru ekki mínir fuglar örugglega á sínum stað? Jú, allir fuglar í réttum búrum. Ég leitaði í herbergi prinsins, tilbúin að finna fuglalík... þó ég skyldi ekki alveg hvernig fugl hefði átt að komast þarna inn. En... aha... þarna var uppsprettan! Var ekki komin myndarleg rifa á dúnsæng prinsins og útum rifuna gægðust sætar og friðsamar fjaðrir sem langaði að spreyta sig úti í stóra heiminum. Ég hvessti á þau augum... "Ekki láta ykkur detta það í hug...", hvæsti ég og kinkaði kolli þegar þær skriðu aftur inní sængina.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Vilma sjálf

Höfundur

Vilma Kristín
Vilma Kristín
The Worrying kind
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband