Færsluflokkur: Bloggar

Baðdagur

Rúna malaði af ánægju, hún lyngdi aftur augunum og naut athyglinnar. Ég og prinsinn lögðum okkur öll fram við verkefnið. Já, í dag böðuðum við Rúnu. Löngu kominn tími til. Fyrst var að taka draslið úr henni. Svo sápuðum við hana hátt og lágt. Stóðum á miðju planinu, bæði vopnuð stórum svampi og svo mökuðum við sápunni. Skelltum okkur inn og þrifum innréttinguna. Brunuðum svo uppá þvottaplan til að þrífa sápuna af og skola skítinn burt.

Maðurinn á næsta stæði setti upp skelfingarsvip þegar prinsinn mundaði þvottakúsinn þannig að vatnið frussaðist í allar áttir. Hann stóð við fína fína jeppann sinn og var búinn að eyða um það bil fimm mínútum að horfa á hliðina, rýna og gá hvort einhvers staðar leyndist skítugur blettur. Á meðan var ég búin að halda aftur af prinsinum að prófa þvottakústinn. En þegar kom í ljós að maðurinn ætlaði bara að standa þarna og rýna nennti ég þessu ekki lengur og rétti prinsinum kústinn.

Sjaldan hef ég séð einhvern jafn glaðan að fá að þrífa bíl. Ekki nóg með það heldur þreif hann líka motturnar úr Rúnu. Svo byrjaði að rigna. Ég vissi reyndar aldrei hversu mikið af vatninu sem lenti á mér var rigningin og hversu mikið voru vatnsgusur frá ofturþvotti prinsins. Hvort sem var þá var þetta skemmtileg stund hjá okkur.

Prinsinn var ekki hættur og heimtaði að ryksuga bílinn líka. Svo ég stóð og horfði á meðan Rúna og prinsinn bundust tryggðarböndum þar sem hann fór mjúkum höndum um hana og ofurvarlega ryksugaði aftursætið og gólfin.

Í tilefni af þessu hefur Rúna fengið að bera fleira fólk en hún hefur borið í margar vikur. Ég, prinsinn, heimasætan, sætukoppur, heimalingurinn, Snjóka og kindabóndinn. Öll erum við búin að ferðast með henni í kvöld. Ekki öll í einu, meira svona nokkur og nokkur í einu, enda brugðum við fullorðna fólkið okkur í afmæli og unglingarnir sáu um að transporta okkur fram og til baka... já, það er pínu sniðugt að hafa aðgang að unglingi með bílpróf, ég á eftir að sakna heimalingsins þegar hann yfirgefur landið aftur.


Mannrán... eða þannig

"Þarna kemur hún...", sagði glerlistakonan brosandi. Bibba skellti uppúr. Henni fannst herbergisfélagar mínir sniðugir og uppátækjasamir. Ég hlammaði mér í stólinn minn og reif upp skyrdósina mína. Að deyja úr hungri. Deyja úr hungri og þorsta. Enda ekki búin að fá vott né þurrt síðan snemma um morgunin. Aðfram komin hámaði ég í mig skyrið á með þau hin töluðu um hvað þau væru sniðug. Bibba hló ennþá.

Ég eyddi semsagt deginum í rannsóknum. Nákvæmlega. Mínir indælu herbergisfélagar, líffræðingurinn og glerlistakonan, tóku sig saman og nuðuðu í mér þar til ég gaf eftir. Þetta var fullkomið samsæri hjá þeim og til að fá þau til að hafa hljóð samþykkti ég að kíkja á bráðamóttökuna. Þanngað var mér svo skutlað, svona til að vera viss um að ég færi ekki eitthvað annað. Og þar var ég svo skilin eftir. Símalaus og alls laus. Samsæri.

Á móti mér tók allskonar sniðugt fólk sem sýndi mér þvílíkan áhuga að ég hálf fór hjá mér. Ungi vingjarnlegi hjúkrunarfræðingurinn tók niður ítarlega sjúkrasögu, mældi hita og tók blóðþrýsting. Hún gerði líka mjög heiðarlega tilraun til að taka blóðprufu. Auðvitað er ég með "erfiðar" æðar, svona æðar sem liggja djúpt og springa við minnsta hnjask. Þegar ekkert blóð ætlaði að nást út reyndi hún að nota sprautu til að draga blóðið úr mér, það var eiginlega bráðfyndið að horfa á þessar tilraunir. Nú er ég út stungin á báðum höndum og marin. Þakka herbergisfélugunum í hljóði í hver sinn sem ég finn fyrir þessu.

Svo hitti ég krúttlega litla lækninn sem sennilega er svona 14 ára en agalega klár. Hann tók líka niður ítarlega sjúkrasögu og potaði, togaði og teygði. Það kom reyndar í ljós að hann er sérstakur áhugamaður um hlustunarpípur og hlustar allt sem hann nær í. Hann eyddi góðum tíma í að hlusta og hlusta. "Ég heyri eitthvað hljóð í hjartanu sem á ekki að vera...", sagði hann alvarlegur. Ég brosti og kinkaði kolli. Hann var nú ekki alveg að trúa mér að þetta væri bara hið fínasta hljóð... og áður en ég vissi af var ég komin í hjartalínurit sem góðlegi eldri hjúkrunarfræðingurinn sá um.

Svo fékk ég að bögglast um sjúkrahúsið og prófa að fara í sneiðmyndatöku. Þanngað fylgdi mér glaðlegur sjúkraliði sem virtist þekka alla sjúklinga sem við sáum. Myndatakan var líka bara bráðskemmtileg... þarna fékk ég að prófa eitthvað nýtt.

Næstur mætti taugalæknirinn. Hann var nú aldeilis bráðsmellinn. Hann fann mig inná setustofu og dró mig fram á gang. Hann þekkti greinilega lítið til á staðnum og snéri sér vandræðalegur í hringi í leit að aðstöðu. Svo ákvað hann bara að slá til og fyrsta skoðun hjá honum fór fram frammi á gangi. Sitjandi í sitt hvorum leðursófanum spjölluðum við saman á meðan sjúklingar voru keyrðir til og fá í rúmum á milli okkar. Hann tók niður ítarlega sjúkrasögu og svo potaði hann, togaði og teygði og lét mig gera alls konar hundakúnstir. Pínulítið fyndið að vera í læknisskoðun frammi á gangi.

Eftir smá meiri setustofu og ótrúlega spennandi spænska sápuróperu fékk ég aðra skoðun hjá skemmtilega taugalækninum, sem hafði nú fundið skoðunarherbergi. Potað, togað og teygt. Prófa að snúa á hvolf. Prófa að elta putta. Og svo enn ein eyrnaskoðunin.

Eftir fimm tíma af rannsóknum og poti fékk ég að fara heim... eða í vinnuna réttara sagt. Svona eftir á er ég auðvitað herbergisfélugunum þakklát. Ef ég hefði ekki farið hefði ég sennilega eytt helginni í að spá í alla hræðilegu sjúkdómana sem gætu verið að mér. Höfuðkvalir, svimi, doði í andliti og breytt skyn eru auðvitað ekki skemmtileg einkenni. Ég veit reyndar ekki enn hvað er að mér, það er svona eitt og annað sem búið er að týna til... og hellingur sem er búið að útiloka. Nú taka við stífar jógaæfingar a la líffræðingur, heit böð, bakstrar og bólgueyðandi lyf með það að markmiði að eyða vöðvabólgunni. Svo fer ég aftur að hitta skemmtilega og uppátækjasama taugalækninn. Hann bauð mér að koma aftur, í svona óvissuferð... hitta hann einhvers staðar í deild sem hann vinnur ekki í. "Ég hlýt að finna einhverja aðstöðu..." , sagði hann um leið og hann brosti og kvaddi.

Það er ekkert svo leiðinlegt að láta ræna sér ef maður fær að upplifa fullt af ævintýrum í staðinn :)


Fool or not...

"Tunguna er torvelt að temja" stóð á málshættinum sem kom uppúr gullegginu mínu. Eftir skemmtilegan kvöldmat með öllu genginu mínu fengum við hvert sitt litla eggið í eftirmat og þarna leyndist þessi frábæri málsháttur sem á víst uppruna sinn í biblíunnu. En svo satt... það þarf sko aga og mikla þjálfun til að temja tunguna.

Nú sit ég í sófanum með heimalinginn þétt við hliðina á mér, bara rólegt kvöld hjá okkur að "chilla", hún að læra... ég að dúlla mér. Við erum búnar að vera að google-a upplýsingar um bókina sem hún er að lesa og búnar að fræðast fullt um morðið á John Lennon. Svo notalegt. Svo eðlilegt. Svo... svo...svo eitthvað, eitthvað, heimilislegt.

"Why do birds sing so gay...", sungum við ég og heimasætan í kór og heimalingurinn tók undir. Jebb, við erum svona fólk sem dettur í hug að syngja bara svona af því við erum glöð... syngjum gömul rokklög, eða vinsæl lög heit beint af vinsældarlistum. En eftir stendur spurningin: "Why do fools fall in love?"


Hún er komin!

Hún reif upp útidyrnar og sagði hátt með spurnartón: "Jólaskraut?"

"HA?!", æpti prinsinn innan úr herbergi þar sem hann lá niðursokkinn í sjónvarpsgláp. í röddinni mátti greina furðu, gleði, undrun. Ég, heimasætan og sætukoppur stóðum á ganginum og héldum niðrí okkur tístinu. Prinsinn kom í loftköstum innan úr herberginu og spennan skein úr augunum. Hann virtist ekki alveg trúa þessu.

Hann nam staðar í forstofunni. Svo æpti hann eins hátt og hann gat, hoppaði upp og niður af spenningi. Það héldu honum engin bönd og hann stökk um hálsinn á gestinum. Og nú gátum við ekki setið á okkur lengur. Við rukum fram í forstofu líka og biðum spennt eftir að kæmi að okkur að knúsa. Knúsa heimalinginn sem er komin til Íslands í heimsókn. VEIIIII!!!!

Heimasætan var búin að sitja á eldhúsborðinu og mæna útum gluggann bíða eftir merki um heimalinginn. Hún stökk niður þegar hún sá glitta í kunnuglega veru. Ég og sætukoppur drifum okkur útí glugga líka og vinkuðum og vinkuðum.

Þetta er eins og jólin séu komin, hér eru allir vakandi. Prinsinn veit ekkert hvernig hann á að láta. Hlær, skríkir, hoppar, syngur og reynir að sýna heimalingnum allt dótið sitt í einu. Við liggjum öll í sófanum og hlustum á ævintýri frá útlöndum. Við erum búin að standa okkur svo vel að halda þessu leyndu yfir prinsinum sem er fremstur í aðdáandaklúbbi heimalingsins.


Spennan eykst...

... á heimilinu okkar ríkir mikil spenna þessa dagana. Spennan sem eykst og eykst með hverjum deginum sem líður. Hápunktnum er samt sennilega náð í dag því á morgun rennur upp dagurinn sem við höfum beðið eftir. Ég og heimasætan erum búnar að passa okkur alveg svakalega vel að segja prinsinum ekki neitt... hann fer grunlaus inní morgundaginn sem ætti að koma honum skemmtilega á óvart. Ohhh.... nú þurfum við að bíða samt aðeins lengur...


Merkilegt...

Ég lagðist í sófann, prinsinn minn breyddi yfir mig teppi og svo góndi ég á sjónvarpið. Þarna lá ég eins og skata. American Idol leið áfram. Ég hef alveg gaman af þessu og í kvöld var Motown tónlist. Mjög skemmtilegt. Þegar þátturinn var búinn var rifjuð upp frammistaða keppenda. Ég starði á skjáinn. Ég skyldi þetta ekki. Uhhhh... hvar var ég búin að vera?

Ég hélt að ég hefði verið á sófanum allan tíman og leyft sjónvarpinu að fylla mig af efni sem ég þurfti ekkert að spá í. En þarna sýndu þeir lag eftir lag sem ég hafði bara alls ekki séð í þættinum sem ég horfði á. Mér sýndist á öllu að ég hafði séð 6 lög af 10. "Skrítið", sagði ég upphátt. Unglingarnir sem voru nýkomnir inn horfðu á mig eins og ég væri skrítin þegar ég reyndi að útskýra að það hefði verið svindlað á mér... bara helmingurinn af lögunum sýndur. Það hlaut að hafa verið svindlað á mér... þetta hafði örugglega ekkert með það að gera að ég dottaði þarna í sófanum.

Ég hafði hætt snemma í vinnunni, ætlaði að drífa í að klára tiltektina. En það er greinilega hættulegt. Fyrst fékk ég óvæntan gest í heimsókn sem ég bauð í mat og lét hjálpa mér í "Tilraunaeldhúsi Vilmu". Núna var ég sannfærð um að ég kynni að elda kjötbollur... og viti menn... það var ætur kvöldmatur.

En frá því ég kom heim lá leiðin niður á við. Höfuðverkur aldarinnar herjaði á mig þar til ég gafst upp og leið útaf í sófanum. Dásamlegi prinsinn minn sótti handa mér teppi og sýndi svo hvað hann er stór strákur og bjargaði sér alveg sjálfur með allt sem honum datt í hug á meðan mamman hélt hún væri að horfa á sjónvarpið en steinsvaf í staðinn. Nú ætla ég að reyna að halda mér vakandi í hálftíma og spjalla við unglingana áður en ég skríð uppí rúm...


Ég er ömurleg...

... húsmóðir. Það er bara staðreynd. Ég þori alveg að viðurkenna það opinberlega enda erfitt að fela þetta.

Einhvern veginn hef ég aldrei komist uppá lag með þetta allt saman... þið vitið, daglega að taka til, þrífa, ganga frá jafnóðum, vaska upp. Ef mig langar að vera góð mig sleppi ég að vaska upp. Ekkert mál. Geri það bara seinna. Auðvitað kemur þetta í hausinn á mér. Einn daginn er bara allt í drasli og gólfið grátbiður um að láta skúra sig.

"Gerðu það! Gerðu það... bara eina umferð..." stynur parketið og vaskurinn inná baði tekur undir: "Mig langar svo að glansa... og sýna hvað ég er fallegur". En ömurlega húsmóðirin lætur eins og hún heyri ekki beiðnirnar. Bara labbar framhjá og sér ekki draslið. Ýtir til drasli í sófanum svo hún geti sest niður.

Kannski er þetta uppeldisatriði. Kannski ekki. Ég var í fóstri í nokkur ár hjá hússtjórnargenginni húsmóður. Þar var ég látin æfa mig í öllum hefðbundnum heimilisstörfum. Uppeldissystur mínar eru fyrirmyndar húsmæður. Kannski er þetta frekar eitthvað erfðaræðilegt.

Annars er það ekki málið að mér finnist leiðinlegt að þrífa og taka til. Mér virðist hins vegar skemmtilegra að taka til þegar það er mikið drasl... sem þýðir auðvitað líka mikill árangur. Ég byrjaði snemma í morgun á íbúðinni. Nú er bara eldhúsið og þvottafjallið á sófanum eftir... búin að dútla svona við þetta með smá hléum. Þurfti til dæmis nauðsynlega að taka hlé til að borða gómsæta Sushið mit.

Og nú ætla ég að halda áfram, því eftir tíu á kvöldin er allra besti tíminn minn til að taka til :)


Ég er snillingur...

Í kvöld er ég búin að standa í tilraunastarfemi í eldhúsinu mínu. Og afraksturinn er mun glæsilegri og bragðbetri en ég þorði að vona. Ég er bara ekkert svo vitlaus... og nú á ég tilbúinn kvöldmat fyrir annað kvöld.

Sushi æðið í herberginu mínu er eiginlega ekkert að minnka. Við reynum að tala ekki stanslaust um þetta... en reglulega pompar þetta upp. Og á föstudaginn fundum við okkur uppskriftir og leiðbeiningar. Líffræðingurinn spreytti sig á föstudagskvöldið.

Ég lét slag standa í kvöld. Svo er ég búin að sjóða hrísgrjón með tilþrifum. Skera niður grænmeti og fiskmeti. Svo var komið að handavinnunni. Hjartað sló örlítið örar. Þetta var svo spennandi. Og gefur manni tækifæri til að vera svo skapandi. Púsla saman skemmtilegum litum og rúlla með bambus mottunni.

Kettirnir skoppuðu allt í kringum mig. Lyktin heillaði. Ég vandaði mig við upprúllinguna og fékk bara þokkalega smart rúllur út sem ég skar í passlega bita. Ohhh! Þeir voru svo fallegir og girnilegir. Svo krúllegir að ég gat ekki staðist að smakka. Einn. Annan. Annan. Mmmmmm..... Nú er búið að pakka þessu vel inn og ég bíð spennt eftir að borða Sushi al la Vima á morgun.


My own private cinema...

"Ég kem strax aftur... ", endurtók ég við prinsinn. Hann kinskaði kolli, sæll og glaður þar sem hann sat með popp poka í fanginu. "Ekki fara neitt...", sagði ég, stóð upp og trítlaði fram. Ég leit við í dyrunum. Hann virtist eitthvað lítill og umkomulaus svona aleinn í miðjum bíósalnum. Eitthvað svo einn í heiminum. Ég dreif mig á salernið og hraðaði mér til baka.

"Mamma, eigum við að fara í bíó?", hafði prinsinn spurt mig rétt eftir fimm í dag. Ég enn í vinnunni, auðvitað. Hann þurfti ekki að sannfæra mig. Ég stökk á fætur og brunaði heim að sækja hann. Við komum í bíóið rétt áður en myndin byrjaði. Við urðum dálítið hissa þegar við komum í tóman bíósalinn. Fljótlega eftir að við settumst, kom starfsmaður og lokaði hurðinni. Auglýsingar byrjuðu að renna yfir tjaldið og myndin byrjaði að lokum.

Við vorum alein í bíó. Sátum í miðjum staðnum og létum fara vel um okkur. Þvílíkur lúxus. Ekki nema örfáar krónur og við fáum okkar einka sýningu. Ekki amalegt að láta fólkið í bíóinu snúast um okkur. Þegar við kíktum fram beið okkar, okkar eigin sjoppa með okkar eigin afgreiðslumanni. Við vorum bara eins og konungsborin. Svona verður lífið þegar maður er orðinn ríkur... maður leigir bara allt bíóið og starfsfólkið fyrir sjálfan sig, enginn að þvælast fyrir. Enginn sem situr fyrir framan mann og skyggir á sýninguna. Enginn sem skrjáfar í pokum. Enginn sem er bara að trufla.

Þegar við yfirgáfum salinn mættum við starfsmanni sem var að fara inn að taka til eftir okkur. Reyndar ekki eins og við höfum skilið mikið að drasli... en samt öruggara að hafa sinn eigin tiltektarmann. Svo er stóra spurningin þegar maður er einn í bíó þarf maður þá að slökkva á símanum eins og röddin segir manni? Ég meina þetta er mitt bíó... má ég ekki gera eins og ég?


Heillandi heimasæta

Það er 18 ár í dag síðan heimasætan leit heiminn fyrst augum. Mér finnst það ótrúlegt að það séu svona mörg ár, mér finnst ekkert svo langt síðan og ég ekki hafa elst neitt að ráði. Ég man að ég horfði á þessa pínulitlu manneskju sem var hálfklístruð eitthvað og hafði óskaplega hátt. Ég starði bara á hana og fannst hún óraunveruleg... og ákveðin.

Hún horfði á mig til baka, hún horfði í kringum sig... og svo gaf hún skít í heiminn sem hún var komin í... í orðsins fyllstu merkingu. Ég er ekki að grínast, ég var græn á litinn í margar vikur!

Ég hafði ekki hundsvit á því hvað átti að gera við barn, hafði eiginlega bara aldrei séð ungabarn áður. Fannst þetta stór merkilegur hlutur. Svo þetta hefur eiginlega verið svolítið tilviljanakennt tilraunuppeldi. Það kom fljótt í ljós að mín fyrsta tilfinning var rétt, hún er svo ákveðin dama. Og sterkur persónuleiki. Og þrátt fyrir allt held ég að hún sé bara ágætlega heppnuð og hafi ekkert skaðast af því að eiga mömmu sem gerði hlutina stundum öðruvísi.

Og núna er hún orðin fullorðin! Litla hnátan sem hefur heillað svo marga, svona lítil og kát skotta. Hún er reyndar enn að heilla fólk. Og ég er mesti aðdáandinn. Hún er stundum hálfgert trippi. Það hefur hún að hluta til frá ömmu sinni, en hún hefur líka svo margt annað frá henni. Hún er góð, umhyggjusöm, skvetta, skellibjalla, hugmyndarík, skemmtileg, fyndin, skrítin, sérkennileg, sjálfstæð og bara æðisleg. Eða eins og hún lýsir sér sjálf: glaðlyndur dvergur.

Mér finnst ég vera orðin svakalega gömul að fullorðið afkvæmi. En ég er líka stolt af þessu stelpuskotti sem á örugglega eftir að spjara sig vel í þessum risa stóra heimi.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Vilma sjálf

Höfundur

Vilma Kristín
Vilma Kristín
The Worrying kind
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband