4.6.2009 | 00:31
Kjammss, kjammss, kjammss
Hafið þið einhvern tíman reynt að útbúa fjórðung úr hamborgara þannig að sómi sé að? Trúið mér það er mun flóknara en það hljómar... Sérstaklega ef á honum á að vera hamborgarasósa, barbeque sósa, sweet relish, Mango Chutney, Hot Mango jalapeno, auk gúrku og lauks. Jebb, hamborgarar komust á annað stig í kvöld!
Á síðustu árum hafa sjö forritarar sem allir hafa ást á mat safnast saman í það sem við köllum "Grillklúbb". Þetta er mjög lokaður og góður hópur. Við hittumst óreglulega, eldum saman og borðum... og blöðrum frá okkur allt vit. Okkur líður óskaplega vel saman og erum yfirmáta afslöppuð.
Í kvöld var í fyrsta skipti boðið uppá hamborgara. Risa stóra safaríka grillaða hamborgara. En það var ekki best. Nei, best var að fá að ráfa um sósuhlaðborð Ragga Palla. Allskonar framandi sósur sem okkur hafði aldrei dottið í hug að setja á hamborgara. Fyrst skar ég einn hamborgara í tvennt. Ég setti vandlega mismunandi sósur á helmingana. Svo beit ég í annan helminginn. Svo beit ég hinn. Mmmmm. Þeir voru báðir svo góðir. Ég gat ekki valið hvorn ég vildi borða á undan svo ég beit í þá til skiptis.
Eftir matinn sátum við öll nokkra stund og strukum bumbuna. En ekki lengi. Nei, eftir smá stund voru allir tilbúnir í meira. Og bara til að koma aðeins meiru niður, græðgi og ekkert annað, fékk hvert okkar einn fjórða úr hamborgara. Og það er bara verulega snúið að útbúa hann svo hann líti vel út. Þarna missti ég mig í sósunum og setti bara allt á... allt nema salsa sósuna. Mmmmm. Þvílík snilld.
Við komum okkur vel fyrir í sófanum í horninu og rifjuðum upp gamla tíma. Sko sum okkar hafa þekkst síðan 1996 og öll höfum við þekkst í allavega tíu ár svo það er mikið að rifja upp. Margir sem við þekkjum öll sem við þurfum að spá í hvar eru í heiminum núna. Hlæja aftur af gömlu góðu sögunum. Og allt þetta blaður rennur auðvitað mikið betur niður með hinum opinbera eftirrétti klúbbsins. Það er eiginlega bannað að bjóða uppá nýjungar þar, þó svo við séum til í næstum hvað sem er í aðalrétt þá er eftirrétturinn heilagur. Við lygnum aftur augunum og smjöttum um leið og við fáum hann á diskana.
Eftir kvöldið eru komin heilmikil plön. Við ætlum að hafa Sushi kvöld. Við ætlum í fótboltaferð til Vestmannaeyja þar sem við ætlum að heimsækja eyjamanninn og knúsa hann. Við ætlum á villibráðarhlaðborð í haust. Við ætlum að skipuleggja skemmtun með fleiri vinum. Við ætlum... við ætlum... en núna er ég of södd til að hugsa meira... maginn er stútfullur af mat, kollurinn er fullur af sögum og hjartað er fullt af væntumþykju... jebb, ég er full af hinu og þessu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
31.5.2009 | 16:25
Ótrúleg ævintýri Rúnu
Ég horfði á þær til skiptis og vissi ekki alveg hvað ég átti að halda. Var þetta virkilega satt? Gat það verið? Fyrsta hugsunin var að fara út og taka utan um hana, elsku bestu Rúnu mína sem var að koma heim eftir mikið ævintýri.
Þannig var að í einhverju bjartsýniskasti samþykkti ég að lána unglingunum Rúnu síðasta föstudag. Heimasætan og heimalingurinn stefndu að fara í stelpuferð í sumarbústað. Stefnan var nú frekar óljós, bústaðurinn staðsettur í borgarfirði... aðeins lengra en Hekla! Allavega, þær staðhæfðu að þær myndu rata, finna bústaðinn.
Og án mikillar umhugsunar lét ég þær hafa lykilinn að Rúnu og kvaddi þær. Áður en þær lögðu af stað lagði ég þeim lífsreglurnar. Hvernig skal haga sér á vegum úti og hvernig skal haga sér í bústað. "Vilma, þær eiga eftir að keyra útaf út af þessari eilífiu afskiptasemi þinni...", stundi líffræðingurinn þegar ég hringdi einu sinni enn til að tryggja að þær væru ekkert að glanna um á Rúnu minni. Minnti á að nota ekki gasið í bústaðnum. Ekki taka fram úr. Ekki gera þetta og ekki gera hitt.
Rétt áður en ég fór heim úr vinnunni hringdu skvísurnar svo. Búnar að skila sér heilar á húfi í bústaðinn. Heimalingurinn hljómaði voðalega glöð. Þær höfðu keyrt yfir ánna og allt, ekkert mál. "Yfir á?", spurði ég forviða. Rúna er nú ekki beint bíll sem er gerð til að keyra yfir á. Ég heyrði í heimasætunni á bakvið tjá sig um að áin hefði nú eiginlega verið minni en pollar í borginni. Hversu mikið var til í því veit ég ekki.
Í dag skiluðu þær sér svo allar heim aftur. Ekki alveg heilar á húfi. Nei. Ég reyni að halda aftur af tárunum. Jebb, heimasætan og heimalingurinn komu heim rjóðar og sællegar... en Rúna, elsku besta Rúna mín, kom heim löskuð. Skjálfandi viðurkenndu unglingarnir að hafa brotið púströrið undan henni rétt áður en þær keyrðu yfir ánna.
Rétt eftir að þær keyrðu yfir ánna, dragandi púströrið á eftir sér, óx skyndilega í ánni og hún varð ófær fyrir litlu sætu Rúnu mína. "Fóruð þið yfir á ÞESSU?", spurði hneyksluð kona á jebba sem dauðskelkaðir unglingar stoppuðu og báðu um hjálp. Svo hristi jeppafólkið hausinn og keyrði í burtu og skyldu aumingja Rúnu og unglingana eftir.
En þetta eru úrræðagóðir unglingar. Þær gáfust ekki upp. Rúnu ætluðu þær að koma í bæinn aftur. Og með það í huga lögðust þær fótgangandi í ferðalag í leit að hjálp. Í þarnæsta bústað fundu þær sniðuga jebbakarla og konur sem tóku þeim opnum örmum. Að gera bráðabirgðaaðgerð á Rúnu var nú ekki mikið að vefjast fyrir þeim. Heimasætunni og heimalingnum komið fyrir í góðu yfirlæti á meðan Rúna var tjökkuð upp og púströrið bundið upp með vír, svo unnt væri að keyra hana heim aftur.
Kannski aðeins verra með ánna. Ekki hægt að láta minnka í henni. En ef hún yrði enn ófær yrði hún bara dregin yfir ánna. Ekkert mál. Ekkert verið að skilja bjargarlausar unglingsstelpur eftir. En sem betur lækkaði aftur í ánni svo Rúna komst alveg sjálf yfir ánna á leiðinni heim. Stýrt af þaulreyndum jeppamanni yfir ánna og eftir holóttum og slæmum malarvegi svona til að afstýra frekari óhöppum. Skvísurnar þáðu í staðinn far í risastórum jebba og fylgdust spenntar með Rúnu útum gluggann. Þær veifuðu nýju vinum sínum í kveðjuskyni þegar Rúna var komin á öruggan veg.
Nú situr örþreytt Rúna út á plani, örlítið lífsreyndari og örlítið töffaralegri með þvílíkum drunum. Og við eldhúsborðið sitja glaðlegir unglingar, ósköp glaðir að ég hafi ekki gengið frá þeim eftir þetta og ósköp glaðar með ævintýrin sín í sumarbústað án rafmagns og rennandi vatn... ekki beint hægt að segja að unglingarnir mínir séu vandræðaunglingar... nei, meira svona ævintýraunglinar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
30.5.2009 | 16:13
Get ekki hætt að vera fræg
Þegar það hringdi í mig blaðamaður fyrr í vikunni og falaðist eftir viðtali og myndatöku sagði ég já bara alveg án þess að hugsa mig um. Eins og ekkert væri sjálfsagðara. Svo fór þetta að spyrjast út á meðal vina og vinnufélaga sem vildi endilega vita af hverju ætti að taka viðtal við mig.
"Þetta er svona aukablað með fréttablaðinu, blað um fjölskyldur..", svara ég og það bregst ekki að fólk fer að flissa. Tilhugsunin um að það sé tekið viðtal við mig vegna fyrirmyndarfjölskyldunnar minnar nú eða útaf einstökum uppeldishæfileikum mínum fær fólk bara til að skella uppúr. Þegar ég bæti við að ég komi í grein um fjölskyldur með gæludýr kinka allir kolli og skilja málið betur. Ég veit reyndar ekki hver það var sem benti blaðamanninum á mig en það var algjörlega sársaukalaust og ekkert nema sjálfstagt að leyfa honum að gægjast inn í líf okkar. Ég meina, ég lifi hvort sem er á internetinu svo þetta gat ekki breytt miklu.
Ég hélt reyndar líka að ég hefði átt eftir að koma fram í fréttablaðinu... en það var reyndar bara í augnablik sem ég hélt það. Svo mundi ég eftir að ég og prinsinn vorum á forsíðunni fyrir nokkrum árum þegar barátta mín við frístundaheimili borgarinnar stóð sem hæst. Nú hef ég þá komið tvisvar í fréttablaðinu, DV, mogganum, í þátt á bylgunni allavega tvisvar, morgunsjónvarpið á Stöð 2, Fólk með Sirrý að ógleymdum þætti mínum í Séð og Heyrt. Þá má ekki gleyma vasklegri framkomu minni á BBC og fréttum ríkissjónvarpsins. Ég hef semsagt mjög gaman að því að koma mér á framfæri... eða það mætti halda það allavega. Ég er aftur á móti, hvort sem þið trúið því eða ekki, mjög feimin og prívat persóna sem vill helst ekki láta taka eftir sér. Samt get ég bara ekki hætt að vera fræg því akkúrat á þessari stundu bíð ég eftir að grein um Kólumbíuferðina birtist í viðskiptablaðinu, sennilega í næstu viku. Jebb, það er ekkert lát á frægðinni.
Annars er ég bara þokkalega sátt við greinarkornið í dag og finnst myndin af okkur sem birtist með bara ljómandi fín. Einhvern veginn náði Mía hin magnaða reyndar að verða aðalatriðið, en þar er auðvitað bara svo stór persónuleiki á ferð að það er erfitt að tala ekki um hana. Það er þá heldur ekki hægt að saka mig um snobb þegar ég tala í sífellu um húsköttinn minn með óljósa upprunann en gleymi alveg að minnast á hreinræktuðu kettina.
Heimasætan var ekki alveg á því í upphafi að birtast í blaðinu. "Mamma, ég hef mig alveg nógu oft að fífli...", stundi hún og setti upp skeifu. En það þurfti nú ekki miklar fortölur til að fá hana til að skipta um skoðun og stilla sér upp brosandi útí garði með Þulu í fanginu.
Jæja, nú ætla ég að fara og halda áfram að rembast við að vera fræg... hver veit hver bankar uppá næst...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.5.2009 | 00:37
Árans pest
"Vilma, erum við að fá pest?", spurði líffræðingurinn alvarlegur af svip þegar við yfirgáfum vinnuna um sjö leitið, lang síðustu út eins og svo oft áður. Við erum búin að vera eitthvað að slappast síðustu daga. Svo hnerrum við til skiptist. Aftur og aftur. Í þokkabót er ég komin með kæfandi hálsbólgu þannig að röddin er farin að gefa sig.
Það er nú orðið það langt síðan við komum heim að við ættum ekki að vera að dröslast með blessuðu svínaflensuna, en engu að síður finnst fólki þetta ekki traustvekjandi. Þegar ferðlangarnir frá Kólumbíu, Miama og New York fara að sýna veikleikjamerki vill fólk skyndilega ekki tala við okkur.
Við höfum þó betri skýringar á þessum krankleika. Já, þannig er að við erum bæði búin að umgangast fullt af veiku fólki síðan við komum heim. Búum svo vel að eiga bæði fjölskyldur sem hafa legið með pestir. Svo það er algjör tilviljun að við birtumst með svipuð einkenni á svipuðum tíma. En það er engu að síður gaman að sjá viðbrögðin sem við vekjum með hnerrinu okkar og hósta.
Svo nú er bara um að gera að nota hvítasunnuhelgina vel í þessa pest. Svona erum við nú fyrirtækjaholl!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.5.2009 | 23:07
Ég kafna
"Er einhver hætta á því að þú sért ólétt?", spurði konan og horfði á mig forvitnum augum yfir gleraugun. Ég neitaði ákveðin. Neibb, engin hætta á því. "Hefur þú fengið málmflís í augað?", hélt konan áfram að spyrja. Neibb, ég hef fengið glerbrot í augun en aldrei málmflís. "Ertu með innilokunarkennd?", endaði konan á að spyrja. Enn neitaði ég, innlokunarkennd? Nei, það held ég ekki.
Eftir allar spurningarnar trítlaði ég berfætt á eftir konunni, ég var aðeins klædd risastórum og alltof síðum sloppi. Á leiðinni í segulómum til að vera alveg viss um að höfuðið sé í lagi. Ég lagðist á bekkinn, alveg róleg á meðan konan ólaði höfuðið á mér niður. Svo kom járnbúrið yfir. Og á endanum var höfuðið skorðað vandlega með tveimur púðum.
"Pís of keik...", hugsaði ég þar sem ég lá. Svo rann bekkurinn inní tækið. Ég flissaði inní mér. Innlokunarkennd hvað? Þetta er bara ekkert mál. En áður en ég gat áttað mig varð andadrátturinn grynnri og hraðari. "Hey, róleg...", hugsaði ég: "Þetta er ekkert mál..." En veggirnir komu nær og nær. Veggirnir umvöfðu mig og virtust ætla að kremja mig.
"Fíflið þitt! Þú getur alveg andað... ", hvæsti reiðileg rödd inní kollinum á mér. En ég fann hvernig andadrátturinn varð grynnri og grynnri. Ég var eins og alveg lömuð. Tilhugsunin um að vera alveg fest niður hræddi mig. Ég kæmist aldrei útúr þessu tæki hjálparlaust. Hvað ef eitthvað kæmi fyrir. Ó, þetta var svo þröngt að ég var ekki viss um að það kæmi nægt súrefni inn.
"Vilma! Þetta tekur tuttugu mínútur. Liggðu kyrr og njóttu þess að slaka á...", sagði róandi rödd í kollinum. "Hjálp! Hjálp! Ég get ekki andað... ég kafna í þessu bjánalega tæki!", æpti önnur og örvæntingarfull rödd á móti. Eftir þónokkrar rökræður í kollinum var ég enn ruglaðri. Ég meina hafið þið reynt að rökræða við hluta af sjálfum ykkur sem er sannfærður um að þið séuð að kafna. Enn þrenngdu veggirnir að mér. Ég reyndi að loka augunum svo ég sæi ekki hvað þetta var þröngt. Nei, opna augun. Strax! Um leið og ég loka augunum loka ég fyrir allt loftstreymi.
Niðurbrotin hringi ég neyðarhnappnum og hávaðinn í tækinu stöðvast strax. "Er allt í lagi?", spyr góðleg rödd einhvers staðar úr fjarska. "Nei, ég get þetta ekki.... ég get þetta ekki....", kjökra ég. Mér finnst það taka marga klukkutíma að bjarga mér úr tækinu. Góðlega konan losar mig og bíður mér að koma aftur seinna. En ég get ekki hugsað um það. Ég verð að komast út. Ég verð að anda. Ég er... ég er ... ég er með innilokunarkennd, á háu stigi.
Mér er enn og aftur boðið að koma aftur þegar ég fæ endurgreitt. Um leið og minnst er á að koma aftur þrengist að öndunarveginum. Ég hristi kollinn. Hættið að tala um þetta! Hleypið mér út! Ég verð að anda!
E
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
25.5.2009 | 22:47
You'll never walk alone?
Af öllu því sem við líffræðingurinn kíktum á þessa 3 daga í New York þá voru það kínhverfið og litla ítalía sem áttu hug okkar og hjörtu. Við fundum hvernig við drógumst að þessum hverfum. Þau voru eitthvað svo öðruvísi og skemmtileg. Við gleymdum okkur alveg í litlu þröngu búðunum í kínahverfinu þar sem var hægt að fá allt á milli himins og jarðar. Við vorum pínulítið eins og fílar í postulínsbúð og fengum augnaráð frá búðareigendunum þar sem við drógum hluti úr hillunum og hlógum eins og vitleysingar.
Litla ítalía með endalausu veitingarstaðina og skemmtilegu ýktu ítölsku týpurnar var ekki síðri og við trítluðum um þar til við vorum eiginlega farin að þekkja staðin jafnvel og hverfið heima hjá okkur. Þegar kom að því að velja hvert við ætluðum út að borða á sunnudagskvöldið kom því enginn annar staður til greina. Við settum stefnuna á litlu ítalíu. Þar sem það hafði gengið svo vel hjá okkur að þvælast um subwayið í London í fyrra ákváðum við að kýla á það þarna líka. Hlaut að vera pottþétt.
Við fundum rétta lest og hoppuðum um borð. Sátum áhyggjulaus og biðum eftir stoppinu okkar. Ég rýndi hugi á baksíðuna á kortinu okkar sem innihélt kort af neðanjarðarlestinni. "Getur verið að við séum komin of langt?", sagði ég sakleysislega. Líffræðingurinn tók við kortinu. Viðvörun glumdi um allt, dyrnar voru að lokast. Hann horfði hugsi á kortið. Viðvörun glumdi enn um allt. Skyndilega tók líffræðingurinn viðbragð, já, við vorum komin of langt og áður en ég náði að hugsa var hann stokkinn út. Ég stökk á eftir honum en hikaði þegar hurðin byrjaði að lokast.
Ég fann skelfinguna ná tökum á mér þar sem ég horfði á líffræðinginn standa á pallinum fyrir utan. Ég inni. Hann starði til baka, fyrst með furðu svo með skelfingu. Hann reyndi að gefa mér bendingar. Ég ypti öxlum og æpti á hann að ég skyldi hann ekki. Lestin rann af stað. Staðreyndin var skelfilega ber. Ég var alein. Alein í lest í New York og hafði skilið samfylgdarmann minn eftir á einhverri stöð.
Ég snéri mér að sætinu mínu. Fullkomlega meðvituð um það að allir í lestinni störðu á mig. Allir. Ég reyndi að halda "coolinu" og velti fyrir mér hvað bendingarnar þýddu. Jú, það rann upp fyrir mér. Auðvitað. Fara á næstu stöð, skipta um lest þar og koma til baka. Ég kíkti á klukkuna, hún var 18:11.
Hingað til höfðu verið stoppustöðvar mjög ört. Svo ég beið spennt eftir næstu stoppustöð. Ég beið. Og beið. Og beið. Tíminn leið. Og leið. Komnar næstum tíu mínútur og ég fann hvernig svitinn spratt fram. Skyndilega rann lestin uppúr undirgöngunum. "Fuck!", stundi ég. Hvert var ég að fara? Shit! Ég var í lest að fara yfir brú! Myndi ég einhvern tíman finna líffræðinginn aftur. Einhvern tíman?
Ég gat ekki lengur reynt að leyna skelfingunni þar sem ég starði út um gluggan, niður af brúnni. Fuck! Það var eina sem mér datt í hug. Og eins og hendi væri veifað var lestin aftur komin í undirgöng. Og tíminn leið. Og tíminn leið. Hvert var ég að fara?
Loks nam lestin staðar og ég var fyrst allra útúr henni. En úbbasííííí.... ég var á einhverri skrítinni stöð. Í staðin fyrir breiðan brautarpall var bara mjó brík. Ég fann hvergi leið til að komast á næsta brautarpall. Hvað átti ég að gera núna? Ég var án síma, líffræðingurinn var með kortið okkar og ég var ekki með neitt klink á mér, bara 20 dollara og vissi ekki hvar í heiminum ég var stödd.
Niðurbrotin hélt ég útaf stöðinni. Hvað myndi leynast fyrir utan. Gæti ég skipt pening og hringt í líffræðinginn? Það kom fljótt í ljós að á stöðinni var enga hjálp að fá, þarna vann enginn. Allt sjálfvirkt. Þegar út var komið blasti við frekar fátæklegt úthverfi. Engir leigubílar og varla fólk að sjá. Ég fann skilti sem sagði að til að fara til Manhattan þyrfti að nota inngang fá ákveðinni götu. En hvar í fjandanum átti ég að finna þessa götu? Hvar? Ég ráfaði stefnulaust um. Andardrátturinn var orðinn hættulega ör og ég óttaðist að það liði yfir mig á ókunnugum stað. Skyndilega fann ég innganginn að lestinni til Manhattan. Liðnar 20 mínútur siðan ég sá líffræðinginn.
Ég stökk að miðasjálfsalanum. Ég kann á svona græju. Hjúkk. Ég ýtti á start, aðeins öruggari með mig. Á skjánum birtust skilaboð um að því miður gæti sjálfsalinn ekki tekið við seðlum. NEI! NEI! NEI! Ég á ekki klink, æpti ég á sjálfsalann. Nú langaði mig að setjast niður og gráta. Ég hef aldrei verið eins alein í heiminum. Nei, andskotinn, ég yrði að vera róleg. Anda rólega. Halda rónni. Ég hlyti að redda þessu. Ég reyndi aftur við sjálfsalann. Sko! Þarna var hægt að nota kreditkort. Veiiii! Mér fannst ég hafa náð í gullmola þegar ég hélt á miðanum. Hraðaði mér niður stigann og upp í næstu lest til baka. Ég beið spennt eftir að komast aftur yfir brúnna. Komast aftur til líffræðingsins.
Ég stökk útúr lestinni á stöðinni þar sem ég hafði týnt líffræðingnum. Um fjörtíu mínútum eftir að ég hafði týnt ferðafélaganum. Ég æddi upp og niður brautarpallinn. Enginn líffræðingur. Ég fór á pallinn þar sem ég hafði týnt honum. Enginn líffræðingur. Ég fór um alla brautarstöðina. Enginn líffræðingur. Myndi ég einhvern tíman finna hann aftur? Jæja, plan B. Fara uppá hótel og vona að líffræðingurinn kæmi þanngað. Ég myndi bara taka lest til baka. Ég kom mér fyrir á brautarpalli og beið. Nokkuð viss um að ég væri á réttum stað en til öryggis ákvað ég að spyrja til vegar. Vingjarnlegur maður hristi kollinn. Nei, ég átti alls ekki að vera á þessum palli. Ég átti að vera einhvers staðar annars staðar. Shit. Nú hætti ég alveg að treysta þessu öllu.
Ég hristi kollinn ákveðin, ég ætlaði ekki að taka séns á að taka ranga lest aftur. Best að koma sér upp, taka leigubíl til baka. Ég var komin á Manhattan aftur, ekkert mál að taka leigubíl. Ég pírði augun þegar ég kom uppúr lestarstöðinni. Fuck! Hvar var ég? Þetta líktist ekkert Manhattan. Bara iðnaðarhúsnæði, bílaverkstæði og bílastæði. Engir leigubílar. Ég labbaði af stað og horfði á skiltin. Engin avenue með númerum. Engin stræti með númerum. Nei, þarna hétu allar götur eitthvað og engin leið fyrir lítinn íslending án korts að vita hvar hann var í heiminum.
"Gefðu mér break...", bað ég hljóði þar sem ég trítlaði af stað. Ef ég labbaði bara nógu lengi hlyti ég að vinna annað hvort götu sem ég gæti rakið mig frá eða leigubíl. Ég labbaði og labbaði og var nokkuð viss um að ég væri að þvælast í hring. Nei, þarna voru 2 menn, best að játa sig sigraða og spyrja til vegar. Varlega ávarpaði ég mennina og án þess að gefa upp of mikið gaf ég til kynna að ég væri vilt. Gætu þeir vísað mér í áttina að Broadway? 5 avenue? Bara einhverju? Þeir litu út eins og klipptir útúr Sopranus og töluðu með sterkum ítölskum hreim. Nei, þeir vissu að við værum á Manhattan, þeir voru ekki þaðan. Reynar voru þeir búnri að týna hvar þeir lögðu bílnum sínum, vissi ég nokkuð um hann? Ég hrökklaðist til baka. Ætti ég að slást í för með tveimur mafíósum í leit að bíl sem var örugglega með líki í skottinu eða ætlaði ég að halda áfram á eigin vegum?
Ég ákvað í skyndi að það væri skynsamlegra að halda áfram ein og vinkaði mafíósunum að skilnaði. Ég yrði bara að labba áfram, á endanum hlyti ég að finna eitthvað. En yfir mér skín lukkustjarna. Alveg uppúr þurru birtist leigubíll og meðan ég spáði í hvort hann væri á lausu eða ekki renndi hann uppað hliðinni á mér og bauð mér far. Ég var nærri farin að gráta úr gleði. Hvílík hamingja! Ég gaf upp heimilisfangið og hallaði mér aftur. Nú tók við hálftíma akstur á hótelið. Ég rétt hvaði næga peninga fyrir bílnum. Við stoppuðum á horninu við hótelið. Á meðan ég borgaði og kom mér út skimaði ég í kringum mig.
Þarna var hann! Eins og frelsandi engill! Þarna stóð líffræðingurinn á horninu og skimaði í kringum sig. Ég hef aldrei, aldrei, á ævinni verið jafn glöð að sjá einhvern. Ég stillti mér upp á ljósunum og beið. Hann kom auga á mig, brosti og veifaði. Mínúturnar þar til ljósið varð grænt voru óvenju lengi að líða. Ég trítlaði af stað yfir og flissaði. Núna þegar ég var komin á öruggan stað og búin að finna ferðafélagann minn aftur í þessari milljónaborg sá ég spaugilegu hliðina á þessu. Auðvitað varð ég að festast í lest sem keyrði yfir til Brooklyn. Auðvitað varð ég að villast í iðnaðarhverfi. Það var einn og hálfur tími síðan leiðir okkar skyldu. Líffræðingurinn hafði beðið á brautarpallinum þolinmóður, en þegar 5 lestar höfðu farið fram hjá og Vilma kom aldrei út sá hann bestu leiðina að fara uppá hótel og bíða þar. Og þarna hafði hann staðið í klukkutíma. Á horninu. Að bíða. Og vissi auðvitað ekki í hvaða ævintýrum ég lenti á meðan. Það er skemmst frá að segja að það sem eftir var ferðar passaði ég mig vel á að tína honum ekki.
Við settumst uppí leigubíl og brunuðum niður í litlu ítalíu þar sem við settumst á ítalskan stað, aldrei aftur subway í New York!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
24.5.2009 | 22:52
City that never sleeps
New York er lifandi borg. Full af fjölbreyttu og skemmtilegu lífi. Ja, það er að segja þar til hún fer að sofa. Og hún sefur, vært. Við héldum að svoleiðis gerðist ekki. En þar sem við stóðum á tröppunum á hótelinu okkar, rétt fyrir miðnætti á sunnudagskvöldi, og hringdum dyrabjöllunni var okkur um það bil að hætta að lítast á blikuna. Enginn vildi opna fyrir okkur og þegar við gægðumst niður sjötta avenue var ekki veru að sjá. Við virtumst eiginlega vera ein í heiminum, ja, allavega ein í New York.
"Þú ert með kreditkortið er það ekki?", spurði líffræðingurinn og nikkaði til mín kolli. Bara að vera viss ef við skyldum þurfa að leggja af stað og leita að nýju hóteli þar sem okkar vildi greinlega ekkert með svona vandræðapésa eins og okkur gera. Vonsvikin snérum við frá. Hverjum hafði grunað að hótel í New York lokaði fyrir miðnætti. City that never slepps... bullshit.
Við vorum varla búin að snúa okkur frá þegar við mættum glaðlegum blökkumanni með stóran McDonalds poka í fanginu. Honum brá svolítið við að finna okkur þarna, enda var þarna mættur næturvörðurinn á hótelinu okkar sem hafði laumast út að fá sér að borða. Hann hafði greinilega ekki átt von á að íslendingarnair af fimmtu hæð væru að laumast heim á þessum ókristilega tíma.
Það voru ósköp þreyttir litlir íslendingar sem mættu í New York á laugardeginum. Vinir okkar í Kólumbíu kröfðust þess að fá að njóta hverrar mínútu með okkur þar til við yfirgæfum landið árla morguns. "Tonight you not sleep! You sleep tomorrow...", var okkur tilkynnt. Og því eyddum við síðustu nóttinni í Kólumbíu í skoðunarferð, á matsölustöðum og enduðum á ótrúlegum salsastað.
Okkur leist eiginlega ekki á blikuna þegar við renndum inní iðnaðarhverfið, þarna hefðum við aldrei farið á eiginvegum. En viti menn! Á efri hæðum iðnaðarhúsnæðisins leyndust líflegir salsa klúbbar. Aldrei áður höfðum við komið á svona stað. Þarna dönsuðu allir. Þarna sungu allir. Þvílík gleði. Þvílík stemming. Og ekki áfengi að sjá á nokkrum manni. Áður en við vissum af vorum við farin að dansa með kólumbíu mönnum, sungum eftir okkar eigin höfði með.
Þarna var allt í bland. Tónlist spiluð af diskum. Hljómsveit sem breyttist í sífellu. Salsa. Önnur tónlist. Dansað um alla ganga, klappað, stappað, hrópað og sungið. Þetta er lífið! Mér fannst ég svo lifandi. Svo mikill hluti af heild. Skyndilega voru nöfnin okkar kölluð upp, kveðja til Íslendinganna á staðnum. Mikið klappað fyrir okkur, enda ekki erfitt að finna okkur.
Rétt fyrir flug yfirgáfum við vini okkar og fórum ósofin í dansfötunum okkar að reyna að komast úr landi. Það er reyndar ekki hlaupið að því að komast úr Kólumbíu, gríðarlega stíft eftirlit. Endalausar spurningar, stimplar, vegabréfin skoðuð með stækkunargleri. Og örþreyttir íslendingar héldu frá lifandi Kólumbíu til sofandi New York.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
23.5.2009 | 22:19
Langir dagar
Bloggar | Breytt 24.5.2009 kl. 00:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.5.2009 | 20:53
Í húsi ömmu gömlu
Við sátum við borð á litlum vinalegum veitingastað, lengst inní Kólumbíu. Þetta var veitingastaðurinn "Ömmuhús", svona hefðbundinn þjóðlegur staður sem Kólumbíumenn sækja sjálfir. Sennilega vorum við fyrstu ferðamennirnir sem sóttu staðinn heim, enda var hann langt í frá því að vera nálægt þeim slóðum sem líklegt er að sjá slíka einstaklinga á ferð.
Amma gamla var hæstánægð að fá þessa gesti frá Íslandi á staðinn sinn og dró okkur um allt. Sýndi okkur myndir, sýndi okkur gömul húsgögn, sýndi okkur gömul eldhúsáhöld og fræddi okkur um söguna með aðstoð Paolu sem túlkaði. "Komið hingað, sjáið...", sagði gamla konan og dró okkur að hliðarsal þar sem var forláta gosbrunnur inní járngirðingu stóð. Stoltið hennar ömmu lét nú ekki mikið yfir sér en við kinkuðum kolli og smelltum af mynd. Við vildum endilega taka eina mynd af ömmu gömlu sem hélt nú ekki. Hún hafði betri hugmynd. Á svipstundu reddaði hún tveimur þjónustustúlkum, kippti þeim beint úr annríkinu inní sal og skipaði okkur að fara inní járngirðinguna til að taka mynd hjá gosbrunninum.
Ég horfði hikandi inn fyrir girðinguna. Sígurinn var mjór og hlykkjóttur. Allt fullt af viðkvæmum gróðri og gömlum hlutum, að ógleymdum ómetanlega gosbrunninum... og ég klædd í pils og háa hæla. Var hún að grínast? Átti ég að klöngrast þetta? En ömmu var full alvara. Og ekkert annað að gera en hlíða. Hægt og varlega fikruðum við líffræðingurinn okkur áfram í átt að gosbrunninum, í fylgd tveggja þjónustustúlkna. Stilltum okkur upp bak við brunninn. En úbbbss þar sást ekkert í okkur.
Lögðum af stað fram fyrir gosbrunninninn. Þegar kom að því að klofa yfir nokkuð breitt beð hikaði ég, tók svo í útrétta hönd þjónustustúlkunnar og lét vaða. Skelfingin fyllti hug minn þegar seinni fóturinn flæktist í trágrein og jafnvægið gaf aðeins eftir. "Ætlar hún að brjóta gosbrunninn hennar ömmu?", hugsaði líffræðingurinn og gat ekki falið óttan í augunum. Sem betur fer náði ég að forða falli á brunninn og myndatakan gat farið fram. Hins vegar get ég ekki horft á myndina öðruvísi en að gráta úr hlátri...
Eftir myndatökuna trítluðum við aftur að borðinu þar sem krakkarnir biðu öll eftir okkur. Búið að panta fyrir okkur, hefðbundinn kólumbískur matur á boðstólum. Við biðum spennt eftir að fá matinn á borðið. Þjónustustúlkurnar tóku nú að bera diska á borðið. Hver á fætur öðrum fékk sinn mat. Allir nema ég. "Við pöntuðum eins fyrir alla nema Vilmu!", tilkynnti Edwin stoltur og jók nú spennuna. Amma gamla birtist skyndilega með pott. Stærri en kartöflupottinn minn, ég er sko ekki að ýkja. Hún skellti pottinum fyrir framan mig og beið á meðan allir hlógu að svipnum á mér. Hvað myndi leynast í pottinum?
Varlega lyfti ég lokinu. Ég og líffræðingurinn gægðumst ofan í og ég hélt niðrí mér hlátrinum. Maður má ekki vera móðgandi. En ofan í pottinum var kássa sem hafði nægt til að fæða fimm manna fjölskyldu og þetta átti ég að borða ein. Alein. Fínasta kássa úr hrísgrjónum, kjúklingabaunum, kartöflum, svínapurusteik, sterkum pylsum og banönum. Ofan á toppnum tróndi steikt egg. Óborganleg máltíð. Ég lagði mig alla fram en rétt náði að krafla ofan af pottinum. Eftir frábæra máltíð og mikla skemmtun leysti amma gamla okkur út með gjöfum. Svo sannarlega einstök veitingahúsaferð... ekki oft sem maður fær gjafir frá eigandanum bara fyrir að kíkja í heimsókn.
Hver veitingastaðurinn á fætur öðrum kom okkur á óvart, við vorum alltaf að upplifa eitthvað nýtt, smakka eitthvað nýtt, prófa nýja drykki. Vinir okkar kepptust við að kynna fyrir okkur þjóðlega og skemmtilega rétti, kynna okkur fyrir Kólumbíu... og ég sakna matarins mikið. Ég skoða myndirnar og ferðast aftur til baka.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
21.5.2009 | 17:25
Kólumbían mín
Áður en við lögðum af stað í ferðalagið fundum við fyrir miklum áhuga hjá vinum og vinnufélugum. Við vissum lítið útí hvað við vorum að fara, frekar flestir aðrir. Við höfðum auðvitað heyrt endalausar sögur af eiturlyfjaviðskiptum, grimmum eiturlyfjabarónum og sögur af mannránum.
"Ekki taka við neinum pakka!" "Ekki líta af töskunum ykkar!" "Ekki fara út í myrkri!" Við fengum endalausar viðvaranir. Við reyndum að lesa okkur til á internetinu, með misjöfnum árangri. Við reyndum nú samt að telja í okkur kjark, þetta var nú örugglega ekki svo slæmt. Til að kóróna allt tröllriðu fjölmiðlar okkur með uppblásnum fréttum af Svínaflensunni góðu. "Viljið þið ekki taka með ykkur spritt?" "Vilji þið ekki taka með ykkur flensulyf?"
Með smá kvíðahnút í maganum héldum við af stað til Bandaríkjana þar sem við þurftum að gista eina nótt á leiðinni til Kólumbíu. Við fórum yfir verkefnin sem biðu okkar og hlógum taugaveikluð að því hvernig okkur ætlaði að takast að leysa þetta allt. Hvað yrði um okkur ef við stæðum okkur ekki nógu vel? Hvað yrði gert við okkur? Ef við hefðum bara vitað um öll ævintýrin sem biðu okkar hefðum við getað sparað okkur fullt af áhyggjum. Því þegar upp er staðið eru þetta ævintýralegustu 12 dagar sem ég man eftir. Einhvern veginn snérist allt sem við tókum okkur fyrir hendur uppí spennandi upplifum.
Frá því við litum Kólumbíu augum frá flugvélinni átti hún hug okkar. "Vá hvað þetta er fallegt....", stundi ég og leit á líffræðingin sem gat ekki slitið augun af því sem hægt var að sjá útum gluggann. Þarna vorum við fullri flugvél, og við vorum eina fólkið sem ekki talaði spænsku. Skárum okkur svo sannarlega úr fjöldanum.
Við stigum varlega úr vélinni og horfðum í kringum okkur. Í leit að eiturlyfjabarónum, hrúgum af kókaíni, mannræningjum. Ekkert slíkt. Bara vingjarnleg andlit og hjálpsamar hendur. Hmmmm. Við vorum ekki búin að dvelja lengi í landinu fallega þegar við kynntumst því sem á endanum átti eftir að sigra okkur algjörlega. Það er kólumbíska fólkið. Þvílík þjóð. Þau er hjálpsöm, góð, umhyggjusöm, fyndin, skemmtileg, gestrisin, kurteis, vingjarnleg, vinnusöm, stolt og spennandi. Frá því á flugvellinum og þar til við yfirgáfum landið var hugsað um okkur. Við vorum sótt á flugvöllinn, sótt í vinnu á morgnana, skilað heim eftir vinnu, farið með okkur að borða í hádegi og kvöldmat, fyrir utan allar litlu ferðirnar til að sýna okkur sem mest af landinu sem þau eru svo stolt af Við horfðum hvort á annað: Var virkilega í lagi að við trítluðum útaf hóelinu í myrkrinu? Þetta var ekki það sem búið var að segja okkur!
Við sátum límd við gluggana í bílnum á leiðinni yfir fjöllinn frá flugvellinum. Sveitin var svo falleg, svo hrein, svo snyrtilega, svo búsældarleg. Leigubílstjórinn benti og benti og sagði frá hinum og þessu á meðan túlkurinn kom skilaboðunum áfram til okkar. Við reyndum að hemja okkur um að klappa saman lófunum af gleði.
Hver einasta mínúta í þessu landi var upplifun. Gestgjafar okkar komust fljótt að því að við vorum fólk sem vildi upplifa raunverulega Kólumbíu og kólumbíska matavenjur. Og eins og þessi þjóð er þá lögðu þau sig fram við að finna sem þjóðlegasta matinn, besta matinn, mestu upplifunina. Svo hvert kvöld var óvissuferð í veislu þar sem gestgjafar okkar pöntuðum meira að segja stundum fyrir okkur til að koma okkur á óvart með gómsætu bragðinu.
Á fimmta degi vorum við kvöldgöngutúr sem tveimur af nýju vinum okkar. "Það er allt annað að fara með ykkur út núna heldur en fyrsta kvöldið", sagði Paola og brosti: "Þá voruð þið stíf og á varðbergi en síðan þá hafið þið trítlað um allt eins og þið eigið heima hjér." Við kinkuðum kolli, enda höfðum við bara fundið fyrir öryggi. Við héldum áfram að ganga í myrkrinu og biðum spennt eftir næsta degi.
Það var með miklum trega sem við kvöddum vini okkar og landið dásamlega og héldum til New York, dauðhrædd um hvað biði okkar þar.
Ég ætla svo að reyna að segja ykkur nokkrar litlar sögur úr ferðalaginu á næstu dögum, litlar sögur af því sem við upplifðum á þessu ævintýralega ferðalagi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Um bloggið
Vilma sjálf
Tenglar
Ég sjálf
Gamla bloggið mitt
- Gamla bloggið mitt Vilma Stína
Klúbbar og félög
Eitt og annað sem ég tengist
- Ofurhugar Kúlasta fólk í heimi
- Skógarkettir Skógarkattaklúbbur Íslands
- Kynjakettir kattaræktarfélag Íslands
Kisusíður
Hinar og þessar kisusíður
- Aliosha's Aliosha og Hrund
- Eldibrands Margrét Birna og hennar kisur
- Hlíðarenda Heimasíða Ásdísar
- Vetrarheims Heimasíðan mín
- Björgvinjar Áslaug vinkona mín á þessa síðu
Bloggarar
Hinir og þessir skemmtilegir