Hugmyndin

Hugmyndin var að segja ykkur aðeins frá veru okkar líffræðingsins í Kólumbíu. Jafnvel segja létt frá ævintýrum okkar í New York. En svo var kattastelpunum og fylgifiskum hóað óvænt í glæsilega Sushi veislu og að sjálfsögðu skorast maður ekki undan svoleiðis.

Svo í staðinn fyrir að skrifa ferðasögu og setja á bloggið og í staðinn fyrir að fara snemma að sofa, hékk með ótrúlega skemmtilegu vinum mínum, emjandi af hlátri yfir kvöldmatnum. Ferðasaga á morgun? Hver veit...


Totally in love!

Ég er brjálæðislega, stjórnlaust, yfir mig ástfangin. Þið vitið svona ástfangin að ég get setið og starað í lengri tíma. Ég sit með kjánalegt bros þegar ég hugsa um ástina mína. Ég andvarpa þungt þegar einhver annar talar um hana. Ég er alveg að tapa mér og falla stjórnlaust.

Það sem ég er ástfangin af er Kólumbía og þó umfram allt kólumbíska þjóðin. Ég á bara ekki nógu stór lýsingarorð til að segja ykkur frá upplifun minni. Og hvernig þetta ótrúlega land og þetta dásamlega fólk náði okkur alveg á sitt vald. Eiginlega bara frá fyrstu mínútu.

Ég er semsagt búin að vera að ferðast með líffræðingnum síðustu 12 daga. Fyrst til bandaríkjana í smá millilendingu og að gista eina nótt. Svo til Kólumbíu þar sem við vorum að vinna í eina viku. Að lokum enduðum við svo á þremur sólarhringum í New York. Næstu dagar verða fráteknir í frásagnir af ævintýrum krúttanna í Kólumbíu og Bandaríkjunum.

Allt sem við héldum um Kólumbíu áður en við héldum af stað var þvílík vitleysa, og við eigum ekki orð yfir hversu heppin við vorum að fá að fara í þessa ferð, þrátt fyrir langa og stembna vinnudaga. Hversu heppin við vorum að fá að sjá þetta allt og prófa allt sem prófuðum... bíðið bara.... sögurnar munu koma...

En núna er meira en sólarhringur síðan ég fór á fætur og ég er að spá að fara að leggja mig smá og dreyma um ástina mína...


Minning

Nú er ég búin að vera að hugsa um móðurfólkið mitt.  Þvílíkur hópur af fólki.  Allt meira og minna öðruvísi en fólk er flest held ég.  Stórkostlegir persónuleikar.  Léttlynt og kátt fólk sem hefur gaman af glensi og leikaraskap.  Ég er viss um að meirihluti þeirra hefði sómað sér vel á fjölum Þjóðleikhúsins.  Mamma mín samt mest af öllum.
En eins og fylgir svona fólki er þau líka upp til hópa þunglynd og önug.  Sveiflast til og frá eins strá í vindi.  Dramatísk. Fyndin. Þvermóðskufull. Grínarar.  Og þegar maður leyfir huganum að hvarfla svona aftur á við get ég ekki neitað því að ég sakna þeirra stundum.  Svona eins og við vorum þegar við bjuggum í Hveragerði, áður en allir fóru í allar áttir og fjölskyldan leystist upp. 
En það er líka annað.  Ég sé að ég er ósköp lík þeim í háttarlagi líka.  Minni stundum á mömmu mína eins og hún var áður en hún tapaði sjálfri sér í fíkninni.  Einhvers staðar hlaut ég að hafa fengið dramatíkina og kjánaskapinn! 

Súrt og sterkt!

“Ohhhhhh... ég fæ súrt í hálsinn...”, emjar prinsin og grípur um hálsinn á dramatískan hátt og rekur útúr sér tunguna.  “Ohhhhhh”
Ég lít á heimasætun og hún á mig. Svo segjum við samtaka: “Sterkt! Þetta er sterkt ekki súrt!”
Það er alveg sama hvað við segjum þetta oft.  Prinsinn getur bara ekki lært þetta.  Hann kallar alltaf það sem er súrt sterkt og það sem er sterkt súrt. 
Það hjálpar ekki til að hann getur verið mjög dramatískur og leikrænn. Og er því mjög oft með leikræna tilburði og áhersluhljóð.  Frekar óhentugt til dæmis á veitingarstöðum.
Þessi dramatík og leikrænu tilburði hefur hann úr móðurfjölskyldunni.  Þar er varla þverfótað fyrir leikurum.  Sko, enginn er lærður leikari.  En engu að síður allir dramatískir gamanleikarar.  Með svipbrigði, áherslur, dramatískar innkomur, enn dramatískari útgöngur. 
Stundum horfi ég á prinsinn sem hefur varla nokkurn tíman séð neinn í fjölskyldunni er samt svo líkur þeim að vissu leiti.  Svo andvarpa ég og segi enn og aftur: “Þetta er sterkt! Ekki súrt!”

Faraldur

Í vinnunni minni geysar nú faraldur.  Stórhættulegur.  Ég óttast þennan faraldur meira en allar svína og kjúklingaflensur.  Jebb.  Þetta er sko óléttufaraldur.  Og ég er í áhættuhópi.  Þið vitið, kona á barneignaraldri og allt það.
Hver sem maður lítur í vinnunni eru óléttar konur.  Þær eru þarna bara í hópum.  Ráfa um gangana. Sitja á fundum.  Bumbast í matsalnum.  Þær eru gjörsamlega útum allt. 
Og eins og það sé ekki nóg þá eru það allir strákarnir sem eiga von á erfingja.  Ræða frjálslega um fæðingarorlof og áætlaða fæðingardaga.  Ég svitna og fæ illt í magann.  Ó nei.
Það virðist svo enginn hafa áhyggjur af þessu nema ég.  Eins og yfirmenn okkar séu í móki.  Ekki í tengslum við raunveruleikann.
Og núna nýlega var sett upp spritt á öll klósett hjá okkur.  Svona til varnar svínaflensunni.  Ég bara skil þetta ekki.  Verjast svínaflensu en loka augunum fyrir faraldri sem geysar innan dyra hjá okkur.
Ég ætla að fara fram á að það verði sett upp pilluspjöld á öll kvennaklósett og sæðisdrepandi krem á karlaklósettinn.  Þannig getum við kannski náð að spyrna við fótum og stöðva þennan faraldur.

Kapphlaupið mikla!

Ég snarnegldi niður á bílastæðinu. Ég trúði ekki mínum eigin augum.  Hvar var hann?  Hver tók hann? Hvað átti ég að gera núna?
Ég var á leiðinni í mjög mikilvægan tíma hjá prófessor sem ég þurfti að borga fyrir.  En þar sem ég hafði lokað öllum kortunum mínum eftir að ræninginn lét greipar sópa var ég í smá vandræðum.  Líffræðingurinn og glerlistakonan lögðu í púkk fyrir mig en ég var hrædd um að það dygði skammt.  Seinna um daginn átti ég að fá alveg ný og glansandi kreditkort. En það var til lítils þegar ég þurfti að standa skil á greiðslu fyrr um daginn.
Svo ég ákvað að freista þess að opna debetkortið.  Ég hringdi í bankann.  Ekkert mál.  Ég varð bara að koma á staðinn.  Svo tímanlega lagði ég af stað, ég ætlaði rétt að koma við í bankanum og opna kortið áður en ég færi að hitta fína prófessorinn sem ég átti mót við.
En þar sem ég negldi niður á bílastæðinu við útbúið mitt í bankanum var staðreyndin óþægilega raunveruleg.  Já, ég var hafði ekki bara lokað kreditkortunum, nú var ég búin að týna bankanum mínum.  Ég nuddaði augun.  Jú, ég var við rétt hús.  Hér var bara ekki lengur neitt skilti, engin ljós, enginn banki. 
Í örvæntingu minni hringdi ég í líffræðinginn og grátbað hann um aðstoð.  Fletta upp næsta útibúi.  “Digranesvegur 1”, sagði hann og flissaði yfir því að ég hefði týnt heilum banka.  Digranesvegur?  Hann hafði allt eins getað sagt á tunglinu.  Ég er glötuð að rata og finna götur.  Líffræðingurinn var þolinmóður og taldi upp alls konar kennileiti.  Vissi ég hvar þetta var?  Ekki?  En vissi ég hvar hitt var?  Ekki? Á endanum náði ég því að Digranesvegur væri nálægt Palla tannlækni.  Heppilegt að ég og líffræðingurinn erum með sama tannlækni. 
Ég keyrði eins hratt og ég þorði í áttina að Palla tannlækni.  Ég keyri nú venjulega ekki hratt en viðurkenni fúslega að þarna var ég algjör glanni.  Líffræðingurinn hélt áfram að reyna að segja mér hvar útibúið mitt væri og taldi á sama tíma niður hvað ég átti margar mínútur eftir þar til ég átti að hitta prófessorinn. 
Ég æpti á bíla allt í kringum mig og reyndi að hemja mig um að flauta.  Rosalega keyra allir hægt.  “Af hverju sagðirðu ekki að þetta væri gatan sem sálfræðingurinn býr við...”, kallaði ég þegar ég loks fann Digranesveg.
Ég brunaði inná bílastæðið á tveimur dekkjum.  Stökk útúr bílnum og æddi inní bankann.  “13 mínútur eftir”, tilkynnti líffræðingurinn.  Móð og másandi æddi ég að standi sem útdeildi miðum með númerum.  Hmmm, hvað átti ég að velja.  Örugglega þjónustufulltrúa.  Ýtti á takkann.  Shit!  6 á undan mér.. það gengi ekki.  Kannski ég prófa að fara til gjaldkera hugsaði ég og ýtti á takkann.  Mun styttra í afgreiðslu þar.   Og nú stóð ég með 2 miða og fylgdist með skiltum um allt.  Hey, þarna var líka takki fyrir greiðslukort.  Í örvæntingu ýtti ég á hann líka.  Mér leið svolítið eins og ég væri í bingó.  Hélt á þremur miður og beið eftir að sjá hvar ég kæmist fyrst að.
Gjaldkerinn var fyrstur og ég stökk að borðinu.  Hvað ætli ég ætti margar mínútur eftir?  Ég bar upp erindið og reyndi að brosa og vera kurteis og svara fallega athugasemdum gjaldkerans um hárið á mér.  “Já, já... opnaðu bara kortið!”, langaði mig að æpa en var, sem betur fer, nógu meðvituð til að sjá að það var ekki líklegt til árangurs.  Gjaldkerinn spurði um alla miðana mína.  Hefðu bara óvart komið svona margir miðar úr vélinni.  Ég hristi kollinn: “Nei, ég ýtti á allan takkana....”  Hún horfði á mig með furðu.  En opnaði svo kortið.
Loks gat ég ætt af stað aftur.  Vandamálið núna var að ég rataði ekki þaðan til prófesorsins.  Hringdi í líffræðinginn sem sagði mér að byrja á að fara útaf bílastæðinu. “Þetta er ekkert mál, þú átt 7 mínútur eftir”, sagði hann rólegur og ég var nokkuð viss um að hann væri brosandi.  Ég keyrði af stað.  Sá afrein og beygði snarlega.  Shit! Þetta átti ég ekki að gera.  Ég var á aðrein, ekki afrein og stefndi í að keyra á móti umferð.  “ÉG KEYRI Á MÓTI UMFERÐ!!!”, öskraði ég.  “Ha?”, svaraði lífftæðingurinn.  Ég þurfti að bjarga mér úr klípunni og tók þá frábæru hugmynd að keyra yfir gangstétt.  “Bíddu, ég er að keyra yfir gangstétt...”, tilkynnti ég mínum þolinmóða leiðsögumanni.  “Vilma? Hvað?”, stundi hann. 
Einhvern veginn tókst honum að leiðbeina mér á rétta slóð.  “Ég held svo að þú ættir að hætta að fara alltaf erfiðustu leiðina að öllu”, kvaddi hann mig.   Ég stökk inná biðstofu prófessorins  akkúrat á slaginu.   Settist niður og reyndi að þykjast vera róleg.  Prófessorinn kallaði á mig inn. 
“Þú ert bara eins og heilsan sjálf”, sagði prófessorinn og brosti:  “rosalega ertu frískleg...”  Ég brosti á móti, rjóð i kinnum og með glampa í augum...

Góðærið étur börnin sín, beitt dansverk

Ég held það hafi alveg komið fram hér að mér finnst gaman í vinnunni minni.  Verkefnin eru fjölbreytileg og krefjandi, maður þarf að nota hausinn.  En umfram allt eru það skemmtilegu skemmtilegu félagar mínir sem lífga alltaf uppá daginn.

Deildin mín er vel samstillt.  Við erum miklir félagar.  Stöndum saman. Og höfum afskaplega gaman af okkur sjálfum.  Árlega á keppt um besta skemmtiatriðið á árshátíðinni okkar.  Það er um það bil allt leyfilegt og voða vinsælt að sýna tilbúin myndbönd.  Við erum nokkuð sér á báti.  Jebb, við erum deildin sem vill alltaf koma fram öll saman!  Okkur finnst meira mikilvægt að við skemmtum okkur en hinir... ef við náum til "almennings" er það að sjálfsögðu mikill kostu þó.

Fyrir tveimur árum stigum við á stokk og sungum ádeilulag beint til eiganda okkar.  Gerðum athugasemd við kröfu um háa ebitu (hagnað).  "Hvers vegna hafa menn áhyggjur þó ebitan sé lág?", sungum við og bentum á að peningar keyptu ekki hamingju.  Takið eftir... þetta var 2007 í miðju góðæri... við þóttum mjög framúrstefnuleg og þegar maður horfir til baka sést vel hverju langt á undan okkar samtíð við erum.  Við komumst ekki á verðlaunapall en skemmtum okkur sjálfum vel.

Í fyrra tróðum við okkur öll í rússneska búninga og drifum okkur á svið.  Þar sýndum við okkar eigin útgáfur af rúsneskum dönsum á meðan Dmitri Vitstola (aka Líffræðingurinn) söng ýmist á rússnesku eða íslensku tregablandin lög full af heimþrá og einmannaleik.  Við rétt töpuðum og það lagðist heldur illa í þá sem eru með mesta keppnisskapið. En umfram allt við skemmtum okkur vel og rifjum þetta oft upp.

Svo var komið að árshátíðnni í ár.  Hvað ættum við að gera?  Það var skipuð þessi fína nefnd til að finna atriði. Eitthvað sem slægi út glæsilega atriðið okkar frá í fyrra.  En áður en nefndin náði að koma saman sátum við líffræðingur einn seinnipart og spáðum í þetta.  Við fengum hverja brilliant hugmyndina á fætur annari en köstuðum þeim frá okkur jafnharðann.  En smá saman fór ein lítil hugmynd að vaxa... Og hún óx og óx... Þar til hún stóð fullmótuð fyrir framan okkur.

Þar sem ég vinn með einstaklega opnu og skemmtilegu fólki (allt sem þið hafið heyrt um tölvufólk hingað til er bull... við erum ekki einrænir félagsheftir nördar... við erum fiðrildi) reyndist ekki mikið mál að fá alla með í dæmið. Sumir sátu fyrst hugsi.  Efuðust pínulítið. En ekki lengi.  

Og á árshátíðinni leit verkið dagsins ljós. Þar var frumflutt nútímaballetinn "Góðærið étur börnin sín".  Einstaklega listrænt tjáningarverk sem skilur eftir fleiri spurningar en það svarar.  Sjá link á vídeó hér fyrir neðan.  Fyrir þá sem ná ekki meiningu verksins er stutt lýsing hér neðst...

 

Vídeóið

 

Verkið sýnir 2 útrásarvíkinga sem hafa enga stjórn á sér í góðærinu.  Þeir fleygja frá sér peningum og kasta á milli sín kúluláni á með góðærisdansinn æsist.  Almenningur, fólkið í landinu, tekur einnig þátt í góðærinu. Kaupir flatskjái, WestHam, hlut í hinum og þessum fyrirtækjum.  Allir stíga góðærisdansinn.

Skyndilega er bankahrun.  Almenningur mótmælir.  Almenningur veitist af útrásarvíkingunum sem leggjast í dá.  Sjálfstæðisflokkurinn neitar að hlusta á almenning, neitar að taka ábyrgð.  Þeir eru á endanum slegnir til baka af almenning (sko úrslit kosninganna).

Eftir erfiða tíma endurfæðast útrásarvíkingarnir.  Þeim mætir ömurleg sjón. Allt í drasli eftir góðærið.  Þeir vita ekki hvernig á að bregðast við, hvernig er hægt að byggja upp aftur.  Örvæntingin rekur þá áfram þar sem þeir reyna að átta sig á nýjum tímum.

Listrænt ekki satt?  Við býðum spennt eftir að íslenski dansflokkurinn hafi samband og kaupi verkið af okkur... 


Ég og ræninginn

Ég var rænd í dag. Rænd af bölvuðum klikkhaus. Meira meira vesenið.

Eftir of langan og stressandi dag í vinnunni brunaði ég uppí búð. Ég varla gaf mér tíma til að leggja í stæði áður en ég stökk út. Ég skundaði í átt að apótekinu. Átti smá erindi. Af gömlum vana stakk ég höndinni í vasann, þreifaði eftir veskinu. En hvað var nú þetta? Ekkert veski? Ég þreifaði betur fyrir mér í miklum flýti. Andskotinn, þetta hlýtur að vera þarna. Ekkert. Í örvæntingu tékkaði ég á öllum öðrum vösum. Lyklar. Lyklakort. Ekkert veski.

Ég hraðaði mér til baka að bílnum og reif upp bílstórahurðina. Vonandi hafði ég bara misst veskið í bílinn. Ekkert þar. Ég rótaði og þreifaði. Ég fann hjartsláttinn aukast. Svitann spretta fram. Ég leitaði fyrir utan bílinn. Ekkert þar. Örvæntingin jókst. Hvar var veskið? Með öllum kortunum mínum.

Ég settist uppí bílinn og skjálfandi valdi símanúmerið heima. Heimasætan svaraði og ég skipaði henni að fara út að leita. Leita á bílastæðinu. Og leita inni. Um líf og dauða að ræða. Hún tók verkefninu alvarlega og kvaddi með hraði. Ég bakkaði hratt úr stæðinu og nærri á stóran jebba. Keyrði eins hratt og ég þorði uppí vinnu. Ég bað í hljóði að veskið lægi í vinnuna af einhverri óútskýrði ástæðu.

Heimasætan hringdi til baka. Ekkert veski. Hún ætlar að leita meira. Ég leitaði í panik á bílastæðinu í vinnunni. Ekkert. Dreif mig inn og leitaði þar. Á gólfinu. Á borðinu. Ekkert. Ég settist niður og reyndi að anda rólega. Hvenær notaði ég það síðast? Ahhh... fyrir tveimur dögum. Ég hringdi í búðina. Gat verið að það hefði fundist? Gerðu það! Búðarkonan leitaði og leitaði. Nei, ekkert þar.

Nú var orðið nokkuð ljóst að þetta var glatað. Ég hafði verið rænd. Ekkert annað að gera en að ganga frá þessum málum. Hálfskælandi hringdi ég í Vísa. Mjög svo skilningsríkur maður tók vel á móti mér. Ekkert mál. Kortinu yrði bara lokað og ég fengi nýtt á morgun. Ég spurði hvort kortið hefði verið notað en svo var ekki. Ok, það er þó lán í óláni.

Ég keyrði heim í rólegheitum áður en ég hringdi í Kreditkort. Ég settist niður á sófann og andvarpaði. Árans óheppni. Unglingarnir voru samúðarfullir. Áhyggjufullir. Ég valdi númerið hjá næsta kortafyrirtæki. Sagði farir mínar ekki sléttar. Meira skilningsríkt fólk. Kortinu lokað. Nýtt á morgun. Ég horfði tómum augum útí loftið og reyndi að ná þessu. Ég hafði verið rænd. Kortin og allt annað einhvers staðar í höndum einhvers rugludalls.

"Mamma, í hvaða jakka varstu fyrir tveimur dögum?", spurði heimasætan allt í einu. Ég hugsaði augnablik. Bíddu. Mér var kalt þann dag. Ég fór í þykkan jakka. Heimasætan stökk af stað reif jakkann af herðatrénu og snéri öllum vösum við. Ég stóð og nagaði neglurnar. Virkilega? Hefði þetta verið þar allan tímann?

Heimasætan hristi sæta kollinn sinn. Því miður. Ekkert þarna. Allt týnt ennþá. Öllu stolið. Vonsvikin settist ég á sófann aftur.

En bíddu nú við. Í hvaða buxum var ég? Ég dreif mig á fætur aftur og skundaði inní herbergi. Reif upp buxurnar. Og þarna. Í vasanum var það. Og steinþagði. Hafði verið þarna allan tímann. Rugludallurinn sem rændi mig var ég sjálf! Meiri vitleysingurinn. Og að finna þetta þremur mínútum eftir að ég loka kortinu. Ég hringdi aftur í kortafyrirtækin. Því miður. Búið að loka þeim. Ekkert hægt að gera. Bara mæta á morgun, missa tíma úr vinnunni, og sækja ný. En það var allavega bót í máli að fá allt annað sem var í veskinu.

Seinna um kvöldið, eftir að hafa þrifið baðherbergið, eldað, vaskað upp og hent í þvottavél settist ég í sófann aftur og dundaði mér við að opna póstinn. Úbbsss... hvað kom þarna alveg óvænt uppúr einu umslaginu? Jú, nýútgefið vísakort, glansandi og fínt. Kort sem nú var búið að loka. Með vonleysi sýndi ég unglingunum hvað leyndist þarna og þau veltast enn um af hlátri hér á stofugólfinu. Jebb, ég er seinheppinn vitleysingur.


Týnd

Ég er týnd í sjálfri mér þessa dagana.  Ekki bara ég.  Líffræðingurinn er líka týndur.  Við erum með ótal minnismiða um allt, auk þess sem við erum með fullt í kollinum á okkur sem við ætlum að muna, þurfum að gera, má ekki gleyma.  Svo ég tali ekki um allt sem er í tölvupóstinum okkar.  Muna.  Muna. Ekki gleyma.

Svo snúumst við um okkur sjálf. "Heyrðu.. við megum ekki gleyma þessu....", styn ég upp með vonleysi í röddinni.  Líffræðingurinn svarar með: "Nei!  Og við verðum líka að muna eftir hinu".  Dagarnir líða hratt við að reyna að muna allt sem við megum ekki gleyma.

Á meðan býr kvíðahnúturinn um sig í maganum og virðist bara vaxa og dafna.  Kjöraðstæður fyrir kvíðahnút er semsagt mallakútar á yfirstressuðu fólki sem er sannfært um að það sé að gleyma einhverju alveg lykilatriði.

Ég hangi í símanum og tala við eyjamanninn sem reynir sitt allra allra besta að leggja fyrir mig erfiðar og flóknar spurningar sem krefjast þess að ég rifji upp allt sem ég veit um gamalt og flókið tölvukerfi sem ég hef að sjálfsögðu ekki fyrir framan mig (það er svo mikið meira gaman að reyna að muna "blindandi").  "Liður 10 er kannski of flókinn núna", segir hann og hlær þegar hann er að reyna að pumpa mig klukkan hálf sex að kvöldi eftir langan og strembinn dag: "Snúum okkur í lið 14".  Ég verð agalega glöð að fresta lið 10 og helli mér útí samræður um liði 14, 15 og ég veit ekki hvað.

Svo kem ég heim á kvöldin, allt of seint, og þar eru líka hundrað hlutir sem þarf að framkvæma og gera... og muna.  Minnið þegar yfirfullt svo flæðir útúr.  Þegar ég er orðin alveg rugluð sest ég á sófann og góni á eitthvað alveg heilalaust í sjónvarpinu.  Það er uppáhalds stundirnar mínar þessa dagana.  Bara týnda ég og heilalausa sjónvarpið mitt.


Hvernig ég varð glæpamaður

"Vilma!", kallaði smiðurinn á eftir mér þar sem við vorum að yfirgefa Vatnasafnið í Stykkishólmi: "Vilma, þú veist að maður verður að prófa að brjóta reglurnar til að vita hvernig þær virka..." Ég snér mér við og brosti. Einmitt! Svona segja menn sem keyra þar sem innakstur er bannaður. Við höfðum einmitt staðið hann að verki hálftíma áður. Svona segja auðvitað svoleiðis menn. Ökuníðingar...

Á eftir fylgdi smá ræða um hvernig maður þarf að upplifa öfgarnar til að skilja andstæðurnar. Þið vitið svona maður: "you only know how low is low the first time that you fly..". Að maður skynji fyrst kulda þegar maður hefur upplifað hita. Og að maður skilji fyrst umferðareglur þegar maður hefur prófað að brjóta þær.

Ég hló og hristi hausinn. Trítlaði svo áfram með stelpunum í átt að bílnum. Vatnasafnið hafði verið skemmtileg tilbreyting. Eiginlega ætti ekki að kalla þetta safn. Þetta er meira svona gjörningur eða listaverk. Stórt stórt listaverk. Skemmtilega upplifun og útsýni tl að drepa fyrir.

Einhvern vegin virðast orð smiðsins hafa staldrað við í kollinum á mér. Sogið sig föst á undirmeðvitundina. Búið um sig í sálinni. Alveg án þess að ég tæki eftir því. Jebb, algjörlega. En á meðan ég svaf, sigldi og skemmti mér tók þessi hugmynd smá saman meiri og meiri hluta af mér. Smiðnum hafði greinilega tekist að sá fræi. Fræi sem óx og dafnaði.

Ég sjálf var hinsvegar ekki enn búin að átta mig á þessu. Ég var alveg varnarlaus. Óundirbúin. Ekki tilbúin að takast á við þessa tilfinningu sem var að yfirtaka mig. Glæpatilfinningin. Að vilja brjóta lögin til ég skilji hvernig þau virka. Svo kom að því. Þegar ég síst átti von á því.

Í sakleysi mínu fór ég að skrá okkur útaf hótelinu. Sunnudagur og tími til að fara heim. Ég tiplaði að afgreiðslunni. Hmm, enginn þar. Ég beið. Beið smá stund lengur. Svo án þess að átta mig almennilega á því gerðist það. Jebb. Ég gerðist glæpamaður. Ég lagði lyklaspjöldin frá mér á afgreiðsluborðið. Gekk út án þess að líta við. Stökk uppí flóttabílinn sem Rebbý keyrði og við reykspóluðum í burtu. Ég áttaði mig reyndar ekki á því fyrr en í dag að ég hafði stungið af frá hótelreikningnum. En skaðinn er skeður. Ég er glæpamaður. Og það er smiðnum að kenna!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Vilma sjálf

Höfundur

Vilma Kristín
Vilma Kristín
The Worrying kind
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband