20.6.2009 | 02:37
Hver verslar bíla um miðja nótt?
Það kom okkur nokkuð í opna skjöldu að sjá allt uppljómað í ágætu bílaumboði hér í bænum þegar við brunuðum fram hjá klukkan tvö á aðfararnótt laugardags. Þarna vorum við bara á góðu róli eftir skemmtilega kvöldstund þegar við rákumst á þessa óvæntu sýn. Já, allt uppljómað og það betra var, fólk inni!
"Are they open now?", spurði kattadómarinn mig furðulostinn. Ég hristi kollinn. Það getur ekki verið. Ég meina, það seljast engir nýjir bílar á Íslandi þessa dagana, sérstaklega ekki svona lúxusbílar eins og voru þarna til sölu. Það er tæplega þörf á að hafa opið um miðja nótt. Er það? Svo rann upp fyrir mér ljós. Auðvitað! Það er bara ein skýring á þessu og ég gat ekki beðið eftir að deila henni með kattadómaranum.
Já, þarna voru á ferðinni útrásarvíkingar! Engir aðrir! Í alvörunni, spáið í því. Hverjir hafa efni á að splæsa í nýjum lúxusbíl á þessum síðustu og verstu? Og staðgreiða, það fær enginn bílalán núna! Og hverjir er svo óvinsælir núna á þessu landi að þeir geta ekki látið sjá sig útí búð um hábjartan dag, hvað þá í bílaumboði að eyða milljónum? Jú, útrásarvíkingar.
Það kæmist svo sannarlega í slúðurblöðin ef þessir blessuðu víkingar sáust versla bíla hægri, vinstri. Og þarna vorum við kattadómarinn bara í sakleysi okkar þar sem við rákumst á þetta. Ef við hefðum tekið myndir gætum við örugglega selt söguna! En í alvörunni, ég er bara alveg viss... ég sé enga aðra ástæðu fyrir því að bílaumboð að þessari stærðargráðu sé opið um miðja nótt.
Við kattadómarinn vorum hinsvegar að koma úr því sem við köllum "miðsumarævintýri". Seint um kvöld hoppuðum við uppí jebba og héldum af stað. Við lentum í skemmtilegum ævintýrum á ferð okkar uppá Úlfarsfell þar sem við þræddum jeppaslóða sem á köflum var eiginlega ófær. Við komumst meira að segja á tvo toppa, þar sem fína jeppaslóðin nær um allt... og er meira að segja í gps leiðsagnarforritinu.
Við stoppuðum á toppnum og nutum náttúrunnar. Tókum myndir. Heilsuðum uppá fugla. "What is it?", spurði kattadómarinn þegar ég rétti honum hundasúru til að smakka á. "Hundasúra...", svaraði ég þar sem ég þekki ekkert annað nafn yfir þetta fyrirbæri. Gaman að geta fundið eitthvað nýtt fyrir hann að prófa.
Sem betur fer reyndist kattadómarinn svo hinn lunknasti bílstjóri þar sem við festumst þar sem við vorum nærri komin á seinni toppinn. Vegurinn alveg ófær og ekkert annað að gera en að bakka niður. Í alvöru. Bakka. Ég sem get ekki einu sinni bakkað í stæði sat og fylgdist spennt með hvernig hann kom okkur niður aftur.
Þegar niður var komið breyttum við miðnæturferðinni okkar skyndilega í könnunarleiðangur þar sem könnuðum nýja slóða og skoðuðum draugabæi, allt þar til við rákumst á bílaóðu útrásarvíkingana á leiðinni heim. Svo sannarlega óvænt skemmtun á kvöldi sem stefndi í að verða frekar dauflegt! Nú bíð ég spennt að sjá myndirnar...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
18.6.2009 | 22:05
Bílar hverfa...
"Sjáðu þarna eru þrír hvítir bílar í röð... en sætt...", skríkti heimasætan þar sem hún sat í framsætinu við hliðina á mér. Við á leið í miðbæinn að taka þátt í hátíðarhöldum eins og manni ber að gera. Ég gjóaði augunum á bílana og sagði svo bara það fyrsta sem mér datt í hug: "Ef þetta væri Tetris myndu þeir bara hverfa... glúbbbb..."
Heimasætan greip hugmyndina á lofti. "Hey! Já... ", sagði hún og skírkti svo með skrækri röddu: "Glúbbb...." Og þar með hafði leiðinleg bílferð breyst í hina bestu skemmtun. "Nú þarf þessi bara að skipta um akrein og lenda á eftir hinum silfurlitaða... og þá ... glúbb....", æpti heimasætan og benti á bílinn fyrir framan okkur. Ég gerði svo mitt besta til að ná þremur bláum bílum hlið við hlið. Til að ná samstæðu. Það er hægt. Bæði 3 hlið við hlið eða 3 í röð. Glúbb.
"Þið eruð ruglaðar...", tuðaði sætukoppur úr aftursætuni og benti svo spenntur á rauðan bíl sem kom sér fyrir fyrir aftan annan rauðan, nú þurfti bara guli bíllinn þar fyrir fram að hverfa. Yeahhhh! Glúbbbb! Ég segi ykkur það bílaumferða Tetris er óskaplega skemmtilegur!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
17.6.2009 | 23:18
Bestu íslendingarnir
Það er ekkert leyndarmál að 17. júní er bara alls ekki uppáhaldsdagurinn minn. Mér er mein illa við mannfjölda, líður hræðilega illa niðrí bæ þar sem fólkið þrengir að mér og ég fæ köfnunartilfinningu. Svo er ég dauðhrædd um að týna prinsinum mínum innan um allt fólkið. Raðirnar eru of langar. Veitingarnar of dýrar. Erfitt að komast að miðbænum. Enn erfiðara að komast í burtu.
Ég er hinsvegar staðráðin í að láta börnin mín njóta dagsins. Það er því stíf vinna þennan dag hjá mér. Jebb. Ég er ekki bara staðráðin að láta börnin hafa gaman og eiga góðar minningar en jafnframt er ég ákveðin í að við verðum bestu íslendingarnir. Ja, allavega í hópi bestu íslendinganna sem fagna mest þennan frábæra dag.
Og með það í huga var ætt niður í miðbæ Reykjavíkur í dag. Við vorum aðeins of sein á ferðinni og misttum af skrúðgöngunni... Við erum agalega góð í skrúðgöngum sko... syngjum og marserum og allt. Við héldum því bara okkar eigin skrúðgöngu. Prinsinn klæddist stórfenglegri skósíðri svartri skykkju sem flaksaðist til þegar hann gekk. Þar á eftir komu sætukoppur og heimasætan sem spígsproraði agalega sumarleg í ermalausum kjól. Ég rak svo lestina og raulaði á meðan við héldum í átt að miðbænum.
Ég og prinsinn héldum á Arnarhól. Það er mín leið til að fara í miðbæinn án þess að tapa mér í mannfjöldanum. Á Arnarhóli er hægt að finna sér stað án þess að vera alveg ofan í næsta manni. "Ég leitaði bara að stað með fáu fólki á og vissi að þú værir þar...", tísti heimasætan þegar unglingarnir ákváðu að kíkja við hjá okkur. Daman farin að þekkja mömmu gömlu. En þá gerðist hræðilegur atburður. Við prinsinn ákváðum að færa okkur til á hólnum. Dúlluðum okkur við að finna nýjan stað, skoða styttur, kíkja á leikvöll. Það var því liðinn nokkur tími þar til við uppgvötuðum að síminn hafði orðið eftir á fyrri staðnum. Úbbss.... ekki gott. Arnarhóll á 17. júní, fullur af fólki. Og ég hafði skilið símann eftir liggjandi í grasi. Great! Nú voru góð ráð dýr. Hikandi byrjuðum við prinsinn að færa okkur til baka. Glætan að við fyndum síman einhvers staðar. Prinsinn byrjaði að skoppa til og frá. Viti menn! Fyrr en varði hafði hann fundið símann liggjandi inná milli manna. Hvílík lukka sem fylgir þessum dreng... eða þessum degi.. hvað sem er... frábær lukka.
Við létum miðbæjarhátíðarhöldin ekki duga. Stukkum uppí bíl og brunuðum í kaffi til Bibbu sem hafði bakað vöfflur. Vöfflunum fylgdi spjall. Við enduðum svo á að draga Bibbu með okkur á hátíðarsvæðið. Já, ef maður ætlar að verða besti íslendingurinn er ekki nóg að sækja hátíðarhöld í einu bæjarfélagi.
Eftir stutt kvöldmatarhlé og eftir að hafa sótt heimalinginn drifum við okkur á stórskemmtilega tónleika í Kópavogi. Ja, þeir voru allavega eftirminnilegir. Prinsinn gat ekki hætt að brosa eftir endalausar ferðir í hoppukastala og hringekjur. Við komum okkur vel fyrir með Bibbu og Bibbusyni í brekkunni... eftir að Bibba gafst upp sat ég bara sæl og glöð með heimlingnum og bibbusyni og við sungum og dilluðum okkur og skemmtum okkar manna mest á tónleikunum. Já, munið.. ég ætla að verða besti íslendingurinn og þá verður maður líka að skemmta sér betur en hinir. Þegar við keyrðum þreytt heim eftir langan dag hugsaði ég.. kannski er mér ekki bara að takast að láta börnunum finnast dagurinn skemmtilegur.. kannski er ég að ná að snúa sjálfri mér. Svo sendi ég í huganum afmæliskveðju uppí himnaríki til mömmu sem hefði orðið 58 ára í dag, þetta er hennar dagur :)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
17.6.2009 | 00:11
Líf mitt í sjónvarpsþætti
Núna er ég alveg viss. Þetta er pottþétt. Ég er persóna í sjónvarpsþætti. For sure. Pínulítið eins og Truman show. Einhvers staðar er fullt af fólki að horfa á. "Fylgist með í næsta þætti þegar Vilma hefur sig að fífli útí búð...", segir kynnirinn djúpri röddu og með fylgir lítið myndbrot af mér að gera eitthvað að mér... bara pínulítið sýnt til að eyðileggja ekki atriðið alveg.
Ég var að gjóa augunum um daginn á svona amerískan gaman/spennuþátt í sjónvarpinu þegar þetta rann upp fyrir mér. Auðvitað! Af hverju hafði ég ekki séð það fyrr? Ég hlaut að vera eitt af stóru hlutverkunum í svona þætti. Ég meina ég er seinheppin, hellingur af því sem ég tek mér fyrir hendur mislukkast. Og þar sem ég er seinheppin lendi ég oft í spaugilegum atvikum sem fá áhorfendurnar til að flissa.
Svo á ég stóran, fjörugan og fyndinn vinahóp. Fullt af frábæru fólki sem svo sannarlega lífgar uppá hið daglega líf. Ég meina vinirnir eru ansi mikilvægir í svona þáttum. Ansi mikilvægir. Sjáið bara Friends eða Seinfeld. Þar spiluðu vinir sko stórt hlutverk.
En ég er ekki bara skrítin og stundum spaugileg. Nei, ég er líka dramatísk... með eindæmum. Og það verður alltaf að vera smá dramatík með. Svona sem mótvægi við grínið. Og best ef á bak við grínið er svolítið ljúfsárt drama. Gefur þessu svo miklu meiri dýpt.
En það sem ýtti helst við mér voru ástarmálin. Takið eftir í svona myndum. Aðalsögupersónan fær aldrei draumaprinsinn. Það er alltaf bara einhver spenna en þau ná aldrei saman. Það er að segja ef það er draumaprins. Ef það er ekki draumaprins þá getum áhorfendur eytt mörgum klukkutímum í að hlægja að mislukkuðu ástarlífinu. Það er svona á mörkum þess að vera of pínlegt til að horfa. "Nei, hvernig gat hún klúðrað þessu...", veinar áhorfandi og heldur um magnn þar sem hann fylgist með mér segja heimskulegasta hlut í heimi við vinalega manninn sem reyndi að yrða á mig.
Og þar sem ég er sjónvarpsþáttur er ég nokkuð viss hvernig nánasta framtíð verður. Pottþétt áfram ein, því ef það kemur sönn ást inní spilið eða hamingjusamt samband þá er þættinum alltaf "cancelað" fljótlega eftir það. Og vinirnir halda áfram að vera í kringum mig, en þeir verða ýktari og skrítnari eftir því sem á líður. Fljótlega mun koma eitthvað dramatískt fyrir svo áhorfendur fái tár í augun... en það endar samt á fyndinn hátt.
Jebb, ég er sjónvarpsþáttur og bara nokkuð smellinn þó ég segi sjálf frá. Eruð þið að horfa?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
15.6.2009 | 21:54
Að hrista heilann... einu sinni enn
Þetta er ferlega skrítið. Það er ekki eins og síðustu dagar hafi verið tíðindalitlir. Frekar þveröfugt. Það er heldur ekki eins og þeir hafi verið leiðinlegir. Frekar þveröfugt. Það er ekki eins og ég hafi ekki haft frá neinu að segja. Frekar þveröfugt. En samt, samt, stend ég mig að því kvöld eftir kvöld, að vera bara tóm þegar kemur að bloggi.
Ef ég pakka þessu saman: Selfoss, Akranes, Eyrarbakki, Kópavogur, Snjóka, Hrefna, Magga, Salsa tónlist, rigning, sól, vökunætur, formaðurinn, kerruflutningar, heimsóknir, gestir, góður matur, góðar kökur, prins, frábært kaffihús, verslunarleiðangur, brunch, trúnó, dagblöð, íþróttaföt, heit lúxusbað, blundir, fræðslumyndir, unglingar, kisur og svona til að toppa helgina: heilahrisingur.
Jebb, mikið brallað, mikið sofið, mikið vakað, fullt af skemmtilegu fólki. Fullt af öllu. Dásamleg helgi þar til prinsinum tókst einhvern veginn að krækja sér í heilahristing. Jebb. Heilahristing, einu sinni enn. Í sjötta sinn! Halló? Er einhver að grínast? Hann fékk að fara út í klukkutíma og kom til baka með heilahristing! Í alvörunni? Þetta hlýtur að vera djók...
Við vorum á leiðinni frá Selfossi þegar einkenninn sem ég þekki nú orðið betur en nokkur læknir fóru að gera vart við sig. Með skelfingu fylgdist ég með honum verða hvíai og hvítari. Alveg skjannahvítur. Með bláleitar varir og kaldan svita. "Ég get ekki andað...", stundi hann og hallaði augunum aftur. Steinsofnaði. Og hallaði sér uppað mömmunni sinni. Aumingja karlinn. Þetta er eitthvað sem ekki venst. Bara alls ekki.
Prinsinn eyddi kvöldinu á sófanum undir vökula auga okkar allra. Svaf og kastaði upp til skiptis. Sætukoppur fylgdist rannsakandi með öllu sem prinsinn gerði og heimasætan ýtti við prinsinum reglulega, bara til að tékka. Þegar mér tókst tæplega að vekja drenginn og fékk hann ekki til að segja neitt að viti var mér eiginlega hætt að lítast á þetta. "Hvað heita kisurnar okkar?", spurði ég til að gefa honum færi á léttri spurningu. "Uhhh........ Millie....", stundi náhvítur prins og lognaðist aftur útaf.
Verst er að vita ekkert hvað kom fyrir hann. Vita ekkert hvernig hann krækti sér í þetta. Og nú erum við búin að ákveða að þetta verður í siðasta sinn sem einhver á þessu heimili fær heilahristing. Og ég er ekki að grínast!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
13.6.2009 | 00:46
Jólin koma... ekki alveg strax
Ég sit ein í stofunni og syng. Syng með tónlistinni sem smýgur út úr hátölurunum í tölvunni minn, heitelskuðu tölvunni minn. "I'll have a bluuuuuuuuuuuuueeeeeee christmas without you... I'll be so bluuuuuuuuuuuuuuueeeeee thinking about you...." Já, ég sit ein inní stofu og syng jólalög. Já, ég veit að það er júní. Mig greip bara snögglega svo mikil þörf fyrir jólalög. Svo sterk þörf að ég réð ekkert við hana.
Ég byrjaði á einsöng: "Skín í rauðar skotthúfur..." og heimasætan tók undir. Við sungum dúett og útfærðum lagið að okkar hætti. Sætukoppur setti upp svip og hristi hausinn. Við sungum hærra. Hann stundi. Við skiptum um lag og brunuðum beint í næsta jólalag. En það var einhvern veginn ekki nóg fyrir mig. Náði ekki að uppfylla þörfina svo ég kveikt á iTunes. Ahhhh, ekta jólaandi lak um allt.
Allt frá Elvis til Dolly Parton til Queen... bestu jólalög í heimi og ég sit hér í þvílíku stuði. "Ertu full?", spurði formaðurinn á facebook þegar honum fannst vinkona sín vera með full mikinn galsa fyrir konu á þessum aldrei. Ég hló og hélt áfram að syngja og þverneitaði. Bláedrú, að sjálfsögðu. Jólalög hafa bara þessi áhrif á mig.
Og eftir allt of viðburðarríka viku og hræðilega erfiða og þunga viku er skemmtileg tilbreyting að vera uppfullur af hamingju og gleði sitjandi einn heima á föstudagskvöldi.
"Walking in winter wonderland..." og nú á ég ráð sem ég ætla að reyna næst þegar ég verð leið og lífið þyrmir yfir mig. Jebb, ég dreg fram jólalögin!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
10.6.2009 | 21:54
Sumarfrí eða ekki...
Þetta er sumarið sem ætlar að fljúga hjá. Bara þjóta framhjá á meðan ég sit við tölvuna. Jebb. Það er sko ekki sumar núna í Ástralíu og Kólumbíu. Því þykir mönnum þar tilvalið að nota þennan árstíma til að gangsetja ný kerfi. Ég og líffræðingurinn flettum dagatalinu og merkjum inná gangsetningar dagsetningar. Við verðum að vera í vinnu í kringum þær, annars værum við frekar slappt þjónustufólk.
Þar að auki þarf alltaf að vera allavega einn vöruhúsaálfur á vakt í allt sumar og þar sem kollegar okkar voru sneggri að hugsa en við og hverfa á braut allan júlí og fram í ágúst er lítill tími eftir fyrir okkur. "Frábært að þið verðið hér í lok júlí!", kallar sálfræðingurinn og brosir hringir á meðann hann skráir okkur á símavakt. Við setjumst í sætið okkar og flettum dagatalinu. Einhvers staðar hlýtur að leynast smá tími í sumarfrí.
Þar sem ég er ekkert sérlega góð í að taka frí á ég inni rúmar 8 vikur af sumarfríi. Við erum hinsvegar búin að finna 2 vikur sem hentar að við verðum í burtu. 2 vikur þar sem ekki er yfirvofandi gangsetning eða nýbúin að vera gangsetning og það er einhver sem verður eftir á vakt. 2 vikur eru ekki neitt neitt þegar maður á 8 vikur hugsa ég og styn. Tek krappa beygju og ákveð að skella mér 2 daga í næstu viku í frí sem ég fæ ef ég næ að klára verkefnið mitt... en eftir ævintýri og áföll vikunnar sýnist mér allt stefna í vinnu í næstu viku.
Ætli ég verði ekki bara að taka "power" sumarfrí... svona extreme 2 vikur þar sem ég geri ekkert annað en að sofa úti í sólbaði og borða ís þess á milli. Jebb. Geri það. Svo tek ég bara extra gott frí á næsta ári, miðað við þetta stefnir allt í 12 vikna frí þá :)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
7.6.2009 | 23:43
Indecisión
Ég nærri grét af hlátri þar sem ég skoppað stjórnlaust upp og niður. Sitjandi. Liggjandi. Sitjandi. Skopp. Skopp. Skopp. Ég reyndi að hætta að tísta en gat það engan veginn. Ekki fræðilegur möguleiki að ég gæti staðið í lappirnar. Hvað þá hoppað sjálf. Ekki fræðilegur.
Í kringum mig hoppuðu diskódísin og líffræðingurinn eins og þau væru að tapa sér og hlógu líka eins og vitleysingar. Rebbý og formaðurinn horfðu á úr öruggri fjarlægð, virtust skemmta sér ljómandi vel enda vorum við örugglega allt annað en þokkafull að klöngrast á trampólíninu í miðju partýi. Ég gerði tilraun til að komast niður. Skreið í átt að útganginum en skoppaði jafn mikið til baka. Ég hafði engan veginn gert mér grein fyrir hvað trampólínið var hátt... enda var nokkuð óljóst hvernig ég komst uppá það. En nú blasti við mér að þurfa að komast niður. Og ekki til séns að ég þorði niður aftur. Ekki góð staða að vera í. Föst uppá trampólíni með tveimur hoppandi og skríkjandi vinnufélugum. Formaðurinn kom mér til bjargar og rétti fram sterka arma til að hjálpa vinkonu sinni niður. Ég segi það, það þurfa allir að eiga einn svona formann til að bjarga sér úr klípu... eða til að passa veskið... eða til að passa fötin... Jebb, án formannsins væri ég sennilega enn á trampólíninu.
Afsteggjunarpartý formannsins tókst svona ljómandi vel. Eftir að hafa eytt drjúgri stund í garðinum þar sem við yljuðum okkur við hitann frá kamínunni, grilluðum sykurpúða, blöðruðum, hlógum og sungum fluttum við partýið inn. Þarna hafð verið safnað saman alveg fyrirtaks hóp af fólki, flestir auðvitað úr hugbúnaðargeiranum - en það er einmitt sérlega skemmtilegt fólk sem starfar þar. Í alvörunni. Kunnum alveg að skemmta okkur. Tala nú ekki um þegar reykvél, diskóljós og diskókúla eru á svæðinu!
Ég horfði á eftir bleika fallega ipodinum mínum fljúga úr höndum ráðgjafanna, fljúgja úr höndum þeirra og niður í gegnum stigaopið. Heyrði hann skella á steyptu gólfinu fyrir neðan. Líffræðingurinn setti upp skeifu og trítlaði niður stigann á eftir honum. Eins gott að ipodinn skemmdist ekki. Þetta var nú einu sinni mikilvægasti ipodinn í þessu annars fjölmenna ipod partýi. Jebb, ipodinn minn innihélt nefnilega "lagið". Eftir stutta stund stakk líffræðinguinn hausnum upp aftur og skellti bleika krúttinu í tækið. Virkaði svona ljómandi vel eftir ferðalagið.
"Indecisión! Indecisión! Indecisión", sungum við öll eins hátt og við gátum með einkennislagi partýsins. Alveg ekta kólumbískt lag sem við drösluðum með okkur heim úr vinnuferðinni þanngað. Fyrst þegar við skelltum því í tækið í byrjun partýs stundu allir. "Það verður að vera lag sem maður hefur heyrt...", sagði Rebbý. Og líffræðingurinn var svo sannarlega að hlusta. Nú var búið að spila það einu sinni. "Hér er lag sem þið hafið heyrt áður", tilkynnti hann 10 mínútum seinna og spilaði lagið aftur við takmarkaðar undirtektir.
En viti menn eftir bara uhhhh... kannski 10 spilanir voru allir farnir að syngja með á spænsku: "Indecisión!" Ekki nóg með það heldur eru ansi margir úr partýinu búnir að biðja um afrit af laginu... fylgist bara með, ég er sannfærð um að þetta rati á vinsældarlistana fljótlega (og svona í beinu framhaldi... í nýjasta eintaki viðskiptablaðsins er fínasta grein um vöruhúsakerfið okkar og ferðalag okkar líffræðingsins til Kólumbíu... spurning í hvaða blaði ég verð í þessari viku).
Ég náði á endanum að vera úti til klukkan að verða fimm í morgun sem nú það lengsta sem ég hef enst lengi. Dansaði frá mér allt vit, hló þar til mig verkjaði í magann, þvældist um miðbæinn með félugunum eftir partýið.
Það er bara ein leið að enda þennan pistil.. ég verð bara að syngja: "Indecisión"
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
5.6.2009 | 21:01
... hann er blár...
Ég stóð bara og starði. Reyndi að koma í veg fyrir að sleftaumur laumaðist niður hökuna. "Hvað er númerið á bílnum?", spurði sæti viðgerðarmaðurinn, brosti til mín og hallaði undir flatt. Ég brosti á móti, brost og þagði. Hann endurtók spurninguna. Ég stóð enn og brosti. Þrátt fyrir að það síðast sem ég gerði þegar ég skyldi Rúnu eftir á stæðinu hefði verið að kíkja á númeraplötuna gat ég ómögulega munað númerið. Svo ég stóð bara og brosti, gat ekki slitið augun af honum. "Uhhh, ég man það ekki...", stundi ég upp og yppti öxlum. Bætti svo við: "... en hann er blár..."
Ofurkrúttulegi viðgerðarmaður hughreysti mig. Ekkert mál. Hann myndi finna útúr þessu. Vissi ég hvar ég hafði skilið bílinni eftir? Ég benti út á stæðið: "Hann er á endanum... hann er blár..." Dúllan hélt áfram að brosa og tók við lyklinum. Fór aftur yfir hvað átti að gera við. Fékk símanúmerið mitt. Ég reyndi að hemja mig um að segja honum að hringja bara hvenær sem er...
Það var með nokkrum trega að ég kvaddi sæta viðgerðarmanninn, sannfærð um að Rúna væri i góðum höndum. Trítlaði út og stillti mér upp við götuna og beið líffræðingsins sem ætlaði að kippa mér með í vinnuna. Það er pínulítið óþægilegt að standa svona út við götu í miðju iðnaðarhverfi. Dálítið einmannalegt. Ég varð því heldur betur kát þegar ég heyrði líffræðinginn nálgast. Maður getur sko heyrt í honum langar leiðir þar sem hans bíll er ekkert í mikið betra standi en Rúna.
Krúttí púttí viðgerðarmaðurinn hringdi tvisvar í mig í dag. Í bæði skiptin fann ég hvernig heilinn kvaddi mig. Kvaddi mig og hélt bara út í göngu á meðan ég stamaði í símann, eins heilalaus og hægt er. Hvað er það við fallega karlmenn sem fær mann til að slökkva bara á heilanum, brosa og stama heimskulegum hlutum uppúr sér. Ég veit ekki.
Allavega þegar kom að því að sækja bílinn bjargaði líffræðingurinn mér enn og aftur. En það var ekki nóg. Hann vildi líta "gripinn" augum og kom því með mér inn. Sæti viðgerðarmaðurinn brosti og spurði um bílnúmer. Einmitt. Líffræðingurinn trítlaði um og gerði einstaka gáfulega athugasemd á meðan ég mændi á viðgerðarmanninn. "Hann er bangsalegur...", viðurkenndi líffræðingurinn þegar við komum út. Ég móðgaðist um leið fyrir hönd krúttsins. Hann er sko ekkert bangsalegur. Hann er bara sætur. Karlmenn hafa hvort sem er ekkert vit á þessu.
En nú er Rúna bara í toppstandi. En eina sem ég get hugsað um er að koma henni aftur á verkstæði. Núna. Svo ég hef helgina til að finna eitthvað að... eitthvað sem ég get látið nýja uppáhalds viðgerðarmanninn minn gera við.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
4.6.2009 | 19:32
Hræðilegt, alveg hræðilegt!
Hljóðið sker eyrun og ég hækka í útvarpinu til að þurfa ekki að hlusta á þjáninguna. Hækka í útvarpinu til að útiloka grátinn og kveinin. Ég get ekki hlustað á þetta. Ég er miður mín. En hvað er til ráðs?
Ég er langt í frá að vera tæknileg manneskja þegar kemur að bílum. Bílar eru bara eitthvað sem á að virka. Auk þess sem ég binst bílunum mínum tilfinningaböndum og lít á þá sem hluta af fjölskyldinni. Og því á ég agalega bágt þegar eitthvað amar að ástinni minni. Aumingja Rúna mín er að ganga í gegnum hræðilegt tímabil. Fyrst fór pústkerfið í sundur svo ekki var hægt að hugsa í kílómeters radíus. Það var varla búið að gera við það þegar næsti krankleiki gerði vart við sig. Hræðileg óhljóð heyrðust, svo hræðileg að ég gat ekki hlustað.
Frá mér af áhyggjum leitaði ég til formannsins. Hvað þýddu svona hljóð spurði ég og lýsti þeim í gengum spjallforritið. Formaðurinn hugsaði sig um og spurði nokkura vel valinna spurninga. Ég svaraði að bestu getu. "Bremsuklossar..", svaraði formaðurinn. Eftir smá spjall í viðbót var ákveðið að ég fengi staðfestingu á sjúkdómsgreiningunni í dag.
Ég gat varla keyrt í vinnuna, stunurnar og urgið í Rúnu voru að gera útaf við mig. Í hádeginu bauð ég svo líffræðingnum í bíltúr. Ég rétti honum bíllyklana... enda hafði hann verið gabbaður út til að sjúkdómsgreina Rúnu. Hann þurfti ekki að keyra langt áður en gaf upp dóm sinn. Bremsuklossar. Og þolinmóður kenndi hann mér hvernig maður "gírar niður" í staðinn fyrir að bremsa. Hann gretti sig þegar hann steig á bremsurnar, en ólíkt mér slökkti hann á útvarpinu til að heyra harmakvein Rúnu betur.
Ég fékk létt kvíðakast. Ég veit fátt hræðilegra en bílaverkstæði og ég reyni að forðast þau í lengstu lög. Nú stóð ég frammi fyrir því að fara á eitt slíkt. Ég hafði hræðilegan valkvíða og hótaði að keyra áfram svona á bílnum. Á endanum tók líffræðingurinn af mér ákvörðunarvaldið og pantaði tíma á verkstæði þar sem ég og Rúna eigum að mæta snemma í fyrramálið. Ekki nóg með það heldur ætlar líffræðingurinn að sækja mig á leiðinni í vinnuna og skutla mér aftur til að sækja ástina mína úr viðgerð seinni partinn.
Þanngað til í fyrramálið keyri ég ofurhægt um á Rúnunni minni, æfi mig snarlega í að gíra niður og keyri frekar á gangstéttarkantinn heldur en að bremsa. Ég er nefnilega orðin dauðskelkuð yfir því að skemma Rúnu mína. Vonandi verður þetta það síðasta sem hendir hana í bráð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Um bloggið
Vilma sjálf
Tenglar
Ég sjálf
Gamla bloggið mitt
- Gamla bloggið mitt Vilma Stína
Klúbbar og félög
Eitt og annað sem ég tengist
- Ofurhugar Kúlasta fólk í heimi
- Skógarkettir Skógarkattaklúbbur Íslands
- Kynjakettir kattaræktarfélag Íslands
Kisusíður
Hinar og þessar kisusíður
- Aliosha's Aliosha og Hrund
- Eldibrands Margrét Birna og hennar kisur
- Hlíðarenda Heimasíða Ásdísar
- Vetrarheims Heimasíðan mín
- Björgvinjar Áslaug vinkona mín á þessa síðu
Bloggarar
Hinir og þessir skemmtilegir