Færsluflokkur: Bloggar
20.7.2009 | 17:05
Borgarferð í bongóblíðu
Ég er enn að reyna að læra að vera í sumarfríi. Reyndi í einn dag að "slaka á" - eins er endalaust verið að segja mér að gera. Eftir þann dag hélt ég að ég myndi deyja úr leiðindum, deyja hreinlega. Svo sennilega verð ég að finna mér eitthvað skemmtilegra að gera næst þegar ég slaka á.
En svona til að gera eitthvað í fríinu ákváðum við Rebbý að gerast ferðamenn í okkar eigin borg og héldum í þeim tilgangi niðrí bæ á laugardagsmorgun. Við trítluðum um allt með prinsinn í eftirdragi. Bentum á hús og styttur en umfram allt mynduðum við allt saman. Ferðamenn taka nefnilega myndir. Þið vitið myndir af styttum og svoleiðis... og myndir af sjálfum sér. Til að njóta dagsins enn betur borðuðum við úti í hádeginu áður en við löbbuðum í kringum tjörnina til að ná að gefa sem flestum öndum (og sem fæstum mávum) að borða líka. Ég lagði mig svo í hljómskálagarðinum á meðan Rebbý sólaði sig og prinsinn klifraði. Held að þetta hljóti að teljast slaka á dagur þrátt fyrir að við værum hálf eftir okkur eftir alla útiveruna.
Við stoppuðum ekkert þarna heldur grilluðum kvöldmatinn, eftir að hafa haft ís í eftirrétt á undan. Það er ekkert að því að snúa deginum svolítið við þegar maður er í sumarfríi. Enduðum svo kvöldið á því að kíkja á bæinn.
Snillingar sem við erum, þá lögðum við af stað á einum bíl en enduðum svo á tveimur bílum.. það dugar ekkert minna en tveir bílstjórar fyrir okkur... og reyndar vorum við sjálfar bílstjórarnir... mjög flókið allt saman. Eftir dans og daður (hjá sumum sko... ekki öllum) slóst ég í för með tveimur gæfulegum mönnum og endaði í ævintýralegu partý í betri hverfum bæjarins.
Þar var dansað, sungið, hlegið, haldin skósýning, drukkið (sumir meira en aðrir og sumir ekki neitt nema vatn sko), klappað köttum, slúðrað... áður en haldið var heim á leið undir morgun. Það þarf ekkert marga til að gera skemmtilegt partý sko.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
18.7.2009 | 01:20
Strumpar í geimskipi
Ég flutti í dag. Ekki það að ég sé að flytja eitt eða neitt sko. Nei, Snjóka er að flytja og í dag byrjuðum við að ferja dót á milli. Snjóka hafði fengið lánað geimskip sem dags daglega er notað sem strumpastrætó. Geimskipinu var umsvifalaust breytt í flutninga geimskip. Svo mættum við, ég og heimalingurinn á Rúnu minni og breyttum henni í flutningabíl. Svo með flutninga geimskip og flutninga bíl byrjuðum við að flytja.
Við bárum út kassa, töskur, poka, myndir, stóla, skápa, pullur, borð, glervasa, postulínsglös og ég veit ekki hvað. Fylltum flutninga geimskipið og flutninga bílinn tvisvar. Burðuðumst með þetta allt fram og til baka. Vorum bara nokkuð ánægðar með niðurstöðuna. Búnar að flytja meiri hlutan af "litlu" hlutunum. Fengum fína hreyfingu útúr þessu og náðum alveg svitna. Þvílíkir dugnaðarforkar.
Allt þetta hefur hinsvegar fengið mig alveg á þá skoðun að mig langar ekki að flytja. Neibb. Þetta er rosamikil vinna svo ég held að ég búi bara áfram á mínum stað, í minni kompu, í mínum skít. Og hananú... Nú tekur við hvíld fram að næstu flutningum sem eru á mánudaginn. Þá ætlum við að fá alvöru flutningabíl með alvöru flutningabílstjóra og flytja "stóru" hlutina.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.7.2009 | 19:03
Bíósumar
"Þarna...", sagði Rebbý og benti yfir á næsta hús. "Þarna er sko hraðbanki... ég og Gunni erum alltaf hérna!", hélt hún áfram og strunsaði af stað. Ég trítlaði í humátt á eftir henni. Munur að vera á ferð með manneskju sem veit allt um hraðbanka í Mjóddinni. Á svipstundu vorum við komnar þanngað sem hún hafði bent. Ég horfði undrandi á "hraðbankann" sem Rebbý "vissi" að væri þarna. Í mínum augum var þetta stór lúga... ekki hraðbanki... allavega þá mjög frumstæður. Við litum hvor á aðra og skelltum uppúr. Héldum svo áfram í leiðangri að leita að hraðbanka sem var í lagi og eftir að hafa rekist á aðra eins lúgu fundum við tvo hraðbanka. Já, munur að vera í Mjóddinni.
Þetta stefnir í að verða mikið bíósumar. Heilmikið. Í gærkvöldi skellti ég mér með Rebbý og Gunna á Brunó. Hmmmm. Hvað er hægt að segja um það. Ja, ég get allavega ekki mælt með myndinni. Á köflum fyndin. Á köflum painfully pínleg. Það er ekki oft sem maður kemst á mynd sem gengur fram af manni. Ég sat stundum gapandi eða hélt fyrir augun af vonleysi. Sveiflukennd stund í bíó.
Í dag dreif ég mig svo aftur í bíó, í þetta sinn með öllum unglingunum mínum. Kíktum á Harry Potter. "Eru allir búnir að jafna sig andlega?", spurði sætukoppur áður en við keyrðum heim á leið. Honum fannst við kvennmennirnir eitthvað tæpar á taugum. Ég held að mér hafi meira að segja náð að bregða honum svolítið með einstaklega glæsilegu, háværu og skræku öskri í seinni hluta myndarinnar. Konan fyrir framan mig hoppaði í sætinu. Mjög mikilvægt að öskra í bíó... :)
Á milli bíómynd hef ég svo verið á pökkunarvakt hjá Snjóku. Á morgun er svo fyrsti í flutningum þar sem við ásamt heimasætunni og heimalingnum ætlum að flytja meirihlutann af búslóðinni í geimskipi. Það verður spennandi að sjá hvernig hún kemur sér fyrir í nýju húsakynnunum.
En núna ætla ég að fletta bíóauglýsingunum. Næst á dagskrá er að sjá My sisters keeper (tek með mér kassa af þurrkum á hana, takk fyrir) og svo eigum við Aliosha deit á G.I. Joe.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
14.7.2009 | 20:47
Vonbiðill
Um miðjan dag í dag var bankað uppá hjá mér. Hálflöt trítlaði ég til dyra, nokkuð viss um að það væri verið að spyrja eftir prinsinum. En það var nú öðru nær. Á stéttinni fyrir utan stóð ungur og sætur maður. Ég hef svo sem tekið eftir honum í nágrenninu. Að labba fram hjá og svoleiðis. Svo ég vissi að hann er nágranni minn en ég veit ekkert hvað hann heitir eða neitt nánar um hann. Og hann hefur greinilega tekið eftir mér líka. Svo dökkur yfirlitum og sviphreinn.
"Hæ", sagði ég og fann hvernig ég týndist í dökkbrúnum augum hans sem eru svo stór að þau virðast geta gleypt allan heminn. "Hæ", svaraði hann og brosti grallaralega um leið og hann hallaði undir flatt. Hann hikaði eitt augnablik og sagði svo: "Vildu kyssa mig?"
Ég var nærri dottin aftur á bak. Svona tilboðum er ég nú ekki vön. Hvað var til bragðs að taka. Skella einum á kinnina á nágrannanum? Það væri nú kannski ekki svo sniðugt útaf hálsbólgunni og svoleiðis. Maður vill ekki smita sko.
Ég hristi því kollinn, brosti svona til að sýna að mér finndist hugmyndin spaugileg og svaraði svo: "Nei". Hann hætti ekkert að brosa og horfði stöðugt í augun á mér. "Finnst þér það ekki gott?", spurði hann svo og setti mig um leið í heilmikla klípu. Hverju ætti ég að svara? Helst vildi ég ekki fara útí þessar um ræður við fjögra ára nágranna minn af efri hæðinni. Svo ég reyndi að snúa mig úr klípunni með því að beina samtalinu að öðrum og meira spennandi hlutum. Úðabrúsa! Og fyrr en varði skottaðist grallaspóinn í burtu og virtist bara ekkert vera "heartbroken".
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
13.7.2009 | 18:59
Frábærar fréttir
"Þetta verður dálítið kalt", sagði konan þar sem hún makaði geli á sónarhausinn. Ég lá á bekknum og beið. Shit. Hún var ekkert að ljúga neinu, gelið var ískalt en sem betur fer fljótt að hitna. Konan lagði aðra höndina létt á mig og beitti skannanum af mikilli kunnáttu. Eða það held ég alla vega. Ég kann auðvitað ekkert á svona tæki og veit ekkert hvernig á að bera sig af. Allavega þá ýtti hún skannanum til og frá, að því er virtist til að hitta á góðan stað. Aðeins upp. Aðeins niður. Aðeins til hægri. Aðeins til vinstri.
Ég reyndi að liggja grafkyrr og slaka á. Það var mín aðstoð í þessu máli. Ekki mikið meira sem ég gat lagt til, ja nema auðvitað vera þarna. Ég gjóaði augunum á skjáinn en gat svo sem ekki greint neitt. Fyrir mér var þetta bara næstum svartur skjár með einhverjum gráum og hvítum flyksum hingað og þanngað. Hvað ef hún fyndi nú ekki neitt? Hvað ef það væri nú ekki allt í lagi? Af hverju var hún svona alvarleg á svipinn?
Ég andvarpaði, lokaði augunum augnablik. Slaka á. Það skiptir máli. Ekki verða stressuð. Ég opnaði augun aftur og leit aftur á skjáinn. Ég get ekki skilið að einhver sjái útúr þessum klessum en konan rýndi einbeitt á skjáinn, Hnikaði tækinu aðeins til. Ýtti á takka hér. Ýtti á takka þar. Virtist vera sátt. Allavega enginn skelfingarsvipur.
Hún ýtti á einn takka enn, leit létt til mín og kinkaði kolli. Skyndilega barst hljóð um alla skoðunarstofuna. Greinilegur og nokkuð ör hjartsláttur. Ja, hérna. Nokkuð falleg hljóð hugsaði ég og naut þess að hlusta á öruggan taktinn. Búmmm Búmmm. Búmmm Búmmm. Búmmm Búmmm.
Enn rýndi ég á skjáinn og reyndi að finna eitthvað á skjánum. Eitthvað sem gæti gefið til kynna hvað snéri upp og niður. En græddi svo sem ekkert á því. Konan hélt áfram að skanna með sónartækinu. Stoppa. Mæla. Á meðan dundi hjartslátturinn um og ég var að spá hvort ég gæti kannski fengið upptöku með mér heim. Ég skil hjartslátt þó að ég skilji ekki sónarmyndir.
Svo var konan allt í einu ánægð, allt búið. Hún slökkti á sónartækinu og rétti mér pappír til að þurrka af mér gelið. Ég þurrkaði mér og stóð upp af bekknum. Klæddi mig aftur í fötin. "Þetta lítur allt ljómandi vel út! Við fyrstu skoðun allavega!", sagði konan glaðlega og bætt svo við: "Læknirinn mun svo fara betur yfir myndirnar með þér en þetta lítur vel út". Ég gekk brosandi útí sumarið. Það er ekki amalegt að vita að allt liti vel út og niðurstaðan er að ég hef afspyrnu sætt hjarta sem hljómar bara sérstaklega. Eiginlega sé ég bara eftir að hafa ekki fengið sónarmynd af hjartakrílinu mínu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
12.7.2009 | 23:00
Þingvellir.
Ég og prinsinn eyddum deginum á Þingvöllum með Hrefnu. Drifum okkur útúr bænum um hádegisbilið og brunuðum á staðinn. Við fundum okkur ýmislegt að dunda við og tíminn leið hratt. Prinsinn var alveg yfir sig ánægður með daginn. Hann hefur ekki komið á Þingvelli í mörg ár og var alveg að uppgvötva þá uppá nýtt. Hlaupa upp og niður stíga. Vaða í ánna. Skoða gróðurinn. Spá í álfa. Briliant dagur alveg hreint.
Á meðan versnar bara kvefið mitt og hálsbólgan þannig að nú get ég varla snúið höfðinu og á í vandræðum með að kyngja munnvatninu. Hversu hallærislegt er það nú? Ég ætla sko ekki að eyða svo mikið sem hálfum degi af sumarfrínu í veikindi. Bara ekki. Og hananú. Svo nú fer ég að sofa og vakna hress á morgun!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.7.2009 | 22:54
Sennilega sumarfrí
Ég er komin í sumarfrí. Sennilega. Allavega notaði ég föstudaginn til að taka til á borðinu mínu, skrá sumarfrí á mig á hinum ýmsu stöðum í fyrirtækinu, stilla "out of office". Semsagt gekk frá eins og ég kæmi ekki aftur lengi... lengi...
"Hafðu það gott í sumarfríinu...", kallaði Bibba á eftir mér og bætti svo við: "sjáumst svo í næstu viku þegar þú kemur aftur að vinna..." Svo hló hún eins og hún væri voða sniðug. Ég gekk út í góða veðrir og glotti. Vitandi það að það er bara alls ekki ólíklegt að ég verði köluð inn í eins og eitt vikuverkefni. Bara alls ekki ósennilegt.
Sumarfríið er búið að vera einn allsherjar hausverkur. Og þá aðalega að finna tímann fyrir það. Ég átti inni átta vikna sumarfrí. Það þarf að reyna að láta þetta passa við sumarfrí strákanna í hópnum mínum, við erum 4 manna teymi sem skiptir með sér þjónustu og verkefnum í "kerfinu" okkar. Þeir voru sneggri en ég að bóka allan júlí og fram í ágúst.
Og þar sem það áttu að vera gangsetningar í Ástralíu var frekar hæpið að skilja allt eftir með bara bakvakt. Svo ég og líffræðingurinn skipulögðum allt sumarfríið í kringum þetta. 3 vikur í Ágúst var niðurstaðan. En þá bættust við mikilvægar gangasetningar á Íslandi í öðru kerfi. Úbbbssss, akkúrat á sumarfrístímanum og enginn annar sem getur tekið svo það var byrjað að pússla uppá nýtt. Svo frestaði ástralía sinni gangsetningu líka fram á tímann sem við áttum að vera í fríi. Allt komið uppnám. "Þetta verður bara sumarið sem klúðraðist... ", stundi líffræðingurinn með skeifu.
En eftir heilmikla snúninga varð úr að hann fór í 4 vikna frí í júlí. Ég tek þrjár vikur núna í júlí, en passa líka uppá bakvaktina og sinni akút þjónustu í kerfinu okkar. Svo tek ég eina viku í miðjum ágúst. Á fimmtudaginn bættist svo við stórt greiningarverkefni sem þarf að öllum líkindum að vinnast strax. Átti ég einhvern möguleika að koma inn aftur og sinna þessu? Bara svona vika? Þetta kemst allt á hreint fyrri part næstu viku. Þanngað til er ég komin í sumarfrí. Og kannski er ég komin í sumarfrí í þrjár vikur. Það þýðir að ég næ jafnvel að eyða fjórum af þessum átta vikum sem ég átti inni. Hvað á ég svo að gera við hinar fjórar?
Ég og prinsinn ákváðum að nota þennan fyrsta sumarfrísdag bara eins og á að gera... við að gera bara ekkert, nema þvælast, fá okkur ís. Komum við og heimsóttum kisur og fugla hjá kattadómaranum. Núna sit ég og hlusta á Indecisión og fleiri góð kólumbísk lög. Svona á sumarfrí... er á meðan er...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.7.2009 | 22:20
Svona á þetta að vera
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.7.2009 | 23:48
Sushi grill...
"ístertur í þessari stærð eru seldar sem fyrir 24!", tilkynnti Bibba okkur og setti upp smá svip um leið. Ég gjóaði augunum á eftirréttinn minn sem beið í fati. Já, svo sannarlega var fatið stórt. Já, svo sannarlega var það yfirfullt af gúmmulaði. Úbbss, kannski svolítið mikið. Sérstaklega með tilliti til óvænta eftirrétarins sem Valdís kom með og beið í fati á næsta borði. Ég brosti útí annað. Þetta var nú ekkert eðlilegt lið í mat heldur, við yrðum bara að sjá hvar þetta endaði.
Eftir 40 mínútna eftirrétta át er bara pínu pínu lítið eftir af opinbera eftirréttnum úr stóra fatinu. Ísinn er búinn. Óvænti hnetusmjörseftirréttur Valdísar var meira en hálfnaður. "Fyrir 24 sagðiru?", spurði ég Bibbu og hélt svo áfram: "Ef Valdís hefði ekki komið með eftirrétt líka hefði þetta bara alls ekki dugað!".
Ef það er eitthvað hægt að segja um okkur félagana í grillklúbbnum þá er það að við tökum til matar okkar. Jebb, við leggjum okkur öll fram um að borða sem mest þegar við hittumst. Enda engin tilviljun held ég að akkúrat þetta fólk er saman í grillklúbb. Við reynum eitthvað að tala um að við erum Concorde forritarar, unnum saman, alls konar skilgreiningar en aðalega er það matarástin sem heldur okkur saman.
Í gegnum árin höfum við komið okkur upp hefðum í annars frekar óformlegum klúbbi. Við hittumst nokkuð oft yfir árið, án þess að það sé einhver regla á því. Við grillum. Svo borðum við opinbera eftirréttinn sem er skylda að hafa. Í kvöld tók ég hinsvegar hliðarhopp. Já, við grillum allan ársins hring. Látum snjó og frosthörkur ekkert stoppa okkur. En núna á hátíma grilla settust grillklúbbfélagar niður og hámuðu í sig heimalagað Sushi sem ég dundaði mér við að útbúa í dag.
Ég hafði svona tilraunaeldhúsdag. Ég prófaði að búa til nýja bita. Ég prófaði nýjar samsetningar. Ég prófaði nýja gerð af fisk. Og vitiði, þetta heppnaðist bara allt. Ég held að ég kunni bara alveg ljómandi vel að útbúa Sushi. Allavega stóð ekki á félugum mínum að renna þessu niður. Meira að segja prinsinn minn sem hefur hingað til bara gjóað augunum á Sushi þegar ég bý það til virðist hafa alveg sama smekk og mamman og borðaði helling.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
6.7.2009 | 22:50
Ökukennsla
Heimasætan er komin vel á 19 ár, believe it or not. Og það skrítna er að hún hefur engan áhuga á að fá bílpróf. Ég varð kvíðin þegar hún varð 16 ára og gabbaði stóra bróðir minn til að taka hana í æfingarakstur. Svo leið tíminn og skottan bað aldrei um að fá að læra.
Svo varð hún sautján. Enn ekkert beðið um að fá læra. Alveg róleg bara. 18 ára afmælið nálgaðist og nálgaðist. Bróðir minn var farinn að vera óþreyjufullur. Ég var farin að velta þessu fyrir mér. "Langar þig ekkert að taka bílpróf?", spyr ég. Skottan hristir kollinn og ypptir öxlum: "akkuru? Ég hef ekkert við það gera... það er ekkert mál að taka strætó". "En væri ekki gaman að geta keyrt?", spyr ég áfram. Hún hlær: "Nei, þá er alltaf einhver að biðja mann um að skutla sér eitthvert..." Og þar við situr. Hún bara hefur ekki áhugann.
En það er annað með prinsinn. Hann er ekki orðinn 10 ára og getur ekki beðið eftir að læra á bíl. Og á fjórhól. Og á mótórhjól. Allt sem er með vél og dekkjum held ég. "Má ég fá krossara?", heyrist gjarnan úr aftursætinu. "Mamma, má ég fá mótórhjól?" "Hvenær má ég læra á bíl?" Endalausar pælingar.
Kvöldið í kvöld var engin undantekning. "Mamma, má ég fá jebba þegar ég er 16 ára?", heyrðist kallað úr aftursætinu í gegnum fagran söng minn. Ég útskýrði að hann mætti byrja að læra á bíl þegar hann væri 16 ára (vonandi vill stóri bróðir sjá um það líka) en mætti fá sér bíl þegar hann væri 17 ára. Þá vildi hann endilega vita hvernig ökukennarinn væri. Hvort ég myndi ekki keyra hann til ökukennarans. Mikill áhugi á þessum máli. Hann endaði svo á því sem er mikilvægast af öllu: "Mamma, ég ætla að bjóða ökukennaranum í afmælið mitt" Já, það er ekki ráð nema í tíma sé tekið!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um bloggið
Vilma sjálf
Tenglar
Ég sjálf
Gamla bloggið mitt
- Gamla bloggið mitt Vilma Stína
Klúbbar og félög
Eitt og annað sem ég tengist
- Ofurhugar Kúlasta fólk í heimi
- Skógarkettir Skógarkattaklúbbur Íslands
- Kynjakettir kattaræktarfélag Íslands
Kisusíður
Hinar og þessar kisusíður
- Aliosha's Aliosha og Hrund
- Eldibrands Margrét Birna og hennar kisur
- Hlíðarenda Heimasíða Ásdísar
- Vetrarheims Heimasíðan mín
- Björgvinjar Áslaug vinkona mín á þessa síðu
Bloggarar
Hinir og þessir skemmtilegir