Færsluflokkur: Bloggar

Þekkirðu lagið?

"Mamma! Nú er ég með lag á heilanum sem ég hef ALDREI HEYRT!", skrækti heimasætan og gretti sig: "Bara þér tekst að láta mann fá svona á heilann..." Ég hló bara og bauð henni að spila fyrir hana lagið. Ég viðurkenni fúslega að ég er mjög oft með lög á heilanum og að ég er einkar laginn við að dreifa þeim. Áður en ég veit af er fólk í kringum mig farið að söngla það sama og hljómar stanslaust í hausnum á mér.

Eftiminnilegt þegar Tjörvi félagi minn gat ekki hætt að syngja "I don't wanna dance..." með Eddy Grant eftir að hafa hlustað á mig gaula það. Tjörvi söng það í nokkra daga mér til mikillar skemmtunar. Svo gott þegar einhver er með manni í svona maníu. Ég hef líka fengið herbergisfélaga mína í vinnunni til að syngja lög úr Kardímommubænum... mér til skemmtunar þeim til angurs.

Frægast er auðvitað Daloon lagið sem ég syng í tíma og ótíma. Ég syng það þegar ég er glöð. Ég syng það þegar ég er leið. Ég syng það alveg án þess að taka eftir því. Og fullt fullt af fólki hefur fengið það á heilann. Þetta er mjög gott "heilalag".

Þetta var þó í fyrsta sinn sem mér hefur tekist að smita einhvern af "heilalaginu" mínu án þess að hinn aðilinn þekki lagið né viti hvernig það á að hljóma. Ég var svo stolt af heimasætunni minni sem sönglaði: "It's so funny funny what you do honey honey..." Svo spilaði ég fyrir hana lagið sem ég var þá búin að syngja stanslaust í 3 daga. Lagið heitir Funny Funny og ég hlusta á það í flutningi sænsku grúbbunnar Black Ingvars og til hátíðarbrigða í flutningi upprunalegu hljómsveitarinnar Sweet. Frábært lag sem eldist vel (er sko jafngamalt mér). Og heimasætan hefur sko haldið áfram að syngja það.

Í dag datt hins vegar í kollinn á mér lag sem ég hef ekki heyrt né sungið í örugglega 25 ár eða meira. Ég man ekki einu sinni textann almennilega svo ef einhver getur hjálpað mér væri það vel þegið. Þetta er lag sem ég lærði í barnaskóla og fjallar um skraddara... og svo var eitthvað held ég um konuna hans, hundinn hans og lúsina... eða eitthvað svoleiðis... Og þetta er pikkfast í heilanum á mér. Pikkfast. Ég verð að komast yfir textann!


Snillingur

Ég stóð við hlið hennar og strauk henni blíðlega. Strauk henni og með tárin í augunum hvíslaði ég að henni: "Ástin mín, þetta verður allt í lagi... slakaðu bara á..." En innst inni vissi ég að þetta yrði ekki í lagi. Innst inni vissi ég að þessu væri lokið. Að hún væri að hverfa frá okkur. Hvernig átti ég að lifa án hennar? Hvernig átti ég að færa heimasætunni fréttirnar. Hnuggin snéri ég mér frá henni og gekk inn án þess að líta við.

Ég var miður mín. Gjörsamlega niðurbrotin. Ég færði heimasætunni fréttirnar. "Hún verður að hafa það af, mamma... hún bara verður...", svaraði hún. Ég hristi höfuðið, þetta var vonlaust. Allt svo vonlaust. Ég varð að leita eftir hjálp, ef einhver gæti hjálpað mér væri það klári stóri bróðir minn. "Ég kem til þín á eftir...", svaraði hann án þess að hugsa sig um.

Ég gat varla trúað því að Rúna mín væri að yfirgefa okkur. Rétt áður höfðum við prinsinn verið í smá leiðangri. Við vorum varla komin útúr götunni þegar skyndilega breyttist eitthvað á verri veg í Rúnu, okkar ástkæra bíl. Hún hristist öll. Hristist til og frá. Og það var erfitt að fá hana tli að fara áfram. Hvað var til bragðs? Vélin gekk greinilega vel en hún virtist engu að síður vera að hristast í sundur. Ég tók þá ákvörðun að reyna að koma henni heim, enda bara örstutt þanngað. Ég og prinsinn hristumst og hristumst og ég var þess fullviss að ég væri að draga vélina eða eitthvað enn verra á eftir mér. "Bara heim í stæði.. bara heim í stæði...", bað ég í hljóði þessa mínútu sem tók að koma henni heim. Og þar skyldi ég hana eftir eftir að hafa reynt að strjúka henni og hughreysta. Aumingja Rúna.

Stóri bróðir minn kom og horfði á Rúnu, bílstjórameginn. Í fljótu bragði var ekkert að sjá utan á henni. Ekkert sem hékk utan á henni eða svoleiðis. Ég reyndi að gera mitt besta til að lýsa vandamálinu. Lýsa hvernig Rúna væri bara að deyja. Hann hlustaði alvarlegur í bragði. "Ég reyni að starta henni...", sagði hann ákveðinn og settist undir stýri. Ég lét prinsinn færa sig frá ef bíllinn myndi springa.

Bróðir minn startaði Rúnu sem malaði eins og hún hefði aldrei gert annað. Hann leit á mig með spurnarsvip. Ég yppti öxlum: "Hún var í alvörunni ekki í lagi áðan" "Ég ætla að keyra hana aðeins og sjá hvernig hún lætur", sagði hann og skellti henni í bakgír. 10 sentimetrar var það sem hann þurfti til að sjá að eitthvað væri að. Hann steig útúr Rúnu og hristi höfuðið. Gekk hringinn og horfði að því er virtist undir hana.

Skyndilega rétti hann úr sér. "Vilma, það er svolítið að!", tilkynnti hann og á andliti hans var vottur af glotti. "Hvað?", spurði ég, tilbúin að taka við dauðadóminum. Hægt og rólega færði hann sig frá svo ég sæi í hverju vandamálið lá. Ég horfði á Rúnu... svo horfði ég á bróður minn... svo horfði ég á Rúnu aftur. Ég leit upp vandræðaleg og stundi: "Ég hef aldrei þóst hafa vit á bílum" á meðan bróðir minn hló innilega. Svo opnaði hann skottið, vippaði út varadekkinu og skipti fyrir mig um sprungna dekkið. Einmitt, illa sprungið dekk... og ég dæmdi bílinn ónýtan. Dekkjaskipti og allt er betra! Ég segi ykkur það, Rúna hefur aldrei verið betri!


There is always tomorrow

"Hvað ertu að syngja?", spurði heimalingurinn forviða þar sem hún sat til móts við mig á austulenskum veitingarstað. Þarna vorum við mættar til að næra okkur áður en við færum í að taka til í geymslunni okkar. Ég leit upp og glotti. "Nú er frost á fróni...", svaraði ég og vissi svo sem að þetta liti kannski út fyrir að vera sérkennilegt lagaval á meðan við biðum eftir matnum. "Vilma! Það er ekki lag sem á að syngja núna! Það er sumar og gott veður!", sagði hneykslaður heimlingur. "Hvað á ég þá að syngja?", spurði ég og hallaði undir flatt. Svo fékk ég hugmynd. Góða hugmynd. Ég tók að syngja: "Það er Daloon dagur í dag..." og heimalingurinn tók undir. "Þetta er akkúrat lag til að syngja þegar maður veit ekkert hvað maður á syngja...", tísti í henni þegar við lukum samsöng okkar.

Eftir gómsætan mat og mikið tíst og gaman brunuðum við heim á leið... tilbúnar að takast á við yfirfulla geymsluna. Við erum að tala um geymslu sem er ekki hægt að opna nema það hrynji allskonar dót út. Björtustu spár sögðu að við yrðum tvo tíma. Þetta er verkefnið sem ég er búin að geyma allt sumarfríið. Bún að geyma og kvíða. Við opnuðum geymsluna og færðum okkur frá hurðinni. Svo skelltum við okkur í að rífa útúr henni og raða inn aftur. Hlustuðum á sveitatónlist og dilluðum okkur með og Mía hin magnaða hjálpaði til líka. Nutum þess að vera úti í góða veðrinu því geymslan mín er svona útigeymsla. Þegar við settum síðustu hlutina inn kíktum við á klukkuna. Tuttugu mínútur yfir átta? Gat það verið? Við höfðum semsagt verið í um hálftíma að klára þetta agalega verkefni sem mig er búið að kvíða fyrir í 3 vikur.

Eiginlega ætlaði ég að gera þetta um hádegisbilið í dag með hjálp heimasætunnar. En þegar ég kom heim úr morgunstund með Olla hárgreiðslusnillingi sem klippti af mér allt hárið breyttust öll plön og ég lagðist í flakk með Möggu Biddu í tilefni afmælis hennar. Við þóttumst vera barnlausar skvísur og komum okkur fyrir á ofurheitum palli við kaffihús... og héngum þar allan daginn... flúðum reyndar inn eftir smá stund, inn úr brennandi sólinni sem var að bræða okkur. Sennilega ekki góð hugmynd að drekka heitt súkkulaði í brennandi sólskini... Tókum okkur góðan tíma í þennan skvísuleiðangur okkar á meðan ég lét unglingana þræla heima við að reyna að klára herbergi heimasætunnar. Hún náði reyndar ekki alveg að klára áður en hún þurfti að fara að vinna... but there is always tomorrow...


Og við höldum áfram...

Það er svo gaman hjá odsc01573.jpgkkur núna.  Við sjáum eitthvað gerast.  Við framkvæmum og nýir litir birtast. Herbergi breyta um lit, húsgögnum er endurraðað, lausir hlutir endurskipulagðir og við skemmtum okkur.  Hugmyndin sem við fengum í gær að breyta herbergi prinsins hefur nú verið framkvæmd og er lokið.  Byrjaði á því að við nenntum ekki að þrífa veggina.  Svo við máluðum.  Nú er herbergið orðið fagurgrænt og hvítt í staðinn fyrir að vera blátt.  Rúmið hans sem var hátt uppi er nú komið niður og er orðið bara eins og hvert annað rúm.  Við það að færa rúmið niður tapaðist allt plássið sem var undir því.  Herbergi prinsins er lítið, innan við 8 fermetrar og það er snúið mál að koma fyrir heilum prinsi, stóru rúmi og hellingi af leikföngum í svo lítið herbergi svo vel sé. Við höfum því verið að sortera og endurskipuleggja stóran part af deginum.  Allir hjálpast að og á sama tíma málum við herbergi heimasætunnar. Allt í gangi.

 

dsc01595.jpg

 Um miðjan dag fengum við hugmynd.  Skreppum í búðarferð. Öll saman.  Við gengum í halarófu í gegnum Rúmfatalagerinn í leit að nýjum gardínum handa grísunum mínum.  Ekki hægt að setja upp gamlar gardínur í ný herbergi.  "Úúúú, þessar...", stundi heimasætan og benti á gardínur með myndum af Bangsimon.  Á sama tíma gat ég varla sleppt höndunum af fallegri bleikri gardínustöng með prinsessum á endunum... sleppti henni að lokum og keypti í staðin hvíta fyrir prinsinn með fótboltastrák á endunum.  Grænar gardínur fyrir hann. Bleikar gardínur fyrir hana.  Nýr dúkur á eldhúsborðið fyrir mig. 

Núna í kvöld kláruðum við prinsinn svo herbergið hans með því að búa um rúmið hans, nýtt Harry Potter sængurverasett og svo æfði hann sig í að búa um rúmið með rúmteppi sem hann hafði gabbað systir sína til að lána sér.  Rúmteppi sem hann hefur langað í lengi.  Held ég hafi aldrei séð dreng jafnánægðan með rúmteppi!

Á myndunum hér að ofan má sjá sýnishorn úr herbergi prinsins og sýnishorn af litavali heimasætunnar.. á meðan herbergið er enn hálfmálað...  Hún er svo sannarlega lífleg hún dóttir mín og svo gaman að gefa henni aðeins lausan taumin og sjá hvað gerist! 


Ég skal mála allan heiminn...

"Við þurfum þennan fyrir átta fermetra...", sagði ég og benti á gult litaspjald. Afgreiðslukonan kinkaði kolli. Svo benti ég á rautt spjald og sagði: "og við þurfum þennan fyrir sjö fermetra". Ég ýtti svo grænu litakorti áfram: "þennan fyrir sjö fermetra líka". Afgreiðslukonan var hætt að kinka kolli og starði bara á mig með undarlegu augnaráði. Ég brosti, rétti henni dökk fjólublátt litakort og sagði: "Og að lokum þurfum við þennan fyrir 10 fermetra...".

Afgreiðslukonan horfði hugsi á okkur smá stund og fór svo að spá í hvaða grunn væri hægt að nota. Áður en við vissum af var hún orðin aðeins rugluð í öllum litunum. Við brugðum á það ráð að skrifa á hvert spjald fyrir sig fyrir hversu stóran flöt hann væri. Afgreiðslukonan brosti fegin og byrjaði að skoða í tölvunni hvað var til.

"Ég get notað sama grunn og í málningunni sem ég seldi þér fyrr í dag...", sagði hún og leit upp frá tölvunni. Úbbss.. hún mundi þá eftir okkur. Er ekki alveg eðlilegt að fólk komi tvisvar á dag að kaupa málningu? Og kaupi samtals 6 mismunandi liti? Jú, mér finnst það alveg eðlilegt.

Afgreiðslukonan blandaði og blandaði á meðan við ráfuðum um búðina og skemmtum okkur meðal annars við að sprengja bóluplast og við að velja málningarrúllur. Allt mjög skemmtilegt. Hlaðin málningardósum, penslum, bökkum og plasti drifum við okkur á kassann.

"Hún er að læra litina...", sagði ég við kassadömuna og benti um leið á heimasætuna sem snérist í hringi við endann. Áður en við vissum af var hún farin að spá með okkur í það hvað heimasætan gæti gert eða ekki gert. "Hún ætlar ekki að gera neitt...", hló kassadaman þegar hún horfði á eftir sætukoppi og heimalingnum hlöðnum varningi bögglast á eftir skoppandi heimasætu.

Úti tók rigningin á móti okkur. "Raindrops keep falling on my head...", sungum við þar sem við liðuðumst um bílastæðið. Fólk sem við mættum snéri sér við til að horfa á litlu skrúðgönguna okkar. Skiptum svo snögglega um lag og sungum: "It's raining again..." á meðan við fylltum skottið á Rúnu af dóti.

Eiginlega var þetta letidagur. Verkefni dagsins var að taka hækkunina undan rúmi prinsins þar sem hann hefur ekki viljað sofa í því svona háu. Herbergið er lítið og erfitt að athafna sig svo við bárum mest af dótinu fram. Tókum rúmið í sundur. Svo horfðum við á veggina og sáum að þeir þurfti á þvotti að halda. Byrjuðum að skrúbba en komumst að því að við nenntum þessu ekki. "Hey, málum bara!", sagði ég og þar með var það ákveðið. Innan við klukkutíma síðar vorum við komin heim aftur úr málarabúðinni með tvo liti á herbergi prinsins.

"Þið er svakalegar... og alveg eins... ", stundi sætukoppur og benti á mig og heimasætuna. Ég yppti öxlum: "Engin ástæða að bíða með þetta... velta fyrir sér að mála í lengri tíma... ef maður er búinn að fá hugmyndina er best að drífa bara í þessu". Svo bárum við afganginn fram úr prinsaherberginu á meðan heimasætan mældi sitt herbergi. "Mig langar að mála líka...", tilkynnti hún og við hoppuðum í skónna og brunuðum í búðina. Börnin mín hafa hinsvegar bæði fengið litagleðina hjá mér því herbergin þeirra verða vægast sagt gleðilegt eftir breytinguna.

Hinsvegar sátum við sætukoppur áðan og máluðum prinsaherbergið af miklum ákafa og veltum fyrir okkur hvernig það að nenna ekki að þvo veggina hafði endað með alsherjar málningarvinnu. Einmitt, við málum af leti...


Hor og slef

Það er hægara sagt en gert að láta skoða lítinn veikann prins. Þessu komst ég að í dag. Síðustu daga hefur fólk í kringum okkur verið að lesa mér pistilinn, skamma mig og allt af umhyggju... held ég. Eftir allar þessar fréttir af útbreiddri svínaflensu er fólki sem sagt hætt að lítast á veikindin á þessu heimili. Sumarfrísflensunni eins og ég kýs að kalla hana. Fyrst lagðist ég... eða svona eins og ég legst. Ég hef ekki mikla þolinmæði fyrir að liggja í rúminu svo ég tek verkjalyf, bryð hálsbrjóstsyklur, drekk heita drykki og held svo bara áfram. Kannski aðeins máttlausari en venjulega og aðeins grugguri í hausnum en engu að síður næ ég næstum að halda uppi fullu lífi... leggst kannski fyrir á kvöldin og svona. Og núna í þetta skiptið varð ég reyndar svo veik að ég er búin að þurfa tvisvar að eyða degi í rúminu. En ég er fyrirmyndarstarfsmaður allavega og nota sumarfríið í þetta.

Svo er prinsinn minn búinn að vera að veikjast. Slappast svolítið. Fá í hálsinn. Ekkert rosa mikið. Það er að segja fyrr en á afmælisdaginn minn síðastliðinn sunnudag. Þá bara gat hann ekki haldið sér vakandi, emjaði undan hálsinum, gubbaði og þjáðist að höfuðverk. Einmitt. Allt einkenni "flensunnar". Og núna ákvað ég að hlusta á alla í kringum mig sem sannfærðu mig um að það væri tímabært að fara með drenginn til læknis, láta tékka á þessari frægu flensu þó það væri ekki nema til að hjálpa sóttvarnalækni að sjá dreifingu á flensunni. Og með þessari ákvörðun byrjuðu ævintýri okkar.

Ég stillti vekjaraklukkuna og hringdi á heilsugæsluna mína snemma morguns. Panta tíma fyrir prinsinn hjá heimilislækni. En auðvitað er heimilislæknirinn okkar í sumarfríi og prinsinum var boðinn tími um miðjan ágúst. Minnug þess hvernig gekk að komast að hjá þeim þegar ég þurfti vottorðið um að ég hafði ekki svínaflensu áður en ég skrapp til Kólumbíu vissi ég að það gæti orðið snúið að komast að svo ég varð að leggja mig fram. "Uhh, ég er ekki viss um að það nægi...", sagði ég: "Ég verð eiginlega að fá tíma í dag. Hann er nefnilega með flensu og ég hefði viljað láta taka sýni úr honum". Ha, hugsaði ég... nú sjá þau að mér liggur á og láta mig fá tíma. En það var nú ekki málið! "Guð minn góður! Þú mátt ekki koma hingað...", skrækti móttökudaman. Svo las hún yfir mér að ég mætti bara helst ekki koma nálægt heilsugæslustöðinni. Læknavaktin í Smáranum, það væri staðurinn. Þeir sæju bara alveg um þessa flensu.

Ég verð að viðurkenna að ég var pínulítið pirruð þegar ég lagði á. Bæði hafði ég haft fyrir því að drösla mér á fætur fyrir allar aldir og eins yfir því að þurfa að bíða til klukkan fimm og fara á læknavaktina og bíða og bíða þar... Mér fannst þetta allt mjög skrítið og frekar fúlt að vera ekki velkomin á heilsugæsluna mína. Svo ég fór og leitaði á netinu hvort þetta væri virkilega svona og hvert maður ætti að fara. Influensa.is var ekki með upplýsingar, og ég fann bara hvergi neitt um þetta. Svo ég hringdi í landlækni. Hvert á að fara ef maður hefur grun um smit. "Á heilsugæsluna" var svarið. Hmmm. Landlæknir segir heilsugæslan og verður steinhissa að þeir vilja ekki taka á móti mér. En það er sko ekki þeirra mál hvernig heilsugæslan útfærir þetta. Þeir mega gera eins og þeir vilja. Svo ég gat ekkert annað gert en að bíða þar til klukkan væri fimm.

Við stilltum okkur uppí röðinni fyrir utan heilsugæsluna rétt fyrir fimm. Löng röð og við biðum bara róleg inná milli allra. Eftir því sem við færðumst nær hurðinni tókum við eftir miða á henni og biðum spennt eftir að sjá hvað stæði á honum. Ég leit á heimlinginn og flissaði þegar við komum nógu nálægt til að lesa. Hún leit á mig og flissaði líka. Allir með grun um flensu eða sem þekkja einhvern sem hafa fengið flensu eða eru nýkomnir frá útlöndum eiga að gefa sig tafarlaust fram við móttöku. Já, einmitt. Og litlum stöfum stóð að það væri mjög gott að hringja áður en maður mætti á svæðið. Hvað áttum við að gera? Taka upp símann í röðinni og tilkynna komu okkar? Ýta hinum frá til að komast "tafarlaust" að móttökunni. Við völdum að bíða róleg.

Konan í afgreiðslunni var upptekin og vann hratt. Ég reyndi að segja að ég væru með flensubarn en komst bara í miðja setningu áður en ég var stoppuð af með spurningu um heimilislækni. Ég reyndi aftur. Stoppuð af með spurningu með símanúmer. Loks var hún búin með spurningarnar og leit á mig. Ég kom loksins að þessu með flensuna og benti á auglýsinguna. "Þú áttir að láta mig vita áður en þú komst...", sagði hún við mig höstum rómi. Ég yppti öxlum og útskýrði að það hafði ég bara ekki vitað fyrr en ég las á hurðina. Kommon ég var búin að tala við heilsugæsluna og landlækni það sagði mér enginn frá þessu. Þar að auki er ekki svarað í símann á læknavaktinni fyrr en opnar klukkan fimm svo það er lítill möguleiki að láta hringja á undan sér.

Hún rétti mér, alvarleg, mjög fína grímu og bað mig um að koma henni á barnið hið fyrsta og gaf okkur ítarlegar upplýsingar hvert við áttum að fara. "Swineflu...Swineflu", stundi þýska konan fyrir aftan okkur í röðinni þegar ég veifaði grímunni og gaf prinsinum merki um að koma, þar sem hann sat í miðri biðstofunni. Svo bröltum við inn á innri ganginn og útí hornið þar sem flensufólkið situr, fyrir utan flensustofuna. Ég gerði mitt besta til að festa grímuna sannfærandi á barnið sem hló og hló. Svo sátum við, pínulítið útskúfuð, og biðum eftir flensulækninum. Jebb, það er alveg sér læknastofa fyrir fólk með grun um flensu.

Eftir smá bið kom glaðbeittur læknir. Ég held að við höfum alveg bjargað deginum fyrir honum. Hann fékk að opna flensustofuna og allt. Eftir nokkuð ítarlegt viðtal og spugleringar var komið að sýnatökunni. Frekar óskemmtilegt fyrir annars kátan prins. Svo var gríman sett upp aftur til að fara eftir öllum reglum sko.

"Sýnin verða að komast sem fyrst í rannsókn", sagði læknirinn og ég skildi það vel. Svo kom vandamálið. Þrátt fyrir flensulækninn, grímuna, sér stóla á biðstofunni og flensulæknastofuna er engin sendlaþjónusta. Svo það er skellt á þig grímu, þú tekinn frá öllum öðrum, tekin sýni en það er enginn möguleiki að koma þeim í rannsókn. Svo áður en ég vissi af var búð að ráða mig í að sendast með hor og slef í umslagi. Spennandi. Til að fá meiri pappíra urðum við svo að elta lækninn fram hjá öllum á innri ganginum inní aðra læknastofu... ekki flensustofu heldur venjulega þar sem ég fór nærri yfir á taugum að prinsinn myndi menga hana. Það var ekki hægt að komast hjá því að sjá augnaráðið sem við fengum og pískrið þegar prinsinn strunasði fram hjá með grímuna sína.

Við urðum svo að fara út í gegnum biðstofuna og fram hjá fullt af fólki í biðröð. Fólk bakkaði. Saup hveljur. Flensubarn með grímu... Ég reyndi að láta eins og þetta væri bara dagleg rútína hjá okkur. Og svo héldum við sem leið okkar lá útí bíl þar sem ég leyfði prinsinum að taka niður grímuna. Svipurinn á konunni í næsta bíl var óborganlegur.

Svo var komið að því að skila lífssýnunum. Við fórum að uppgefnu húsi. Hmm. Exista og Vís? Og rannsóknarstofa í veirusýkingum? Í alvörunni. Við löppuðum hring í kringum húsið og reyndum allar hurðir. En nei, það er ekki séns að skila hori inná skrifstofu Exista eftir lokun. Bara ekki séns. Ég varð að leggjast í símann og reyna að fá betra heimilisfang. Ég tek sendastörfin mjög alvarlega og gefst ekki upp. Á endanum fundum við rétt hús þar sem kona í hvítum slopp tók á móti sýnunum. Og nú tekur við bið. Og einangrun á prinsinu, eins langt og það nær nú. Ég er tiltölulega róleg og nokkuð viss um að þetta er bara einhver saklaus sumarflensa... en ef svo ólkíklega vill til að þetta er hin eina og sanna flensu segir læknirinn að við séum einstaklega heppin. Hvað um það, þetta náði allavega að vera ævintýri til að lífga uppá annars frekar dauflegan dag :)


A, B, C...

Ég er komin með nýtt áhugamál... eða þannig... kannski frekar komin með nýtt verkefni sem ég sinni af miklum áhuga. Já, nýja verkefnið er að hlusta á lagasafnið mitt í stafrófsröð. Mjög spennandi. Mjög upplýsandi. Ég á ágætlega stórt lagasafn sem er jafnframt ágætlega fjölbreytt. Og að hlusta á lögin í stafrófsröð bíður upp á sérlega spennandi og upplífgandi kvöld. Maður veit aldrei hvað kemur næst. Kannski klassískt lag. Kannski country lag. Kannski þungarokk. Kannski diskó.

Svo nú sit ég kvöld eftir kvöld, fram á nótt og hlusta á lögin mín. Klappa saman lófunum af ánægju þegar ég finn óvænt lag sem ég hafði gleymt eða lag sem ég vissi ekki að ég átti. Syng með skemmtilegum lögum. Gubba næstum þegar koma leiðinleg og sumum freistast ég til að eyða út. Samt með samviskubit. Ég meina, hver veit nema maður vilji hlusta á þau seinna meir... smekkurinn fyrir lögum gæti breyst.

Sum lögin vekja upp minningar. Nýlegar minningar, gamlar minningar, ljúfsárar minningar, gleðilegar minningar. Og áður en maður veit af er maður rokinn af stað á braut minninganna.

Nú er ég búin að eyða nokkrum kvöldum í þetta eftir að prinsinn minn sofnar. Ég var að klára H - in svo það er nóg eftir. Og um leið fræðist ég heilmikið um sjálfa mig og lagasafnið mitt. Ég á til dæmis 28 lög sem byrja á "Ég" og af þeim syngum Björgvin Halldórsson 15 þeirra. Nú er ég ekkert sérstakur Björgvins aðdáandi svo mér finnst þetta spennandi staðreynd. Af hverju á ég svona mörg "Ég" lög með honum. Syngur hann óvenju oft lög sem heiti "Ég" - eitthvað... og er hann þá svona svakalega sjálfhverfur? Eða er þetta eitthvað í undirmeðvitund minni?

Svo á ég átta lög sem byrja á "Blue" og nítján lög sem byrja á "Don't". Áhugavert ekki satt? En næst á dagskrá er "I" kaflinn sem ég held að verði mjög spennandi. Fullt af lögum sem byrja á "I" þetta eða hitt... Bíð spennt...


Rúna

"Hvað er þetta þá svona fimleikabíll?", spurði Snjóka og átt við Rúnu mína. Þar sem ég er morgunhani þessa vikuna dreif ég af stað á meðan börnin sváfu í morgun og við Rúna skottuðumst um allt. Hún fékk að fara í smá dekur. Þið vitið, svona smurningu og eitthvað síuvesenaskipti eða eitthvað... Skildi hana bara eftir í góðum höndum hjá sérlega almennilegum strákum. Lét líka yfirfara ljósin og svona smá dútla við hana.

Yfir okkur spenntar drifum við okkur svo í hina árlegu skoðun. Úfff. Þetta finnst mér alltaf jafnhræðilegt. Alltaf rifjast upp fyrir mér þegar ég fór með Bubba minn í skoðun, fékk skoðun athugasemdalaust... en komst að því þegar ég keyrði útaf skoðunarstöðinni að stýrið virkaði ekki nema mjög takmarkað. Get svo sem enn brosað af svipnum á skoðunarmönnunum þegar þeir horfðu á eftir mér taka sennilega stærsta hring sem hefur verið tekin á planinu hjá þeim. Og Bubba kom ég heim með herkjum, ný skoðuðum með bilað stýri. Snilld.

Síðan þá er ég samt alltaf hrædd um að bíllinn minni bili í skoðuninni. Að eitthvað verði hrist í sundur. Að hann komi út verri en hann fór inn. Og þetta byrjaði ekki gæfulega. Skoðunarmennirnir fór á kaf ofan í skottið á Rúnu. Svo æptu þeir hvor á annan.

"Prófaðu að ýta á takkann!"
"Ég er búinn að því, prófa þú að ýta betur til"
"Búinn að því. Reyndu aftur við takkann"
"Ég held takanum inni, reyndu að hreyfa þetta"
"Það gengur ekki!"
"Slökktu bara á þessu, virkar ekkert þetta bölvaða drasl".

Ég sat undir ópunum í þeim og svitanði. Slökkva bara á Rúnu? Er Rúna drasl? Með tárin í augunum sætti ég mig við að þurfa bara að labba heim. Þurfa að skilja félagann minn eftir. Ég fann örvæntinguna hellast yfir mig. Og ég sem ætlaði að fara útum allt með Rúnu eftir hádegi. En viti menn. Skoðunarmennirnir virtust ætla að gefa henni smá séns og héldu áfram að skoða. Færðu hana til og settu á þið vitið þetta sem snýst til að skoða dekkinn. Úbbss, drapst ekki á Rúnu. Maðurinn reyndi að starta henni. En Rúna var í fýlu og hóstaði bara.

"Gerðu það, gerðu það farðu í gang...", stundi ég lágt og viti menn Rúna hrökk í gang og leyfði mönnunum góðfúslega að skoða sig aðeins betur. Speglaði sig fyrir þá, þandi sig og ég veit ekki hvað. Ég hafði skilið miðstöðina eftir á fullum hita og fullum blæstri þar sem hún á enn til að ofhitna í hægagangi og nú fór ég að verða stressuð að hún myndi ofhitna. Allan tíman þóttist ég samt vera niðursokkin í að lesa spennandi blað af Séð og heyrt. Þó ég hefði fengið nóg af slíkum blöðum þegar ég fór með Rúnu í árlegu smurninguna.

Skyndilega var skoðuninni lokið. Ég var nærri búin að rjúka uppum hálsinn á skoðunarmanninum og kyssa hann af þakklæti þegar ég sá að hann hafði látið okkur hafa endurskoðunarmiða. Hjúkk, það var ekki klippt af henni.

Hann taldi upp fyrir mig það sem ég þarf að láta laga áður en mánuður er liðinn. Smotterí bara. Eða þannig. Laga ljósin fyrir dráttarkúluna. Ég stakk uppá að taka hana bara af og fékk samþykki fyrir því. Og svo er það málið með jafnvægisstöngina. Hún er eitthvað biluð. Eða laus. Eða slitin. Eða eitthvað. Allavega... Rúna gerir kannski ekki miklar jafnvægisæfingar eins og er... en eftir mánuð hver veit. En pikkup línan sem myndi virka á mig akkúrat núna myndi hljóma eitthvað á þennan veg: "Ég er bifvélavirki.. má ég koma heim og laga bílinn þinn?"


Við eltum uppi fótboltamenn

Ef eitthvað er að gera mdsc01503.jpgig brjálað þetta sumarið þá eru það fótboltaspilin.  Arrrgggg.  Gera mig brjálaða.  Í alvörunni.  Það er endalaust vesen með þetta. Fyrst var það enska deildin.  Nú er það Pepsi deildin.  Og svo þarf að raða þessu í möppu.  Og býtta. Og býtta.  Og býtta.  Eins og ég sagði endalaust vesen.

Prinsinn er samt rosalega hamingjusamur núna þessa stundina. Ástæðan?  Jú, við eltum uppi aumingjans fótboltamann sem tók á móti okkur heima hjá sér og áritaði fótboltamyndina af sér fyrir prinsinn. Og til að bæta um betur gaf hann prinsinum fullt af alls konar góðgætis tyggjói.  Og leyfði myndatöku.  Það er búið að vera erfitt fyrir prinsinn að bíða... en það var svo sannarlega þess virði.  Ekkert smá flott að eiga áritað fótboltaspjald! Fyrir þá sem eru ekki jafn vel að sér í fótbolta og ég (right) þá er þetta Kjartan Ágúst Breiðdal, sem leikur með Fylki og er frændi Rebbýar.  Jebb, maður nýtir sér samböndin!

Annars var þetta sennilega með rólegri dögum sumarfrísins.  Prinsinn vaknaði í morgun alveg stíflaður, með ljótan hósta og slappur.  Ég vaknaði með hálsbólgu.  Frábært. Svo við eyddum deginum að mestu bara uppí sófa að slaka á... eða æfa okkur í því allavega.   


Er ekki óábyrgt að hanga úti heila nótt?

Úti alla nóttina uns dagur rennur á ný!

Úti alla nóttina, út um borg og bý.

Úti alla nóttina, engum háður ég er...

ó nei, ó nei, ó nei, ó nei!

 

Þetta er tileinkað Míu hinni mögnuðu sem hagar sér eins og hún sé á gelgjunni þessa dagana (hver man ekki eftir laginu?). Hangir úti allar nætur ef hún kemst upp með það og liggur svo og sefur á daginn.  Svei attan.  Eitthvað yrði nú sagt ef ég tæki uppá að haga mér svona!  

 

 

dsc01438.jpgAnnars vorum við prinsinn að koma heim eftir dásamlegan dag í húsdýra- og fjölskyldugarðinum.  Prinsinn skipulagði daginn vel til að komast örugglega í allt sem honum langaði. Þar á meðal á hestbak og 6 ferðir í lestinni... eða voru þær sjö.  Ég hætti að telja eftir smá stund og fann mér bara bekk til að hanga á... uppskeran er aðeins rjóðara hálft andlitið en maður lifir nú við það.  Nú er bara spurning uppá hverju við tökum á morgun.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Vilma sjálf

Höfundur

Vilma Kristín
Vilma Kristín
The Worrying kind
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband