6.9.2008 | 19:16
Nýju boðorðin mín
Skyndilega skall minning í kollinn á mér og lét mig fá létt taugaráfall. "OMG", æpti ég upp yfir mig og leit á Rebbý með skelfingarsvip. Við vorum staddar í bíl, brunandi upp Ártúnsbrekkuna. "Hvað nú?", spurði hún og leit á mig spyrjandi. Ég hélt fyrir munninn og hristi höfuðið í vonleysi. "Hvað?", hélt Rebbý áðan. Ég leit á hana aftur og hvíslaði: "Ég bloggaði! Rebbý! Ég bloggaði þegar ég kom heim... og ég man ekkert hvað ég skrifaði" Ég komst ekki lengra í Rebbý emjaði af hlátri: "Vilma! Í alvörunni...." Ég fann að ég varð að komast heim og líta á skaðann. "Færslan er búin að vera inní hálfan sólarhring...", tísti í Rebbý og var ekki til að bæta hugarástand mitt.
Síðustu tvo klukkutíma á undan hafði ég notað tíman í að rifja upp ævintýri kvöldsins áður og næturinnar. Minnið var ágætt á köflum, en örlítið rykugt á öðrum köflum. Enn sem komið hafði ég ekki rifjað mikið upp sem var stolt af... en í staðinn mun meira af dramatík og skrítnum uppákomum. Kvöldið hafði byrjað vel í skemmtilegum haustfagnaði vinnunar (þar sem hvítvínsglösin láku... það var ekki eðlilegt hvað þau kláruðust hratt), við tók svo bæjarferð með nokkrum úr vinnunni með blaðri og dansi og svo endaði ég ein á flakki um bæinn (ekki góð hugmynd að sleppa manni lausum einum í svona gír). Ekki alveg í mínum eigin karakter og ekki alveg með fullu viti - en örugglega gaman fyrir þá sem ég rakst á þetta kvöld. Við skulum bara segja að "the morning after" var ekkert sérlega skemmtilegur, þó ég náði greinilega að skemmta Rebbý sem lá á endanum í sófanum mínum og grét af hlátri. Sumar sögur er sennilega best að geyma bara útaf fyrir sig.
En allavega. Nú hef ég útbúið nokkur ný boðorð fyrir mig að fara eftir til að tryggja að svona skammarmorgnar verði ekki aftur að raunveruleika. Nú er bara að fara eftir boðorðunum eða hætta að drekka. Ekkert annað en harkan bara.
1. Borða skaltu vel áður en áfengra drykkja er neytt (sem sagt ekki drekka meira en flösku af hvítvíni á tóman maga)
2. Forðast skaltu símtöl á efri stigum drykkju (sorrý, þið sem ég hringdi í)
3. Eigi skaltu sms senda (einmitt, ég þurfti mikið að tjá mig þetta kvöld)
4. Eigi skaltu tölvupóst senda (jebb, ég lét ekki símann, sms og bloggið nægja... nei, mikil tjáningarþörf)
6. Aldrei skaltu blogga eftir að innbyrða áfengi (sönnun þess að það er slæmt hugmynd sést í dramatískri færslu frá gærkvöldinu)
Frá og með deginum í dag mun ég gera mitt allra besta til að lifa eftir þessum einföldu boðorðum. Það eru þau og svo nýja slagorðið mitt: "Eftir einn ei bloggi neinn".
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
6.9.2008 | 02:26
A mess...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
4.9.2008 | 22:36
Í einskis manns landi
Hurðin féll að stöfum að baki mér. Ég stoppaði í miðri hreyfingu og leit svo hægt á Elínu. "Nú komumst við ekki inn aftur!" sagði hún og mér fannst hún aðeins setja í brýrnar. Ég flissaði taugveiklislega... úbbbbsss... kjáninn ég. Nú flissuðum við öll pínulítið. Föst í gildru og enda leið að sjá út.
Í vinnunni minn er þannig kerfi að eftir klukkan fimm á daginn þarf bæði aðgangskort og 6 stafa leynikóða til að komast inní álmurnar, þannig að ef maður fer fram á gang á maður ekki leið til baka nema með fyrrgreindu korti og kóða. Voða öruggt og gott. Málið er líka að til að komast útúr húsinu þarf maður lykil að komast út, allt læst í bak og fyrir og án lykils er maður bara fastur inni.
Í dag var fundarseta. Þegar við komum að fundarherberginu okkar var það upptekið Við fundum okkur nýtt fundarherbergi í annari álmu, á annari hæð. Og þar ílengdumst við vel fram yfir venjulegan vinnutíma. Svo þegar við komum útaf fundarherberginu vorum við eftir alein í ókunnugu álmunni. Ég, Elín, líffræðingurinn og viðskiptavinurinn. Og nú vorum við í vandræðum. Elín var með aðgangskort en mundi ekki kóðann sinn. Ég og líffræðingurinn mundum kóðana okkar en vorum ekki með aðgangskort. Og ekkert okkar með lykla. Við reyndum að gera tilraunir á fyrstu hæðinni. Ég beið inni og Elín og líffræðingurinn reyndu við lásinn. Svo datt mér í hug að fara fram á gang að hjálpa þeim. Úbbss og þá skall hurðin að baki mér. Við áttum enga leið til baka til að ganga frá eftir okkur.
Viðskiptamaðurinn horfði á okkur vonleysislega þar sem við flissuðum í hóp. Við gátum ekki hleypt honum út, við komumst ekki einn á hæðina okkar til að sækja lykla. Við vorum alveg föst. Bjargarlaus. Læst föst í stigaganginum, í einskis manns landi. Ég og líffræðingurinn lögðum í leiðangur að banka á allar hurðir í von um að finna einhvern sem gat leyst okkur úr prísundunni. Næstra ráð var að hringja einhvern út til að bjarga okkur.
Að lokum náðum við að vekja athygli á okkur og var bjargað. Það voru mikið fegnir starfsmenn sem trítluðu inná hæðina sína, sóttu lyklana og hleyptu skelkuðum viðskiptavini út.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
2.9.2008 | 22:50
Kveddu mig seinna!
Ég og nakti forritarinn veltumst um að hlátri. Ég viðurkenni fúslega að stundum virðast forritarar hafa sérstakan húmor, við getum grátið af hlátri yfir fyndnum kóða eða kommentum sem aðrir forritarar hafa skilið eftir. En það sem gladdi okkur núna var hins vegar þýðing yfir á íslensku í viðskiptakerfi sem við vorum að setja upp. Það sem getur gerst þegar notast er við einhvers konar sjálfvirka þýðingu!
Þegar maður keyrir upp kerfið er í fyrsta skipti er manni boðið að svara einhvers konar könnun, þrír möguleikar í boði fyrir notandann
a. Já ég vil taka þátt nafnlaust í Áætlun um bætta upplifun viðskiptavina (ráðlagt)
b. Nei, ég vil ekki taka þátt
c. Kveddu mig seinna
Stundarkorn störðum við á skjáinn. A liðurinn er frekar snúinn, B liðurinn er svo sem ok... en C liðurinn? Ég rýndi í skjáinn og sá útundan mér að nakti forritarinn gerði það líka. Hvers konar valmöguleiki er þetta? Kveddu mig seinna? Er maður annars kvaddur núna?
"Uhhh, er þetta tilbrigði við Ask me later?", spurði ég nakta forritarann og leit á hann með spurnarsvip. Hann leit á mig og svaraði: "Já, ég held að það hljóti að vera!" Svo sprungum við úr hlátri. Það er ekki hægt að segja að þessi texti beri með sér lipra þýðingu... engann veginn.
"Kveddu mig seinna...", sagði ég og horfði dreymandi útí loftið. "Þetta minnir mig á svona titil úr dramatískri ástarmynd" "Já", svaraði nakti forritarinn: "Say goodbye to me later...."
Og ef þið spáið í það þá er eitthvað svo ljóðrænt við þessa setningu, einhver svona tregi og jafnvel vottur af kvíða eða örvæntingu. Svona "ekki fara frá mér"... gefðu mér aðeins lengri stund með þér... reynum að draga þetta á langinn... ekki kveðja mig núna, kveddu mig seinna.... Hver segir svo að Bill Gates sé ekki tilfinninganæmur? Enginn annar en tilfinningabomba myndi setja svona setningar í viðskiptahugbúnað...
Og með tárin í augnum, ýttum við, ég og nakti forritarinn, saman á liðinn "Kveddu mig seinna" með þeirri von að fá að upplifa hamingjuna í hugbúnaðargeiranum aðeins lengur
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
1.9.2008 | 22:54
Þula týnist
Ég hrökk upp við slæman draum, rétt um miðnættið þar sem ég lá dúðuð uppí rúmi með fötuna mér til halds og trausts. Hvar var Þula? Elsku hjartans kjánakötturinn minn. Ég mundi að hún hafði sloppið út á laugardagsmorguninn en síðan þá hafði ég ekkert séð hana. Ég kallaði á heimasætuna. Hafði hún séð Þulu kjánakött? Nei, hún hafði heldur ekkert séð hana síðan Þula skaust út á milli fótanna á henni morguninn áður.
Nú mætti halda að ég ætti svo marga ketti að ég tæki ekki eftir þó einn hyrfi. En það er ekki svoleiðis. Stundum hittast svoleiðis á að þeir sofa á meðan ég er heima og þá tek ég lítið eftir þeim. Nú og þessa helgi hafði ég notað (eins og gubbupestin leyfði) að heimsækja fólk, hanga með fólki, skemmta mér með fólki... og því lítið verið heima nema þegar pestinn lagði mig alveg. Og nú hafði undirmeðvitundin ýtt við mér... hvað er að þér? Kötturinn þinn er týndur og þú liggur undir sæng? Er ekki í lagi? Og til að friða slæma samvisku sendi ég heimasætuna út að leita á náttfötunum.
"Þula! Þula!", heyrði ég hana kalla um hverfið. Yfirleitt þegar Þula sleppur út fer hún bara útí garð svo við erum ekki mikið með áhyggjur af þessu. Hún hefur aldrei verið svona lengi. Ég var vongóð um að hún sæti bara undir húsvegg og biði eftir að einhver opnaði húsið. Vonbrigðin voru gífurleg þegar heimasætan kom kattarlaus heim aftur, ísköld á tásunum.
Ég reyndi að sofna. En bylti mér, vatt uppá mig og snéri mér. Ég veit ekki hvort það var pestin eða áhyggjur af Þulu sem voru að hrjá mig - kannski bara sitt lítið af hvoru. Hvar var aumingja kjánakötturinn? Ég reyndi að ímynda mér heimilið án hennar en umbar það ekki. Nei, nú skyldi skipulögð mikil leit.
Fyrsta sem ég gerði í morgun var að kíkja útí garð, enginn köttur. Með skeifu lokaði ég hurðinni aftur og vakti börnin. Skipaði heimasætunni að mæta til að leita seinnipartinn. Hún þorði ekki annað en að játa... auðvitað kæmi hún að leita að kjánanum okkar. Ég kom prinsinum í skólann og dúllaði mér heima við á meðan ég ákvað hvort ég væri veik eða ekki. Að lokum fann ég að ég hafði ekki eirð í að sitja heima og skrönglaðist út. Ég reyndi að bægja frá hugsunum um allt sem gæti hafa komið fyrir fallegu kisuna mína.
En hver stóð þarna? Á grasbala? Og starði á mig? "Fuli! Fuli!", æpti ég.. en það er sko gæluheitið mitt á Þulu. "Fuli!", hrópaði ég og hljóp af stað í átt til hennar. Hún tók viðbragð. "Mjá! Mjá!", mjálmaði hún og hljóp í áttina að mér. Pottþétt bíómyndamóment! Svo greip ég hana í fangið og sveiflaði henni í hring og bar hana heim eins og hún væri prinsessa. Vá, hvað ég varð glöð í hjartanu mínu. Sendi sms til að afturkalla leitarflokkinn, klappaði kisunni minn, knúsaði hana og gaf henni gott að borða. "Aldrei!Aldrei gera mömmu svona hrædda aftur", sagði ég í ströngum tón. Hún kinkaði kolli og hélt áfram að borða. Svo stakk hún af frá prinsinum seinni partinn og nú er ég áhyggufulla mamman útí hurð sem kallar í örvæntingu; "Fuli! Fuli!" og vonar að bölvaður kötturinn skili sér nú heim.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
31.8.2008 | 20:57
Skítapest
Barnlausar helgar á oft að taka með trompi. Þessi var ein af þeim. Allt í spani á föstudeginum, koma prinsinum fyrir, gera það sem þurfti að gera og koma sér í stelpukvöld hjá Rebbý með Snjóku. Góður matur, skemmtilegar samræður og góðir drykkir. Uppskrift af fínu kvöldi. En eitthvað var úthaldið að svíkja mig og því dreif ég mig heim um miðja nótt. Varla náði heim áður en ég lagðist illilega veik. Veikindi og slappleiki sem náðu langt fram á laugardag. "Ég er hætt að drekka", tilkynnti ég og var sannfærð um að ekkert annað hefði skapað slappleikann. Svo slappaði ég af og naut þess að þurfa ekkert að mammast eitthvað.
"Ég er hrædd um að ég gubbi á bílaplanið þitt", sagði ég við stuðningsfulltrúann og horfði vonleysislega á hana þegar ég sótti prinsinn í dag. "Blessuð vertu, ekkert mál", svaraði hún og brosti eins og ekkert væri eðlilegra. Ég náði samt varla að heyra í henni þar sem ég skreið um planið og reyndi að vera óskaplega pen að gubba. Það hefur sennilega verið eitthvað meira að hrjá mig í gær en drykkja... allavega skall gubbupest á mér í dag á fullum þunga.
Ég var í sunnudagsbíltúr með Ásu í dag þegar ég fór að verða græn í framan og endaði með að standa þokkafull við þjóðveg eitt og kasta upp, með alla sunnudagsumferðina líðandi framhjá. Með herkjum komst ég heim, en náði varla að loka hurðinni áður en ég byrjaði aftur.
Og nú voru góð ráð dýr. Prinsinn uppí Breiðholti og hann þurfti að sækja. Það er ekkert sérlega aðlaðandi að setjast undir stýri og ætla að keyra yfir þveran bæinn með gubbupest. Ég ákvað að harka af mér og komst uppí Breiðholt, með fyrrgreindum afleiðingum. Þegar ég loks hætti að útbýa bílaplanið þar brunaði ég heim en náði ekki inn áður en næsta skot gekk yfir. Mitt bílaplan var því engin undantekning. Neibb, þetta er dagurinn sem ég ákvað að fá gubbupest og reyna svo að kasta upp með áhorfendur útum allt. Næs.. eða þannig.
Nú ligg ég fyrir með fötu, fyrir skiptin sem ég næ ekki fram á bað, held fyrir nefið útaf ömurlegu matarlyktinni... svo tillitslaus þessi börn mín að þau heimtuðu að fá sér að borða þó ég væri að engjast um að tilhugsuninni einni saman. Vonandi gengur þetta fljótt yfir og næ að komast í vinnu á morgun... ja, það er að segja ef ég er ekki búin að smita alla heimilismenn!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
28.8.2008 | 23:17
Ég bjarga Íslandi
í hádeginu í dag fékk ég eina að mínum betri hugmyndum. Hún datt óvænt inní kollinn á mér í framhaldi af rökræðum um ísbjarnardrápin, nokkuð fastmótuð birtist hún og ég gat alls ekki þagað yfir henni heldur dældi henni yfir vinnufélgana sem sátu og hlustuðu af athygli. Svo skelltu þeir uppúr. "Þú ert alltaf með svo frábærar business hugmyndir...", tísti í líffræðingnum í hæðnistón. Ég held að þeim skorti bara smá framsýni en eftir smá vangaveltur og umræður fékk hugmyndin á sig enn skýrari mynd.
Ég sem sagt er komin með hugmynd til að bjarga Íslandi, kreppan mun hverfa og allir verða vel settir. Svona ætla ég að fara að:
Íslendingar leggja fyrir sig ísbjarnarræktun í stórum stíl. Ísbjarnarræktin mun fara fram í bæjum útá landi. Með þessu skapast fjöldamörg störf á landsbyggðinni við að hlú að ísbjörnunum og bara við allt sem snýr að ræktuninni. Þar með er ég búin að tryggja mörgum byggðum örugga og umhverfisvæna atvinnu.
Eitthvað verðum við að gefa ísbjörnunum að éta. Þar koma bændur til sögunnar. Ísbjarnarræktin mun kaupa heilu fjöllin af lambakjöti og þar með er ég búin að tryggja rekstur fjöldamargra bænda á Íslandi. Þar að auki munum við veiða seli (nokkur störf þar) til að gefa ísbjörnunum að borða. Þar með mun offjölgun sela vera úr sögunni og þeir ekki vera eins stór hluti af hringormakeðjunni. Með því að halda selastofninum í lágmarki skapast því ekki bara störf fyrir þá sem veiða þá heldur líka mun þorskstofninn taka hressilega við sér og við getum aukið kvótann umtalsvert. Þar með skapast aftur fleiri störf við sjómennsku og sjávarplássum landsins verður bjargað. Þetta eru sönn jaðaráhrif einnar atvinnugreinar, jaðaráhrif sem hafa virkileg áhrif.
Að auki skapast störf í smiðjum sem smíða sterkbyggðar og ósigrandi girðingar til að girða af öll pláss á landinu til að verja almenning fyrir lausum ísbjörnum, þar að auki þarf hver bær að eiga nokkra "verndara" - menn sem skiptast á að vakta bæinn og verja fyrir björnum og fá laun fyrir.
En hvað ætla ég að gera við ísbirnina? Jú, þar er kjarninn í hugmyndinni. Reglulega er fjöldamörgum ísbjörnum sleppt lausum uppá hálendið. Síðan seljum við ísbjarnasafarí. Umhverfissinnar og dýraelskendur koma til að komast í nálægð við skeppnurnar, til að fylgjast með þeim. En að auki fáum við inn ævintýrafólkið, menn sem vilja til dæmis hlaupa með ísbjörnunum (svipað og nautahlaupið). Og við náum líka inn sem ferðamenn veiðimenn, sem koma til Íslands til að skjóta ísbirni og borga fullt af pening fyrir veiðileyfið. Þannig verður blómstrandi ferðamannabransi.
Til að sinna ferðamannabransanum þarf fullt af fólki. Hótel og veitingastaði svo eitthvað sé nefnt og síðast en ekki síst þarf fullt af leiðsögumönnum, vopnuðum að sjálfsögðu, til að fara með alla ferðamennina uppá ísbjarnarhálendið.
Ég held að þegar ég hef komið þessari hugmynd í framkvæmd muni Ísland blómstra, feikinóg atvinna og mikil hagsæld. Við verðum ríkið sem litið verður upp. Og þegar allir eru komnir í góð mál, hamingjusamir og ríkir, býð ég mig fram sem forseta og allir kjósa mig því ég bjargaði landinu. Hvað haldið þið? Gengur þetta ekki upp?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
27.8.2008 | 21:53
Næ ég gulli?
Nú á að taka á því. Eitthvað sem hefur svo sem verið gert áður. Í tilefni af því dreif ég mig út að skokka eldsnemma í morgun og kom svo heim og æfði magadans í hálftíma fyrir vinnu. Stefnan að fara aftur á morgun. Jebb, markið sett hátt. Búið að setja markmið sem þarf að ná fyrir áramót, ekkert öfga neitt... bara svona að komast á rétt ról.
Og í tilefni af öllu þessu er búið að snarfjölga sundferðunum á þessum bæ. Ég hef reyndar ekki komist eins oft og mig langaði í þessari viku vegna anna í vinnunni. Allt brjálað að gera í forritun svo mikið að ég varð að láta mér nægja að veifa handboltalandsliðinu út um gluggan þegar þeir flugu hjá, vonandi sáu þeir mig.
Sundferðum fylgir hinsvegar eitt vandamál þegar prinsinn er með. Hann er nefnilega alveg ósyndur, ja, nema á hundasund og honum virðist ekkert liggja á að ná tökum á þessari list. Í ofanálag er hann uppátækjasamur og óhræddur. Eki skil ég hann eftir eftirlitslausan á meðan ég syndi. Ég þori ekki heldur að geyma hann hjá mér í lauginni því ég get ekki haft augun á honum stanslaust. Hvað er til ráða?
Ég lagði heilan í bleyti og nú held ég að ég hafi fundið upp frábært sport. Eitthvað sem við íslendingar eigum möguleika á að vinna gull í á næstu ólympíuleikum. Jebb, ég er sjálf orðin nokkuð góð í þessu. Ég hef valið að kalla sportið "prinsasund".
Það fer þannig fram að maður tekur um það bil 30 kílóa prins og setur hann á bakið og lætur hann halda sér. Síðan spyrnir þú í bakkann og syndir bringusund eins hratt og þú getur. Auk þess að halda uppi samræðum við prinsinn á bakinu í hvert sinn sem höfuðið kemur uppúr vatninu. Til að ná fram fjölbreyttari þjálfun skal prinsinn reglulega sleppa takinu, hossa sér eða jafnvel stökkva af baki. Sundmaðurinn þarf að vera tilbúinn að vinda uppá sig, snúa sér og skjótast til hliðar með það fyrir augum að halda prinsinum á bakinu.
Mínir útreikningar sýna að 300 metrar af prinsasundi sé álíka og 700 metrar af venjulegu sundi, þar að auki virkar það sem skemmtun fyrir prinsinn sem fær fína útsýnissiglingu, skemmtilegt spjall og er verðlaunaður með gufubaði ef vel tekst til. Skora á ykkur að prófa!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
26.8.2008 | 19:00
Og hvað verður það á morgun?
Maður veit aldrei á hverju maður á von í vinnunni minni þegar farið er í mat. Ég vinn með fjölda af skemmtilegu og líflegu fólki. Fólki með alls konar skoðanir. Fólki með allskonar þekkingu. Fólki með allskonar áhugamál. Og þar skapast óvissan, umræðurnar í hádeginu geta farið um víðan völl og fyrirfram er aldrei hægt að vita hvert umræðan leiðir okkur.
"Ég vildi að það væru til egg án rauðu...", sagði ég í gær og potaði með óánægjusvip í eggið á disknum mínum. Og þar með var línan lögð fyrir næsta korterið. Ég fékk þá brilliant hugmynd að helga líf mitt því að rækta hænur sem myndu varpa eggjum án rauðu. Líffræðingnum fannst eitthvað stangast á í hugmyndinni minni, eitthvað sem gengi ekki upp. Norðlenski ráðgjafinn tók hinsvegar undir þetta og bauð sig fram með stofnfélaga að rannsóknarstofunni.
Ég meina sko ef það er hægt að rækta steinalaus vínber hlýtur að vera hægt að fá svona egg með engri rauðu. Og áfram hélt umræðan. Af hverju er rauðan þarna? Er hún góð? Er hún vond? Er hún óholl? Allir með skoðanir. Og þegar við vorum farin að ræða um að við værum að borða fóstuvísa stöðvaði einn ráðgjafinn umræðuna. Hingað og ekki lengra!
Við byrjuðum á tali um réttir, alþingismenn og svo borgarmálin í dag. Eftir það var umræða um feminista allsráðandi framan af. Hvað er með þær? Af hverju eru þær svona æstar? Sagðar sögur og mikið hlegið. Skyndilega kom snaggaralegi sölumaðurinn okkar og skellti sér niður við hliðina á mér. Hann reyndi að blanda sér í umræðuna og einhvern veginn misskildi allt og ásakaði mig um að vera fremst í flokki feminista. Mér til bjargar stökk Teningamaðurinn inn og reyndi að leiðrétta allt. Hvernig við fórum svo beint úr feministunum yfir í umræður um útvarpsþætti veit ég ekki.
Reynt að draga upp skemmtilegar myndir af þessum þættinum eða hinum þættinum. Sessunautar mínir fóru á kostum og mig var farið að dauðlana að heyra eitthvað af þessum skemmtilegu þáttum sem hljómuðu svo skemmtilegu í eftirhermu þeirra þar sem þeir léku jafnvel hlustendurnar sem hringja inn. Ég hallaði undir flatt og horfði á sölumanninn sem fór á kostum.
"Svo kemur gömul kona í þáttinn. Með allskonar svona sparnaðarráð. Þær lesa uppúr bónusbæklingi eða eitthvað..." sagði sölumaðurinn í miðri sögu og flissaði um leið. Svo hélt hann áfram og áfram að segja okkur hvað var svona fyndið við þennan útvarpsþátt. Hann lék samtölin og reyndi að útskýra fyrir okkur það sem hann taldi verið plottið á bak við þáttinn. En hvað þetta var allt hallærislegt og kjánaleg í frekar ýktri frásögn hans. Ég kímdi, en af ástæðu sem flestir við borðið vissu ekki af - neibb ég vissi meira og ég leit í kringum mig. Líffræðingurinn hallaði sér aftur af bak og virtist hlusta af athygli á sölumanninn rausa um sparnaðarkonuna. "Þetta er mamma mín...", sagði hann svo án þess að hækka röddina.
Sölumaðurinn fraus í miðri setningunni og við öll hin veltumst um að hlátri. "Neeeeee... þú ert að djóka?", endurtók sölumaðurinn aftur og aftur. Gjörsamlega óborganlegt móment... aumingja sölumaðurinn reyndi að afsaka sig en gat tæplega hætt að hlægja.
Og sko, það er boðskapur með sögunni (ekki það að ég reikni með að hafa lært neitt)... sjáið þið boðskapinn?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
25.8.2008 | 22:57
Tilraunastellingar í sófanum
Í kvöld var ég nærri dáin! Ég er ekki að grínast! Ég er ekki að ýkja! Neibb... bara hreint út sagt var að deyja. Einhvern veginn tókst Rebbý að missa ofurþunna skvísu gemsann sinn niður á milli eininga í sófanum mínum. Búmm heyrðist þegar hann lenti. "Hvað var þetta?", spurði hún hissa á svip. Eftir smá greiningarvinnu komumst við að því að þetta var gemsinn. Og sófinn virtist hafa gleypt hann með húð og hári... eða á maður að segja með innvolsi og batteríi?
Og þá byrjaði "operation get phone". Hún byrjaði á því að reyna að sjá símann. Lá á fjórum fótum í sófanum og rýndi niður í rifuna þanngað sem hann hafði horfið. Reyndi að stinga höndinni niður og ég sá alveg fyrir mér að hún myndi festast þarna. Sitja föst við sófann í ekkert sérlega þokkafullri stellingu. Og þarna byrjaði ég að hlægja. Og Rebbý hló. Ég hló meira. Og hún hló hærra. Ég snéri mér undan og reyndi að hemja mig. Þetta var auðvitað grafalvarleg mál.
Að lokum náði Rebbý höndinni upp aftur og þá byrjaði plan B. Það var þannig að ná átti símanum undan sófanum. Uhhh, vandamálið er hinsvegar að sófinn er þungur og mjög lítið bil undir honum. Ef fyrri stellingin var ekkert sérlega þokkafull þá bætti þetta allt! Ég hneig niður á sófanum og emjaði af hláti, tárin léku úr augunum. Aumingja Rebbý hálf í sófanum, hálf á gólfinu að reyna að troða höndinni undir sófann með engri hjálp frá mér, hún sjálf grátandi úr hlátri. Þið getið reynt að ímynda ykkur stellinguna!
Að lokum gafst hún uppá þessu. Þetta var engu að skila. Sófinn hafði gleypt símann og neitaði að skila honum. Hæstánægður með að vera kominn í sambandi. En Rebbý var bara búin að yfirgefa þessar tilraunir og kom til baka. Vopnuð fjarstýringu. Svo mundaði hún fjarstýringuna fagmannlega. Prófaði að pota henni ofan í raufina á sófanum. Prófaði að pota henni undir sófann, með mig ennþá að veltast um að hlátri. Þolinmæði þrautir vinnur allar og á endanum bjargaði fjarstýringin símanum og um leið sófanum frá því að verða rifinn í öreindir. Já, það þarf svo sannarlega ekki mikið til að skemmta skrattanum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Um bloggið
Vilma sjálf
Tenglar
Ég sjálf
Gamla bloggið mitt
- Gamla bloggið mitt Vilma Stína
Klúbbar og félög
Eitt og annað sem ég tengist
- Ofurhugar Kúlasta fólk í heimi
- Skógarkettir Skógarkattaklúbbur Íslands
- Kynjakettir kattaræktarfélag Íslands
Kisusíður
Hinar og þessar kisusíður
- Aliosha's Aliosha og Hrund
- Eldibrands Margrét Birna og hennar kisur
- Hlíðarenda Heimasíða Ásdísar
- Vetrarheims Heimasíðan mín
- Björgvinjar Áslaug vinkona mín á þessa síðu
Bloggarar
Hinir og þessir skemmtilegir