Ég í handjárnum?

Ég er ein af þessu fólki sem lifir á internetinu. Nota tölvupóst óspart. Hangi á msn að spjalla við vini og kunningja. Blogga að sjálfsögðu. Og svo það nýjasta, að vera sýnilegur á fésbókinni. Svo þarna skapar maður sér nafn og sýnir persónuleikann. Flestir vina minna eru þarna líka og allt þetta hjálpar manni að vera í sambandi. Ég meira að segja gróf upp æskuvinkonu mína sem ég hef ekki séð í ein 20 ár.

Á fésbókinni er ýmislegt til að stytta manni stundir. Allskonar leikir. Spjallsvæði. Allskonar próf og kannanir sem hægt er að taka. Reglulega fæ ég senda niðurstöður í könnum sem vinir mínir svara, könnun sem sýnir styrkleika og veikleika mína. Síðustu vikur hefur sami styrkleikinn trónað á toppnum. Og sami veikleikinn vermt botninn. Og þetta er mér svolítil ráðgáta. Sko ég sjálf hefði raðað þessu öðruvísi.

Allavega, það sem vinir mínir hafa oftast valið mig í umfram aðra er: "best to be stuck in handcuffs with". Í alvörunni? Umfram alla aðra vilja einhverjir vera fastir við mig í handjárnum. Hmmmm... og hvað svo? Og er ég virkilega ekki betri í neinu öðru? Og hvað segir þetta mér um hvað fólk hugsar um mig? Er þetta svona bara saklaust að sitja hlið við hlið í handjárnum eða liggur eitthvað meira og meira kinkí á bak við þetta? Ég bara spyr.

Og þetta verður enn skrítnara þegar ég horfi á hvað ég er verst í eða það sem vinir mínir hafa valið neðst á minn lista en það er: "best to hang out with for a day". Hmmm... svo þið viljið ekki hanga með mér heilan dag en þið viljið vera föst við mig með handjárnum? Ég skil þetta bara alls ekki... og þeim mun meira sem ég reyni að skilja þetta þeim mun óskiljanlegra er það. Hvernig getur þetta staðist?

Ég mun halda áfram að fylgjast spennt með og sjá hvort niðurstaðan breytist eitthvað...


Frábær uppskrift!

Það verður bara að viðurkennast að ég er ekkert sérlega sleipur bakari. Svona þegar koma barnaafmæli neyðist ég til að spreyta mig. Hræra eitthvað saman og klessa á einhverju kremi. Reyna að skreyta svo afurðin til að draga athyglina frá því hvernig kakan lítur út. Oftast er þetta nú ætt hjá mér en bara alls ekki mikið fyrir augað og líkist yfirleitt alls ekki myndunum í matreiðslubókunum. Stundum er kökurnar skakkar, oftar þó mjög flatar og alltof þunnar.

Þetta legg ég á mig fyrir börnin mín sem vilja endilega halda uppá afmælin sín. Mér finnst ég færa miklar fórnir að baka kannski 2 til 3 sortir. Yfirleitt reyni ég samt að komast upp með að bjóða uppá brauðrétti, ost og kex, tilbúnar ostakökur eða smurðar samlokur. Allt annað en tertur.

Nú er ég hinsvegar komin í hnút. Það er komið að atburði sem ég kvíði alltaf jafnmikið. Já, það er komið að mér að mæta með tertu á afmælihlaðborðið í vinnunni á föstudaginn. Og nú þarf ég að baka. Ég er búin að engjast yfir þessu alla vikuna, alveg síðan ég fékk tilkynninguna í pósti. Shit. Baka. Fyrir vinnuna. Þau munu bara benda á kökuna mína og hlægja. Og hvað á ég að baka? Reyna við marens? Svampbotn? Nei of flókið.

En þá kom vinur minn mér til bjargar og ég get svo sannarlega sagt að líffræðingurinn er vinu í raun sem vill hag minn sem mestann. Hann vill ekki að vinkona hans þurfi að mæta með klestan marens eða ónýta skúffuköku. Nei, hann reddar málunum með því að kenna mér að "baka" sérstaka köku sem er í miklu uppáhaldi hjá honum. Ég ákvað að leyfa uppskriftinni að fljóta hér með (er þó ekki viss um að ég fari rétt með heitið enda breytti hún nokkrum sinnum um heiti)

JellyMarmóRitsKókó

Rits kex (þetta orginal - engar eftirlíkingar)
Kók (það má nota diet kók en það freyðir meira og erfiðara í vinnslu)
Appelsínumarmelaði (gróft og með berki)
Kókósmjöl
Matarlím
Nóa Kropp til skreytinga

Aðferð:

Takið djúpa ofnskúffu og setið á borð. Sturtið slatta af Ritskexi í botninn og myljið það í frekar litla bita. Best að gera þetta ákveðið svo hávaði myndist. Yfir þetta á að hella kóki og láta það blandast vel við kexið þannig að þetta myndi þéttan massa.
Stráið jafnri umferð af kókósmjöli yfir kex/kók massann. Hellið því næst slatta af marmelaði yfir og dreifið úr því. Marmelaðið á að mynd álíka þykkt lag og er í botninum.
Myljið Ritskex í skál og blanið kóki samanvið til að útbúa eins massa og er í botninum. Dreifið úr þessu ofan á marmelaðið. Bleytið upp matarlím og hellið út í kók til að búa til gel. Gelblöndunni helt ofan á efra lagið af kex/kók massanum. Þegar gelið er alveg að storkna setjið þá einstaka Nóa kropps kúlu ofan á til skrauts, varist að nota of mikið.
Þetta þarf ekki að baka, heldur skella bara í ísskápinn og bera fram þegar er orðið stíft.

Er þetta ekki girnileg uppskrift? Ég fæ allavega vatn í munninn og stefni á að bjóða vinnufélugunum uppá þetta, líffræðingnum til heiðurs.


Hvað er svo glatt...

"Æ, langt síðan við höfum sést...", sagði eyjapeyinn og rétt mér höndina fyrst og knúsaði mig svo. Ég knúsaði hann til baka. Við erum bundin sérstökum böndum eftir að hafa gengið saman í gegnum sérstakt verkefni. Síðan þá erum við félagar sem hittast alltof sjaldan.

Svo settist ég hjá nakta forritaranum og spjallaði, sló á létta strengi og grínaðist. Blaðraði aðeins við Elínu. Jebb, það voru eiginlega svona endurfundir í vinnunni í dag. Alltaf gaman þegar allir í deildinni minni koma saman, við erum nefnilega staðsett á fjórum stöðum og á öllum stöðunum á ég vini sem ég sakna daglega... og þó ég sé dugleg að heyra í þeim í síma er það bara ekki það sama.

Annars eru svona dagar líka þreytandi. Við sátum á vinnufundum allan daginn og eftir það er maður hálf dofinn. Á morgun er svo ráðstefna fyrir hádegi sem ég þarf að taka þátt í og það þýðir að vikan er næstum hálfnuð og ég ekkert farin að vinna! Það er ekkert almennileg vinna að sitja á fundum og ráðstefnum. Nei, vikan verður hálfnuð og ég ekkert farin að forrita. Og svo sem ekki útlit fyrir mikla forritun þessa vikuna. Neibb, mín bíður áætlanagerð, greiningar og prófanir... ég held að ég sé smátt og smátt að umturnast úr forritara í ráðgjafa. Það er kannski ekkert svo slæmt sko... ég verð þá bara "lítill og sætur ráðgjafi"... það er að segja ef hinir ráðgjafarnir eru búnir að fyrirgefa mér og vilja taka við mér í hópinn :)

Eftir vinnu tóku svo við karate æfingar hjá leiðum litlum prinsi. Lífið hefur ekki alveg leikið við hann síðustu daga. Fyrst var hlaupahjólinu hans stolið þó hann hafi passað það voða vel og dregið það með sér inná stigagang þegar hann fór í heimsókn. Svo fékk hann heilahristing. Og í dag náðu einhverjir óþekktarangar í síman hans og skemmdu hann þannig að það er ekki hægt að gera við hann, skiluðu símanum svo á sinn stað án allra takka. Ósköp leiður lítill prins reyndi samt að brosa í karate tímanum og fylgast spenntur með... við héldum svo áfram heima þar sem karate snillingurinn ég reyni að fara yfir allar grunnhreyfingar og laga það sem uppá vantar - gaman hjá okkur. Enduðum daginn á að horfa saman á So you think you can dance og dáðumst að hæfileikunum. Prinsinn spurði út í hvað hinir ýmsu dansstílar hétu og ég held að hann vilji fara að læra.

Nú ætla ég að fara að sofa.. það er að segja þegar ég er búin að skrifa eins og eina grein fyrir blaðið mitt sem kemur út eftir mánuð og liggur mikið á að klára! Jebb, skrifa fyrst, sofa svo... ná helst svona 9 tíma svefni svo ég verði fersk á ráðstefnunni og geti brosað framan í alla...


Ökukennsla ala ég

"Við hreyfumst ekki úr stað! Við hreyfumst ekki úr stað!", staðhæfði Rebbý og starði ofan í mælaborðið. Við vorum þó óneitanlega á ferð - bara ekki á blússandi siglingu. Rebbý fiktaði við hnappana og skipti um umræðuefni: "Við erum að eyða 8 á hundraðið! Nei, við erum að eyða 12 á hundraðið! Nei, við erum að eyða ..."

"Passaðu þig á bílunum...", sagði ég og nagaði á mér neðri vörina taugaróstyrk. Bílstjórinn Rebbý kinkaði kolli en mér fannst ekki slíta augunum af mælaborðinu. Nú ýtti hún aftur á hnappinn og tilkynnti mér hvert hitastigið var. Ýtti aftur og nú vissum við hvað klukkan var.

Við vorum í snemmbúnum sunnudagsbíltúr á laugardegi. Brunuðum úr austubænum vestur í bæ. Öðru hvoru sagði Rebbý mér hvert hitastigið var. Þegar við keyrðum framhjá BSÍ tilkynnti hún um hitalækkun og virtist vera komin með áráttu fyrir að snúa litlum hnappi í mælaborðinu. "Hvað ertu að gera?", spurði ég forvitin og fékk alla söguna.

Nýji fíni bíllinn hafði farið í þvott og bón. Þegar hann fór í þvottinn sýndi lítill gluggi í mælaborðinu klukkuna. En þegar hann kom úr þvotti sýndi sami gluggi hitastigið úti. Og þó það geti verið áhugaverðar upplýsingar saknaði Rebbý klukkunar og var því að snúa þessum litla hnapp, með engum árangri, til að reyna að finna klukkuna sína aftur.

Ég var ekki lengi að koma til bjargar. Ég dró handbókina uppúr út hanskahólfinu og fór að blaða í henni. Þarna hlyti að standa eitthvað skemmtilegt. "Hmm... hvernig á að kveikja og slökkva á vélinni.... það kanntu...", sagði ég íhugandi á meðan ég blaðaði í bæklingnum. "Hvernig á að keyra.... Do it your self", hélt ég áfram að blaðra og blaða. Heimasætan kafnaði næstum aftur í út hlátri. "Mamma, stendur það í alvörunni. How to drive - do it your self?", sagði hún og tísti í henni. Ég hló líka og útskýrði að þetta væru heiti á köflum... tveir ólíkir kaflar. Do it yourself kaflinn kennir manni t.d. að skipta um dekk. Mjög gagnlegt.

Aha! Þarna var það sem ég var að leita að... ég gjóaði augunum yfir að stýrinu og að stönginni til að setja rúðuþurrkurnar á og af og þarna var það sem ég var að leita að. Tveir hnappar. Annar til að endursetja og hinn til að breyta um birtingu í glugganum. Ég gaf Rebbý skyndinámskeið í hnöppunum og við tók ævintýraleg tilraunastarfsemi. Það er semsagt hægt að sjá allan andskotann í þessum litla glugga. Svo sem hver er meðalhraði, meðaleyðsla, eyðasla núna, hvað er búið að keyra mikið og hvað er búið að keyra lengi. Allt þetta þurfti Rebbý að prófa... aftur og aftur... með mig sitjandi náfölu og bílhrædda við hliðina á henni. Að lokum stillti hún á klukkuna og viðurkenndi að hitt væri bara allt saman of spennandi til að skoða það á keyrslu. Mér létti og við drifum okkur í þrívíddarbíó með prinsinum... þvílíkt stuð.


Fiskadansinn frægi! Learn all about it!

Fyrir nokkrum árum var vinkonuhópur sem fór nokkuð reglulega útá lífið.  Allar einhleypar, frjálsar og engum háðar.  Við vorum ekkert að fara útá lífið til að finna okkur menn, nei - bara meira svona til að sletta úr klaufunum og skemmta okkur saman.  Ótrúlega flottar og ótrúlega skemmtilegar, fannst okkur.  En okkur vantaði tilgang.  Og þá eitt kvöldið fundum við tvær, ég og Magga Bidda, upp þokkafullan dans sem við gáfum nafnið "Fiskadansinn".  Og um leið vorum við komnar með tilgang.  Já, við ætluðum að gera dansinn að næsta æði.. þið vitið svona eins og fugladansinn eða macarena... eitthvað í þá átt.

Og við æfðum og æfðum undir vökulum augum hinna vinkvenna okkar. Stundum fengum við þær til að æfa með okkur en yfirleitt snérumst við tvær um okkur sjálfar með þær í sófanum.  Þegar við höfðum æft okkur nóg tók við stig tvö.  Það er að dreifa fagnaðarerindinu.  Fá alla aðra til að dansa með okkur.  Kynna dansinn.  Og við ættum á dansstaði bæjarins og kvöld eftir kvöld dönsuðum við "Fiskadansinn".  Hringsnérumst.  Gerðum sundtökin.  Gerðum sporðinn.  Umfram allt gleymdum ekki að gera munnhreyfinguna líka.  Ótrúlega þokkafullar.

Stundum náðum við að vekja athygli.  Fólk sló hring um okkur og jafnvel klappaði.  Við héldum að það væri því fólki fannst dansinn svo flottur.  En það var sama hversu oft við fórum út að dansa og hversu mörgum klukkutímum við eyddum í að sýna dansinn - aldrei, aldrei, reyndi neinn að dansa hann með okkur.  Ja, nema vinkonur okkur þegar þær aumkuðu sig yfir okkur.

Við erum svo sem næstum búnar að sætta okkur við að dansinn muni aldrei slá í gegn, þó það sé ótrúlegt - því hann er bæði einfaldur og skemmtilegur - svo við tölum nú ekki um hvað hann er flottur.  En við drögum hann enn uppá hátíðarstundum, eins og á einstaka dansiballi og svo er hann ómissandi í partýjum.  Vinir okkar eiga jafnvel til að biðja okkur um að sýna hann á meðan þeir sitja í sófanum og klappa og hlægja.

En svo fórum við Magga Bidda saman í bíó.  Á dansmynd.  Step up 2 eða eitthvað álíka.  Við komum út með stjörnur í augunum og nú vissum við hvað við vildum gera við fiskadansinn.  Við höfðum aldrei slegið í gegn því við vorum bara 2 að dansa hann.  Nei, nú skyldi stofnaður danshópur sem myndi æfa fiskadansinn og sýna hann á mikilvægum skemmtunum eins og kattasýningum (jebb, við setjum markið hátt).  Yfir okkur spenntar héldum við heim á leið þar sem við vorum fram á nótt að skipuleggja hvernig hópatriðið kæmi út.  Nú var bara að finna tækifæri!  Við hringdum í fólk og létum það vita... þvílíkur heiður að vera boðið að vera í dansflokknum okkar!

Svo kom tækifærið. Í apríl héldum við "hrútapartý" - þó þar væru ljónin í aðalhlutverkum eins og venjulega.  Og nú sáum við tækifærið sem við höfðum beðið eftir.  Meiri hlutinn af danshópnum mættur og við Magga staðráðnar í að halda æfingu.  Flestir afþökkuðu, báru fyrir sig meiðsli, eða vildu fá kennslu fyrst. Við fengum þó þrjár hugrakkar vinkonur til að stilla sér upp og dansa með okkur (mikið held ég að þær sjái eftir því núna).  En æfingin tókst nokkuð vel og stefnt er á frekari æfingar áður en við komum opinberlega fram.

Og nú, kæru vinir, gefst ykkur einstakt tækifæri til að sjá þennan frábæra og þokkafulla dans því minn heitelskaði og dásamlegi stóri bróðir ákvað að setja smá myndbrot á internetið (takk fyrir það!) og er hægt að sjá það á youtupe: http://www.youtube.com/watch?v=mqKX3Z4JsqY

Ég minni samt á að þetta var bara fyrsta æfing hjá flestum þarna og bið um leið að afsaka léleg gæði - kvartanir skal senda á hann Sævar bróður minn, myndatökumann með meiru. 

Góða skemmtun, hægt er að panta okkur sem atriði með því að skilja eftir komment... 


I'm old. Really!

"Hættu! Hættu!", æptu heimasætan og heimalingurinn í takt og héldu fyrir eyrun. Ég stóð í miðri stofunni og leit undrandi í kringum mig. Hvað voru þær að meina? "Lækkaðu! Lækkaðu!", skræktu þær og héldu áfram fyrir eyrun. Hmmm... hvað var í gangi? Sjónvarpið var stillt á lægsta svo varla var það að æra þær. Ég yppti öxlum og skrifaði þetta á unglingaveiki.

"Gamli, hættu!", hvæsti heimasætan á kærastann. "Hvað er í gangi?", spurði ég og horfði á þau tómleg á svip. "Ha? Heyrirðu þetta ekki?", spurði heimalingurinn. "Heyri hvað?", spurði ég. "Þetta!", svaraði Gamli og benti á tölvuna sína. Ég hristi hausinn. "Heyrirðu þeta virkilega ekki?", spurði heimasætan með vantrú. Ég hló og sagði þeim að hætta að fíflast í mér... það kæmi enginn hávaði úr tölvunni. Ég léti nú ekki gabba mig svona.

Eftir nokkrar rannsóknir og umræður fór ég þó að trúa þeim. Þau virtust alveg heyra í hvert sinn sem hljóðskráin var spiluð. Prinsinn virtist heyra ærandi hávaðann. Það var bara ég sem ekkert heyrði. Það var bara ég sem þoldi við. Jebb, það er opinbert - ég er orðin gömul! Svo nú geta unglingarnir spilað hátíðnihljóðin sín og notað hátíðnitóna sem hringingar í símunum og ég verð ekki vör við neitt. Merkiegt alveg.

Af heilahristings prinsinum er allt gott að frétta. Hann fær að fara aftur í skóla á mánudaginn svo framarlega sem hann lendir ekki í neinu þanngað til. Mamman verður líka örugglega orðin jafngóð og venjulega eftir fullt af svefni. Jebb, frá og með núna lýsi ég yfir að lífið er orðið eðlilegt á nýjan leik.


Heilahristingur og að hrista heilann

Nóttin var skelfileg. Sjaldan hefur mér fundist ég vera eins ein í heiminum síðustu nótt. Þar sem ég lá eins nálægt honum og ég gat, þorði ekki að sofa, og hlustaði eftir andardrætti prinsins. Öðru hvoru hrökk ég upp við að mér fannst ég ekki heyra neitt, ég lagði höndina á hann til að finna hreyfinguna, finna andardráttinn. Það var ekkert auðvelt að vera ein með alla ábyrgðina. Þarna svaf prinsinn mjög fast og ég átti erfitt með að fá hann til að svara spurningum reglulega. Og ég hafði engan til að ráðfæra mig við. Átti ég að halda áfram að fylgjast með honum heima? Átti ég að fara með hann niður á spítala?

Ég lagðist við hliðina á honum, stillti klukkuna að vekja mig eftir tæpan klukkutíma og hallaði augunum. Ég hrökk upp tuttugu mínútum seinna við að prinsinn var byrjaður að kasta upp aftur, yfir sængina, rúmið, mig. Enn hálfsofandi stökk ég fram úr rúminu og dró ælandi krakkann á eftir mér. Lagði hann frá mér í forstofuna. Flutningurinn kallaði á meiri uppköst. Ég bar hann í stofusófann og hélt á fötunni í hinni hendinni. Lagði hann í sófann og rétt náði að koma fötunni undir prinsin áður en næsta lota hófst. Og svo var sofnaður um leið. Ég stóð hinsvegar að detta niður úr þreytu með það verkefni að taka af rúminu, þvo þvott, skúra svefnherbergið og skúra forstofuna. Og nú var ég fyrst með áhyggjur og óörugg. Þá kom starfsfólk slysavarðstofunnar og læknavaktarinnar til bjargar. Sérstaklega læknavaktinn þar sem þau reyndust óþreytandi að tala við mig, ráðleggja og spá hvað væri best að gera.

Einhvern vegin komst ég í gegnum nóttina. Prinsinn vaknaði sjálfur klukkan átta, og hefur vakað síðan þá. Hann er búinn að liggja fyrir allan daginn eins og drusla og njóta þess að láta mömmu snúast um sig og þjóna sér. Það var ekki fyrr en núna í kvöld að hann fór að líkjast sjálfum sér. Þreytta mamman er hinsvegar að detta niður núna, eftir að hafa verið í þjónustuhlutverkinu allan daginn, skrapp hún í vinnuna og náði næstum fullum vinnudegi hristandi heilann, til að koma heim að taka þátt í öllu lífinu heima...


Æ, hristi heilann!

Ég sat í myrku herbergi, aðeins smá ljóstýra gerði mér kleift að sjá handa minna skil. Þarna sat ég á stól sem venjulega er notaður fyrir blóðprufur, sat og horfði á son minn sofa djúpum svefni á skoðunarbekknum. Hann virtist eitthvað svo varnarlaus, hann andaði djúpt og taktfast, kúrandi undir bláu teppinu. Ljósa hárið var núna rautt og klístrað og fyrir ofan lá grisja, gegnblaut af blóði.

Ég tók í litlu máttlausu höndina og strauk létt um handarbakið. Leit á klukkuna. Það var kominn tími á að taka stöðuna, tími á að vekja hann. Ég ýtti við honum létt og fylgdist grant með andlitinu á honum. Engin viðbrögð. Ýtti aðeins fastar við honum og sagði nafnið hans: "Leó! Leó!" Mér til mikils léttis umlaði í honum, hann snéri aðeins uppá sig og opnaði augun. "Halló Leó", hélt ég áfram og fékk hann til að svara mér. Ég settist aftur og horfði á hann falla aftur inní svefn áreynslulaust. Ég athugaði stöðuna á ælubökkum og bréfþurrkum til að vera viss um að allt væri til staðar ef hann þyrfti að kasta meria upp.

Það má segja að dagurinn hafi farið á annan veg en ætlað var. Um hádegisbilið var hringt úr skóla prinsins. Þetta eru símtölin sem maður vill ekki fá. Það hafði orðið slys. Prinsinn slasaður og þyrfti aðhlynningu. Átti ég möguleika að koma á heilsugæslustöðina? Þau vildi ekki bíða eftir mér í skólanum, frekar koma honum sem fyrst undir læknishendur. Ok, hugsaði ég. Síðast þegar hann slasaðist í skólanum þurfti sjúkrabíl... þetta hlaut að vera betra. Vitalausa ég! Annars finnst mér nóg komið, innan við mánuður frá listaverkaóhappinu... nú þetta... og svo ekki meir í ár... takk fyrir.

Í þetta sinn hafði hann verið að hlaupa og dottið illa á höfuðið. Hann fékk gat á höfuðið sem ætlaði aldrei að hætta að blæða úr, og það blæddi mikið. Að lokum var sárið límt saman með einhverju undarlegu fjólubláu túpulími. Ok, gatið orðið fínt... eða þannig. Hann er reyndar með umbúðir á þessu sem voru settar þannig að það þarf að klippa hárið til að ná þeim af (hann þurfti hvort sem er á klippingu að halda).

Það sem verra er að hann er heilahristing. Verri heilahristing en hann hefur fengið áður. Læknirinn og hjúkrunarfræðingarnir vildu ekki hleypa okkur heim. Svo í rúma þrjá tíma sat ég á stól og fylgdist grant með hverjum andadrætti. Það er ekki nokkur leið að halda barninu vakandi, ef við náum að ýta við honum og fá hann til að opna augun fellur hann í svefn jafnharðann. Svo er hann svo slæmur að hann getur varla sest upp án þess að kasta upp.

Eftir daginn er hann búinn að ná að kasta upp á ótrúlega mikið á heilsugæslustöðinni, við þurftum næstum heilan hjúkrunarfræðing í að þurrka upp. Hann þurfti á klósettið og kastaði í leiðinni upp á biðstofunni. Hann var fluttur á milli herbegja og kastaði uppá ganginn. Hann kastaði uppá gólfið í tveimur skoðunarherbergjum fyrir utan alla gubbubakkana sem hann fyllti. Virkilega spennandi.

Nú er ég komin með heimalinginn til að sitja hjá mér. Við ýtum til skiptis við drengnum á hálftímafresti, reynum að fá hann til að svara einföldum spurningum. Tæmum gubbufötuna. Breiðum yfir hann. Bjóðum honum að drekka. Hann hinsvegar tæplega svarar okkur, grettir sig þegar við bjóðum honum að drekka og bætir við í fötuna. Þetta verður langt kvöld og löng nótt.


Ég, Rachel Ray og Bruce Lee

"Ég vil vera Rachel Ray!", tilkynnti ég þegar kom að kvöldmatnum og lýsti rétti sem ég hafði séð í þættinum hjá þeirri brussubínu, ég hafði reyndar ekkert náð uppskriftinni en mér fannst það bara aukaatriði. Rétturinn hafði litið svo girnilega út að nú gat ég ekki hætt að hugsa um hann. "Ætlaður að elda rétt sem þú sást í sjónvarpinu en kannt ekki uppskriftina af?", spurði heimasætan með hneykslun í röddinni: "Hvað... heldurðu í alvörunni að þú sért frægur sjónvarpskokkur?". Ég þurfti hinsvegar ekkert að sannfæra tengdasoninn, nei, nei. Gamli stökk á fætur og stillti sér upp við hliðina á mér og til samans náðum við að pússla saman matnum.

"Meira að þessu?", spurði ég drenginn sem leit ofan í fatið hjá mér og hristi svo höfuðið. Hann teygði sig uppí hillu og valdi nokkra kryddstauka. "Hvað með þessa samsetningu?", spurði hann mig til baka og ég kinkaði kolli. Eftir að hafa komið þesu öllu saman horfuðum við augnablik á afraksturinn áður en við stungum honum inní ofn. Heimasætan og heimalingurinn horfðu á okkur með furðu. "Ohh... þið eruð svo feit...", hvæsti heimasætan þegar hún stóð okkur að því að ræða hvað við ætluðum að setja næst í réttinn, hvað gæti verið gaman að prófa. Ég hló við þegar drengurinn fór að útskýra að við værum bara fólk sem vissi hvað það vildi.

Svo trítlaði ég inní stofun og naut þess að hafa húsið fullt af skrafandi og skríkjandi unglingum. Heimilið svo fullt af lífi, allir að tala í einu, hlátur, hróp, símar að hringja, fólk að syngja, sjónvarp, lærdómur, æfingar og ég veit ekki hvað. Eiginlega langaði mig bara að geyma augnablikið en það var enginn tími. Nýji rétturinn okkar tilbúinn í ofninum og hann sló alveg í gegni. "Ha! Hver þarf Rachel Ray þegar hann hefur okkur?", spurði ég og benti á heimasætunni sem lá ofan í disknum sínum.

Með hvarfi unglinganna útí myrkrið tóku við æfingar hjá okkur prinsinum. Ég var reyndar ekki alveg klædd fyrir þetta sprikl en ég ætlaði ekkert að láta það stoppa mig. Ég hafði nefnilega ákveðið að abba eftir kennaranum og vera skvísa í dag svo ég fór í létt og flæðandi pils, háa hæla og trítlaði af stað í vinnuna. Komst reyndar fljótt að því að þetta var ekki rétta veðrið fyrir létt pils. En ég lét það ekki stoppa mig. Og nú stóð ég stofugólfinu með prinsinum mínum og æfði samviskusamlega spörk og kýlingar. Drengurinn að koma af fyrstu karate æfingunni sinni, uppveðraður af þessu öllu saman. Og mamman ákvað að draga fram gömlu karatetaktana og aðstoða drenginn við að ná grunnspörkunum og kýlingunum. Svona er maður rosalega hæfileikaríkur, eldar mat eins og bestu sjónvarpskokkarnir og tekur svo karatespörk á eftir eins og Bruce Lee. Þvílíkur kvennkostur sem ég er!


Knowing my fate is to be with you

Við stukkum á fætur og dilluðum okkur, freestyle, í takt við tónlistina. Klappandi og syngjandi eins hátt og við gátum. Ég leit á kennarann sem var mér á hægri hönd, hún í taktföstum dansi af mikilli tilfinningu. Ég leit á Snjóku sem var mér á vinstri hönd og hún ljómaði og söng af innlifun. Ég klappaði og klappaði og söng og söng...

"Honey, honey, how he thrills me aha honey, honey".

Núna er ég þegjandi hás sem er svosem allt í lagi, ég þarf ekkert að syngja meira í kvöld og ekki tala meira í síma eða eitthvað svoleiðis. Við vorum að koma af frábærri upplifun, sing along sýning á Mamma Mia. Ég og Snjóka vorum báðar að fara í þriðja skipti á myndina en í fyrsta skipti á sing along. Við gátum falið það undur því yfirskini að við værum að fylgja kennaranum sem hafði enn ekki séð myndina. Svona erum við góðar vinkonur.

Það var ekki séns að heyra vel í leikurunum, áhorfendur tóku svo sannarlega þátt og slepptu sér. Að standa í troðfullum stóra salnum í háskólabíó, allir hlæjandi, hrópandi, klappandi, syngjandi, dansandi og enginn að dæma mann... vá! Og við stukkum bara inní stemminguna. Það var ekki séns að sitja kyrr í sætinu, bara engan veginn.

"I'm still free, take a change on me..." um leið og fyrstu tónarnir byrjuðu að hljóma spratt ég aftur upp, uppáhalds abba lagið mitt og við túlkuðum það á okkar einlæga hátt með okkar eigin rödd. Hverjum er ekki sama þó maður haldi ekki lagi?

Smá könnun hér í endann, hver getur sagt mér úr hvaða abba lagi titillinn er fenginn að láni?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Vilma sjálf

Höfundur

Vilma Kristín
Vilma Kristín
The Worrying kind
Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband