24.9.2009 | 21:10
So long, and thanks for all the fish
Jæja, ég ætla að færa mig um set. Burtu frá moggabloggi og held aftur heim á kunnuglegri slóðir.
Vinsamlegast uppfærið linka og heimsækið mig á nýja staðinn (gamla):
http://vilmak.blogcentral.is/
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
23.9.2009 | 22:38
Fuglasöngskólinn
Ok, þá... ég bý í hálfgerðum dýragarði. Og já, heimilið er mjög óskipulagt, fullt af óreiðu, fólki, unglingum, alltaf eitthvað að gerast. Og meðal gæludýra eru fuglarnir, 2 gárar og 1 dísargaukur. Hið besta mál sko.
Nema...
Fuglarnir mínir hafa ekki gaman af því að syngja. Mér finnst að þeir eigi að kvaka falleg lög svona eins og fuglarnir í Disney myndunum. Kyrja ástarsöngva. Syngja óð til lífsins. En gera mínir fuglar það? Ó, nei! Nei, einmitt... mínir fuglar... þeir skrækja, öskra og æpa. Þeir framkalla eins mikinn hávaða og þeir mögulega geta. Helst allir í einu.
Ekkert lag. Engin melódía. Bara ósamstæðir háir, skrækir hljómar... algjörlega tilviljanakenndir að því er virðist. Það vill til að ég hef mjög háan þolinmæðisþröskuld þegar kemur að hávaða í gæludýrum, börnum, leikföngum og hljóðfæraæfingum.
En stundum. Stundum verð ég þreytt á þeim. Sérstaklega ef ég er að reyna að leggja mig eða tala í símann. Þegar hávaðinn er svo mikill að ég heyri ekki í sjálfri mér hugsa. Þegar ég virðist eiga um 100 fugla en ekki þrjá. Þá, já, þá verð ég pínulítið þreytt á þeim.
En hvað er til ráðs? Stundum prófum við að reyna að yfirgnæfa þá, hafa bara hærra.. gera meiri hávaða. Kannski ekki skrítið að nágrannarnir virðast ekki vera í aðdáendaklúbbnum mínum. En við erum eiginlega búin að gefast uppá hávaða aðferðinni. Á eftir henni "fallega" aðferðin. Hún kom sterk inn og virtist virka ljómandi. Hún er þannig að þegar hávaðinn er að æra mann kvakur maður með sinni allra mýkstu og fallegustu rödd: "syngja fallega... syngja fallega...." Þetta endurtekur maður svona sextíu sinnum, rólega. Í fyrsta skipti sem ég prófaði þetta varð ég steinhissa þegar hávaðaseggirnir þögnuðu í augnablik, hölluðu undir flatt og tóku svo við að .... já, einmitt... tóku við að syngja fallega.
Prinsinn og ég erum búin að sérhæfa okkur í þessu. En svo kom að því að þetta virkaði ekki lengur. Þegar aumingja prinsinn var búinn að standa í hátt í 10 mínútur við búrið og kvaka: "syngja fallega... syngja fallega..." snéri hann sér við með tárin í augunum: "Mamma, þeir vilja ekki syngja fallega..."
Við reynum þetta enn stundum en áhrifin duga alltaf skemur og skemur... í þau örfáu skipti sem þetta skilar einhverjum árangri.
Í morgun vaknaði ég með dúndrandi höfuðverk. Staulaðist fram. Um leið og ég birtist byrjðu allir þrír fuglarnir að garga. Og ég meina garga. Og þá kviknaði hugmynd hjá mér. Já, ég ætla að stofna fuglaskóla. Þar sem fuglum er kennt að syngja. Ég byrjaði strax í morgun. Stillti mér uppá miðju stofugólfinu og söng nokkra tóna af : bíb bíbbb bííííííbbbb... Maður byrjar sko á tónæfingum.. svo koma lögin. Ég er sannfærð að þetta skilar árangri, eina sem fuglana vantar er leiðsögn og þjálfun. Nú er bara að velja hvaða lag á að kenna þeim fyrst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
22.9.2009 | 19:28
Alveg fullkomin!
"Sko, hérna er ég með viðvörunarþríhyrning..", sagði ég ákveðnum rómi við skoðunarmanninn um leið og ég steig útúr Rúnu. Ég benti á rauðan fallegan lítinn plastkassa sem hvíldi á farþegasætinu, svo hélt ég áfram á meðan ég benti: "Þú sást hann örugglega ekki síðast þegar hann var í skottinu svo ég setti hann hér".
Skoðunarmaðurinn gjóaði augunum á blaðið sitt. Jú jú, bíllinn kominn í endurskoðun. Síðast fékk ég athugasemd á að hafa engan þríhyrning.. ætlaði sko ekki að láta nappa mig á því aftur svo ég hafði komið þríhyrningi líffræðingsins fyrir á vel áberandi stað.
Ég sá að maðurinn gjóaði augunum aftur á blaðið. Aha. Örugglega að spá í þessu með kúluna og rafmagnið fyrir hana. "Ég lét fjarlægja kúluna", sagði ég og benti aftur fyrir Rúnu. "Já já... þá þarftu að láta afskrá hana", svaraði skoðunarmaðurinn og góndi þar sem kúlan átti að vera. "Afskrá? Hvar?", spurði ég steinhissa. Fékk svo að vita að ég gæti bara sinnt því erindi þarna á staðnum og áður en ég vissi af var skoðunarmaðurinn sestur við tölvu og hamaðist við að afskrá kúluna. Fyrir vikið borgaði ég 1300 krónur.
Ég skil reyndar ekki af hverju þarf að borga 1300 krónur fyrir að afskrá kúlu af bíl. Ég meina hvað er innifalið í afskráningunni? Sævar tók kúluna af og rukkaði ekkert fyrir það. Kúlan er enn í skottinu svo ekki er gjaldið fyrir að farga henni. Og af hverju 1300 krónur? Hvað liggur á bak við verðleggingunni?
En skítt með það, kúlulaus og afskráð, þetta er alveg nýtt líf. Svo benti skoðunarmaðurinn mér á að setjast bara og slaka á. Sennilega orðinn leiður á því að láta mig benda á það sem átti að endurskoða. Ég settist en fann litla eirð í mér. Mér finnst kvöl og pína að fara með bílana mína í skoðun. Kvöld og pína.
Skoðunarmaðurinn dundaði sér við að skoða framljósin og rúðuþurrkurnar. Ég hélt mér í stólinn og beit í tunguna á mér. Kommon! Það var búið að skoða þetta! En best að leyfa honum að sýna hvað hann kann fyrir sér í skoðun. Loksins komið að því að skoða jafnvægisstöngina. Spennan í hámarki... og hibba bibb barbabrella! Nýr miði á Rúnu! Skoðun án athugasemda! Yeahhh....
Þessi dagur varð þó til að ég rifjaði upp fyrri skoðunarferðir sem stundum hafa verið skrautlegar. Til dæmis fékk ég einu sinni skoðun án athugasemda á Bubba minn gamla, þrátt fyrir að vera með slit í jafnvægisstöng og vantaði peru. Ekkert verið að horfa á svona smámuni... og að lokum bað skoðunarmaðurinn mig um að líma vinsamlegast brettin á bílinn minn og mælti meira að segja með góðu límbandi!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
15.9.2009 | 23:17
Hjálpsami prinsinn
"Mamma", kvakað prinsinn í símann. Ég og Rebbý vorum á leiðinni heim að elda afmæliskvöldverð fyrir Rebbý eftir að hafa skutlað sætukoppi niður í Skeifu. Ég jánkaði í símann og prinsinn hélt áfram : "Mamma? Á ég að steikja kjötið?". Ég fann hvernig kaldur sviti spratt fram á mér. "NEI!", veinaði ég...; "Nei, nei, nei... ég skal elda þegar ég kem heim!".
Prinsinn er að verða mun húslegri og duglegri. Hann er alveg ótrúlega fær á síma og virðist hafa erft frá mér að geta munað ótrúlega mörg símanúmer. Stundum vildi ég óska að hann kynni ekki á síma og myndi ekki öll númer sem hann hefur einu sinni valið. Hann er líka búinn að læra á samlokugrillið. Það hræðir mig stundum þegar honum dettur í hug að gera samlokur á ótrúlegustu tímum. Þar að auki kann hann núna á örbylgjuofninn og poppar eins og herforingi. Ekkert hræddur við að prófa sig áfram. Mér fannst samt full mikið þegar hann ætlaði að fara að steikja nautkjötið... jafnvel þó við hefðum fengið það á útsölu sko.
Ég held að prinsinn eigi mun meiri möguleika á að verða "húsmóðir" heldur en heimasætan. Hann sýnir áhuga á að skúra og ryksuga, vaska upp. Hún hefur aldrei sýnt neinu svona áhuga. Og þó ég hræðist líka að leyfa honum að prófa sig áfram þá er það samt kannski betra en þegar hann er að gera tilraunir sjálfur.
Mér finnst tildæmis mun betra þegar hann poppar í örbylgjuofninum heldur en þegar hann skrapp á fætur um miðja nótt þegar hann var þriggja ára og örbylgjaði sjónvarpsfjarstýringuna með batteríum og allt. Jebb, ég tek popp og popplykt fram yfir bráðnaðar fjarstýringar og lykt af bráðnuðu plasti á hverjum degi!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
14.9.2009 | 22:55
Fórnarlamb :)
Ég stóð á milli tveggja stæðilegra lögreglumanna í fullum skrúða. Stóð á milli þeirra og starði inn um stofugluggann minn. Annar lögreglumaðurinn mundaði myndavél af miklum móð, alveg eins og atvinnumaður. Fyrir innan glerið sat Millie og gerði allt sem hún gat til að vekja athygli á sér.
Þarna sat hún og klessti nefinu að rúðunni. Þarna sat hún og lagði eyrun aftur. Þarna sat þessi ríflega 10 ára gamli köttur og setti upp kettlingasvip og sló létt á rúðuna. Lögreglumaðurinn lét það ekki slá sig útaf laginu og hélt áfram að smella af, inn í gegnum gluggann minn á meðan kötturinn þvældist fyrir. Ég er viss um að myndavél lögreglunnar er full af myndum af fallegum bláum ketti með leiftrandi græn augu.
Og þarna stóð ég og reyndi að halda mig í skjóli við annan lögreglumanninn, enda voru þeir vel klæddir en ég bara úti á bolnum. "Hvað er eiginlega með veðrið?", spurði skjólgóði lögreglumaðurinn og hristi höfuðið. Ég yppti öxlum og reyndi að hrista í mig hita. Hinn hélt áfram að taka myndir. Góða stund ræddu lögreglumennirnir saman eftir að hafa komið sér í skjól undir vegg.
Eftir fjölda áskorana lét ég semsagt verða af því að hringja á lögregluna í dag til að fá skýrslu gerða. Jú, jú, mikið rétt áliktað hjá mér, niðurstaða lögreglunar er að á rúðunni séu göt eftir loftrifill. Ég er semsagt fórnarlamb. Ekki fórnarlamb "drive by shooting" heldur fórnarlamb "walk by shooting". Að öllum líkindum var skotið frá göngustígnum og vonandi var þetta bara handahófskennt. Jebb, spennandi að búa í Grafarvogi...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
12.9.2009 | 19:48
Brotnir gluggar og strokufuglar
Ég starði út um gluggann. Starði og starði. Ég var samt ekkert að íhuga eða eitthvað svoleiðis. Ekkert að láta mig dreyma rómantíska dagdrauma. Nei, nei. Ég var bara að stara í furðu minni á eitthvað mjög dularfullt. Ég snéri mér snöggt við, arkaði út og sótti heimasætuna í geymsluna þar sem hún stóð á náttfötunum. "Komdu með útí garð!", skipaði ég og hélt svo útí garð með heimasætuna og prinsinn á eftir mér.
Nágranni minn virtist dálítið hissa að sjá okkur mæta á náttfötunum útí garð til þess eins að stara inn um gluggann okkar... eða það leit allavega þannig út. En í raun vorum við að rannsaka rúðuna. Eftir að hafa virkjað nágrannan og iðnaðarmanninn hans líka í rannsóknina erum við öll sammála. Já, það hefur verið skotið, líklega með loftbyssu, í tvígang á rúðuna. Á rúðunni eru tvö agnarlítil göt, en fyrir innan götin hefur glerið hins vegar brotnað þónokkuð. Fyrir vikið eru tvö mjög greinileg brot á rúðunni og þónokkuð af glerbrotum á mili glerjanna.
Sem betur fer hefur innri rúðan bara rispast lítilega en engu að síður er þetta nú frekar leiðinlegt og eiginlega finnst mér bara ekkert kúl að hafa byssugöt á stofuglugganum.
Eftir rannsóknina drifum við okkur úr náttfötunum og hoppuðum uppí bíl. Okkur var boðið í heimsókn til Ölgerðarinnar sem er uppáhaldsfyrirtækið mitt, tókum heimalinginn með en skildum veikan sætukopp eftir heima. Þar þvældumst við um í tvo klukkutíma og skemmtum okkur alveg ljómandi vel auk þess sem börnin náðu að fylla magana af allskonar góðgæti. Tala nú ekki um allt skemmtilega fólkið sem við hittum, þvílíkt stuð.
Við stóðum við brauðbakkana og smjöttuðum á gómsætu speltbrauði þegar síminn hringdi. Sætukoppur á hinum endanum. Allt í panikk. Einn fuglinn okkar hafði strokið út búrinu og kettirnir allir komnir á veiðar. Sætukoppi gefin góð ráð... eins og að byrja á því að ná köttunum áður en þeir náðu fuglinum. Svo héldum við áfram að japla á brauði, glætan að við ætluðum að fara úr þessari fínu veislu.
Heima þaut veiki sætukoppur um allt eins og hvítur stormsveipur. Það er ekkert grín að handsama fjóra óþekka ketti sem vilja veiða fugla. Hann reyndi að hafa yfirsýn yfir hverjum hann var búinn að ná og hverjum ekki. Þula var örugglega inní herbergi.. púff nú var bara að ná fuglinum.
Sætukoppur skoppaði upp og niður á eftir fuglinum í örvæntingarfullri tilraun til að ná honum. Skyndilega fékk hann samkeppni þegar Þula stakk upp hausnum tilbúin að "hjálpa" honum við veiðarnar. Þulu skellt inná bað með hraði. Sætukoppur hélt áfram að hlaupa á eftir bláa fuglinum og á einhvern undursamlegan hátt náði að teygja út höndina og grípa fuglinn á flugi. Stórslysi afstýrt og sjúklingurinn gat aftur lagst fyrir.
Við fylgdumst með í gegnum símann. Alveg róleg. Ekkert að flýta okkur heim í hamaganginn. Betra njóta góðra veitinga og góðs félagsskapar. Sérstaklega þegar heima bíður ekkert nema fulgaveiðar og að bíða eftir að einhverjir noti húsið í skotæfingar. Jebb. Aldrei rólegheit á okkar heimili.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.9.2009 | 23:30
Peek - a - boo
"Peek - a - boo! Peek - a - boo!", tístum við í kór hjáróma röddum. "Peek - a - boo!" Við mændum uppí loftið og hlógum. Ohhhh... nú breyttist allt og við skiptum um tón: "Bless! Bless!". Við kölluðum kveðjuna tregafullar og í takt. Sorglegt að sjá eftir honum. Nei, þarna birtist hann aftur! "Peek - a - boo! Peek - a - boo!", skræktum við og hlógum.
Já, í kvöld fórum við í leik með mánanum. Þetta er eitthvað það flottasta sem ég hef séð! Bak við svört ský faldi máninn sig. Svo rétt kíkti hann fram svo við sáum í smá sneið af honum og um leið lýsti hann upp skýrinn. Við heilsuðum honum. En jafnharðan hvarf hann aftur bak við skýinn og það var ekki hægt að sjá neitt sem benti til þess að rétt áður hafði máninn skinið. Púff. Hann var bara alveg horfinn.
Hann minnti okkur á barn að fela sig... svo við stóðumst ekki freistinguna að leika "Peek - a - boo" við hann. Og máninn tók fullan þátt. Þegar ég keyrði inná bílastæðið heima stöðvaði ég Rúnu á miðju stæðinu, án þess að leggja... bara svo ég gæti horft á mánann kíkja fram úr skýjunum eins og tvisvar í viðbót.
Með trega og söknuði trítlaði ég inn með prinsinum og heimalingnum. Við nýkomin úr bíó og ætluðum að eyða því sem eftir var kvölds í rólegheitum með Húbert. Mig langaði meira samt til að standa bara úti og góna á tungið... en þreytan rak mig inn og uppí sófa... Ég vinkaði því tunglinu að skilnaði og hallaði hurðinni á eftir okkur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.9.2009 | 22:52
Fíkn...
Ég stóð augnablik og virti fyrir mér möguleikana. Þarna voru þeir. Beint fyrir framan mig. Ég andvarpaði, þetta var ekki svo einfalt. Ég fann valkvíðann læðast aftan að mér. Nei. Nei, af og frá. Ég ætla ekki að láta bjánalegan valkvíða ná völdum á mér. Ég varð að koma mér upp plani. Strax. Hugsa, Vilma... hugsa.
"Ok, hvað valdi ég síðast?", hvíslaði ég að sjálfri mér. "Hvað valdi ég síðast...", endurtók ég og hallaði undir flatt. Ég las á miðana, smjattaði á nöfnunum. Naut augnabliksins. Ég var að ná valdi á aðstæðunum. Ekki bara var ég að ná valdi á aðstæðunum heldur var ég líka stjórna þeim. Totally.
Fyrir framan mig stóðu fjórir brúsar og virtust brosa til mín. Og mitt var valið. Hmmm... nú mundi ég það... síðast var það "Kókos og vanilla". Auðvitað. Brosandi snéri ég mér að uppáhaldinu mínu: "Ferskjur og fresíur". Ég reyni að velja ekki alltaf það sama. Maður sko að skiptast á.
Vonandi halda ekki allir að ég sé búin að tapa mér... en ég er sko komin með nýja dellu. Algjörlega. Þegar ég var í sumarbústaðnum í sumar kynntist ég nýrri vöru. Vöru sem ég fæ bara ekki nóg af. Ég hef enga stjórn á mér, enga. Nú er ég komin með ágætist úrval af... já... látið ykkur ekki bregða... ágætis úrval af handsápu.
Fyrir átti ég fína sápu frá Palmolive. Svona Cherry blossom sápu og var bara þokkalega ánægð með hana. En svo kynntist ég froðusápunni frá Mjöll Frigg og nú get ég ekki hætt í handþvottinum. Fyrst keypti ég "Fjólur og villiber", svo "Kókós og vanillu". Fann hinsvegar ekki froðusápuna sem mig langaði í. Þegar ég loksins rak augun í uppáhaldið útí búð varð ég að fjárfesta í því líka. Það er bara himnesk lykt af "Ferskjur og fresíur".
Og af því ég er óhemja opna ég allar sápurnar og nú standa fjórir sápubrúsar við vaskinn inná baði og ég bara finn mér hvert tækifærið á fætur öðru til að þvo mér um hendurnar. Skipti samviskusamlega á milli brúsana, til að eyða öllu jafnt sko...
En það er ekki bara þessi himneska lykt sem er búin að gera mig "hooked" á sápu. Nei, líka sú staðreynd að þetta er froðusápa... ekki venjuleg. Hún sprautast úr brúsanum í froðu sem er svo gaman að maka á hendurnar... ótrúlega gaman. Já, ég er komin með nýja fíkn... ég heiti Vilma og ég er háð froðusápu!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
7.9.2009 | 23:45
Ég sé!
Ég sat á biðstofunni og beið. Gerði mitt allra besta að láta líta út fyrir að ég væri alveg róleg. Alveg róleg. Right. Ég allavega reyndi. Skyndilega hringdi síminn og mér var nokkuð létt. Auðveldara að þykjast vera rólegur á meðan maður talar í símann.
Á hinum endanum var sálfræðingurinn sem virtist bara finnast gaman að hringja í mig í sumarfríinu mínu. En mér var alveg sama, alltaf gaman að heyra í sálfræðingnum, ég tala nú ekki um þegar maður er að tapa sér úr stressi. Ég sagði honum hvar ég var, eftir hverju ég væri að bíða. Ég semsagt sæti á biðstofu hjá lækni að bíða eftir að fara í laser aðgerð á augunum. Bíða eftir að sjónin yrði löguð.
"HA? Þarft þú gleraugu?", spurði steinhissa sálfræðingur. Ég gat ekki neitað því. Jebb, ég hefði þurft gleraugu. "Ó... þú hefur þá bara verið linsur síðustu árin...", hélt sálfræðingurinn áfram. Ég skellti uppúr og neitaði. Ég hef aldrei notað linsur. Aldrei. Ég hef hinsvegar notað gleraugu á hverjum degi síðan ég var 13 ára. Og ég hef þekkt sálfræðinginn síðan 1996... merkilegt að hann hafi aldrei tekið eftir að ég notaði gleraugu.
Og þarna sat ég. Dauðhrædd. Stressuð. Og á mörkunum að hlaupa út aftur. Augnlæknirinn minn birtist sérstaklega klæddur skurðstofufatnaði, með græna hettu á hausnum. Ok. Hann leit allavega professional út. Hmmm. Smá undirbúningur. Smá pepp tal frá lækninum og ég kom mér fyrir í stólnum. Róleg. Alveg róleg. Right. NOT!
Á meðan ég kom mér vel fyrir, breitt var yfir mig teppi, mér kennt á stressboltana, æpti heilinn á mig: "Hlauptu út! Hlauptu út brjálaða kerling... Hlauptu út". Ég fann hvernig allir vöðvar spenntust upp og hjartslátturinn varð örari. Ég get bara alveg viðurkennt það. Skammlaust. Ég hef aldrei aldrei á ævinni verið jafnhrædd. Rólegi augnlæknirinn talaði hægt og lágt... Það var alveg sama hvað ég reyndi að slaka á... það var bara ekki að virka. Stressboltarnir fengu sko svo sannarlega að kenna á því. "Vilma. Vilma. Þú verður að muna að anda...", hvíslaði læknirinn. Ég hlýddi og dró andann djúpt.
Eftir 15 mínútur sem voru í mínum augum svona eins og 15 klukkustundir gekk ég út með alveg nýja sjón. Engin gleraugu. Ég stend mig reyndar enn að því að reyna að taka þau af mér áður en ég fer að sofa...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
5.9.2009 | 19:45
Ég stunda jaðarsport
Ég hló og hló og hló. Ég lá á bakinu í neðst í grösugri brekku, máttlaus af hlátri og gat ekki staðið upp. "Nú hlaupum við upp brekkuna...", kallaði formaðurinn til mín. "Ég get ekki staðið upp..", svaraði ég og skríkti um leið. Gat ekki hætt að hlæja. Áður en ég vissi var formaðurinn kominn til mín, rétti mér höndina og tosaði mig á fætur. Flisandi og völt á fótunum reyndum við að komast upp brekkuna til glerlistakonunnar sem stóð þar og beið okkar. Svo horfðum við smá stund á hvort annað og ákvaðum að reyna aftur.
Ég er semsagt komin með nýtt áhugamál. Þetta er eiginlega svona jaðarsport sem ég hef ákveðið að taka upp að stunda. Ég get þakkað formanninum að ég komst inná þessa leið. Jebb. Í gær fór vinnan mín sem sagt í svona hópeflisdag á Úlfljótsvatn. Svona vinna eitthvað saman. Skátaleikir. Góður matur. Varðeldur. Söngur. Ég og eyjamaðurinn misstum reyndar af skátaleikjunum, vorum að vinna á meðan... einhver minntist á að við værum vinnualkar en ég held ekki að það sé neitt til í því. Í heildina var þetta æðislegur dagur í frábærum félagsskap.
Snemma kvölds kom formaðurinn að máli við mig. Benti á ágætisbrekku og stakk uppá að við rúlluðum okkur niður. Ég horfði á hann forviða. Rúlla okkur niður? Var hann brjálaður? Svo leið fram á kvöldið og skyndilega fannst mér þetta betri hugmynd. Leitaði uppi formanninn og spurði um brekkurúll. Hann hristi hausinn. Nei, þetta var sennilega ekki svo góð hugmynd eftir allt saman.
En það er nú svoleiðis með góðar hugmyndir að þær eiga til að skjóta upp kollinum aftur og aftur. Svo áður en kvöldið var búið príluðum við upp brekkuna þar sem hún var bröttust. Glerlistakonan fylgdi okkur til að virka sem "ræsingarstúlka" með aðstoðarkonu uppá arminn.
Ég og formaðurinn komum okkur fyrir, hlið við hlið. Tilbúin að rúlla af stað þegar merkið kæmi. Fengum einhverja athugasemd um að það gæti nú ýmislegt leynst í brekkunni og að það væri helst til mikið myrkur. Var ekki líka möguleiki á garnaflækju. En við vorum alveg ákveðin. Ég var svo spennt að rúlla af stað, maginn var spenntur og hjartslátturinn ör. Skyndilega þutum við af stað.
Og þarna rúllaði ég og rúllaði alveg stjórnlaust og án þess að vita hvert ég stefndi. Þvílít tilfinning og þvílíkt stuð. Ég skellti uppúr um leið og ég rúllaði af stað og hló alla leiðina niður. Ég hætti ekki að hlægja þegar formaðurinn tosaði mig á fætur og hló alla leiðina upp brekkuna aftur. Aftur! Aftur!
Við enduðum nú reyndar bara á því að fara tvær ferðir. Eyjamaðurinn hafði haft fréttir af uppátækinu og klöngraðist upp til að verða vitni af seinni ferðinni. Hún var jafnvel enn skemmtilegri en sú fyrri. Nú var formaðurinn fljótari að ná mér á fætur og þegar ég hljóp af stað upp brekkuna hringsnérist af og ég réði engan veginn við stefnun. Og ég hló.
Og nú er ég svo spennt að fara aftur. Fyrr í vor fór ég í fyrsta skipti á stórt trampólín... hafði mig þar að fífli þar sem ég sat eða lá og hló á meðan líffræðingurinn skoppaði í kringum mig svo ég var alveg stjórnlaus. Nú prófaði ég brekkurúll... hvort sem þíð trúið því eða ekki, í fyrsta sinn á ævinni. Þvílíkt gaman, þó ég hafi nú sennilega haft mig að fífli aftur. Skítt með það.. ég er bara í svona góðum tengslum við barnið inní mér :)
Um miðnættið komum við þreytt í höfuðborgina og leiðir okkar skyldu á bílastæðinu. "Bless, Vilma!", kallaði eyjamaðurinn til mín og vinkaði. Svo bætti hann við: "Það var gaman að sjá þig rúllandi!!!"
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Um bloggið
Vilma sjálf
Tenglar
Ég sjálf
Gamla bloggið mitt
- Gamla bloggið mitt Vilma Stína
Klúbbar og félög
Eitt og annað sem ég tengist
- Ofurhugar Kúlasta fólk í heimi
- Skógarkettir Skógarkattaklúbbur Íslands
- Kynjakettir kattaræktarfélag Íslands
Kisusíður
Hinar og þessar kisusíður
- Aliosha's Aliosha og Hrund
- Eldibrands Margrét Birna og hennar kisur
- Hlíðarenda Heimasíða Ásdísar
- Vetrarheims Heimasíðan mín
- Björgvinjar Áslaug vinkona mín á þessa síðu
Bloggarar
Hinir og þessir skemmtilegir