Snillingur

Ég stóð við hlið hennar og strauk henni blíðlega. Strauk henni og með tárin í augunum hvíslaði ég að henni: "Ástin mín, þetta verður allt í lagi... slakaðu bara á..." En innst inni vissi ég að þetta yrði ekki í lagi. Innst inni vissi ég að þessu væri lokið. Að hún væri að hverfa frá okkur. Hvernig átti ég að lifa án hennar? Hvernig átti ég að færa heimasætunni fréttirnar. Hnuggin snéri ég mér frá henni og gekk inn án þess að líta við.

Ég var miður mín. Gjörsamlega niðurbrotin. Ég færði heimasætunni fréttirnar. "Hún verður að hafa það af, mamma... hún bara verður...", svaraði hún. Ég hristi höfuðið, þetta var vonlaust. Allt svo vonlaust. Ég varð að leita eftir hjálp, ef einhver gæti hjálpað mér væri það klári stóri bróðir minn. "Ég kem til þín á eftir...", svaraði hann án þess að hugsa sig um.

Ég gat varla trúað því að Rúna mín væri að yfirgefa okkur. Rétt áður höfðum við prinsinn verið í smá leiðangri. Við vorum varla komin útúr götunni þegar skyndilega breyttist eitthvað á verri veg í Rúnu, okkar ástkæra bíl. Hún hristist öll. Hristist til og frá. Og það var erfitt að fá hana tli að fara áfram. Hvað var til bragðs? Vélin gekk greinilega vel en hún virtist engu að síður vera að hristast í sundur. Ég tók þá ákvörðun að reyna að koma henni heim, enda bara örstutt þanngað. Ég og prinsinn hristumst og hristumst og ég var þess fullviss að ég væri að draga vélina eða eitthvað enn verra á eftir mér. "Bara heim í stæði.. bara heim í stæði...", bað ég í hljóði þessa mínútu sem tók að koma henni heim. Og þar skyldi ég hana eftir eftir að hafa reynt að strjúka henni og hughreysta. Aumingja Rúna.

Stóri bróðir minn kom og horfði á Rúnu, bílstjórameginn. Í fljótu bragði var ekkert að sjá utan á henni. Ekkert sem hékk utan á henni eða svoleiðis. Ég reyndi að gera mitt besta til að lýsa vandamálinu. Lýsa hvernig Rúna væri bara að deyja. Hann hlustaði alvarlegur í bragði. "Ég reyni að starta henni...", sagði hann ákveðinn og settist undir stýri. Ég lét prinsinn færa sig frá ef bíllinn myndi springa.

Bróðir minn startaði Rúnu sem malaði eins og hún hefði aldrei gert annað. Hann leit á mig með spurnarsvip. Ég yppti öxlum: "Hún var í alvörunni ekki í lagi áðan" "Ég ætla að keyra hana aðeins og sjá hvernig hún lætur", sagði hann og skellti henni í bakgír. 10 sentimetrar var það sem hann þurfti til að sjá að eitthvað væri að. Hann steig útúr Rúnu og hristi höfuðið. Gekk hringinn og horfði að því er virtist undir hana.

Skyndilega rétti hann úr sér. "Vilma, það er svolítið að!", tilkynnti hann og á andliti hans var vottur af glotti. "Hvað?", spurði ég, tilbúin að taka við dauðadóminum. Hægt og rólega færði hann sig frá svo ég sæi í hverju vandamálið lá. Ég horfði á Rúnu... svo horfði ég á bróður minn... svo horfði ég á Rúnu aftur. Ég leit upp vandræðaleg og stundi: "Ég hef aldrei þóst hafa vit á bílum" á meðan bróðir minn hló innilega. Svo opnaði hann skottið, vippaði út varadekkinu og skipti fyrir mig um sprungna dekkið. Einmitt, illa sprungið dekk... og ég dæmdi bílinn ónýtan. Dekkjaskipti og allt er betra! Ég segi ykkur það, Rúna hefur aldrei verið betri!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rebbý

sannfæringakrafturinn í þér er líka svo mikill þegar dramað kikkar inn að ég trúði því að bíllinn hristist alveg yfir í stæðið þar sem kagginn minn stóð þegar þú baðst mig að fara út og færa hann ... hvarflaði ekki að mér að brósinn þinn þyrfti að komast betur að við að skipta um dekk      en gott að Rúna er hress ... hefði ekki viljað kveðja hana strax

Rebbý, 3.8.2009 kl. 12:30

2 identicon

Úff, ég hélt fyrst að Mía hefði lent í slysi!!! Eins gott að þetta var bara sprungið dekk :)

Hrund (IP-tala skráð) 3.8.2009 kl. 17:03

3 Smámynd: Einar Indriðason

OMG!

Einar Indriðason, 4.8.2009 kl. 10:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Vilma sjálf

Höfundur

Vilma Kristín
Vilma Kristín
The Worrying kind
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband