Hor og slef

Það er hægara sagt en gert að láta skoða lítinn veikann prins. Þessu komst ég að í dag. Síðustu daga hefur fólk í kringum okkur verið að lesa mér pistilinn, skamma mig og allt af umhyggju... held ég. Eftir allar þessar fréttir af útbreiddri svínaflensu er fólki sem sagt hætt að lítast á veikindin á þessu heimili. Sumarfrísflensunni eins og ég kýs að kalla hana. Fyrst lagðist ég... eða svona eins og ég legst. Ég hef ekki mikla þolinmæði fyrir að liggja í rúminu svo ég tek verkjalyf, bryð hálsbrjóstsyklur, drekk heita drykki og held svo bara áfram. Kannski aðeins máttlausari en venjulega og aðeins grugguri í hausnum en engu að síður næ ég næstum að halda uppi fullu lífi... leggst kannski fyrir á kvöldin og svona. Og núna í þetta skiptið varð ég reyndar svo veik að ég er búin að þurfa tvisvar að eyða degi í rúminu. En ég er fyrirmyndarstarfsmaður allavega og nota sumarfríið í þetta.

Svo er prinsinn minn búinn að vera að veikjast. Slappast svolítið. Fá í hálsinn. Ekkert rosa mikið. Það er að segja fyrr en á afmælisdaginn minn síðastliðinn sunnudag. Þá bara gat hann ekki haldið sér vakandi, emjaði undan hálsinum, gubbaði og þjáðist að höfuðverk. Einmitt. Allt einkenni "flensunnar". Og núna ákvað ég að hlusta á alla í kringum mig sem sannfærðu mig um að það væri tímabært að fara með drenginn til læknis, láta tékka á þessari frægu flensu þó það væri ekki nema til að hjálpa sóttvarnalækni að sjá dreifingu á flensunni. Og með þessari ákvörðun byrjuðu ævintýri okkar.

Ég stillti vekjaraklukkuna og hringdi á heilsugæsluna mína snemma morguns. Panta tíma fyrir prinsinn hjá heimilislækni. En auðvitað er heimilislæknirinn okkar í sumarfríi og prinsinum var boðinn tími um miðjan ágúst. Minnug þess hvernig gekk að komast að hjá þeim þegar ég þurfti vottorðið um að ég hafði ekki svínaflensu áður en ég skrapp til Kólumbíu vissi ég að það gæti orðið snúið að komast að svo ég varð að leggja mig fram. "Uhh, ég er ekki viss um að það nægi...", sagði ég: "Ég verð eiginlega að fá tíma í dag. Hann er nefnilega með flensu og ég hefði viljað láta taka sýni úr honum". Ha, hugsaði ég... nú sjá þau að mér liggur á og láta mig fá tíma. En það var nú ekki málið! "Guð minn góður! Þú mátt ekki koma hingað...", skrækti móttökudaman. Svo las hún yfir mér að ég mætti bara helst ekki koma nálægt heilsugæslustöðinni. Læknavaktin í Smáranum, það væri staðurinn. Þeir sæju bara alveg um þessa flensu.

Ég verð að viðurkenna að ég var pínulítið pirruð þegar ég lagði á. Bæði hafði ég haft fyrir því að drösla mér á fætur fyrir allar aldir og eins yfir því að þurfa að bíða til klukkan fimm og fara á læknavaktina og bíða og bíða þar... Mér fannst þetta allt mjög skrítið og frekar fúlt að vera ekki velkomin á heilsugæsluna mína. Svo ég fór og leitaði á netinu hvort þetta væri virkilega svona og hvert maður ætti að fara. Influensa.is var ekki með upplýsingar, og ég fann bara hvergi neitt um þetta. Svo ég hringdi í landlækni. Hvert á að fara ef maður hefur grun um smit. "Á heilsugæsluna" var svarið. Hmmm. Landlæknir segir heilsugæslan og verður steinhissa að þeir vilja ekki taka á móti mér. En það er sko ekki þeirra mál hvernig heilsugæslan útfærir þetta. Þeir mega gera eins og þeir vilja. Svo ég gat ekkert annað gert en að bíða þar til klukkan væri fimm.

Við stilltum okkur uppí röðinni fyrir utan heilsugæsluna rétt fyrir fimm. Löng röð og við biðum bara róleg inná milli allra. Eftir því sem við færðumst nær hurðinni tókum við eftir miða á henni og biðum spennt eftir að sjá hvað stæði á honum. Ég leit á heimlinginn og flissaði þegar við komum nógu nálægt til að lesa. Hún leit á mig og flissaði líka. Allir með grun um flensu eða sem þekkja einhvern sem hafa fengið flensu eða eru nýkomnir frá útlöndum eiga að gefa sig tafarlaust fram við móttöku. Já, einmitt. Og litlum stöfum stóð að það væri mjög gott að hringja áður en maður mætti á svæðið. Hvað áttum við að gera? Taka upp símann í röðinni og tilkynna komu okkar? Ýta hinum frá til að komast "tafarlaust" að móttökunni. Við völdum að bíða róleg.

Konan í afgreiðslunni var upptekin og vann hratt. Ég reyndi að segja að ég væru með flensubarn en komst bara í miðja setningu áður en ég var stoppuð af með spurningu um heimilislækni. Ég reyndi aftur. Stoppuð af með spurningu með símanúmer. Loks var hún búin með spurningarnar og leit á mig. Ég kom loksins að þessu með flensuna og benti á auglýsinguna. "Þú áttir að láta mig vita áður en þú komst...", sagði hún við mig höstum rómi. Ég yppti öxlum og útskýrði að það hafði ég bara ekki vitað fyrr en ég las á hurðina. Kommon ég var búin að tala við heilsugæsluna og landlækni það sagði mér enginn frá þessu. Þar að auki er ekki svarað í símann á læknavaktinni fyrr en opnar klukkan fimm svo það er lítill möguleiki að láta hringja á undan sér.

Hún rétti mér, alvarleg, mjög fína grímu og bað mig um að koma henni á barnið hið fyrsta og gaf okkur ítarlegar upplýsingar hvert við áttum að fara. "Swineflu...Swineflu", stundi þýska konan fyrir aftan okkur í röðinni þegar ég veifaði grímunni og gaf prinsinum merki um að koma, þar sem hann sat í miðri biðstofunni. Svo bröltum við inn á innri ganginn og útí hornið þar sem flensufólkið situr, fyrir utan flensustofuna. Ég gerði mitt besta til að festa grímuna sannfærandi á barnið sem hló og hló. Svo sátum við, pínulítið útskúfuð, og biðum eftir flensulækninum. Jebb, það er alveg sér læknastofa fyrir fólk með grun um flensu.

Eftir smá bið kom glaðbeittur læknir. Ég held að við höfum alveg bjargað deginum fyrir honum. Hann fékk að opna flensustofuna og allt. Eftir nokkuð ítarlegt viðtal og spugleringar var komið að sýnatökunni. Frekar óskemmtilegt fyrir annars kátan prins. Svo var gríman sett upp aftur til að fara eftir öllum reglum sko.

"Sýnin verða að komast sem fyrst í rannsókn", sagði læknirinn og ég skildi það vel. Svo kom vandamálið. Þrátt fyrir flensulækninn, grímuna, sér stóla á biðstofunni og flensulæknastofuna er engin sendlaþjónusta. Svo það er skellt á þig grímu, þú tekinn frá öllum öðrum, tekin sýni en það er enginn möguleiki að koma þeim í rannsókn. Svo áður en ég vissi af var búð að ráða mig í að sendast með hor og slef í umslagi. Spennandi. Til að fá meiri pappíra urðum við svo að elta lækninn fram hjá öllum á innri ganginum inní aðra læknastofu... ekki flensustofu heldur venjulega þar sem ég fór nærri yfir á taugum að prinsinn myndi menga hana. Það var ekki hægt að komast hjá því að sjá augnaráðið sem við fengum og pískrið þegar prinsinn strunasði fram hjá með grímuna sína.

Við urðum svo að fara út í gegnum biðstofuna og fram hjá fullt af fólki í biðröð. Fólk bakkaði. Saup hveljur. Flensubarn með grímu... Ég reyndi að láta eins og þetta væri bara dagleg rútína hjá okkur. Og svo héldum við sem leið okkar lá útí bíl þar sem ég leyfði prinsinum að taka niður grímuna. Svipurinn á konunni í næsta bíl var óborganlegur.

Svo var komið að því að skila lífssýnunum. Við fórum að uppgefnu húsi. Hmm. Exista og Vís? Og rannsóknarstofa í veirusýkingum? Í alvörunni. Við löppuðum hring í kringum húsið og reyndum allar hurðir. En nei, það er ekki séns að skila hori inná skrifstofu Exista eftir lokun. Bara ekki séns. Ég varð að leggjast í símann og reyna að fá betra heimilisfang. Ég tek sendastörfin mjög alvarlega og gefst ekki upp. Á endanum fundum við rétt hús þar sem kona í hvítum slopp tók á móti sýnunum. Og nú tekur við bið. Og einangrun á prinsinu, eins langt og það nær nú. Ég er tiltölulega róleg og nokkuð viss um að þetta er bara einhver saklaus sumarflensa... en ef svo ólkíklega vill til að þetta er hin eina og sanna flensu segir læknirinn að við séum einstaklega heppin. Hvað um það, þetta náði allavega að vera ævintýri til að lífga uppá annars frekar dauflegan dag :)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rebbý

prinsinn var bara flottur í grímunni úti í dyrum áðan :O)

kannast við þessi viðbrögð síðan ég var með mömmu í einangruninni á bráðamóttökunni og bara hlæ að þessu því einangrunin er svo götótt því sumir læknarnir og sumir hjúkrunarfræðingarnir nenntu ekki að setja á sig hanskana eða fara í auka sloppinn meðan aðrir þorðu varla inn á stofuna

en hlakka til að heyra að þetta sé ekki svínaflensan heldur þessi sumarflensa sem helmingur sumarfrísfólksins er með þessar vikurnar

Rebbý, 27.7.2009 kl. 22:30

2 identicon

hahahahahaha.......

elin (IP-tala skráð) 27.7.2009 kl. 22:36

3 Smámynd: Einar Indriðason

Gætir meira segja gert þér mat úr þessu... "Ég er með svínaflensustrák, og hika ekki við að nota hann!"

Einar Indriðason, 28.7.2009 kl. 09:06

4 Smámynd: Sigrún Óskars

skemmtileg frásögn en ekki skemmtilegt fyrir þig að lenda í.

Sigrún Óskars, 28.7.2009 kl. 21:12

5 identicon

Það munar ekki um ævintýrin !!! Er komið framhald ?

Maggabudda (IP-tala skráð) 28.7.2009 kl. 21:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Vilma sjálf

Höfundur

Vilma Kristín
Vilma Kristín
The Worrying kind
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband