22.5.2009 | 20:53
Í húsi ömmu gömlu
Við sátum við borð á litlum vinalegum veitingastað, lengst inní Kólumbíu. Þetta var veitingastaðurinn "Ömmuhús", svona hefðbundinn þjóðlegur staður sem Kólumbíumenn sækja sjálfir. Sennilega vorum við fyrstu ferðamennirnir sem sóttu staðinn heim, enda var hann langt í frá því að vera nálægt þeim slóðum sem líklegt er að sjá slíka einstaklinga á ferð.
Amma gamla var hæstánægð að fá þessa gesti frá Íslandi á staðinn sinn og dró okkur um allt. Sýndi okkur myndir, sýndi okkur gömul húsgögn, sýndi okkur gömul eldhúsáhöld og fræddi okkur um söguna með aðstoð Paolu sem túlkaði. "Komið hingað, sjáið...", sagði gamla konan og dró okkur að hliðarsal þar sem var forláta gosbrunnur inní járngirðingu stóð. Stoltið hennar ömmu lét nú ekki mikið yfir sér en við kinkuðum kolli og smelltum af mynd. Við vildum endilega taka eina mynd af ömmu gömlu sem hélt nú ekki. Hún hafði betri hugmynd. Á svipstundu reddaði hún tveimur þjónustustúlkum, kippti þeim beint úr annríkinu inní sal og skipaði okkur að fara inní járngirðinguna til að taka mynd hjá gosbrunninum.
Ég horfði hikandi inn fyrir girðinguna. Sígurinn var mjór og hlykkjóttur. Allt fullt af viðkvæmum gróðri og gömlum hlutum, að ógleymdum ómetanlega gosbrunninum... og ég klædd í pils og háa hæla. Var hún að grínast? Átti ég að klöngrast þetta? En ömmu var full alvara. Og ekkert annað að gera en hlíða. Hægt og varlega fikruðum við líffræðingurinn okkur áfram í átt að gosbrunninum, í fylgd tveggja þjónustustúlkna. Stilltum okkur upp bak við brunninn. En úbbbss þar sást ekkert í okkur.
Lögðum af stað fram fyrir gosbrunninninn. Þegar kom að því að klofa yfir nokkuð breitt beð hikaði ég, tók svo í útrétta hönd þjónustustúlkunnar og lét vaða. Skelfingin fyllti hug minn þegar seinni fóturinn flæktist í trágrein og jafnvægið gaf aðeins eftir. "Ætlar hún að brjóta gosbrunninn hennar ömmu?", hugsaði líffræðingurinn og gat ekki falið óttan í augunum. Sem betur fer náði ég að forða falli á brunninn og myndatakan gat farið fram. Hins vegar get ég ekki horft á myndina öðruvísi en að gráta úr hlátri...
Eftir myndatökuna trítluðum við aftur að borðinu þar sem krakkarnir biðu öll eftir okkur. Búið að panta fyrir okkur, hefðbundinn kólumbískur matur á boðstólum. Við biðum spennt eftir að fá matinn á borðið. Þjónustustúlkurnar tóku nú að bera diska á borðið. Hver á fætur öðrum fékk sinn mat. Allir nema ég. "Við pöntuðum eins fyrir alla nema Vilmu!", tilkynnti Edwin stoltur og jók nú spennuna. Amma gamla birtist skyndilega með pott. Stærri en kartöflupottinn minn, ég er sko ekki að ýkja. Hún skellti pottinum fyrir framan mig og beið á meðan allir hlógu að svipnum á mér. Hvað myndi leynast í pottinum?
Varlega lyfti ég lokinu. Ég og líffræðingurinn gægðumst ofan í og ég hélt niðrí mér hlátrinum. Maður má ekki vera móðgandi. En ofan í pottinum var kássa sem hafði nægt til að fæða fimm manna fjölskyldu og þetta átti ég að borða ein. Alein. Fínasta kássa úr hrísgrjónum, kjúklingabaunum, kartöflum, svínapurusteik, sterkum pylsum og banönum. Ofan á toppnum tróndi steikt egg. Óborganleg máltíð. Ég lagði mig alla fram en rétt náði að krafla ofan af pottinum. Eftir frábæra máltíð og mikla skemmtun leysti amma gamla okkur út með gjöfum. Svo sannarlega einstök veitingahúsaferð... ekki oft sem maður fær gjafir frá eigandanum bara fyrir að kíkja í heimsókn.
Hver veitingastaðurinn á fætur öðrum kom okkur á óvart, við vorum alltaf að upplifa eitthvað nýtt, smakka eitthvað nýtt, prófa nýja drykki. Vinir okkar kepptust við að kynna fyrir okkur þjóðlega og skemmtilega rétti, kynna okkur fyrir Kólumbíu... og ég sakna matarins mikið. Ég skoða myndirnar og ferðast aftur til baka.
Um bloggið
Vilma sjálf
Tenglar
Ég sjálf
Gamla bloggið mitt
- Gamla bloggið mitt Vilma Stína
Klúbbar og félög
Eitt og annað sem ég tengist
- Ofurhugar Kúlasta fólk í heimi
- Skógarkettir Skógarkattaklúbbur Íslands
- Kynjakettir kattaræktarfélag Íslands
Kisusíður
Hinar og þessar kisusíður
- Aliosha's Aliosha og Hrund
- Eldibrands Margrét Birna og hennar kisur
- Hlíðarenda Heimasíða Ásdísar
- Vetrarheims Heimasíðan mín
- Björgvinjar Áslaug vinkona mín á þessa síðu
Bloggarar
Hinir og þessir skemmtilegir
Athugasemdir
hélt þú myndir stolt segja frá því að þú varst risi á þessum myndum
hlakka til að prufa bananann hjá þér næst í mat með steikinni
Rebbý, 23.5.2009 kl. 00:36
Jebb, ég var sko risi... engar ýkjur! Nú verður þú að kíkja í heimsókn og sjá allar hinar myndirnar... og vídeóin... þvílíkir snillingar þarna á ferð :)
Vilma Kristín , 23.5.2009 kl. 01:48
on my way :O)
Rebbý, 23.5.2009 kl. 12:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.