Kapphlaupið mikla!

Ég snarnegldi niður á bílastæðinu. Ég trúði ekki mínum eigin augum.  Hvar var hann?  Hver tók hann? Hvað átti ég að gera núna?
Ég var á leiðinni í mjög mikilvægan tíma hjá prófessor sem ég þurfti að borga fyrir.  En þar sem ég hafði lokað öllum kortunum mínum eftir að ræninginn lét greipar sópa var ég í smá vandræðum.  Líffræðingurinn og glerlistakonan lögðu í púkk fyrir mig en ég var hrædd um að það dygði skammt.  Seinna um daginn átti ég að fá alveg ný og glansandi kreditkort. En það var til lítils þegar ég þurfti að standa skil á greiðslu fyrr um daginn.
Svo ég ákvað að freista þess að opna debetkortið.  Ég hringdi í bankann.  Ekkert mál.  Ég varð bara að koma á staðinn.  Svo tímanlega lagði ég af stað, ég ætlaði rétt að koma við í bankanum og opna kortið áður en ég færi að hitta fína prófessorinn sem ég átti mót við.
En þar sem ég negldi niður á bílastæðinu við útbúið mitt í bankanum var staðreyndin óþægilega raunveruleg.  Já, ég var hafði ekki bara lokað kreditkortunum, nú var ég búin að týna bankanum mínum.  Ég nuddaði augun.  Jú, ég var við rétt hús.  Hér var bara ekki lengur neitt skilti, engin ljós, enginn banki. 
Í örvæntingu minni hringdi ég í líffræðinginn og grátbað hann um aðstoð.  Fletta upp næsta útibúi.  “Digranesvegur 1”, sagði hann og flissaði yfir því að ég hefði týnt heilum banka.  Digranesvegur?  Hann hafði allt eins getað sagt á tunglinu.  Ég er glötuð að rata og finna götur.  Líffræðingurinn var þolinmóður og taldi upp alls konar kennileiti.  Vissi ég hvar þetta var?  Ekki?  En vissi ég hvar hitt var?  Ekki? Á endanum náði ég því að Digranesvegur væri nálægt Palla tannlækni.  Heppilegt að ég og líffræðingurinn erum með sama tannlækni. 
Ég keyrði eins hratt og ég þorði í áttina að Palla tannlækni.  Ég keyri nú venjulega ekki hratt en viðurkenni fúslega að þarna var ég algjör glanni.  Líffræðingurinn hélt áfram að reyna að segja mér hvar útibúið mitt væri og taldi á sama tíma niður hvað ég átti margar mínútur eftir þar til ég átti að hitta prófessorinn. 
Ég æpti á bíla allt í kringum mig og reyndi að hemja mig um að flauta.  Rosalega keyra allir hægt.  “Af hverju sagðirðu ekki að þetta væri gatan sem sálfræðingurinn býr við...”, kallaði ég þegar ég loks fann Digranesveg.
Ég brunaði inná bílastæðið á tveimur dekkjum.  Stökk útúr bílnum og æddi inní bankann.  “13 mínútur eftir”, tilkynnti líffræðingurinn.  Móð og másandi æddi ég að standi sem útdeildi miðum með númerum.  Hmmm, hvað átti ég að velja.  Örugglega þjónustufulltrúa.  Ýtti á takkann.  Shit!  6 á undan mér.. það gengi ekki.  Kannski ég prófa að fara til gjaldkera hugsaði ég og ýtti á takkann.  Mun styttra í afgreiðslu þar.   Og nú stóð ég með 2 miða og fylgdist með skiltum um allt.  Hey, þarna var líka takki fyrir greiðslukort.  Í örvæntingu ýtti ég á hann líka.  Mér leið svolítið eins og ég væri í bingó.  Hélt á þremur miður og beið eftir að sjá hvar ég kæmist fyrst að.
Gjaldkerinn var fyrstur og ég stökk að borðinu.  Hvað ætli ég ætti margar mínútur eftir?  Ég bar upp erindið og reyndi að brosa og vera kurteis og svara fallega athugasemdum gjaldkerans um hárið á mér.  “Já, já... opnaðu bara kortið!”, langaði mig að æpa en var, sem betur fer, nógu meðvituð til að sjá að það var ekki líklegt til árangurs.  Gjaldkerinn spurði um alla miðana mína.  Hefðu bara óvart komið svona margir miðar úr vélinni.  Ég hristi kollinn: “Nei, ég ýtti á allan takkana....”  Hún horfði á mig með furðu.  En opnaði svo kortið.
Loks gat ég ætt af stað aftur.  Vandamálið núna var að ég rataði ekki þaðan til prófesorsins.  Hringdi í líffræðinginn sem sagði mér að byrja á að fara útaf bílastæðinu. “Þetta er ekkert mál, þú átt 7 mínútur eftir”, sagði hann rólegur og ég var nokkuð viss um að hann væri brosandi.  Ég keyrði af stað.  Sá afrein og beygði snarlega.  Shit! Þetta átti ég ekki að gera.  Ég var á aðrein, ekki afrein og stefndi í að keyra á móti umferð.  “ÉG KEYRI Á MÓTI UMFERÐ!!!”, öskraði ég.  “Ha?”, svaraði lífftæðingurinn.  Ég þurfti að bjarga mér úr klípunni og tók þá frábæru hugmynd að keyra yfir gangstétt.  “Bíddu, ég er að keyra yfir gangstétt...”, tilkynnti ég mínum þolinmóða leiðsögumanni.  “Vilma? Hvað?”, stundi hann. 
Einhvern veginn tókst honum að leiðbeina mér á rétta slóð.  “Ég held svo að þú ættir að hætta að fara alltaf erfiðustu leiðina að öllu”, kvaddi hann mig.   Ég stökk inná biðstofu prófessorins  akkúrat á slaginu.   Settist niður og reyndi að þykjast vera róleg.  Prófessorinn kallaði á mig inn. 
“Þú ert bara eins og heilsan sjálf”, sagði prófessorinn og brosti:  “rosalega ertu frískleg...”  Ég brosti á móti, rjóð i kinnum og með glampa í augum...

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Indriðason

Jahérna hér!  Móti umferð?  Með þessu áframhaldi... þá verðurðu komin í blöðin:  "Vansvefta og óð kona keyrði mót umferð.  Gerði hróp að lögreglu, og þurfti að kalla víkingasveitina til, til að tjónka við hana."

Jahérna!  Þvílík saga!

Einar Indriðason, 10.5.2009 kl. 09:41

2 Smámynd: Rebbý

eins gott að ég keyri alltaf þegar við erum að fara eitthvað ... en næst þegar þú ætlar eitthvað að setja út á yfirvegaða aksturslagið mitt þá man ég þessa sögu
heyri samt alveg í þér í símanum því svona stress á svo ekki við þig en er alltaf til staðar (of)reglulega í lífi þínu

Rebbý, 10.5.2009 kl. 11:05

3 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

hahahha ferlega frískleg!

Frábær

Hrönn Sigurðardóttir, 10.5.2009 kl. 11:07

4 identicon

Jæja, það var nú gott að þú náðir í tæka tíð til prófersorsins :)

Bibba (IP-tala skráð) 10.5.2009 kl. 20:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Vilma sjálf

Höfundur

Vilma Kristín
Vilma Kristín
The Worrying kind
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband