7.5.2009 | 22:45
Ég og ræninginn
Ég var rænd í dag. Rænd af bölvuðum klikkhaus. Meira meira vesenið.
Eftir of langan og stressandi dag í vinnunni brunaði ég uppí búð. Ég varla gaf mér tíma til að leggja í stæði áður en ég stökk út. Ég skundaði í átt að apótekinu. Átti smá erindi. Af gömlum vana stakk ég höndinni í vasann, þreifaði eftir veskinu. En hvað var nú þetta? Ekkert veski? Ég þreifaði betur fyrir mér í miklum flýti. Andskotinn, þetta hlýtur að vera þarna. Ekkert. Í örvæntingu tékkaði ég á öllum öðrum vösum. Lyklar. Lyklakort. Ekkert veski.
Ég hraðaði mér til baka að bílnum og reif upp bílstórahurðina. Vonandi hafði ég bara misst veskið í bílinn. Ekkert þar. Ég rótaði og þreifaði. Ég fann hjartsláttinn aukast. Svitann spretta fram. Ég leitaði fyrir utan bílinn. Ekkert þar. Örvæntingin jókst. Hvar var veskið? Með öllum kortunum mínum.
Ég settist uppí bílinn og skjálfandi valdi símanúmerið heima. Heimasætan svaraði og ég skipaði henni að fara út að leita. Leita á bílastæðinu. Og leita inni. Um líf og dauða að ræða. Hún tók verkefninu alvarlega og kvaddi með hraði. Ég bakkaði hratt úr stæðinu og nærri á stóran jebba. Keyrði eins hratt og ég þorði uppí vinnu. Ég bað í hljóði að veskið lægi í vinnuna af einhverri óútskýrði ástæðu.
Heimasætan hringdi til baka. Ekkert veski. Hún ætlar að leita meira. Ég leitaði í panik á bílastæðinu í vinnunni. Ekkert. Dreif mig inn og leitaði þar. Á gólfinu. Á borðinu. Ekkert. Ég settist niður og reyndi að anda rólega. Hvenær notaði ég það síðast? Ahhh... fyrir tveimur dögum. Ég hringdi í búðina. Gat verið að það hefði fundist? Gerðu það! Búðarkonan leitaði og leitaði. Nei, ekkert þar.
Nú var orðið nokkuð ljóst að þetta var glatað. Ég hafði verið rænd. Ekkert annað að gera en að ganga frá þessum málum. Hálfskælandi hringdi ég í Vísa. Mjög svo skilningsríkur maður tók vel á móti mér. Ekkert mál. Kortinu yrði bara lokað og ég fengi nýtt á morgun. Ég spurði hvort kortið hefði verið notað en svo var ekki. Ok, það er þó lán í óláni.
Ég keyrði heim í rólegheitum áður en ég hringdi í Kreditkort. Ég settist niður á sófann og andvarpaði. Árans óheppni. Unglingarnir voru samúðarfullir. Áhyggjufullir. Ég valdi númerið hjá næsta kortafyrirtæki. Sagði farir mínar ekki sléttar. Meira skilningsríkt fólk. Kortinu lokað. Nýtt á morgun. Ég horfði tómum augum útí loftið og reyndi að ná þessu. Ég hafði verið rænd. Kortin og allt annað einhvers staðar í höndum einhvers rugludalls.
"Mamma, í hvaða jakka varstu fyrir tveimur dögum?", spurði heimasætan allt í einu. Ég hugsaði augnablik. Bíddu. Mér var kalt þann dag. Ég fór í þykkan jakka. Heimasætan stökk af stað reif jakkann af herðatrénu og snéri öllum vösum við. Ég stóð og nagaði neglurnar. Virkilega? Hefði þetta verið þar allan tímann?
Heimasætan hristi sæta kollinn sinn. Því miður. Ekkert þarna. Allt týnt ennþá. Öllu stolið. Vonsvikin settist ég á sófann aftur.
En bíddu nú við. Í hvaða buxum var ég? Ég dreif mig á fætur aftur og skundaði inní herbergi. Reif upp buxurnar. Og þarna. Í vasanum var það. Og steinþagði. Hafði verið þarna allan tímann. Rugludallurinn sem rændi mig var ég sjálf! Meiri vitleysingurinn. Og að finna þetta þremur mínútum eftir að ég loka kortinu. Ég hringdi aftur í kortafyrirtækin. Því miður. Búið að loka þeim. Ekkert hægt að gera. Bara mæta á morgun, missa tíma úr vinnunni, og sækja ný. En það var allavega bót í máli að fá allt annað sem var í veskinu.
Seinna um kvöldið, eftir að hafa þrifið baðherbergið, eldað, vaskað upp og hent í þvottavél settist ég í sófann aftur og dundaði mér við að opna póstinn. Úbbsss... hvað kom þarna alveg óvænt uppúr einu umslaginu? Jú, nýútgefið vísakort, glansandi og fínt. Kort sem nú var búið að loka. Með vonleysi sýndi ég unglingunum hvað leyndist þarna og þau veltast enn um af hlátri hér á stofugólfinu. Jebb, ég er seinheppinn vitleysingur.
Um bloggið
Vilma sjálf
Tenglar
Ég sjálf
Gamla bloggið mitt
- Gamla bloggið mitt Vilma Stína
Klúbbar og félög
Eitt og annað sem ég tengist
- Ofurhugar Kúlasta fólk í heimi
- Skógarkettir Skógarkattaklúbbur Íslands
- Kynjakettir kattaræktarfélag Íslands
Kisusíður
Hinar og þessar kisusíður
- Aliosha's Aliosha og Hrund
- Eldibrands Margrét Birna og hennar kisur
- Hlíðarenda Heimasíða Ásdísar
- Vetrarheims Heimasíðan mín
- Björgvinjar Áslaug vinkona mín á þessa síðu
Bloggarar
Hinir og þessir skemmtilegir
Athugasemdir
He he he he he það er víst ekki hægt að segja annað en að þú sért seinheppin elsku Vilma mín :), þú og vandræði elskið hvort annað :)
Hrund (IP-tala skráð) 7.5.2009 kl. 22:49
Jæja, þessi bévaði klikkhaus eyðir þá ekki peningunum þinum á meðan veskið er týnt og kortin lokuð :)
Bibba (IP-tala skráð) 7.5.2009 kl. 22:58
Snillingur
Snjóka (IP-tala skráð) 7.5.2009 kl. 23:13
Úbbs!
Einar Indriðason, 8.5.2009 kl. 08:37
ég verð að viðurkenna upp á mig að hafa hlegið mikið að þér í gær segjandi mér þessa sögu en VILMA ... nýtt kort í umslagi í ofanálag inni í íbúð .... snillingur
Rebbý, 8.5.2009 kl. 17:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.