Innrásin!

Ég byrjaði að myndast við að þrífa íbúðina í dag. Ég er svona skorpumanneskja. Ég hvorki tek til né þríf í langan tíma, eyði svo fullt af tíma í að reyna að gera húsið íbúðarhæft aftur. Og í dag var komið að því að gera eitthvað. Ég setti heyrnartólin á hausin, hækkaði í ipodnum, dillaði mér í takt við tónlistina og söng hástöfum með. Prinsinn var nógu kurteis til að kvarta ekki.

Eftir að baðherbergið var farið að glansa af hreinlæti, eftir mig og Ajax brúsann, snéri ég mér að herbergi prinsins. Einbeitt snéri ég mér í barbaga við Lego karla og Playmo dót, bolta og liti. Ég var rétt komin inní herbergið þegar ég sá þá fyrstu. Þarna lá hún, sakleysisleg yfirbragð hennar gabbaði mig augnablik. Ég hallaði undir flatt og brosti. Oh, hvað hún var sæt. Oh, hvað hún var friðsæl.

Nei, úbbsss.. þarna var önnur. Oh, hún var alveg jafn sæt. Oh, hún var alveg jafn friðsæl. Ég beygði mig eftir þeim, teygði fram höndina en við hreyfingu þutu þær af stað. Hmmm, komið aftur... bað ég. Komið aftur. En þær virtust hlægja af mér og komu sér fimlega undan.

En hvað var þetta? Þarna var önnur! Og önnur! Og þarna var heil fjölskylda. Hvað var í gangi hérna. Ein var sæt. Tvær voru sætar. Og friðsælar. Og pínulítið himneskar. En hundrað? Nei, það var annað mál. Ég yrði að ná stjórn á þessu. Núna. Strax. Áður en þetta færi úr böndunum.

Ég gerði tilraun til að ná hvikum hóp með hjálp tuskunar en hópurinn tvístaðist. Þaut í allar áttir og ég var viss um að ef ég hefði lagt við eyrun hefði ég heyrt þær hlægja. Bölvaðar skammirnar. Ég setti í brýrnar og lagði á ráðin. Ég þyrfti plan. Fullkomið og útsmogið plan. Ég þyrfti að koma þeim á óvart. Koma aftan að þeim. Ná þeim varnarlausum. Ég blístaraði kæruleysislega, eins og ég hefði engar áhyggjur í heiminum, og laumaðist fram í eldhús.

Ég kom til baka vopnuð sóp og fægiskóflu. Ég stökk á fyrsta hópinn og náði helmingnum með sópnum áður en hinn helmingurinn náði að flýja. Ég hamaðist og hamaðist og eftir dágóða stund hafði ég náð þeim öllum. Fullnaðarsigur. Fullnaðarsigur mín og sópsins míns. Veiii!

Ósköp varlega kom ég þeim fyrir í poka, tilbúin að koma þeim úr íbúðinni. En hvaðan komu þær? Ég horfði á hrúguna í pokanum. Hrúgu af fjöðrum. Fjöðrum sem þjóta frá manni við minnstu hreyfingu. Að mér læddist grunur. Gat verið að kettirnir hefðu náð í fugl? Voru ekki mínir fuglar örugglega á sínum stað? Jú, allir fuglar í réttum búrum. Ég leitaði í herbergi prinsins, tilbúin að finna fuglalík... þó ég skyldi ekki alveg hvernig fugl hefði átt að komast þarna inn. En... aha... þarna var uppsprettan! Var ekki komin myndarleg rifa á dúnsæng prinsins og útum rifuna gægðust sætar og friðsamar fjaðrir sem langaði að spreyta sig úti í stóra heiminum. Ég hvessti á þau augum... "Ekki láta ykkur detta það í hug...", hvæsti ég og kinkaði kolli þegar þær skriðu aftur inní sængina.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Indriðason

Og... saumaðirðu fyrir, eða er þetta ný sæng?

Einar Indriðason, 19.4.2009 kl. 10:53

2 Smámynd: Sigrún Óskars

skemmtilega skrifað hjá þér - ég var farin að hugsa mér kóngulær eða einhver önnur skorkvikindi. Þú ert fínn penni

hafðu það gott í dag

Sigrún Óskars, 19.4.2009 kl. 11:29

3 identicon

Þetta eru nú örugglega fín leikföng fyrir kettina :)

Bibba (IP-tala skráð) 20.4.2009 kl. 12:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Vilma sjálf

Höfundur

Vilma Kristín
Vilma Kristín
The Worrying kind
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband