10.4.2009 | 18:54
Kræklingur. Í alvörunni.
"Vá, sjáðu þennan!", skríkti prinsinn og rétti mér eitthvað sem í fyrstu leit út eins og skítur og steinar. En þegar betur var skoðað kom í ljós þessi fínasti kræklingur. Ég tók við honum, skoðaði og setti svo ofan í fötu. Ég rétti úr mér og horfði yfir fjöruna. Hingað og þangað mátti sjá fólk vopnað gúmmíhönskum og fötum. Fullt af fólki að týna krækling. Heimalingurinn og heimasætan skoppuðu um og virtust skemmta sér konunglega.
Á skírdag var loksins komið að hinni fyrstu árlegu kræklingaferð sem líffræðingurinn og ég höfðum boðað til. Við byrjuðum að plana þetta í haust en urðum of sein, það var orðið allt of kalt. Svo við lögðum hugmyndina á ís þar til við drógum hana fram fyrir um það bil mánuði. Við erum búin að vera að spuglera og spá og undirbúa. Við buðum svo vinnufélugum okkar að slást í för. Þeir voru nú ekki allir ginkeyptir fyrir hugmyndinni. En engu að síður var það myndarlegur hópur sem hélt í hann snemma á skírdag.
Fjöruferðin reyndist hin besta skemmtun fyrir fjölskylduna. Líffræðingurinn hélt fræðslufyrirlestra í fjöruborðinu og við skoðuðum alls konar lífverur sem fundust þarna svona á milli þess sem við týndum í kvöldmatinn. Samvinnan skipti sköpum og eftir týnsluna héldum við í vinnuna þar sem við höfðum fengið lánaða frábæra aðstöðu. Allt kapp lagt á að gera allt reiðubúið fyrir veislu kvöldsins.
Eftir sturtuferð og smá lúr hittumst við aftur, prúðbúin í þetta sinn... og allavega ekki í lopapeysum og með gúmmíhanska, elduðum í sameiningu og héldum svo þessa fínu veislu. "Mmmmm", sagði ég og leit á fólkið í kringum mig: "Þetta er gott!" Alls staðar mátti sjá brosandi andlit. Við ætlum svo sannarlega að endurtaka þennan leik við gott tækifæri. Frábært í kreppunni, 20 manna veisla á 2500 kr. - það er vel sloppið.
Partýdýrin héldu svo áfram fram á nótt. Við spiluðum partý og co. - og til að tryggja að ég myndi vinna skipaði ég sjálfa mig í lið með líffræðingnum. Okkar 4 manna lið sýndi frábæra takta sem skiluðu okkur alla leið. Eftir spilið var svo haldið "heimapartý" þar sem Perla dísargaukur sló í gegn. Hún er sko alvöru "partyanimal".
"Mamma, þið spiluðuð tónlistina hátt", tilkynnti ofurábyrga heimasætan í morgun. Unglingarnir höfðu fengið stopulan svefn þessa nótt. Þó voru vakin upp með rómantísku harmonikuspili einhvern tíman eftir miðnættið. Ég reyndi að sannfæra þau um að þetta væri toppurinn á tilverunni. Ég meina hvað er rómantískara en að sofa uppí rúmi með ástinni sinni við harmonikku undirleik?
Mikið var gott að dagurinn í dag var langur. Ég þurfti að leggja mig. Taka á móti gestum. Leggja mig meira. Taka á móti fleiri gestum. Blaðra við unglingana. Skila ketti. Hugsa um mína ketti. Leggja mig. Og núna er lífið og heilsan loksins komin í nógu gott lag til að elda veislumatinn. Uppvaskið og tiltektin má bíða.
Niðurstaðan er samt sú að við erum ekki orðin gömul. Það var nefnilega meira fjör, meiri hávaði og meira drasl í partýi gamla fólksins heldur en í unglingapartýinu kvöldið áður. Ha!
Um bloggið
Vilma sjálf
Tenglar
Ég sjálf
Gamla bloggið mitt
- Gamla bloggið mitt Vilma Stína
Klúbbar og félög
Eitt og annað sem ég tengist
- Ofurhugar Kúlasta fólk í heimi
- Skógarkettir Skógarkattaklúbbur Íslands
- Kynjakettir kattaræktarfélag Íslands
Kisusíður
Hinar og þessar kisusíður
- Aliosha's Aliosha og Hrund
- Eldibrands Margrét Birna og hennar kisur
- Hlíðarenda Heimasíða Ásdísar
- Vetrarheims Heimasíðan mín
- Björgvinjar Áslaug vinkona mín á þessa síðu
Bloggarar
Hinir og þessir skemmtilegir
Athugasemdir
you partyanimal you
það væri nú annað hvort að þið væruð betri í að halda partý en unglingarnir ... það er ekki partý fyrr en eitthvað brotnar, einhver grætur eða heimilið lagt í rúst
Rebbý, 10.4.2009 kl. 21:14
...enda með meiri reynslu, sjáðu til!
Hrönn Sigurðardóttir, 11.4.2009 kl. 00:17
Í hvaða mánuðum má ekki tína kræklinga? Þeim sem enda á ber?
Hrönn Sigurðardóttir, 11.4.2009 kl. 00:18
Almenna reglan er að það má týna krækling í mánuðum sem hafa "r" í nafninu. Semsagt öllum mánuðum nema: maí, júní, júlí, ágúst. En áður en maður týnir þá á haustinn er betra að kíkja á upplýsingar um hvort varað sé við að týna þá.
Vilma Kristín , 11.4.2009 kl. 00:31
aaaaaaaa alveg rétt!
Hrönn Sigurðardóttir, 13.4.2009 kl. 20:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.