3.4.2009 | 22:19
Mannrán... eða þannig
"Þarna kemur hún...", sagði glerlistakonan brosandi. Bibba skellti uppúr. Henni fannst herbergisfélagar mínir sniðugir og uppátækjasamir. Ég hlammaði mér í stólinn minn og reif upp skyrdósina mína. Að deyja úr hungri. Deyja úr hungri og þorsta. Enda ekki búin að fá vott né þurrt síðan snemma um morgunin. Aðfram komin hámaði ég í mig skyrið á með þau hin töluðu um hvað þau væru sniðug. Bibba hló ennþá.
Ég eyddi semsagt deginum í rannsóknum. Nákvæmlega. Mínir indælu herbergisfélagar, líffræðingurinn og glerlistakonan, tóku sig saman og nuðuðu í mér þar til ég gaf eftir. Þetta var fullkomið samsæri hjá þeim og til að fá þau til að hafa hljóð samþykkti ég að kíkja á bráðamóttökuna. Þanngað var mér svo skutlað, svona til að vera viss um að ég færi ekki eitthvað annað. Og þar var ég svo skilin eftir. Símalaus og alls laus. Samsæri.
Á móti mér tók allskonar sniðugt fólk sem sýndi mér þvílíkan áhuga að ég hálf fór hjá mér. Ungi vingjarnlegi hjúkrunarfræðingurinn tók niður ítarlega sjúkrasögu, mældi hita og tók blóðþrýsting. Hún gerði líka mjög heiðarlega tilraun til að taka blóðprufu. Auðvitað er ég með "erfiðar" æðar, svona æðar sem liggja djúpt og springa við minnsta hnjask. Þegar ekkert blóð ætlaði að nást út reyndi hún að nota sprautu til að draga blóðið úr mér, það var eiginlega bráðfyndið að horfa á þessar tilraunir. Nú er ég út stungin á báðum höndum og marin. Þakka herbergisfélugunum í hljóði í hver sinn sem ég finn fyrir þessu.
Svo hitti ég krúttlega litla lækninn sem sennilega er svona 14 ára en agalega klár. Hann tók líka niður ítarlega sjúkrasögu og potaði, togaði og teygði. Það kom reyndar í ljós að hann er sérstakur áhugamaður um hlustunarpípur og hlustar allt sem hann nær í. Hann eyddi góðum tíma í að hlusta og hlusta. "Ég heyri eitthvað hljóð í hjartanu sem á ekki að vera...", sagði hann alvarlegur. Ég brosti og kinkaði kolli. Hann var nú ekki alveg að trúa mér að þetta væri bara hið fínasta hljóð... og áður en ég vissi af var ég komin í hjartalínurit sem góðlegi eldri hjúkrunarfræðingurinn sá um.
Svo fékk ég að bögglast um sjúkrahúsið og prófa að fara í sneiðmyndatöku. Þanngað fylgdi mér glaðlegur sjúkraliði sem virtist þekka alla sjúklinga sem við sáum. Myndatakan var líka bara bráðskemmtileg... þarna fékk ég að prófa eitthvað nýtt.
Næstur mætti taugalæknirinn. Hann var nú aldeilis bráðsmellinn. Hann fann mig inná setustofu og dró mig fram á gang. Hann þekkti greinilega lítið til á staðnum og snéri sér vandræðalegur í hringi í leit að aðstöðu. Svo ákvað hann bara að slá til og fyrsta skoðun hjá honum fór fram frammi á gangi. Sitjandi í sitt hvorum leðursófanum spjölluðum við saman á meðan sjúklingar voru keyrðir til og fá í rúmum á milli okkar. Hann tók niður ítarlega sjúkrasögu og svo potaði hann, togaði og teygði og lét mig gera alls konar hundakúnstir. Pínulítið fyndið að vera í læknisskoðun frammi á gangi.
Eftir smá meiri setustofu og ótrúlega spennandi spænska sápuróperu fékk ég aðra skoðun hjá skemmtilega taugalækninum, sem hafði nú fundið skoðunarherbergi. Potað, togað og teygt. Prófa að snúa á hvolf. Prófa að elta putta. Og svo enn ein eyrnaskoðunin.
Eftir fimm tíma af rannsóknum og poti fékk ég að fara heim... eða í vinnuna réttara sagt. Svona eftir á er ég auðvitað herbergisfélugunum þakklát. Ef ég hefði ekki farið hefði ég sennilega eytt helginni í að spá í alla hræðilegu sjúkdómana sem gætu verið að mér. Höfuðkvalir, svimi, doði í andliti og breytt skyn eru auðvitað ekki skemmtileg einkenni. Ég veit reyndar ekki enn hvað er að mér, það er svona eitt og annað sem búið er að týna til... og hellingur sem er búið að útiloka. Nú taka við stífar jógaæfingar a la líffræðingur, heit böð, bakstrar og bólgueyðandi lyf með það að markmiði að eyða vöðvabólgunni. Svo fer ég aftur að hitta skemmtilega og uppátækjasama taugalækninn. Hann bauð mér að koma aftur, í svona óvissuferð... hitta hann einhvers staðar í deild sem hann vinnur ekki í. "Ég hlýt að finna einhverja aðstöðu..." , sagði hann um leið og hann brosti og kvaddi.
Það er ekkert svo leiðinlegt að láta ræna sér ef maður fær að upplifa fullt af ævintýrum í staðinn :)
Um bloggið
Vilma sjálf
Tenglar
Ég sjálf
Gamla bloggið mitt
- Gamla bloggið mitt Vilma Stína
Klúbbar og félög
Eitt og annað sem ég tengist
- Ofurhugar Kúlasta fólk í heimi
- Skógarkettir Skógarkattaklúbbur Íslands
- Kynjakettir kattaræktarfélag Íslands
Kisusíður
Hinar og þessar kisusíður
- Aliosha's Aliosha og Hrund
- Eldibrands Margrét Birna og hennar kisur
- Hlíðarenda Heimasíða Ásdísar
- Vetrarheims Heimasíðan mín
- Björgvinjar Áslaug vinkona mín á þessa síðu
Bloggarar
Hinir og þessir skemmtilegir
Athugasemdir
Vilma! Þú verður líka að fara að taka frá tíma til að gera ekki neitt! Manstu hvernig það er gert? Maður situr bara... les.... prjónar... fer út að ganga... ALLS engin vinna, það er þó leyfilegt að hugsa um vinnuna - en bara rétt á milli annarra hugsana um ekki neitt!
Hrönn Sigurðardóttir, 4.4.2009 kl. 01:11
þú ert náttúrulega bara erfiður sjúklingur !!!
þakka líffræðingnum og glerlistakonunni kærlega fyrir að hafa rænt þér og skilið þig eftir niðri á bráðamóttöku ... næst þurfa þau að ræna þér og skilja eftir tölvulausa og símalausa á spænskri strönd (ég kem auðvitað með) þar sem setið verður og horft út á hafið + á sætu strákana, með kokteil í hönd og slappað af
Rebbý, 4.4.2009 kl. 03:46
Hahahaha. Þau voru ekkert smá góð með sig, herbergisfélagar þínir þegar þau sögðu mér að þau hefðu farið með þig niður á bráðamóttöku og skilið þig eftir. Þetta líkar mér. Er búin að panta að fá að taka þátt í næsta samsæri :)
Bibba (IP-tala skráð) 4.4.2009 kl. 13:59
Bráðamótakan er staður upplifanna. Lenti þar inni fyrir réttum 2 árum vegna þráláts svima. Þegar í ljós kom að ég hafði verið innlögð á sjúkrahús hér í DK 5 mánuðum og 25 dögum áður, var ég meðhöndluð eins og eiturefnaúrangur. Mjög spes
Guðrún Þorleifs, 5.4.2009 kl. 08:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.