10.3.2009 | 22:15
Með heiminn á herðunum...
"Þið vilduð bara hitta mig aftur...", kallaði verndarengillinn til okkar hlæjandi frá pallinum. Þarna var hann mættur aftur, dagur tvö í afslöppun, kalda vatnið horfið og við búnar að kalla út viðgerðarmanninn. Hann byrjaði á að skoða stillingar. Örugglega allt frosið. Tengikassinn opnaður og skoðaður. Úbbbssss. Nei, þarna sprautast vatn í allar áttir. Kíkja á kranana. Fullt af vatni. Úbbsss. Þarna vorum við búnar að sitja án kalda vatnsins meiri hluta dagsins, kalla út viðgerðarmann, láta hann keyra langa leið... bara til að komast að því að vatnið hafði verið tekið af sveitinni og small aftur í kranana um það leiti sem verndarengillinn renndi í hlað. En það var allt í lagi, við höfðum gaman af því að fá hann aftur í heimsókn.
Við fylgdumst spenntar með aðförum verndarengilsins. Fylgdumst með og reyndum að læra. Kíktum yfir öxlina á honum, gægðumst fyrir horn. Prinsinn hoppaði upp og niður af spenningi yfir þessu öllu saman og skríkti af kátínu þegar vatnið sprautaðist úr tengikassanum. Þetta var sko ævintýri.
Á laugardaginn var enn frost en til að gera eina tilraun, örvæntingarfulla tilraun, kveiktum við á rennslinu í pottinn. Kannski, bara kannski, væri þiðnað í leiðslunum. Potturinn kallaði á okkur: "komið inn... komið inn..." Við störðum ofan í tóman pottinn með vonarglóð í auga. Kannski, bara kannski, færi vatnið að renna. Kannski, bara kannski, myndi hann fyllast af heitu dásamlegu vatni sem við gætum buslað í. Ekkert gerðist.
Hvað var nú til ráða? Innst í einhverju skoti hugans kviknaði hugmynd. Hmm, við höfðum fylgst með. Og svo tók við "operation heitur pottur". Okkur leið eins og við værum pínulítið óþekkar þegar við fórum útí verkfærageymslu og sóttum verkfæri og slöngu. Svo héldum við inná baðherbergi þar sem vaskur var snögglega aftengdur, slöngunni komið fyrir uppá rörinu og hert að. Jebb. Allt tilbúið. Þegar heitt vatn var farið að streyma úr slöngunni skoppaði ég upp fyrir bústaðinn og gerði mig til. Ég fikraði mig nær, lagðist á magann og smeygði mér innum lítið gat. Og þar með byrjaði ferðalag mitt undir bústaðinn.
Steinarnir á jörðinni voru beittir og skárust inní hnén og lærin. Með slönguna sem úr sprautaðist heitt vatn í annari hönd mjakaði ég mér áfram á maganum í átt að rörum sem lágu úr heita pottinum. Ég mundaði slönguna og sprautaði á rörin. Slangan hitnaði og hitnaði og ég varð að biðja Rebbý að koma með tusku til að setja utan um slönguna. Eftir nokkra stund mjakað ég mér lengra. Æ, sprautði óvart á hausinn á mér. Kom mér betur fyrir, ef hægt er að segja það. Hélt áfram að sprauta heitu vatni á rörin. Heitt vatn lak um allt og ég fann að ég lá í polli af heitu vatni, um það bil að brenna mig á maganum. Að mér sóttu óþægilegar hugsanir þar sem ég rifjaði upp samtal mitt við líffræðinginn frá því daginn áður. Mýs. Væru mýs undir bústaðnum? Hvað ætti ég að gera ef þær kæmu?
Komið að mér að færa mig aftur, undir fleiri bita. "Æ!", hljóðaði ég: "Ég er föst..." Þarna lá ég ofan í polli af heitu vatni, föst undir bita... föst undir sumarbústað. Ég reyndi að ýta mér áfram með takmörkuðum árangi. Ég heyrði Rebbý veina af hlátri af pallinum... "Á ég að hringja á björgunarsveitirnar?", kallaði hún og ég reyndi að hemja hláturinn. Það er annars frekar óþægilegt að liggja fastur, rennandi blautur undir sumarbúsað.. dauðhræddur um að ein lítil mús stingi upp kollinum. Ég andaði eins mikið frá mér og ég gat og tókst einhvern veginn að bakka til baka. Jebb, ég kæmist ekki lengra hér. Ég mjakaði mér á maganum til baka og greip andann á lofti þegar ég fór beint úr heitum pollinum í ískaldan snjóinn.
Komið að því að færa sig og skríða undir hinu meginn. Rebbý kom slöngunni út hinu meginn á meðan ég reyndi að labba þanngað og hunsa það buxurnar voru að frjósa utan á mér. Þegar ég opnaði gatið hinu megin til að skríða undir mætti mér volgur lækur. Hmm... skrítið... ég skreið undir og kannaði aðstæður. Ó! Þarna var rör í sundur! Rörið sem átt að leiða heitt vatn í heita pottinn var alveg í tvennt. Ekkert annað að gera en að vera frumlegur. Ekki veit ég hvernig ég fékk þá flugu í höfuðið að ég hefði hæfileika sem pípulagningarmaður... en þarna lá ég undir bústaðnum, reyndi að hunsa það að ég var blaut og bæði köld og heit, hunsa það að vinnuaðsætður væru ömurlegar og að vöðvabólgan í öxlunum æpti á mig. Hunsa að grjóið undir mér var beitt og skar mig. Nei, ég full sjálfstraust. Ég meina hversu erfitt getur reynst að skeyta saman röri?
Uhh, það reyndist bara ansi snúið. Og eftir langan tíma og margar tilraunir varð ég að játa mig sigraða. Kannski ég ætti að skrá mig í kvöldskóla í pípulagningar, svona til að vera betur tilbúin. Það er merkilegt hversu fljótt heitt vatn frýs. Frýs í fötunum mínum, utan á mér. Og ísköld bögglaðist ég inní bústað, hoppaði í náttfötin og reyndi að koma í mig hita. Kannski ég færi bara aftur á morgun og reyndi aftur...
Um bloggið
Vilma sjálf
Tenglar
Ég sjálf
Gamla bloggið mitt
- Gamla bloggið mitt Vilma Stína
Klúbbar og félög
Eitt og annað sem ég tengist
- Ofurhugar Kúlasta fólk í heimi
- Skógarkettir Skógarkattaklúbbur Íslands
- Kynjakettir kattaræktarfélag Íslands
Kisusíður
Hinar og þessar kisusíður
- Aliosha's Aliosha og Hrund
- Eldibrands Margrét Birna og hennar kisur
- Hlíðarenda Heimasíða Ásdísar
- Vetrarheims Heimasíðan mín
- Björgvinjar Áslaug vinkona mín á þessa síðu
Bloggarar
Hinir og þessir skemmtilegir
Athugasemdir
á aldrei eftir að gleyma þessu litla "Æi" sem kom á undan "ég er föst" sem rétt náði að hljóma áður en tístið byrjaði í þér ...hélt í alvörunni að þú værir nú farin að leggjast full langt til að fá fleiri karlmenn í heimsókn í bústaðinn híhíhíh
en ... mæli með pípulagninganámskeiði því ég er sannfærð um að þú varst helv nálægt því þar sem þú lást svona þokkafull með aðra löppina upp í loft (eins og stelpurnar í rómantísku myndunum þegar draumaprinsinn er að kyssa þær) í freðnum buxum
hvernig eru harðsperrurnar í maganum, lærunum, kálfunum, herðunum, handleggjunum og BÍB?
Rebbý, 10.3.2009 kl. 22:49
Hmm.... Þetta var skemmtilegur draumur, Vilma mín.... ehum... ehumm....... ehumhumhumhm......
Rebbý... hvað á það að þýða að vera ekki með myndavélina við hendina við svona viðburði!
Ég er að sjá þetta fyrir mér.... úff,... nei, ég næ ekki svona langt í hugarfluginu eins og er.... þarf að æfa mig aðeins betur að sjá þetta fyrirmér.
Vilma, er allt í lagi með þig núna? Og.. hvernig er það... ertu að blogga úr sumarbústaðnum? Hvernig ferðu að því? Þurfirðu að vefja koparvír utan um símavírinn hjá nágrannanum, og nota gamaldags módem til að skrifa þetta?
Var ekki planið að ... slaka á? Skríða undir bústað, misblaut, misheitt og miskalt, misföst, og mis hitt og þetta.... með mýsnar veltandi fyrir sér, hvaða svaka framkvæmd þetta væri......?
Ég glotti! Skammaðu mig bara ef þú vilt, en ég glotti :-)
Einar Indriðason, 10.3.2009 kl. 23:19
Já, harðsperrurnar... maður fær víst harðsperrur á skrítunum stöðum við svona framkvæmdir en ég er öll að koma til!
Einar! Hvort sem þú trúir því eða ekki þá var myndavélin með í þetta skiptið. Þeir sem hafa áhuga geta kíkt hér undir myndaalbúm (sjá Efni hér ofarlega til vinstri)... myndir að prinsinum að sofa í frostinu og fullt af myndum af "operation sumarbústaður"
Vilma Kristín , 10.3.2009 kl. 23:31
Ég er í KASTI...
Guðrún Þorleifs, 11.3.2009 kl. 00:56
Frábært!
Hrönn Sigurðardóttir, 11.3.2009 kl. 07:48
hahahhaha góðar myndir...........
Hrönn Sigurðardóttir, 11.3.2009 kl. 07:49
Hahahaha þú ert nú alveg milljón ! Föst undir sumarbústað. Heppin að það var ekki í Ástralíu. Þar er eitthvað miklu hættulegra en mýs sem lifir undir húsunum.
Bibba (IP-tala skráð) 11.3.2009 kl. 21:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.