Verndarengill á vetrarkvöldi

Það var nístingskuldi. Nístingskuldi. Ég andaði frá mér og fylgdist með andadrættinum breytast í þétta gufu. Svo hjúfraði ég mig aðeins betur ofan í sófann og dró eina sængina betur upp að andlitinu. Ég teygði vinstri höndina varlega undan sængunum og undir aðra hrúgu, þreifaði mig áfram undir sængur, inn undir ullarteppi og létti þegar ég fann heitar tær á prinsinum. Kippti höndinni til baka undir mína sængurhrúgu. Það var kalt. Ískalt.

Ég leit til hliðar á Rebbý sem hálf lá í sófanum við hliðina á mér, hún kíkti aðeins undan sænginni sem hún var með breidda upp fyrir haus. Hún andaði frá sér, flissaði yfir gufunni og nikkaði til mín. Ég brosti til baka. Var þetta ekki alveg týpískt fyrir okkur? Svo reyndum við að gera aðgerðarplan, svona plan A... plan B...

Þarna vorum við staddar lengst uppí sveit. í afslöppunarferð. Í sumarbústað. Á köldu vetrarkvöldi. Nístingsköldu vetrarkvöldi.

Ferðin hafði byrjað vel. Ég var reyndar meira en klukkutíma of sein heim úr vinnunni, kemur kannski sumum ekki á óvart. Svo var ég ekki alveg búin að pakka, enda óskipulögð með afbrigðum. Svo áttum við eftir að versla smá mat. Okkur var boðið uppá Daloon vorrúllur í búðinni og konan með kynninguna uppskar Daloon lagið í kaupbæti. Svo brunuðum við... á hæfilegum hraða... austur á bóginn. Tilbúnar að slaka á í 3 daga, liggja í heita pottinum, sofa, borða góðan mat, góna á kellingarmyndir og leysa lífsgátuna. 3 dagar í að gera ekki neitt.

Ég veit ekki hvort ég get mælt með því að reyna að finna sumarbústað í myrkri að vetri til í ómerktu sumarhúsahverfi eftir dularfullu korti. "Er það kannski þessi gata?", spurði Rebbý. "Er þetta gata?", svaraði ég. Svona þvældumst við góða stund um. í gegnum skafla, upp brekkur, hægri beygjur, vinstri beygjur. "Eru engar merkingar?" Við vorum nú ekkert á því að gefast upp svo við héldum áfram að reyna að láta hverfið passa við kortið. "Erum við komin?", gaulaði prinsinn úr aftursætinu í þúsundasta sinn. Þetta ævintýri okkar um sumarhúsahverfið skilaði þó einu. Jebb, Rebbý er orðin ótrúlega góð að bakka upp brekkur, í snjó á myrku kvöldi eftir ótrúlega margar svoleiðis ferðir. Við vorum sko ekkert að keyra bara beint áfram...

Loksins fundum við bústaðin. Fullar af eftirvæntingu stukkum við útúr bílnum og hömuðumst við að bera allt inn, ganga frá á rétta staða. "Ahhhh...", heyrðist í Rebbý um leið og við hentum okkar á sófann. "Er ekki svolítið kalt?", spurði ég. Við höfðum nú farið eftir öllum leiðbeiningum um stillingar og vorum búnar að hækka á ofnunum. Við gerðum skyndiathugun. Allir ofnar ískaldir. Ískaldir. Út í hitageymslu. Á þetta að vera svona? Á þetta að vera hinseginn? Var að renna heitt vatn? Eða ekki?

Á endaum urðum við að gefast upp. Hringja í Verndarengilinn okkar. Viðgerðarmanninn vígalega. Hann sagðist ætla að bruna til okkar. Væri ekki nema klukkutíma akstur frá. Vandamálið núna var að það var yfir tíu stiga frost úti. Og yfir tíu stiga frost inni. Prinsinn að sofna og við að frjósa. Prinsinum var hið snarasta pakkað kyrfilega inn í ullarteppi og sængur. Og við tók biðin kalda. Við styttum okkur stundir við að búa til gufu og reyna að horfa á sjónvarpið. Og tala um hvað okkur væri kalt.

"Bíll! Hann er kominn!" Við höfum aldrei verið jafn glaðar að hitta nokkurn mann. Verndarengillinn brosti og hóf strax störf. Eftir rúman hálftíma vorum við komnar með heitt vatn... og um klukkan tvö um nóttina var líka komið kalt vatn. Þvílíkur lúxus. Verndarengillinn hló að okkur og gerði lítið úr áhyggjum okkar af því að halda honum vakandi langt fram á nótt. Ekkert mál fyrir svona menn að stökkva af stað að bjarga dömum í neyð.

Við kúrðum áfram undir sængunum og biðum eftir að hitinn bærist um húsið. Hægt og rólega jókst hitinn og fjögur leitið kominn nægilegur hiti til að við treystum okkur til að skríða uppí rúm og bíða spenntar eftir næsta degi í afslöppunarhelginni miklu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rebbý

já vinkona ... þú varst flott á kortinu sem meikaði ekki sens (fyrr en í dag þegar við áttuðum okkur á að við fórum vitlausu megin inn í sumarbústaðarhverfið) og ég er snillingur að bakka í snjónum, yfir sköflin sem við sáum ekki vegna myrkursins  .... en mest ertu þó snillingur í að halda uppi skemmtun í frostinu svona þegar það heyrðist í þér undan sænginni
svo "elskum" við verndarengilinn okkar totally og ég ætla bara að knúsa hann í kremju þegar ég sé hann næst í vinnunni

Rebbý, 9.3.2009 kl. 21:18

2 Smámynd: Vilma Kristín

Kreistu hann frá mér líka! Og já, svona eftir á að segja hefði kortið sennilega virkað betur ef við hefðum komið rétt inná svæðið... en hey, við fundum þetta á endanum og við lifðum af frystibústaðinn... :)

Vilma Kristín , 9.3.2009 kl. 21:20

3 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

sumarhús.... frystihús?

Hrönn Sigurðardóttir, 9.3.2009 kl. 22:39

4 Smámynd: Guðrún Þorleifs

Cooooooolll l

Guðrún Þorleifs, 9.3.2009 kl. 22:41

5 Smámynd: Einar Indriðason

Svalt!

Einar Indriðason, 9.3.2009 kl. 23:15

6 identicon

Þið heppnar að þekkja svona vinalegan viðgerðarmann !

Bibba (IP-tala skráð) 10.3.2009 kl. 10:50

7 Smámynd: Rebbý

kreisti verndarengilinn okkar tvisvar í dag og hann bara hló ... fannst bara gaman að koma og hjálpa okkur

Rebbý, 10.3.2009 kl. 22:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Vilma sjálf

Höfundur

Vilma Kristín
Vilma Kristín
The Worrying kind
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband