21.1.2009 | 02:58
Ég var þar!
Maðurinn sem stóð við hliðina á mér nikkaði til mín áður en hann beygði sig niður, opnaði bakpokann sinn og dró uppúr honum pott og sleif. Svo rétti hann úr sér, leit til mín og brosti andartak, byrjaði svo að slá í pottinn sinn með sleifinni. Með sama takti og ég sló í minn pott með minni sleif.
Ég hefði ekki viljað missa þessum degi. Ég mun muna hann alla ævi. Áður en ég lagði af stað í vinnuna gerði ég hljóðprufu heima og valdi þá sleif sem olli sem mestum hávaða. "Gerum við byltingu í dag?", spurði saxafónleikarinn mig við kaffivélina rétt um hádegisbilið. Ég kinkaði kolli, hann spurði til baka hvort ég væri vel búin og ég jánkaði aftur, sagðist vera með pott og sleif. "Plast eða tré?", spurði hann sem sjálfur var á leiðinni niðrí bæ til að mynda. Ég sagðist að sjálfsögu hafa tekið með tré sleif enda skapaði hún meiri hávaða. Svo rétt áður en ég hélt úr húsi kom fótboltaráðgjafinn og fékk að prófa: "Já, þetta virkar..." sagði hann með glampa í augum eftir að hafa slegið nokkrum sinnum í pottinn.
Og svo áður en varði var ég stödd, fremst við alþingishúsið, berjandi pottinn minn á meðann kennarinn sló saman pottlokunum sínum af mikilli snilld. Kraftur þarna og samheldnin er ólýsanleg. Þetta er svona "you had to be there" móment. Fyrir utan rólegt rölt í kringum alþingishúsið þar sem við misstum ekki úr takt héldum við okkur að mestu framan við húsið innan um fullt af allskonar fólki, stóðum og gerðum hávaða. Með lúðra þeytta fyrir aftan okkur og sírenur á fullu. Þarna var fólk með heilu trommusettinn og fólk með kökubox. Alls konar fólk. Fólk eins og ég. Bara venjuleg húsmóðir úr Grafarvogi sem ofbýður spillingin, hrokinn og sem kvíðir framtíðinni með síhækkandi lánum og samdrætti. Þarna var aldrað fólk og unglingar. Allir sáttir. Allir með sama tilgang. Við erum kannski ekki öll sammála um hvað má betur fara eða hvernig á að bæta það. En við erum öll sammála um að eitthvað þarf að gera. Einhver þarf að bera ábyrgð. Einhver þarf að bregðast við. Þarna var fólk sem þreytt og búið að fá nóg.
Hávaðinn var ærandi. Þegar við gengum í burtu söng í eyrunum á okkur og ég fann til í þeim í þónokkuð langan tíma. Enda þegar ég gaf nokkrum vinnufélugum mínum sem fylgdust með beinni útsendingu smá hljóðdæmi þoldu þau um 3 sekúndur. 3 sekúndur af bara mér með einn pott. Sjónvarpið og myndirnar ná ekki að túlka nema brot af hverngi var að vera þarna. Bara brot af hávaðanum. Bara brot af samkendinni. Bara brot af þrautseigjunni.
Við vorum venjulegt fólk að framkvæma óvenjulegan gjörning. Standandi, skapandi sársaukamiknn hávaða. Flest örugglega fólk, eins og ég, sem hefði ekki látið sér detta í hug að mótmæla fyrir nokkrum mánuðum síðan. Ég hefði aldrei, aldrei, trúað því að ég ætti eftir að standa þarna... berjandi minn pott... að reyna að skipta máli. Eftir endalausar stöður á Austurvelli á laugardögum þá var þetta svona næsta skref. "Þið viljið ekkert hlusta, þið kallið okkur skríl, viljið þið elsku bestu... vakna uppaf blundinum? Vakna og sjá að þjóðin er kvalin?" Ég hef hingað til talið mig hluta af þjóð, ég fer auðvitað og mótmæli fyrir mig, fyrir mig og framtíð barnanna minn. Ég hef ekkert umboð til að mótmæla fyrir aðra, en ótrúlega margir segja "takk fyrir að nenna... takk fyrir að fara", en ég er samt bara að gera þetta fyrir mig og koma minni skoðun á framfæri. Vonandi tekur fólk sem er líka óánægt við sér og mætir, allavega á laugardagsmótmælin.
Ég er kannski skríll núna en ég er líka hluti af þjóðinni. Ég skilgreini mig þó aðalega sem húsmóðir og forritara, hvorki róttæk né pólitísk - sem vill bara að þeir sem stjórni landinu grípi fastar um þjóðinni og leiti allra leiða til að stöðva spillingu. Að alþingi einbeiti sér að stórum og mikilvægum málum en ekki því hvort selja eigi áfengi í almennum verslunum.
Þjóðin var í Alþingisgarðinum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Um bloggið
Vilma sjálf
Tenglar
Ég sjálf
Gamla bloggið mitt
- Gamla bloggið mitt Vilma Stína
Klúbbar og félög
Eitt og annað sem ég tengist
- Ofurhugar Kúlasta fólk í heimi
- Skógarkettir Skógarkattaklúbbur Íslands
- Kynjakettir kattaræktarfélag Íslands
Kisusíður
Hinar og þessar kisusíður
- Aliosha's Aliosha og Hrund
- Eldibrands Margrét Birna og hennar kisur
- Hlíðarenda Heimasíða Ásdísar
- Vetrarheims Heimasíðan mín
- Björgvinjar Áslaug vinkona mín á þessa síðu
Bloggarar
Hinir og þessir skemmtilegir
Athugasemdir
Dagurinn sem breytti öllu! Ólýsanlegur dagur!!
Hrönn Sigurðardóttir, 21.1.2009 kl. 07:30
Já þetta var hamingjudagur. Dagurinn sem Bush hvarf af vettvangi og alþingi var vakið upp frá dauðum.
Bibba (IP-tala skráð) 21.1.2009 kl. 09:25
já, mér heyrðist strax í gær að það hefði verið þess virði að "skrópa" um tíma í vinnunni og fara ... en þú allavega ert búin að fá mig á laugardagsmótmælin en ég er einmitt eins og þú sagðir einhver sem hefði ekki dottið þetta til hugar fyrir nokkru
Rebbý, 21.1.2009 kl. 15:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.