16.12.2008 | 22:56
Jólabakstur að okkar hætti
Í kvöld, eftir langan og strangan dag, datt okkur Snjóku í hug að taka skurk í jólabakstrinum. Lakkrístoppar voru efstir á óskalista barnanna og okkar svo við brunuðum um búðina og tættum úr hillunum súkkulaði, lakkrískurli og eggjum á ótrúverðum hraða.
Samvinnan og sannur jólaandi sveif yfir öllu þegar unglingarnir hópuðust að okkur og heimtuðu að fá verkefni. Ekkert mál. Og verkefnin tættust niður. Snjóka skyldi eggjahvítur frá rauðum eins og sannur bakari. Þrjú í skál. Þrjú í skál. Þrjú í skál. Og vigtaði svo fullt af skömmtum af púðursykri. Unglingarnir söxuðu súkkulaði eins og óðir væru, suðusúkkulaði og rjómasúkkulaði, og skálarnar fylltust og dreifðust um borðið. Á meðan vann matvinnsluvélin á fullu og þeytti eggjahvítur fram og til baka. Ég reyndi að gera mig ómissandi í að blanda súkkulaði varlega saman við loftþeyttar eggjahvítur. Á meðan spiluðum við jólalög á fullu og sungum öll, hvert með sínu nefi. Snjóka setti reyndar upp smá efasvip þegar hún gerði sér grein fyrir að það eru engar tölur á ofninum svo hann er stilltur eftir tilfinningu. Það var allt að gerast og stefndi í glæsilegan árangur. Það er að segja þar til Snjóka fór að láta ljós sitt skína.
Ofurvarlega vigtaði hún akkúrat rétt magn af súkkulaði til að setja í uppskriftana á vigtinni. Og hellti svo afgangnum af súkkulaðinu útí eggjahvíturnar. Augnablik stóðum við með skelfingarsvip en skelltum svo bara uppúr og til að vera alveg viss um að þetta væri nóg bætti ég smá meiru útí og svo skelltum við þessu á plötu.
Snjóka tók svo fagmannlega út bökunarplötu úr ofninum. Ofurvarlega því platan var heit. Hún tók þétt um plötuna með ofnhanskanum og kramdi um leið fremstu kökurnar. Úbbss... og við hlógum.
Snjóka ákvað að flytja ein nýbakaðar kökur á milli borða með því að taka í miðjuna á bökunarpappírnum sem var undir. Það gekk ljómandi fyrstu sekúnduna en svo var það ekkert annað en hundaheppni sem kom í veg fyrir að nýbökuðu kökurnar féllu í gólfið. Og við hlógum.
Þetta var nú samt að ganga ágætlega... við breyttum út bökunarpappír og skelltum á plötur, rifum út plötur, losuðum kökur. Gekk fínt. Þar til Snjóka gleymdi að setja bökunarpappír undir og skellti kökunum beint á álpappír. Við hrundum næstum niður að hlátri þegar við tókum kökurnar út. Og eiginlega viljum báðar eiga heiðurinn af þessu smá klúðri... Þetta var of brilliant.
"Hvenær settum við þær inn?", spurði Snjóka þar sem við stóðum og góndum inní tilfinningastillta ofninn minn. "Uhh.... man ekki...", sagði ég og yppti öxlum. Svo á endanum voru flestar kökurnar bakaðar bara svona sirka tíma í sirka stilltum ofni útbúnar úr sirka uppskrift.
Svo ákváðum við að við værum það góðir bakarar að við myndum ráða við að spila við unglingana (heimasætuna, heimalinginn og sætukopp) og prinsinn. Við gleymdum okkur Partý og co - og fyrst nú fórum við að klúðra bakstrinum... eða svona næstum. Við stóðum upp frá spilinu til að skipta um plötu, en ég fór að vaska upp og Snjóka að raða á nýja plötu og við steingleymdum plötunni sem átti að taka út. Rétt slapp fyrir horn. Svo nú ætluðum við að passa okkur og spruttum á fætur til að taka út næstu plötu en fundum hvergi ofnhanskana frægu... smá panikkast... fundum nýja, drifum plötuna út bara til að horfa á kökurnar falla í pínulitlar klessur, hálfhráar, frekar ólystugt. Og hugmyndaríku bakararnir skelltu þeim bara aftur inn seinna um kvöldið, ánægðar horfðum við á þær rísa fallega bara til að finna vonbrigðin ná yfirhöndinni þegar þær féllu aftur.
Nú erum við hálfnaðar með að baka toppana... önnur atlaga verður gerð seinna í vikunni. Á endanum tekst okkur að gera sannfærandi jólasmákökur... ég er viss um það...
Um bloggið
Vilma sjálf
Tenglar
Ég sjálf
Gamla bloggið mitt
- Gamla bloggið mitt Vilma Stína
Klúbbar og félög
Eitt og annað sem ég tengist
- Ofurhugar Kúlasta fólk í heimi
- Skógarkettir Skógarkattaklúbbur Íslands
- Kynjakettir kattaræktarfélag Íslands
Kisusíður
Hinar og þessar kisusíður
- Aliosha's Aliosha og Hrund
- Eldibrands Margrét Birna og hennar kisur
- Hlíðarenda Heimasíða Ásdísar
- Vetrarheims Heimasíðan mín
- Björgvinjar Áslaug vinkona mín á þessa síðu
Bloggarar
Hinir og þessir skemmtilegir
Athugasemdir
Veit ekki hvort ég öfunda ykkur meira af.... smákökunum eða Partí-spilinu.... bara gaman :D
adda (IP-tala skráð) 16.12.2008 kl. 23:34
hahaha, bíddu mér fannst ég vera eins og Stepford wife í eldhúsinu hjá þér í kvöld. Skil ekkert í þessum lýsingum þínum
Adda, ég arfleiði þig hér með af slatta af bæði sörum og lakkrískurl-kökum. Þær eru ljótar en góðar á bragðið
Snjóka, 16.12.2008 kl. 23:50
Lýsingin á bökuninni... kom með spurningu hjá mér.... Á hverju voruð þið þegar þið voruð að baka? :-)
Einar Indriðason, 16.12.2008 kl. 23:53
Adda, full ástæða til að öfunda okkur... hrikalega skemmtilegt og huggulegt kvöld... þrátt fyrir klúður og falskan söng!
Snjóka, uhhh... stepford wife... veit ekki. Jú, jú, segjum það bara... eins og biluð stepford wife... :) og kommon... ef þínar kökur eru ljótar hvað er þá hægt að segja um mínar? Það voru allir sammála um að þær væru mun ljótari en þínar!
Einar, það sem við vorum á: jólagleði, söngvaseið, of stórum skammti af sykri, lakkrískurli og slatta af brytjuðu súkkulaði. Bannvæn blanda!
Vilma Kristín , 17.12.2008 kl. 00:04
hehe já einhver bilun í kóðanum hjá mér held ég. Spurning hvort það þurfi að debugga
Snilldarkvöld og hér eftir baka ég sko ekki lakkrískurl kökur með neinum öðrum
Snjóka, 17.12.2008 kl. 00:11
Já, greinilega bannvæn blanda :-)
En... gott að þetta tókst samt, án teljandi stórslysa.
Einar Indriðason, 17.12.2008 kl. 08:36
þið eruð náttúrulega bara snillingar ... hlakka til að fá að smakka
Rebbý, 17.12.2008 kl. 09:57
Djísuss hvað þið eruð duglegar stelpur !
Bibba (IP-tala skráð) 17.12.2008 kl. 15:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.