10.11.2008 | 23:03
Á svikaslóðum
Ég kinkaði ákaft kolli og hlustaði af athygli á manninn í símanum. Á hinum endanum var virðulegur og tiltölulega hátt settur maður á vegum ríkislögreglustjóra. Hann var alvarlegur og talaði hratt. Ég jánkaði á réttum stöðum og hripaði hjá mér minnisatriði. Þetta var sko greinilega alvöru leynilögga sem hafði grafið upp númerið mitt og hringt til mín í vinnuna eftir að ég sendi til hans smá fyrirspurn. Ok, það er kannski ekki erfitt að finna númerið mitt, en þetta var nú pínu spennandi engu að síður. "Ég er ekki búinn að lesa allt sem þú sendir mér en ég bara varð að hringja í þig og fara yfir þetta...", sagði hann og ég skyldi að þetta var svo sannarlega alvörumál sem ég hafði blandast í.
Ég var búin að eyða klukkutímanum á undan í rannsóknarstörf. Svona í leynilögguleik. Og með smá athugun og eftirliti var nú aljþjóðlegt svikamál að opnast, svikarar að afhjúpast. Og nú var lögreglan farin að blandast í málið. Hringja í mig. Ræða við mig af alvöru. Hringja aftur í mig með óskir um kæru og leiðbeiningar. Hjartað sló aðeins örar og ég fann að ég varð dálítið reið, reið fyrir hönd fórnarlambana en um leið glöð að ná að leika á leiðindapésana.
Heimalingurinn minn, saklausasta stúlka í heimi, lenti klóm samviskulausra svikara sem er greinilega ekkert heilagt. Nokkurs konar nígeríusvindl, svona útsmogið nígeríusvindl sem erfitt var að sjá í gegnum. En einhvern veginn hringdi málið viðvörunarbjöllum, svona hjá hinum og þessum. Og þegar allt var lagt saman og við lögðumst í rannsóknarvinnu á internetinu í dag og krufðum tölvupóstana frá svikurunum í tætlur afhjúpaðist málið og við náðum að koma í veg fyrir að þeir fengju peninga.
Þetta nútíma svindl byggir á að gabba stúlkur sem skráðar eru hjá umboðsstofum sem au pair. Svikararnir þykjast vera fjölskylda í leit að stúlku. Bjóða góð laun, létta vinnu og góða aðstöðu á spennandi stað. Senda myndir. Og um leið og þeir fá einhvern til að bíta á er "umsóknarferlið" sett í gang hjá "góðri" ferðaskrifstofu. Eina sem stúlkan þarf að gera er að borga ferðaskrifstofunni ágætan pening fyrir hinu og þessu. Hljómar allt mjög sannfærandi til að byrja með. En ef eitthvað hljómar of vel til að vera satt þá er það yfirleitt niðurstaðan og svoleiðis var það líka í þessu máli. Svo tekur við innheimtuferli. Tölvupóstar að reka á eftir greiðslum. Símtöl frá fjölskyldunni að biðja um peninginn. Síðastliðinn laugardag talaði ég sjálf við "heimilisföðurinn", hann vildi ekkert ræða um sjálfan sig eða heimalinginn. "When can she pay the money?", spurði hann og ég útskýrði að allir bankar væru lokaðir. "She go monday morning?", hélt hann áfram og ítrekaði óskirnar með símtölum við heimalinginn í morgun. Mjög mikilvægt að borga. Og borga núna. Ekki seinna en strax.
Og með eftirgrenslun, rannsóknum og samtölu við sérþjálfaða lögreglumenn í svindlum blasti þetta ljóst við. Sama fólkið var fjölskyldan og ferðaskrifstofan. Ferðaskrifstofan var auðvitað ekkert annað en kjánalegur frontur með ókeypis netfangi. Ekkert finnst um fjölskylduna neins staðar. Heimasíðan sem vísað var á hefur vafasamar umsagnir. Og um fram allt það dularfyllsta var að ekki átti að borga peningana inná bankareikning heldur afhenda þá peningaflutningsfyrirtæki sem gerir allar greiðslur órekjanlegar og er víst vinsæl aðferð svindlara og þeirra sem hafa eitthvað að fela.
Nú erum við heimalingurinn að undirbúa kæruna. Það þarf að undirbúa hana vel, safna saman öllum gögnum, skrifa hjá sér hvernær símtöl fóru fram og hvað var sagt. Það er bæði þreytandi og ánægjulegt að vera uppljóstrari og rannsóknaraðili. Við erum hæstánægðar með okkur og stoltar árangri dagsins. Best af öllu var samt fyrir heimalinginn að geta sagt svikaranum sem hringdi miður sín yfir að hafa ekki fengið peningana sína að láta sig bara hverfa... engir peningar hér...
Um bloggið
Vilma sjálf
Tenglar
Ég sjálf
Gamla bloggið mitt
- Gamla bloggið mitt Vilma Stína
Klúbbar og félög
Eitt og annað sem ég tengist
- Ofurhugar Kúlasta fólk í heimi
- Skógarkettir Skógarkattaklúbbur Íslands
- Kynjakettir kattaræktarfélag Íslands
Kisusíður
Hinar og þessar kisusíður
- Aliosha's Aliosha og Hrund
- Eldibrands Margrét Birna og hennar kisur
- Hlíðarenda Heimasíða Ásdísar
- Vetrarheims Heimasíðan mín
- Björgvinjar Áslaug vinkona mín á þessa síðu
Bloggarar
Hinir og þessir skemmtilegir
Athugasemdir
duglegar heimalingurinn og þú
Snjóka, 10.11.2008 kl. 23:07
Flott hjá ykkur!
Ég var búin að heyra einhversstaðar af svona svindli! Nema mig hafi dreymt það - eða skipulagt það........
Hrönn Sigurðardóttir, 10.11.2008 kl. 23:22
Spennandi allt saman en eins gott að þú varst svona klók að fatta þetta áður en hún borgaði...
Laubba , 11.11.2008 kl. 08:58
gott að heimalingurinn var ekki komin lengra í ferlinu ... bömmer hvað engum er hægt að treysta (nema náttúrulega mér og þér og hinum vinunum okkar)
Rebbý, 11.11.2008 kl. 11:20
Eins gott að hún fór ekki út !
Bibba (IP-tala skráð) 11.11.2008 kl. 23:17
innlitskvitt, Sherlock Holmes
gott hjá þér að koma þessu áfram
Sigrún Óskars, 12.11.2008 kl. 19:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.