Oh! I wanna dance with somebody...

"Oh! wanna dance with somebody. I wanna feel the heat with somebody", sungum við sykursætu stelpuröddunum okkar þar sem við gegnum í átt að leigubílaröðinni. Við fórum frekar hægt yfir þar sem við vorum að æfa okkur á að detta ekki í hálkunni. Við vorum kátar og hamingjusamar, örugglega kátasta edrú fólkið í bænum. Það að við værum svona hressar var bara nokkuð gott þar sem kvöldið hafði ekki byrjað svo gæfulega.

Ég skoppaði á eftir MögguBiddu í átt að leigubílnum þegar við loksins höfðum lagt af stað niður í miðbæ nokkrum klukkutímum áður. Hálfan meter frá bílnum tókst MaggaBidda skyndilega á loft, en samt einhvern veginn svona í Slow motion og kútveltist á gangstéttinni, í nýju gullbuxunum og flottu gullskónum. Ég verð samt að segja að byltan var óskaplega þokkafull. Enginn dettur eins tignarlega og hún. Klukkan orðin tvö um nótt, við standandi útí nístandi vindi og ekkert annað að gera en að skella plástrum á verstu skeinurnar og skipta um föt. Ekki hægt að fara í bæinn í rifnum og tættum fötum.

Svo það var ástæða fyrir því að við fórum varlega þar sem við þræddum leiðina í gegnum miðbæinn í átt að leigubílunum sem áttu að ferja okkur heim aftur. Heim eftir að hafa dansað og dansað og dansað. Dansað við stelpurnar. Dansað við alla sætu vini hennar Rebbýar. Dansað við hvora aðra. Einhvern veginn hafði fyrirhuguð áfengisdrykkja farið útum þúfur en það stoppar okkur nú alls ekki í því að hafa okkur að fífli. Og þarna trítluðum við gaulandi slagara frá gullaldarárum okkar, lög sem eru víst margir áratugir síðan þau komu út. "Oh! wanna dance with somebody. I wanna feel the heat with somebody". Fram úr okkur tók vingjarnlegur maður sem gjóaði augun á okkur og glotti við.

"Finnst þér við ekki hæfileikaríkar?", spurði ég hann og samstundis vorum við búnar að eignast nýjan vin og bandamann. Hann ákvað að vera samferða okkur og njóta söngsins þó hann vildi nú ekki gefa út að við værum góðar. Ungur maður, haldandi á pizzu, tók fram úr okkur. "Hey! Ætlarðu að borða þetta einn?", kallar MaggaBidda á eftir honum. Og samstundis vorum við búnar að eignast nýjan vin og bandamann. Ungi maðurinn með pizzuna ákvað að slást í hópinn og fræða okkur allt um það hvað hann gæti borðað án þess að skemma línurnar. Við hjúfruðum okkur saman í leigubílaröðinni til að reyna að vinna á móti nístandi kuldanum og blöðruðum svo mikið að við tókum ekki eftir að við vorum búin að stífla alla röðina, ja, ekki fyrr en fólkið fyrir aftan okkur fór að hrópa og kalla hvort við ætluðum ekki að færa okkur áfram.

Það voru ekkert þreyttar stúlkur sem hoppuðu uppí sitthvorn leigubílinn á leiðinni heim á leið. Við sem höfðum setið geispandi klukkan hálf tvö og varla nennt að tygja okkur af stað ætluðum varla að nenna að fara heim. En núna vorum við alveg í okkar fínasta formi, hressar og kátar. Ég endaði á að bjóða nágranna mínum og samferðamanni í leigubíl í áframhaldandi spjall um alla heima og geima því ég var ekki að nenna að fara að sofa. Kettirnir voru hæstánægðir með að fá gest sem nennti að tala við þær stanslaust og klappa og knúsa og ég hæstánægð að hafa ástæðu til að þurfa ekki að fara að sofa. Nú er hinsvegar spurning hvort risið verði hátt á mér í kvöld í grillveislu með vinunum, það er orðið dálíið langt síðan ég dansaði tvær nætur í röð... ekki viss um að aldurinn sé eins hress sem þetta og ég...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rebbý

Vilma mín, ég hef alltaf sagt þér að ég á sæta vini og þessir voru extra sætir
Við erum aldeilis búnar að vera duglegar að djamma þessa helgina og gott ef ég bara næ ekki að sofa eitthvað í nótt eftir að hafa alveg gleymt því síðustu nótt því það var svo gaman með ykkur og öllum sætu strákunum
Nú er bara að sjá hvað við verðum sniðugar í vikunni með að finna ástæðu til að þú getir hitt hann aftur.

Rebbý, 26.10.2008 kl. 21:49

2 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Greinilega skemmtileg helgi :) Minnir mig einna helst á það þegar við vinkona mín fórum hér á árum áður í......... hvað hét nú aftur skemmtistaðurinn þarna uppi í Mjódd? Broadway?!? Dönsuðum frá okkur allt vit og létum hreint eins og fífl - án þess að ég sé á nokkurn hátt að gefa í skyn að þú og vinkonur þínar séu það.... :Þ  Fórum svo inn í bíl og keyrðum heim. Hafandi enda bara drukkið vatn allt kvöldið.

Við vorum oftsinnis spurðar að því hvort við ætluðum virkilega að keyra heim í þessu ástandi........

Hrönn Sigurðardóttir, 26.10.2008 kl. 22:54

3 Smámynd: Vilma Kristín

Rebbý, já þetta var sko almennileg helgi svona djammlega séð... veit ekki hvort ég ræð við fleiri svona helgar í bráð :) Og svo eru það ansi margir sem maður þarf að hitta aftur eftir alla skemmtunina...

Hrönn, það kemur sko bara nokkuð oft fyrir að við séum stimplaðar sem fífl eða kjánaprik, drukknar eða edrú, það er alltaf gaman :) Og hverjum er ekki sama þó hann líti stundum fíflalega út þegar maður nær að njóta lífsins.

Vilma Kristín , 27.10.2008 kl. 00:41

4 Smámynd: Vilma Kristín

Og ef einhver skyldi vera að misskilja eitthvað... þá kíkti nágranni minn bara í heimsókn og spjall og fékk bara vatnsglast, óskaplega saklaust (en takk samt fyrir að hafa látið ykkur detta í hug að þetta hefði verið eitthvað meira spennandi).

Vilma Kristín , 27.10.2008 kl. 01:06

5 Smámynd: Rebbý

ohh Vilma - fórst alveg með A+ einkunnina þarna

Rebbý, 27.10.2008 kl. 11:32

6 identicon

Vilma mín þó þú ráðir ekki við dansgólfið kvöld eftir kvöld er ég viss um að þú ráðir við ýmislegt annað kvöld eftir kvöld ...  

Eigum við eitthvað að ræða aldur og fyrri störf - Mega Skutla !!!

Magga budda (IP-tala skráð) 27.10.2008 kl. 14:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Vilma sjálf

Höfundur

Vilma Kristín
Vilma Kristín
The Worrying kind
Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband