Æ, hristi heilann!

Ég sat í myrku herbergi, aðeins smá ljóstýra gerði mér kleift að sjá handa minna skil. Þarna sat ég á stól sem venjulega er notaður fyrir blóðprufur, sat og horfði á son minn sofa djúpum svefni á skoðunarbekknum. Hann virtist eitthvað svo varnarlaus, hann andaði djúpt og taktfast, kúrandi undir bláu teppinu. Ljósa hárið var núna rautt og klístrað og fyrir ofan lá grisja, gegnblaut af blóði.

Ég tók í litlu máttlausu höndina og strauk létt um handarbakið. Leit á klukkuna. Það var kominn tími á að taka stöðuna, tími á að vekja hann. Ég ýtti við honum létt og fylgdist grant með andlitinu á honum. Engin viðbrögð. Ýtti aðeins fastar við honum og sagði nafnið hans: "Leó! Leó!" Mér til mikils léttis umlaði í honum, hann snéri aðeins uppá sig og opnaði augun. "Halló Leó", hélt ég áfram og fékk hann til að svara mér. Ég settist aftur og horfði á hann falla aftur inní svefn áreynslulaust. Ég athugaði stöðuna á ælubökkum og bréfþurrkum til að vera viss um að allt væri til staðar ef hann þyrfti að kasta meria upp.

Það má segja að dagurinn hafi farið á annan veg en ætlað var. Um hádegisbilið var hringt úr skóla prinsins. Þetta eru símtölin sem maður vill ekki fá. Það hafði orðið slys. Prinsinn slasaður og þyrfti aðhlynningu. Átti ég möguleika að koma á heilsugæslustöðina? Þau vildi ekki bíða eftir mér í skólanum, frekar koma honum sem fyrst undir læknishendur. Ok, hugsaði ég. Síðast þegar hann slasaðist í skólanum þurfti sjúkrabíl... þetta hlaut að vera betra. Vitalausa ég! Annars finnst mér nóg komið, innan við mánuður frá listaverkaóhappinu... nú þetta... og svo ekki meir í ár... takk fyrir.

Í þetta sinn hafði hann verið að hlaupa og dottið illa á höfuðið. Hann fékk gat á höfuðið sem ætlaði aldrei að hætta að blæða úr, og það blæddi mikið. Að lokum var sárið límt saman með einhverju undarlegu fjólubláu túpulími. Ok, gatið orðið fínt... eða þannig. Hann er reyndar með umbúðir á þessu sem voru settar þannig að það þarf að klippa hárið til að ná þeim af (hann þurfti hvort sem er á klippingu að halda).

Það sem verra er að hann er heilahristing. Verri heilahristing en hann hefur fengið áður. Læknirinn og hjúkrunarfræðingarnir vildu ekki hleypa okkur heim. Svo í rúma þrjá tíma sat ég á stól og fylgdist grant með hverjum andadrætti. Það er ekki nokkur leið að halda barninu vakandi, ef við náum að ýta við honum og fá hann til að opna augun fellur hann í svefn jafnharðann. Svo er hann svo slæmur að hann getur varla sest upp án þess að kasta upp.

Eftir daginn er hann búinn að ná að kasta upp á ótrúlega mikið á heilsugæslustöðinni, við þurftum næstum heilan hjúkrunarfræðing í að þurrka upp. Hann þurfti á klósettið og kastaði í leiðinni upp á biðstofunni. Hann var fluttur á milli herbegja og kastaði uppá ganginn. Hann kastaði uppá gólfið í tveimur skoðunarherbergjum fyrir utan alla gubbubakkana sem hann fyllti. Virkilega spennandi.

Nú er ég komin með heimalinginn til að sitja hjá mér. Við ýtum til skiptis við drengnum á hálftímafresti, reynum að fá hann til að svara einföldum spurningum. Tæmum gubbufötuna. Breiðum yfir hann. Bjóðum honum að drekka. Hann hinsvegar tæplega svarar okkur, grettir sig þegar við bjóðum honum að drekka og bætir við í fötuna. Þetta verður langt kvöld og löng nótt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Indriðason

Ouch!  Ég vona að hann nái sér fljótlega.

Einar Indriðason, 10.9.2008 kl. 18:17

2 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Batakveðjur!

Hrönn Sigurðardóttir, 10.9.2008 kl. 18:24

3 Smámynd: Snjóka

ææ vonandi batnar honum fljótt

Snjóka, 10.9.2008 kl. 19:27

4 Smámynd: Vilma Kristín

Smá update: frá því við komum heim um fjögur og til rúmlega sjö steinsvaf drengurinn og við náðum engu sambandi við hann. Þegar við vorum um það bil að tapa okkur úr áhyggjum tókst að vekja hann og meira að segja að koma smá næringu ofan í hann og hann kastaði ekkert upp, svo þetta lítur betur út. Hann talaði við okkur og var nokkuð skýrr þó hann lægi bara fyrir. Hann náði að halda sér vakandi í einn og hálfan tíma áður en hann datt útaf aftur. Nú steinsefur hann og samkvæmt fyrirmælum læknisins verður hann nú vakinn á klukkutímafresti í nótt.

Vilma Kristín , 10.9.2008 kl. 21:55

5 Smámynd: Laubba

úff þetta er svakalegt að lenda í þessu Sendi batakveðjur til hans og gangi ykkur vel að vaka í nótt!

Laufey

Laubba , 10.9.2008 kl. 22:11

6 Smámynd: Rebbý

æj - litla krúttið - kemst loksins í að skoða söguna hérna hjá þér, en í alvöru þá vil ég áfram update í símann og daman veit að ég gæti þurft að fara ef þig vantar far

Rebbý, 10.9.2008 kl. 23:02

7 Smámynd: Vilma Kristín

Meira update: erfið nótt að baki, gott að það er kominn dagur aftur. Prinsinn svaf mjög fast frá því fyrir níu og þar til núna klukkan átta. Skv. fyrirmælum ýtti ég við honum á klukkutíma fresti og reyndi að fá hann til að svara spurningum sem sýndu að hann væri í lagi. Stundum varð ég að láta mér "halló" þó nægja því ég náði ekki að fá hann til að segja meira.

Um eitt leitið byrjuðu uppköstin aftur. Og það aftur á móti þýddi löng símtöl við slysavarðstofuna og læknavaktina og ég endaði með enn ýtarlegri lista yfir atriði sem ég átti að fylgjast með (og kalla þá strax í sjúkrabíl). Nóttin rétt að byrja og ég átti eftir að þrífa ælu auk þess að fylgjast enn nánar með drengnum. Ég og heimasætan sátum því yfir honum hluta af nóttinni. Það má því segja að nóttin hafi einkennst af miklum og djúpum svefni hjá honum og engum svefni hjá mér.

Núna er hann búinn að vaka í hálftíma og meira segja kom niður frostpinna svo við erum jákvæð þessa stundina!

Vilma Kristín , 11.9.2008 kl. 08:29

8 identicon

Vonandi jafnar hann sig fljótt. 

Batakveðjur. 

Elín (IP-tala skráð) 11.9.2008 kl. 08:34

9 Smámynd: Rebbý

gott að heyra - vonandi er hann að jafna sig svo þú fáir smá hvíld í framhaldinu.

Rebbý, 11.9.2008 kl. 08:51

10 identicon

æ aumingja Leó.   Mikið er ég fegin að ég las ekki fyrr en núna.   Gott að honum skuli vera að skána.   Við Ásgeir biðjum að heilsa honum.

Bibba (IP-tala skráð) 11.9.2008 kl. 09:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Vilma sjálf

Höfundur

Vilma Kristín
Vilma Kristín
The Worrying kind
Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband