13.7.2008 | 22:50
Ooops, I did it again
"Varlega! Ekki rífa...", sagði ég í frekar skipandi tón þar sem ég stóð yfir Rebbý, Heimasætunni og Gamla (tengdasonurinn altso). Þau stóðu þétt í hnapp og bisuðu við að losa mjög svo flækt blómaskraut sem er partur af nýju ljósakrónunni minni. Þau sendu mér illt auga og héldu áfram að reyna að losa blóm og skraut í sundur.
"Láttu drenginn bara gera þetta... hann er með svo fima fingur...", sagði ég við heimasætuna sem mér fannst vera fullt harðhent við nýja uppáhaldið mitt. Gamli brosti, heimasætan gretti sig og Rebbý sprakk úr hlátri... og svo héldu þau áfram. Nýja ljósakrónan er svo flott! Hún er flottust í heimi! Hún er öðruvísi en allar aðrar krónur sem ég hef séð á ævinni.. og það besta er að hún er "alveg Vilma".
Ég hafði auðvitað alls ekki ætlað að skipta um ljósakrónu í stofunni. Bara alls ekki. Ekki frekar en ég ætlaði að endurskipuleggja fatahengið, búrskápinn eða henda matreiðslubókunum. Þegar ég er bara á annað borð lögð af stað er ég eiginlega náttúrufyrirbæri... og erfitt að stoppa mig. Ég fæ stanslaust nýjar og frábærar hugmyndir en hef ekki athygli til að klára neina þeirra. Svo ofan á allt draslið sem er í hrúgum um allt (því ég reif allt útúr öllum skápum) réðst ég á fatahengið í morgun, mokaði fram tonni af skóm og myndaði háar hrúgur af útifötum, reif niður geymslukassa úr hillum og tæmdi þá "skipulega" um ganginn. Svo málaði ég fataherbergið... í tveimur litum. Þegar ég góndi uppí loftið áðan og spurði Rebbý og Stóra bróðir hvað ég yrði lengi að mála loftið æptu þau bæði á mig. Stuttu seinna benti ég á nauðsyn þess að endurskipuleggja alla fataskápana og Rebbý stöðvaði mig af.
Það er ekki skrítið að þau tvö reyni að hafa hemil á öllum hugmyndunum mínum, þvílík er framkvæmdargleðin þessa dagana. Ég mála, skrúbba, skipulegg fram á nótt... nótt eftir nótt. Og það eru akkúrat þau tvö sem hafa fengið að finna mest fyrir þessu kasti mínu, sem er reyndar stærsta kast sem ég hef fengið um ævina, því ég hef tilnefnt þau sem sérlega aðstoðarmenn mína. Stóri bróðir sinnir bróðurlegum skyldum sínum og hengir upp ljós, skiptir um ljós og skiptir um tengla... rafmagnast svona á milli þess sem hann mátar gardínur og festir körfuboltastöng fyrir prinsinn.
Rebbý hefur aldeilis tekið hlutverk sitt alvarlega og er óþreytandi að dröslast í búðir og bera heim meira dót. Á milli þess sem hún reynir að ná einhverri stjórn á mér og ofvirka heilanum mínum. "Var hún alltaf svona?", spurði hún stóra bróðir í uppgjöf þegar ég hafði í 8 sinn gleymt að ég var að raða bókum og var farin að þvælast um og gera eitthvað allt annað. Stóri bróðir glotti við og ákvað að sleppa að svara. "Þú ert ekki með neina athygli! Athygli á við fiðrildi!", sagði hún og snéri sér að mér. "Og ég er forritari... spáðu í því...", svaraði ég og hló við um leið og ég settist til að raða bókunum.
Eftir daginn er aðeins að byrja að sjást í gólf hér og hvar. Þegar heimsætan kom heim seinni partinn með Gamla varð hún steinhissa að sjá fulla íbúð af fólki. Rebbý fékk nóg af mér og óskipulaginu mínu og sótti tvo vini sína sem mættu glaðir til að skrúfa saman húsgögn fyrir aumingja vitleysinginn, á meðan stóri bróðir sá um rafmagnið. Sem var kannski eins gott því ég á alltaf svo mikið eftir af skrúfum þegar ég skrúfa eitthvað saman. Svo sátu vinir Rebbýar við og skrúfu saman húsgögn og hlógu af okkur hinum syngja falskt með tónlistinni og þræta góðlátlega hvort við annað.
Enn eru þó hrúgur af dótir um alla íbúð, föt um allt, styttur og skrautmunir, snúrur, rafmagnstæki... Ég er búin að ákveða að "við" verðum búin að þessu fyrir miðvikudaginn... en það góða er að nú hef ég í fyrsta skipti ljósakrónur um allt hús! Í öll þau átta ár sem ég hef búið hér hafa bara verið krónur um hálfa íbúð! Svo einhver árangur er kominn í ljós... nú er bara að vona að ég nái að stoppa mig í að framkvæma meira!
Um bloggið
Vilma sjálf
Tenglar
Ég sjálf
Gamla bloggið mitt
- Gamla bloggið mitt Vilma Stína
Klúbbar og félög
Eitt og annað sem ég tengist
- Ofurhugar Kúlasta fólk í heimi
- Skógarkettir Skógarkattaklúbbur Íslands
- Kynjakettir kattaræktarfélag Íslands
Kisusíður
Hinar og þessar kisusíður
- Aliosha's Aliosha og Hrund
- Eldibrands Margrét Birna og hennar kisur
- Hlíðarenda Heimasíða Ásdísar
- Vetrarheims Heimasíðan mín
- Björgvinjar Áslaug vinkona mín á þessa síðu
Bloggarar
Hinir og þessir skemmtilegir
Athugasemdir
já Vilma mín, nóg er nóg, engar fleiri nýjar brilliant hugmyndir á þessu ári !!!
við Sævar eigum meira en einn bjór inni hjá þér á Ljónakvöldinu enda búin að vera bara dugleg ... þó sérstaklega ÉG
ég tek náttúrulega inn í myndina það sem elskulegu erlendu vinnufélagarnir mínir voru að gera í dag og sjáðu bara hvað ég á góða vini í vinnunni að þeir buðust sjálfir til að koma og aðstoða aftur á morgun ..... eða ætli þeir hafi ekki trú á okkur fyrst þeir vissu að við vorum búin að vera að í marga daga og samt var íbúðin svona umhorfs .....
Rebbý, 14.7.2008 kl. 00:00
ps ljósakrónan er fallegust - algjör VILMA - og mundu bara að þakka mér reglulega fyrir að hafa látið þig kaupa hana, sérstaklega eftir alla leitina að henni í RL design
Rebbý, 14.7.2008 kl. 00:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.