Klukkan þrjú er kaffi...

Ungur og snaggaralegur drengur skoppaði til okkar með bros á vör. "Vantaði ykkur aðstoð?", spurði hann. Ég og heimasætan kinkuðum kolli. Ég gerði smá athugasemd um að það tæki nú smá tíma að fá aðstoð hjá þeim svona um það leiti sem hann byrjaði að reyna að sýna okkur tæki og tól. Hann virkilega reyndi að sinni bestu getu og ég og heimasætan reyndum að skella ekki uppúr. Hann var með fangið fullt af fjarstýringum. Fálmaði útí loftið, og virtist alls ekki ætla að ná stjórn á sjónvarpstækinu sem við höfðum augastað á.

Að lokum játaði hann sig sigraðann, leit á okkur afsakandi og sagði: "Það kemur enginn texti... ég ætla að sækja aðra mynd..." Svo skoppaði hann af stað. Það hafði alls ekki verið þrautalaust að fá aðstoð í raftækjadeildinni. Við heimasætan sprönguðum um og reyndum að vera áberandi. Allt kom fyrir ekki. Mínúturnar liðu. Hvergi í risastóri versluninni var nokkurn mann að sjá. Við vorum komnar með svona "Palli er einn í heiminum" fíling. Að lokum trítluðum við fremst í búðina að afgreiðslukössunum og báðum um aðstoð. Jebb, ekkert mál.. þau myndu hringja á aðstoð. Við trítluðum til baka og biðum. Ekkert gerðist. Heimasætan fór fram aftur og bað um aðstoð. Jebb, ekkert mál.. þau myndu hringja á aðstoð.

Eftir langa bið kom svo drengurinn... sem nú var horfinn á braut að leita að mynd með texta. Loks kom hann til baka og tókst með undraverði heppni að skipta um mynd í spilaranum. Rétt í sömu mund bar þar að starfsmanninn í raftækjadeildinni, aðeins um 40 mínútum eftir að við mættum þar. Drengurinn sem svitinn rann af var klárlega dauðfeginn að sjá skrítna raftækjasölumanninn sem bar hina fínustu dreadlocks og var gataður í hel. Ég leit á heimasætuna og brosti. Hún flissaði.

Smá stund stóðu þeir, litli drengurinn og stóri gataði raftækjasölumaðurinn, og reyndu að fá myndina til að birtast á skjánum. Þeir spjölluðu saman. Drengurinn spurði stóra gataða raftækjasölumanninn hvort hann vissi um hvað myndin fjallaði. Hann hélt það nú þó að hann hefði aldrei séð hana. "Hvar varstu?", spurði drenguinn. "Í kaffi!", svaraði dreadlock sölumaðurinn. Auðvitað! Klukkan þrjú er kaffi og greinilega allir starfsmenn í kaffi á sama tíma. Það útskýrði af hverju búðin stóð án allra starfsmanna í 25 mínútur.

Eftir smá stund spurði stóri gataði raftækjasölumaðurinn litla drenginn af hverju þeir væru að fikta í tækinu. Litli drenguinn benti á okkur sem stóðum álengdar og flissuðum. "Já, ok...", stundi dreadlock sölumaðurinn. "Er erfitt að stilla sjónvarpið?", spurði ég og gataði dreadlock sölumaðurinn hristi hausinn og eins og fyrir galdra birtist nú texti á skjánum. Litli drengurinn veifaði okkur og tilkynnti að hann ætti eftir að fara í kaffi og hvarf svo á braut.

Nú stóðum við uppi með bara gataða raftækjasölumanninn sem virtist ekki alveg með á nótunum. "Eigið þið svona tæki?", spurði hann okkur. Heimasætan skellti uppúr en ég hélt andlitinu nokkurn veginn og útskýrði að við ættum eiginlega bara alls ekki svona tæki heldur værum við að skoða það með í huga að kaupa það. "ó já.. svoleiðis....", svaraði hann og starði einbeittur á skjáinn. Hvernig honum datt þetta í hug skil ég ekki, hversvegna ætti ég að koma í búð til að horfa á eins tæki og ég ætti heima?

Ég reyndi að bera upp einhverjar spurningar og fékk svona einhver svör. Að lokum ákváðum við að skella okkur bara á það, enda verðið viðráðanlegt og tækið nokkuð smart. Ég tilkynnti manninum um ákvörðunina. Hann horfði á mig frekar tómum augum og sagðist myndi fara að athuga hvort það væri til. Eftir lon og don kom hann til baka með þær fréttir að sýningartækið væri síðasta tækið á Íslandi. En við gætum fengið það með góðum afslætti. Ok, gott mál... við alveg til í það.

Við tók ævintýralegt ferli að reyna að borga. Passa uppá að fá ábyrgðarskírteini. Passa uppá fjarstýringuna. Passa uppá skrítna sölumanninn okkar. Hann tók sér sinn tíma í að aftengja tækið og prófa eitt og annað. Við stóðum hjá og fylgdumst með. Hvað var maðurinn að gera? Skyndilega snéri hann sér við, veifandi dvd - myndinni sem hafði verið í sýningu. "Eigið þið ekki þennan disk?", spyr hann. Nú gátum við ekki annað en skellt báðar uppúr, þessi búðarferð var alveg að toppa allt. "Nei.. ",stundi ég upp. "Drengurinn kom með þessa mynd áðan og setti hana í".

Að lokum bar hann tækið útí bíl fyrir okkur. Við vorum örugglega skrítin skrúðganga. Fyrst kom ég í bleiku skónum mínum, haldandi á fjarstýringu. Svo kom stóri gataði söluðmaðurinn með dreadlocksið haldandi á sjónvarpi og lestina rak litla heimasætan mín (sem virkar enn minni við hliðina á svona hávöxnum mönnum) og hún hélt í endann á rafmagnssnúrunni. Svona trítluðum við útí rúnu og ég sver það voru tár í augum sölumannsins þegar hann kvaddi okkur.

Við héldum hins vegar heim ánægðar með fenginn. Þetta var nefndilega dagurinn sem við fórum út að sækja málningarprufur en komum heim með bleik handklæði, nýjan sturtuhaus og nýtt sjónvarp!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Snjóka

vá duglegar, hlakka til að sjá sjónvarpið í kvöld

Snjóka, 1.7.2008 kl. 07:51

2 identicon

Ég ætla nú bara rétt að vona að þið hafið haft hugsun á að fá MANUALINN með því úr því að það var svona flókið að stilla það !

Bibba (IP-tala skráð) 1.7.2008 kl. 09:20

3 Smámynd: Rebbý

sammála Snjóku, hlakka til að sjá sjónvarpið í kvöld en hrædd við nýja litinn á holinu

Rebbý, 1.7.2008 kl. 18:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Vilma sjálf

Höfundur

Vilma Kristín
Vilma Kristín
The Worrying kind
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband