Litla krúttið leggur mig í rúmið...

"Ég verð að stinga hérna líka", sagði kaldrifjaði hjúkrunarfræðingurinn og mundaði málina. Ég reyndi að brosa og slaka á samkvæmt pöntun. Þrátt fyrir fantabrögðin voru stungurnar eiginlega tilhlökkunarefni, þær drógu athyglina frá vaxandi verknum í síðunni.

Mér var farið að líða eins og tilraunadýri. Fyrst þurfti að stinga til að taka venjulegar blóðprufur og setja upp legg. Svo þurfti að stinga í hina höndina til að fá sérstöku blóðprufuna. Og svo aftur í fyrri höndina til að fá viðmiðunarblóð. Allt mjög flókið. Eftir allar stungurnar horfði ég á blástra og bómull út um allt. Æ, æ.

Svo var ég látin pissa í eitthvað sem líktist ísboxi, eftir kúnstarinnar reglum. Það er sko ekki saman hvernig slíkur verknaður er framkvæmdur. Hitinn mældur... og mældur aftur... því hver annar en ég fæ bilaðan hitamæli sem sýnir hitann við frostmark. Að lokum náðist að mæla hitann og ört hækkandi hiti virtist vekja mikinn áhuga. Blóðþrýstingur mældur og náði að valda smá uppþoti þar sem blóðið virtist ekki renna. Ég settist upp og brosti, hins hressasta eða þannig, og sannfærði sjúkraliðann um að ég væri alveg lifandi. Mæla meiri blóðþrýsting... og á endanum sóttur nýr mælir, því hver önnur en ég fæ líka bilaðan blóðþrýsingsmæli.

Við tóku endalausar spurningar og pot og þukl og klíp og bank. Á milli þess sem ég reyndi að slaka á í stóra hvíta rúminu í fína hvíta sloppnum. Varla lögst þegar nýr einstaklingur stakk inn hausnum og bað um að fá að hlusta, stinga, klípa, banka nú eða bara leggja fyrir mig ótrúlegustu spurningar.

En allur þessi áhugi starfsfólksins á mér var samt nokkuð mikill léttir... ég myndi þá allavega tæplega deyja þarna... eða hvað. Um tveimur tímum áður hafði ég dregist áfram, draghölt, um ranghala spítalans í leit að bráðamóttökunni, sem er bara alls ekki svo auðvelt að finna. Á endanum fann ég hana og dröslaðist að innskráningunni, með miðann í hendinni frá læknavaktinni. Dauðfegin að einhver vildi tala við mig, en alveg sannfærð um að mér yrði hent öfugri út fyrir að trufla vinnandi lækna. Svo yrði ég notuð á næstu árshátíð sem skemmtiatriði. Auminginn með meltingartruflanirnar!

Rebbý hafði sint vinkonuskyldunni og skutlað mér uppá læknvakt og þaðan niður á spítala. Hún vildi reyndar keyra mig beint á spítalann en það mátti ég ekki heyra á minnst. Nei, nei, af og frá - enga vitleysu. Ég er með smá meltingartruflanir og fer sko ekki að fara á spítala. Læknirinn á vaktinni horfði á mig hugsi, potaði aðeins og sagði svo alvarlegum tón: "Þú verður að fara niðrá spítala í rannsóknir.. þetta er eitthvað meira en ég ræð við hér...".

Ég var samt enn alveg viss um að meltingartruflanir væru að hrjá mig þegar ég skrönglaðist inná spítalann. Og þvingaði aumingja vakt lækninn til að segja að það væri alveg fræðilegur möguleiki á að þetta væru aðeins meltingartruflanir... Ok, heiftarlegar meltingartruflanir gat ég fallist á. Ok, mjög slæmar. Ég var jú draghölt og skökk, gat varla andað í verstu verkjunum og gat ómögulega keyrt bílinn. En engu að síður meltingartruflanir.

Magapína laugardagsins náði aldrei að hverfa alveg og eftir erfiðann dag í vinnunni snérist allt á verri veg þegar ég kom heim. Emjandi og skælandi reyndi ég að sjá um að gefa prinsinum mat. En gafst uppá að sinna gæludýrunum. Ég reyndi að ganga um íbúðina en komst varla áfram. Jebb, eitthvað þarf að gera við þessum meltingartruflunum hugsaði ég þegar ég gafst upp og hringdi hálfskælandi í Rebbý sem sá aumur á mér.

Að lokum kíkti sérfræðingurinn inn og náði að rífa mig uppúr rúminu. Meira bank, meira pot, meira klíp, fleiri spurningar. Svo horfði hann á mig mjög alvarlegur, en jafnframt hugsi. "Þú lítur reyndar óvenju hraustlega út fyrir manneskju með svona mikla verki, svona háan hita og svona mikla sýkingur...", sagði hann og hélt svo áfram: "Ég held ég treysti þér heim... en þú verður að lofa að fara vel með þig!" "Alltaf", svaraði ég. "Og engin vinna á morgun, og engin vinna á fimmtudaginn!", hélt hann áfram ströngum rómi. Ég reyndi að sleppa að líta í augun á honum og sleppti að svara. "Þú ferð ekki heim nema þú LOFIR", sagði hann ógnandi. Ég leit á hann og lofaði hátíðlega að gera allt sem fyrir mig var lagt. Taka lyfin, drekka mikið, liggja í rúminu og alls ekki fara í vinnu fyrr en ég var búin að vera tvo daga hitalaus...

Eftir öll loforðin trítlaði ég útaf spítalanum, öll útstungin, ennþá hölt og skökk, með fangið fullt af lyfseðlum og pillum til að koma mér í gegnum nóttina. Litla magapínan sem ég fékk á laugardaginn var semsagt eftir allt saman alls ekkert smá magapína, hún var heldur ekki meltingartruflanir... en reyndar heldur ekki dularfullur sjúkdómur. Nei, þetta var bara þessi fína og svæsna sýking í nýranum. Ég hefði aldrei trúað að eitt svona lítið krúttlegt nýra gæti haft svona mikil áhrif og verið svona ferlega sársaukafullt.

Jebb, það þarf ekki mikið. Eitt lítið sýkt nýra og ég ligg emjandi eins og smákrakki... bévítans aumingi sem ég get nú verið. Hvernig ætla ég að útskýra í vinnunni að ég geti ekki mætt (ekki þar fyrir utan, ef ég mæli mig eftir að ég tek hitalækandi lyfin þá telst ég væntanlega hitalaus og kemst fyrr aftur) En mikið hlakka ég annars til að verkjalyfin fara að virka og ég get lagst útaf og slakað á....


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rebbý

Auðvitað keyri ég þig þangað sem þú vilt, en næst mundu bara að hlusta á mig ... ég er eldri og greinilega vitrari

Rebbý, 17.6.2008 kl. 01:00

2 Smámynd: Snjóka

Það verður gaman að sjá hvort þú hlýðir lækninum með það að fara ekki í vinnuna   Vonandi batnar þetta nú fljótt svo hægt sé að byrja á öllum plönunum

Snjóka, 17.6.2008 kl. 20:47

3 identicon

Baráttukveðjur Vilma.... hlýddu nú lækninum og farðu vel með þig... Alltaf :D

adda (IP-tala skráð) 17.6.2008 kl. 22:53

4 identicon

Erum að hanna sérlega Vilmufælu í vinnunni.   Hún virkar þannig að ef Vilma nálgast vinnustaðinn ruglast hún og keyrir aftur heim.
Hönnun er á frumstigi :)

Bibba (IP-tala skráð) 18.6.2008 kl. 08:01

5 identicon

Líst vel á þetta Bryndís en þið verðið að vera snögg áður en hún birtist.  Spurning hvort að þið þurfið líka að kíkja á Rúnu til að hafa samstarfsaðila ;-)

Elín (IP-tala skráð) 18.6.2008 kl. 08:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Vilma sjálf

Höfundur

Vilma Kristín
Vilma Kristín
The Worrying kind
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband