21.4.2008 | 00:03
Dansandi fífilið
"Hliðar saman hliðar, sparka. Hliðar saman hliðar, sparka", hljómaði í kollinum á mér þar sem ég gerði mitt allra besta til að dansa hópdans með félugum mínum úr vinnunni... uppá sviði, fyrir framan fullt af áhorfendum. Á sama tíma reyndi ég að halda í við hina og hlusta á líffræðinginn flytja textann okkar. Þetta var full flókið fyrir mig.
Hvernig mér datt í hug að taka þátt í þessu veit ég ekki. Svona verkefni eru alltof flókin. Bara það að ég þekki ekki hægri frá vinstri án umhugsunar skapar vandamál þegar maður á alltaf byrja einhver spor til hægri. En akkúrat á þessari stundu uppá sviði var það samt mitt minnsta vandamál. Að hluta til af því að ég hafði merkt hægri höndina vandlega og að hluta til af því að öll hin vandamálin voru bara mikið stærri.
Ég er taktlaus og á við athyglisbrest að stríða. Svo ég verð að einbeita mér óskaplega til að muna sporin, endurtaka þau í höfðinu endalaust. Um leið missi ég þann litla takt sem ég hef... Ég verð svo upptekin af því að muna sporin að ég næ ekki að fylgja hinum í takti. Þessu var bjargað að hluta til með því að ég ríghélt í yfirmann sem stjórnaði hraðanum. Þar bætist hinsvegar við vandamálið þar sem við hreyfðumst til hliðar að hann tekur mun stærri skref en ég og stígur á fæturnar á mér. "Hliðar saman hliðar, sparka", hvísla ég að sjálfri mér og reyni að muna að taka stór skref, muna að lyfta upp hægri höndinni, brosa og fylgja hraðanum.
Svo kemur að því sem mig er búið að kvíða fyrir... já, hringdans. Sko ég er þessi sem hefur sig að fífli í leikfimitímunum. Þegar allir far niðraf pöllunum príla ég upp á minn, þegar allir hoppa til vinstri stekk ég til hægri og hleyp einhvern niður í leiðinni. Þegar allir hrópa "Húúúú" þegi ég og æpi svo ein "Húúúú" þegar allir aðrir eru að gera eitthvað allt annað. Ok, þið náið myndinni er það ekki. Svo þegar ég þarf að muna að snúa til hægri, gera einhver ótrúlega flókin.. "fram, fram, lyfta fæti" spor, vera ein í takti því enginn heldur í mig og fylgja hringnum í leiðinni er útkoman ekkert fögur.
Æfingin á föstudaginn var skelfileg. Ekki bara það hvað ég var hræðileg heldur er yfirmaður minn lítið skárri. Fyrrihluta hringdansins elti ég hann og horfi á hann - þegar hann ýmist bakkar eða heldur engan veginn takti. Þetta endar með að ég er farin að marsera því ég veit aldrei hvaða fæti á að lyfta og hvenær - til öryggis lyfti ég þeim bara stanslaust til skiptis. Seinni hluta hringdansins eltir hann mig og þá fyrst fer að hlaupa fjör í leikinn. Allavega, eftir æfingu komnu nokkrir að máli við mig og sögðu að það væri allt í lagi ef "einhver" klúðraði dansinum... það væri bara fyndið... Einmitt. Líffræðingurinn kvaddi mig út á plani með ósk um að ég færi heim að æfa sporin, ég hvæsti til baka að hann skyldi bara fara heim að æfa sönginn og ekki skipta sér að mér.
Og svo á laugardagskvöldinu stóð ég uppá sviði í mínu fínasta, klædd í búning með félögunum - tilbúin að fórna mér fyrir liðið. Einhvern veginn bögglaðist ég í gegnum dansinn, á ákveðnum tímapunkti ákvað ég að hætta bara að reyna að hugsa um hvort ég væri í takti eða ekki og gera bara eitthvað... bara þrauka í gegnum fimm mínútna dansatriðið. Já, einminn fimm mínútur af mér að dansa spor sem ég skil ekki, alls ekki takti uppá sviði... úfff... og já, ég sjálf tók þátt í að lengja atriðið um tvær og hálfa mínútu, það var áður en ég hugsaði út það að ég þyrfti sjálf að dansa þessar lööööööööngu fimm mínútur.
En nú er ég allavega enn lifandi, nokkuð gott bara, eftir þvílíka og aðra eins raun.
Um bloggið
Vilma sjálf
Tenglar
Ég sjálf
Gamla bloggið mitt
- Gamla bloggið mitt Vilma Stína
Klúbbar og félög
Eitt og annað sem ég tengist
- Ofurhugar Kúlasta fólk í heimi
- Skógarkettir Skógarkattaklúbbur Íslands
- Kynjakettir kattaræktarfélag Íslands
Kisusíður
Hinar og þessar kisusíður
- Aliosha's Aliosha og Hrund
- Eldibrands Margrét Birna og hennar kisur
- Hlíðarenda Heimasíða Ásdísar
- Vetrarheims Heimasíðan mín
- Björgvinjar Áslaug vinkona mín á þessa síðu
Bloggarar
Hinir og þessir skemmtilegir
Athugasemdir
Var enginn með upptökuvél þarna svo maður geti séð þessa snilld?
Snjóka, 21.4.2008 kl. 00:21
Og þetta var alveg ótrúlega gaman ... :)
Bibba (IP-tala skráð) 21.4.2008 kl. 10:14
He, he, jú það var víst upptökuvél á staðnum... valdir aðilar geta kannski fengið aðgang að efninu
Vilma Kristín , 21.4.2008 kl. 13:25
við Snjóka verðum allavega að fá að sjá - held að þú hafir verið flottust eins og þegar þú tókst fiskadansinn í hrútapartýinu
Rebbý, 21.4.2008 kl. 19:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.