Sjálfvirkni

Lágvaxni maðurinn með stingandi augnaráðið horfði á mig ákveðinn á svip þar sem ég stóð og starði á prentarann á meðan ég talaði við eyjamanninn í símanum og reyndi að hunsa það að mér var orðið illt í eyranu eftir langan spjalltíma. Ég leit upp og brosti til mannsins, sem um leið tók viðbragð færði sig nær mér og sagði í spurnartón: "Sjálfvirkni?"

Ég brosti út í annað og svona hálf kinkaði kolli og nikkaði til prentarans. Tölvukonan sem stóð á móti mér flissaði, eyjamaðurinn sem hafði greinilega heyrt spurninguna í gegnum símann skellti uppúr. Eiginlega hafði ég bara beðið eftir að fá þessa spurningu, sko beðið eftir að fá hana aftur... og aftur.

"Þetta er allt að koma...", stundi ég svo upp og reyndi að vera hughreystandi á svipinn. Vona að það hafi heppnast, sennilega því lágvaxni maðurinn með stingandi augnaráðið trítlaði í burtu og virtist vera sáttur. Þremur klukkutímum áður hafði vinalegi vöruhúsamaðurinn spurt mig sömu spurningar, þá hafði ég litið undan í skömm og beðið hann að spyrja mig ekki, þetta væri orðið viðkvæmt mál og ég myndi kannski bara fara að gráta. Hann hló og sagði að það væri ekkert vandamál svo stórt að við gætum ekki leyst það. Á hverjum degi erum við spurð um sjálfvirknina, hvernig gengur? Hvenær klárast? Stundum sagt gleðilega, stundum virðist örla aðeins á hæðni enda svörum við alltaf eins: "Markmið dagsins er að klára hana!"

Ég leit aftur á prentarann þar sem ég stóð og bað í hljóði að það færi nú eitthvað að spýtast útúr honum, þetta var eiginlega byrjað að vera pínlegt. Sko einhvern veginn var staðan orðin svo að í fyrirtækunum sem við vorum að gangsetja nýtt kerfi er "Sjálfvirkni" orðið tískuorð, svar við öllum heimsins vandamálum. Einhvern veginn hefur sú saga náð að festa sig í sessi að bara þegar ég og eyjamaðurinn fengjum sjálfvirknina í lag myndi allt falla í ljúfa löð. Ég sver það, við náum sjálfvirkninni í gang og sólin mun brjótast fram, skýin flýja, blóm spretta fram og fuglarnir bresta í söng.

Og í fjórtán daga hefur það verið markmið dagsins að koma sjálfvirkninni í gang. Fyrsti dagurinn var á hvolfi eins og vill gerast þegar maður gangsetur nýtt bókhaldskerfi, engin sjálfvirkni. Annar dagurinn rann upp og við höfðum markmið: gangsetja sjálfvirknina. En sá dagur var annasamur og við litum ekki upp frá verkefnum allan daginn. jæja, við höfum þá markmið dag þrjú, sem kom og leið án þess að sjálfvirknin léti á sér bæra. Það var ekki fyrr en á fimmta degi að við eyjamaðurinn gerðum virkilega atlögu að langþráðri sjálfvirkni. Við sátum, útkeyrð á sál og líkama, yfir okkur þreytt fram á kvöld og þrjóskuðumst við. Urðum á endanum að gefast upp. Þetta yrði mikið betra daginn eftir og það er gott að hafa verðugt markmið.

Og nú á fjórtánda degi stóð ég yfir mig spennt á miðju gólfinu og mændi á prentarann sem lét nú ekki mikið yfir sér. "Það bókast! Það bókast", sagði eyjamaðurinn í símann þaðan sem hann sat útí Vestmannaeyjum og horfði á tölvuskjáinn sinn. Ég heyrði geðshræringu í röddinni. Hjartslátturinn jókst uppúr öllu valdi og ég varð andstutt. Skyndilega byrjaði ljósið á prentaranum að blikka og það urgaði í honum. Hægt og rólega prentaði hann fyrsta alvöru reikninginn í sjálfvirkni. Ég reif blaðið úr prentaranum og hélt á því, sýndi öllum sem voru nærstaddir. Þvílík snilld! Þvílík fegurð!

Í klukkutíma stóð ég og klappaði hverju einasta blaðið sem kom úr prentaranum. Öðru hvoru tók ég upp blað og las af því, bara til að virkilega sjá að allt væri í lagi. Ég brosti montin til vinalega vöruhúsamannsins sem leit inn: "Við höfum SJÁLFVIRKNI! Sjáðu! Er þetta ekki fallegt?" og uppskar hlátur sölumannanna sem áttu ekki orð yfir litla forritaranum sem virtist ekkert ætla að hætta að dást að því sem í augum þeirra voru ósköp venjulegir reikningar.

Þegar ég gekk út var ég öll einhvern veginn léttari, fannst ég ráða við allan heiminn, varla koma við jörðina. Ef eyjamaðurinn hefði verið í bænum hefði ég örugglega ráðist á hann og kysst hann, þvílíkur snillingur þessi drengur! Og við saman eru ósigrandi, en mér er samt sama þó ég heyri ekki orðið sjálfvirkni aftur í bráð. Ohhhh, ég sver það - þetta er besti dagur lífs míns! Ég hélt svo uppá kvöldið með kampavíni og súkkulaðihúðuðum jarðarberjum, lífið er ljúft er það ekki?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rebbý

næææææss   til lukku með sjálfvirknina, brósi hefur örugglega verið ánægður þá með ykkur

Rebbý, 18.3.2008 kl. 08:43

2 identicon

Þetta er óborganleg tilfinning.   Verst að maður er húkkt á henni.   Þessvegna kemur maður sér bara í nýjar ógöngur þegar maður er búinn að leysa úr þeim sem fyrir eru

;)

Bibba (IP-tala skráð) 18.3.2008 kl. 09:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Vilma sjálf

Höfundur

Vilma Kristín
Vilma Kristín
The Worrying kind
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband