Hvað á ég að heita?

Ég var að lesa fréttablaðið í dag, sem er svo sem ekki fréttnæmt.  En þarna rakst ég á grein sem opnaði alveg nýjan heim fyrir mér.  Grein sem fékk mig til að spá í hlutunum, velta fyrir mér möguleikunum.

Já, fréttin var um nöfn, eða fólk sem breytti nafninu sínu.  Tók út gömul nöfn, bætti við nýjum, bara hvað sem er.  "Vá!", hugsaði ég: "ég get skilgreint mig uppá nýtt - breytt nafninu mínu og fundið eitthvað sem hæfir persónuleikanum betur." 

Sko, svo það sé alveg á hreinu þá er ég hæst ánægð með fyrsta nafnið mitt, Vilma.  Mér finnst það reyndar svo fallegt að það ber af öðrum nöfnum.  Ég er afskaplega stolt af því að bera það og finnst það passa mér alveg ljómandi vel. Ég er semsagt að eigin áliti óskaplega Vilmu-leg.  En svo kemur afgangurinn, ég er nefnilega Vilma Kristín Guðjónsdóttir.

Guðjón finnst mér afskaplega ljótt og leiðinlegt nafn - svona eins og það sé einhvern veginn verið að reyna að upphefja Jón með því að skjóta Guð fyrir framan.  Mér hefur aldrei fundist föðurnafnið passa mér og engan veginn passa með fallega Vilmu nafninu mínu.  Ég hef stundum í dagdraumum dreymt um að eiga pabba sem heiti heppilegra nafni.  En nú er kannski bara tækifærið fyrir mig sjálfa að velja mér nýtt kenninafn.  Ég gæti notað seinna nafnið hans pabba og verið Ingvadóttir - strax skárra.  Svo er ég svo heppin að móðir mín bar 3 nöfn, hún hét Svava Guðrún Baldvins Hauksdóttir.  Það skapar mér 3 möguleika í viðbót, ég get verið Svövudóttir, Guðrúnardóttir eða Baldvinsdóttir.  Stroka samt held ég stax út Guðrúnardóttir... það er ekki ég.  Ég er með smá valkvíða því nýja nafnið þarf að fylgja mér það sem eftir er lífsins. 

Millinafnið mitt hefur heldur aldrei verið að slá í gegn.  Mér líður ekki eins og ég sé Kristín.  Kristín er fínasta nafn - á þær sem eru Kristínarlegar.  Það er bara ekki ég.  Gott og fallegt íslenskt nafn. En passar mér bara ekki.  Svo nú þarf ég að velja nýtt millinafn.  Ég er búin að eyða deginum í að máta nöfn saman.  Prófa hin ýmsu nöfn úr fjölskyldunum mínum, en finn ekkert sem passar. Búin að prófa nöfn vinkvenna minna.  En þau passa mér ekki heldur.  Búin að prófa allskonar framandi, sterk, lýsandi, hefðbundin nöfn en þau passa bara ekki vel.  Að lokum held ég að besta hugmyndin sé hreinlega að hafa millinafnið Vilma.  Ég yrði þá Vilma Vilma. Einhversdóttir á meðan ég er að velja. Vilma Vilma Ingvadóttir eða Vilma Vilma Svövudóttir.  Hallast frekar að því síðara. 

Þeim mun meira sem ég prófa þetta þeim mun betur lýst mér á þetta.  Ég er búin að prófa að kynna mig í síma: "Góðan daginn, þetta er Vilma Vilma..." og prófa að skrifa mér bréf: "Kæra Vilma Vilma.." Já, þetta er alveg að virka.

Svona í framhaldi datt mér í hug að breyta líka nöfnum barnanna.  Við gætum verið tvínefnda fjölskyldan.  Vilma Vilma, Sesselía Sesselía og Leó Leó.  Þyrftum bara að fórna einu millinafni á heimasætunni sem er hvort sem er aldrei notað.  Og enn í framhaldi af þessu ákvað ég að skipta um nöfn á öllum köttunum.  Þeir heita núna Millie Millie, Þula Þula, Graffiti Graffiti og Mía Mía.  Ekki má skilja fuglinn útundan: Trúls Trúls. Og fiskurinn inná baði heitir núna Depill Depill.

Nú er bara að drífa sig í að gera þetta formlega og halda svo Nafnaveislu.  Er það ekki?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hvað með Vilma Bullukolla ?
:)

Bibba (IP-tala skráð) 18.2.2008 kl. 11:16

2 Smámynd: Rebbý

heheh  flott hugmynd hjá Bibbu en kannski ertu bara Vilma MIMI  

Rebbý, 18.2.2008 kl. 20:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Vilma sjálf

Höfundur

Vilma Kristín
Vilma Kristín
The Worrying kind
Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband