8.2.2008 | 21:52
Ég ferðast aftur í tímann
Úti er brjálað veður. Alveg snarbrjálað. Það brakar í gamla timpurhúsinu þar sem það teygir sig á móti veðurhamnum. Regnið ber gluggana og það gnauðar í öllu. Inni er hlýtt og notalegt. Litla fjölskyldan telur þrjá meðlimi sem allir eru af sitthvorri kynslóðinni. Þau sitja við eldhúsborðið og spila rommý eins og svo oft áður, já reyndar eins og flest kvöld. En núna við kertaljós þar sem það er rafmagnslaust.
Þar sem þau sitja, öll með heilmikið keppnisskap, gantast þau sín á milli, söngla og spilið gengur áreynslulaust áfram. Þau hafa spilað þetta spil þúsund sinnum áður. Á þessu heimili er spilað yatsí fyrir kvöldmat og rommý eftir kvöldmat. Nema á fimmtudögum, þá er húsfaðirinn úti að spila brids. Það er eitthvað notalegt við það að sitja inni í hlýjunni með ástvinum sínum þegar úti hamast óveður.
Skyndilega er byrjað að banka á dyrnar. Þau líta hissa upp, hver er á ferð í þessu veðri? Bankið ágerist og hljómar örvæntingarfullt. Afinn ákveður að fara til dyra og kemur að vörmu skapi aftur, hlaupandi. Það er neyðarástand. Það þarf að kalla út alla karlmenn sem hægt er að ná í. Gróðurhúsin sem eru úr trefjaplasti hafa splundrast upp í veðurhamnum og nú eru þau að fjúka. Risastórir plastflekar svífa um og veltast um garðinn. Nú liggur mikið við. Það þarf að hemja það sem eftir er af húsunum, það þarf að hemja plöturnar sem fjúka um allt og stefna á að valda stórskaða á nærliggjandi glergróðurhúsum, bílum, húsum - bara hverju sem þær ná í. Svo þarf að breiða yfir viðkvæmar plönturnar sem voru í húsunum. Bjarga lífsviðurværinu. Ef þú lifir á garðyrkjurækt er slæmt að horfa á eftir öllum gróðurhúsunum útí loft.
Örvæntingarfull símtöl í nágranna og fjölskyldu skilar her manns í garðinn. Her manns sem leggja sig í stórhættu við að drösla svífandi plötum inní hús, dragandi plöturnar um, margir saman, meðan aðrar plötur svífa um og hóta að skera þá sem þær lenda á. Her manns sem leggja sig í stórhættu við að verja gróðurhúsin í næstu garðyrkjustöð, gróðurhúsin sem eru gleri og hafa nú þegar orðið fyrir of miklu tjóni af svífandi plötum. Her manns sem fórna öllu til að hylja blómin sem skilja ekki hvað er að gerast.
Inni stend ég með móður minni og aðstoða við að útbúa veitingar fyrir alla mennina í garðinum. Aðstoða við að svara í símann - fréttin um að garðyrkjustöðin Lindabrekka hafi fokið í orðsins fyllstu merkingu berst hratt um bæinn. Getum við lagt lið, segir fólk í símann. Hvert er ástandið? Er eitthvað af gróðurhúsunum eftir? Hleyp reglulega út í dyr til að kíkja út til að geta komið fréttum inní eldhús. Veðrið gefur ekkert eftir og ber á mönnunum sem eru rennandi blautir, hallast allir einkennilega uppí vindinn og eru úrvinda af þreytu eftir slagsmálin við veðrið og risaplöturnar.
Ég þarf ekki annað en rétt að hvarfla með hugann aftur til að finna spennuna í maganum. Ég hafði aldrei upplifað neitt svona spennandi og í augum mér var þetta ævintýri. Í augum afa mín var þetta sennilega alls ekki ævintýri heldur eitthvað allt annað. Ekki gaman að horfa á eftir ævistarfinu á nokkrum klukkutímum. Daginn eftir tók svo við hreinsistarfvið, eyðileggingin var gífurleg - aðeins eitt af gróðurhúsunum stóð veðrið nokkurn veginn af sér.. nokkurn veginn og það innihélt brúðarslæðu - alls ekki þau blóm sem skiluðu fjölskyldunni mestu. Með hjálp sömu manna tókst að byggja gróðrarstöðin upp aftur á mettíma.
Einhvern veginn fékk veðrið sem bylur á húsinu mínu núna mig til að rifja þetta upp. Það er skrítið hvað stendur uppúr lífinu, en þetta er ein af mínum bestu minningum - þó hún sé kannski ekki um sérlega hamingjusaman atburð. Og þegar ég loka augunum finnst mér ég vera komin aftur í litla timpurhúsið, aftur í Lindarbrekkuna mína, aftur til bernskunnar.
Um bloggið
Vilma sjálf
Tenglar
Ég sjálf
Gamla bloggið mitt
- Gamla bloggið mitt Vilma Stína
Klúbbar og félög
Eitt og annað sem ég tengist
- Ofurhugar Kúlasta fólk í heimi
- Skógarkettir Skógarkattaklúbbur Íslands
- Kynjakettir kattaræktarfélag Íslands
Kisusíður
Hinar og þessar kisusíður
- Aliosha's Aliosha og Hrund
- Eldibrands Margrét Birna og hennar kisur
- Hlíðarenda Heimasíða Ásdísar
- Vetrarheims Heimasíðan mín
- Björgvinjar Áslaug vinkona mín á þessa síðu
Bloggarar
Hinir og þessir skemmtilegir
Athugasemdir
já, það hefur aldeilis verið spenna þarna og ekki skrítið í veðurhamnum sem var á föstudag að þú veltist "nokkur" ár aftur í tímann
Rebbý, 10.2.2008 kl. 11:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.