24.1.2008 | 22:54
Ég skal moka allan snjóinn
"Ég skal moka allan snjóinn, elsku amma...", söng ég hátt og snjallt um leið og ég hamaðist við að moka snjóinn af tröppunum uppað húsinu. Ég var sex ára og afskaplega afkastamikil. Þetta er svona eitt af "frægu" atriðunum sem tengjast mér í móður fjölskyldunni minni. Bæða þótti ég skrítið barn að geta ekki séð snjó án þess að moka hann og einnig sniðug að snúa laginu "ég skal mála allan heiminn, elsku mamma" yfir í snjólagið mitt sem ég söng fyrir hana Vilmu ömmu mínu.
Einhvern veginn hefur þessi árátta fylgt mér inná fullorðinsárin. Ég er alltaf úti að moka ef það fellur snjór. Um daginn dreif ég mig út, seinni skiptið þann daginn, mokað stíg frá íbúðinni minni út á plan, mokaði smá stíg á planinu - bara svona uppá grín. Dreif mig svo í að moka fyrir ruslakarlanna stíg frá ruslageymslunni... og fyrst ég var byrjuð mokaði ég líka upp að hurð hjá nágrönnum mínum.
Svo þegar ég kom heim úr bíó núna í kvöld horfði ég á allan snjóinn, horfði á hann löngunaraugum. En hugsaði sem svo að það væri nú ekki skynsamlegt að fara út að moka núna... moka bara á morgun eftir vinnu. En ég náði ekki innum útidyrnar áður en ég skipti um skoðun. Kastaði kveðju á heimasætuna, reif geymslulykilinn af snaganum og snaraðist út og sótti skóflu.
Svo byrjaði ég að moka og moka, moka fínan breiðan stíg út á plan og mokaði svo aðeins á planinu. Um leið og ég mundaði skófluna fann ég sæluhroll hríslast niður bakið á mér, hjartað hoppaði af gleði og ég náði ekki brosinu af andlitinu. Eins og alltaf ómaði í kollinum á mér: "ég skal moka allan snjóinn, elsku amma..."
Ég þóttist ekki taka eftir furðusvipnum á parinu sem labbaði framhjá í snjókomunni. Ég hef örugglega litið skringilega út, skælbrosandi með skófluna mína, seint um kvöld á meðan enn kyngdi niður snjó. En skítt með það... það að ég verð hamingjusöm við þetta skiptir meira máli.
Um bloggið
Vilma sjálf
Tenglar
Ég sjálf
Gamla bloggið mitt
- Gamla bloggið mitt Vilma Stína
Klúbbar og félög
Eitt og annað sem ég tengist
- Ofurhugar Kúlasta fólk í heimi
- Skógarkettir Skógarkattaklúbbur Íslands
- Kynjakettir kattaræktarfélag Íslands
Kisusíður
Hinar og þessar kisusíður
- Aliosha's Aliosha og Hrund
- Eldibrands Margrét Birna og hennar kisur
- Hlíðarenda Heimasíða Ásdísar
- Vetrarheims Heimasíðan mín
- Björgvinjar Áslaug vinkona mín á þessa síðu
Bloggarar
Hinir og þessir skemmtilegir
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.