Spéhræddi fuglinn

Ég horfði hugsandi í kringum mig.  Uppá hverju ætti ég nú að taka?  Hmmmmm... allavega ætlaði ég ekki að taka til í eldhússkápunum, kommóðum, hillum eða skenknum.  Bara umfram allt ekki.  Ég ætla bara að láta alla skápa vera það sem eftir er árs.

Skyndilega laust góðri hugmynd niður í hausinn á mér.  Alveg brilliant hugmynd.  Ég byrjaði á því að stökkva á stað og rífa fuglabúrið niður af standinum og kippa botninum úr því og drösla inná bað til að þrífa það, setja nýtt efni í botninn og gera huggulegt.  Kettirnir fylgdust spenntir með.  

Trúls sat í búrinu á gólfinu og steinþagði.  Hann er eiginlega svona félagsvera, finnst mest gaman að syngja þegar það eru gestir og fólk er að tala saman.  Ég ein og sér er ekki nógu skemmtileg til að syngja fyrir.  Hann hrökk aðeins við þegar ég kippti botnlausu búrinu upp og sveiflaði því inná bað og skellti honum í baðkarið.

Graffiti settist á baðbrúnina og sleikti útum.  Blædís, sem er í pössun hjá okkur, stökk ofan í baðkar og studdi sig við búrið. Trúls horfði á hana með fyrirlitningu.   Svo hoppaði hann ögrandi á prik sem var aðeins nær... eins og hann vildi segja: "Ha! Reyndu bara að ná mér þú þarna bjánalegi köttur..."

Ég blandaði vatnið í rólegheitum og á meðan bættist Millie í hóp áhorfenda.  Eins og hægt er að búast við að henni settist hún virðulega við enda baðkersins og fylgdist með í rólegheitunum.  Ég byrjaði að þvo fuglinn með því að sturta yfir hann og um leið kom Þula hlaupandi og stökk uppá baðkersbrúnina, rétti náði að stoppa áður en hún datt undir sturtuhausinn.

Trúls blakaði vængjunum og æpti á mig. Hoppaði prik af priki og reyndi að forðast sturtuna sem fylgdi honum eftir.  Kettirnir hoppuðu af kæti og slefið lak frá Graffiti sem svo sannarleg leist vel á þennan blauta fugl sem skoppaði um í búrinu.  Blædís varð svo spennt að hún prílaði uppá búrið og fékk að launum nokkra dropa... nógu mikið til að bakka til baka. Þula prófaði að slá í búrið... blautur fugl er mun girnilegri og meira spennandi en þurr fugl.  

Mía bættist í hópinn og kom sér fyrir á klósettinu þaðan sem hún hafði ágætis útsýni. "Trúls! Sittu nú kyrr svo ég geti klárað...", sagði ég biðjandi við gula og græna gárann.  Ég sver það hann skyldi mig því nú stillti hann sér upp  þannig að ég gæti baðað mallakútinn hans.  Að lokum skyldi ég hann eftir í baðinu til að þorna.  

Hann sat ósköp hnípinn að sjá, hengi haus og virtist vilja vefja vængjunum um blautan kroppinn til að skýla sér.  Kisustelpurnar sátu nú allt í kring og mændu á hann. "Stelpur!  Svona látið hann vera... sjáið þið ekki að hann er spéhræddur?  Viljið þið að hann horfi á ykkur í baði?  Ha?", sagði ég um leið og ég tók Blædísi og Þulu undir sitthvorn handlegginn.  Hinar fylgdu mér eftir fram, frekar fúlar yfir að fá ekki að sitja lengur.  Þetta er það mest spennandi sem hefur gerst á heimilinu síðustu mánuði, mæli með þessu sem skemmtiatriði fyrir ketti og tilvalið til að dreifa huganum frá skápatiltektum! 

Af Trúls er það að frétta að hann er mun fallegri en áður, miklu skærari á litinn og virðist líða óskaplega vel svona hreinn og fínn í búrinu sem fékk líka ærlega jólahreingerningu.  Ég er ekki frá því að hann hafi verið að þakka mér þegar hann tók frábæra aríu fyrir mig eina í gærkvöldi - alveg svona "Trúls original" aríu... þær verða ekki betri en það


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Vilma sjálf

Höfundur

Vilma Kristín
Vilma Kristín
The Worrying kind
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband