Prinsinn slær í gegn

3.A-23.11.07 026Um leið og börnin gengu í salinn fann ég skelfinguna byggjast upp í maganum.  Prinsinn stóð uppá sviði með prakkarasvip á andlitinu.  Ég fylgdist með af miklum áhuga, ég þekki þennan svip.  Eiginlega allt of vel.  Svo byrjaði hann svona aðeins að sveifla til heimagerðu spjótinu sem hann hélt á.  Svona aðeins að prófa að hreyfa það til.  Ég sat og beið, ekkert annað að gera, skemmtun í gangi uppá sviði og ekkert hægt að skipa fyrir.

Svipurinn breyttist úr prakkaralegum yfir í glott um leið og hann mundaði spjótið eldsnöggt og stakk því svo í rassinn á aðalleikaranum sem kipptist við.  Prinsinn minn stóð og starði sakleysislega útí loftið.  Aðalleikarinn hélt áfram og um leið stakk prinsinn spjótinu í rassinn á aðalleikkonunni sem tók smá stökk til hliðar.  Prinsinn stóð og starði útí loftið, alsaklaus.  

Svo fór honum að leiðast.  Hann prófaði að hanga í sýningartjaldinu.  Prófað að ýta því upp. Prófaði að toga það út og slá því í leiðinni í öll börnin sem stóðu upp við það.  Svo tóku við frekari spjótæfingar. Pota í þennan, pota í hinn.  Sveifla því í hringi. Lyfta því eins hátt og hægt er.  Pota í sýningartjaldið.  Ýta við þeim sem stóðu við hliðina og mana þá uppí að ýta til baka, ýta þá enn fastar og mana meira.  Mamman færði sig fremst á stólbríkina og bað innilega um að þetta leystist ekki uppí slagsmál, fyrir framan alla. 

Prinsinn varð þreyttur og settist niður uppvið vegg uppá sviði, og uppgvötvaði að spjótið var tilvalið til að reyna að fella þá sem gengu um sviðið. Mjög spennandi verkefni.  Ég brosti og horfði einbeitt fram fyrir mig.  Staðráðin í að taka ekki eftir augngotum hinna foreldranna.  Ákveðin í að láta þá ekki sjá hvað mér fannst þetta skelfilegt, ákveðin í að láta þá ekki sjá að tárin voru komin fram í augun á mér.  Nei, ég skyldi standa með mínum manni.  Brosa stolt.   Fer þessari skemmtun ekki að ljúka, hugsaði ég í sífellu. Bara nokkrar mínútur enn, prins, bara nokkrar mínútur enn og þá náum við þér í umhverfi sem þú ræður við.

Ég veit ekki hverjum datt í hug að láta hann fá það verkefni að standa grafkyrr í hálftíma, með spjót í hönd!  Kyrr með spjót!  Halló?   Hann gat ekki setið á sér að hlaupa til mín um leið og atriðinu lauk, áður en þau máttu fara niður, yfir sig stoltur af þáttöku sinni.  Get ekki neitað að ég var pínulítið stolt líka.  Heil skemmtun þar sem hann komst í gegnum, svo rákum við nefið uppí loft og fór fram í kaffi með hinum og létum eins og um stórkostlegan leiksigur hefði verið að ræða.

Þið sjáið prinsinn þarna á myndinni sem var tekin eftir atriðið... já, hann er þessi efst í horninu með spjótið á lofti :) 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rebbý

hann er bara yndislegur prinsinn þinn, en mikið þykist ég skilja að það taki á að horfa upp á aðfarir hans stundum þó það sé bara örsjaldan sem ég hef orðið þeirrar ánægju aðnjótandi að hitta hann

Rebbý, 24.11.2007 kl. 09:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Vilma sjálf

Höfundur

Vilma Kristín
Vilma Kristín
The Worrying kind
Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband