24.3.2009 | 23:05
Afmæli...
Ég sat við borðið og smjattaði á kökunni. Holl kaka úr döðlum, hrásykri, spelti og hnetum. Ekkert samviskubit að fá sér góða sneið. Renndi kökunnið niður með bjór. Rosalega óhollur. Fullt af samviskubiti við að drekka bjór á þriðjudagskvöldi.
En kattadómarinn varð fertugur í dag, ég og Ása mættum sem sendinefnd fyrir töfraverurnar. Mættum færandi hendi með monopoly og frumsamið ævintýri um kattadómarann. Eyddum svo kvöldinu í þessum fína félagsskap með hollu kökunni og afmælisbjórnum. Sátum þarna við borðið þar sem var töluð íslenska, enska og sænska... jafnvel smá norska... Sumt skyldi maður, sum ekki... þá var bara einhver sem var til að þýða, eða við að þýða eitthvað úr íslenskunni. Rosagaman að kíkja svona í heimsókn og eiga notalegt kvöld.
Eiginlega held ég svo fyrir samviskuna að holla kakann gleypi allan óholla bjórinn svo ég enda bara á núllinu. Er það ekki?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.3.2009 | 23:05
Sushi
Það var bara eitt sem kom til greina að borða í kvöldmat í dag: Sushi. Það var bara ekki til í dæminu að borða eitthvað annað. Þetta byrjaði snemma í morgun.. nei, eiginlega byrjaði þetta í síðustu viku. Ég og líffræðingurinn fórum eitthvað að spjalla um Sushi.. og Sushi gerð... og Sushi matsölustaði. Mmmmmm. Okkur datt í hug að hafa Sushi kvöld þar sem við ásamt vel völdu fólki myndi prófa sig áfram í Sushi gerð. Svo kom helgin.
Þegar við mættum í morgun vorum við greinilega bæði búin að vera að hugsa þetta. Svo snemma í morgun byrjuðum við að tala um Sushi á milli þess sem við prófuðum eins og vitleysingar í kerfinu okkar. Svo kom að því að við þurftum að hafa nakta forritarann í beinni útsendingu á Skype. Aumingja hann. Hann hafði okkur í eyrunum í 4 klukkutíma... og hlustaði á okkur prófa, hlustaði á niðurstöðurnar... og já, hann fékk að heyra eitt og annað um Sushi.
Svo þegar kom að því að borða vorum við alveg með á hreinu hvað við vildum. Sushi ekkert annað. Drifum okkur af stað og sátum svo og jöpluðum á gómsætum Sushibitum, dásamlegu engifer og rótsterku Wasapi. Mmmm. Fengum okkur auka bita til að taka með uppí vinnu til að fylla á seinna um kvöldið.
Mættum södd og sæl í vinnuna, hringdum í þann nakta á skype til að klára málið sem við unnum að í dag... og viti menn.. hann fékk að hlusta á okkur lýsa matnum okkar. Hlusta á okkur sporðrenna síðustu bitunum. Plana næstu Sushi ferð. Og nú er komið bann í herbergið. Það er bannað að tala um Sushi og allt sem því tengist.. við ráðum greinilega ekki við það!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.3.2009 | 17:51
Hver fylgist með...
Ég er að spá hvort það sé fylgst með mér. í alvörunni. Sko, ég var heima framan af degi. Í minni venjulegu leti. Þið vitið, gera ekki neitt, hanga á netinu, góna á sjónvarpið, vona að einhver myndi hringja í mig til að blaðra... Leita allra mögulegra leiða til að þurfa ekki að þrífa og taka til. Og mér gekk ágætlega.
Svo fékk ég góða hugmynd. Ég áttin enn eftir að fá síðasta hlutann af afmælisgjöf heimasætunnar. Og ég átti eftir að verða mér útum innpökkunarpappír. Þvílík heppni. Nú hafði ég svo sannarlega ástæðu til að taka ekki til. Jibbíííí. Ég dró prinsinn og vin hans útí bíl og brunaði niðrí bæ.
Og þá byrjaði það. Gemsinn hringdi þegar ég var varla komin úr Grafarvoginum, aftur á Miklubrautinn, á Laugarveginum, enn og aftur á Miklubrautinn og svo þegar ég nærri komin heim. Í alvörunni! Það hafði enginn hringt í mig á meðan ég hékk heima að gera ekki neitt. En um leið og ég sting höfðinu út dettur öllum í hug að hringja. Jebb, endilega hringja á meðan ég er að keyra.
Nú er ég búin að vera heima í tæpa tvo tíma. Og hefur einhver hringt? Nei! Alls ekki! Síminn steinþegir. Svo ég held að það hljóti að vera einhvers staðar þar sem er tilkynnt að ég sé undir stýri og nú eigi að hringja. Þetta getur ekki verið tilviljun...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
18.3.2009 | 22:38
20 ár aftur í tímann
Ég hélt um magann og emjaði af hlátri. Rebbý sat við hliðina á mér og frá henni heyrðust skringileg hvæandi hljóð. Ég leit á hana. Var hún að kafna? Nei, hún var ekki að kafna... ja, nema maður geti kafnað úr hlátri. Hún engdist um að hristi um leið bókina sem hún hélt á.
Rebbý kíkti til mín í mat þar sem ég eldaði chili a la Vilma... sem er svona tilbrigði við chili a la kattadómarinn. Ég var að prófa mig áfram að elda chili án þess að hafa uppskrift við höndina. Tókst svona rosalega vel og á meðan við sátum yfir borðinu með heimasætunni, prinsinum og sætukopp fórum við að ritja upp þá gömlu góðu...
Og nú sátum við í sófanum og lásum ævintýralega dagbók í söguformi frá því ég var 17 ára. OMG. Vitleysan og uppátækin. Dramatíkin. Og það sem verst var... við höfum ekkert breyst! Ekkert!
"Þetta er svooooooo þú....", stundi Rebbý upp á milli hlátursroka og ég gat ekki neitað því. Við flettum á næstu blaðsíðu og þar var Rebbý lýst eins og lýsingin hafði verið skrifuð í síðustu viku. Ótrúlegt.
Svo lásum við áfram og hlógum meira... ja, ekki leiðinlegt að finna þessa fínu bók...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
17.3.2009 | 22:22
Ég er í naflaskoðun...
Ég er stundum: dramatísk, velviljuð, illgjörn, dýraunnandi, köld, grimm, skrítin, samúðarfull, langrækin, fráhrindandi, blíð, trygglynd, gleymin, hjálpsöm, löt, dugleg, uppátækjasöm, bitur, sérstök, óstabíl, ábyrg, kröfuhörð, umburðarlynd, fyndin, vinnualki, prinsessa, ákveðin, eftirgefanleg, frek og umfram allt feimin.
Hverju er ég að gleyma?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
15.3.2009 | 21:51
I'm not a dog person
Það segir sig kannski svolítið sjálft, ég er ekki beint svona hundatýpan... meira svona kisutýpa.. Enda hef ég síðustu tvo daga verið í félagsskap annara kattaunnenda. Þar sem enginn er maður með mönnum nema hann hafi flotta stálgreiðu í rassvasanum. Þar sem það er ekkert tiltökumál þó að karlmenn gangi í skóm með háum hælum. Þar sem konur eru með glitrandi kattaskartgripi og fólk gengur í fötum með kattamynstri. Þar sem við ræðum um snyrtingu og spyrjum jafnvel næsta karlmann um gott ráð við flösu, rafmögnuðum feldi eða mjúkum yfirfeldi.
Greiðan skiptir þó öllu máli. Hvar vetna má sjá greiðu standa uppúr rassvasanum. Köttur með krullaðan maga? Greiðan rifin upp og munduð. Köttur með klesstan yfirfeld? Greiðan dregin uppúr vasanum og rennt í gegn. Ekki nógu glæsilegur makki? Ekki vandamál, ég er einmitt með greiðu í rassvasanum.
Við sitjum fylgjumst með dómum. Stöndum og fylgjumst með dómum. Ræðum um dóma sem kettirnir okkar hafa fengið.. nú eða kettir keppinautanna. Hjálpumst að við að snyrta og sýna. Tölum um paranir, fæðingar, got, kettlinga. Tölum um hárafar, stærð og styrk. Tölum um mataræði, dýralækna og verslanir. Já, þetta er svona okkar tækifæri til að blómstra. Tvisvar á ári. Okkar tími til að vera ekki skrítin. Tveir dagar þar sem við erum innan um fólk sem er eins og við, við erum normið... heimurinn fyrir utan er skrítinn.
Og þessvegna er svo skrítið að ég sakna hundar sem ég aldrei átti. Í fyrra sumar las ég bókina "Marley og ég"... og eins og ég lýsti hér á blogginu, hef ég aldrei hlegið jafn mikið (upphátt) yfir bók og aldrei grátið eins mikið (upphátt) yfir bók. Og á laugardagskvöldið áttum við heimasætan deit og fórum saman á myndina í bíó. Ég get alveg mælt með henni, fín mynd.. bókin er reyndar 100 sinnum betri... en fín mynd engu að síður. Og eins og með bókina hló ég dátt og grét innilega. Kannski voru viðbrögð okkar meiri því við vorum búnar að lesa bókina og þekktum betur allt í kringum hver atriði. Stundum hlógum við fyrirfram, því við vissum hvað var að gerast. Stundum grétum við fyrirfram. Konan við hliðina á mér hætti að horfa á myndina og horfði á mig með furðu þegar ég sat og hágrét yfir atriði sem flestum virtist ekki þykja sorglegt. Heimasætan gaf mér olnbogaskot og sussaði á mig. 5 mínútum seinna sat hún skælandi líka. Svo hlógum við eins og vitleysingar... fastar í tilfinningarússibana... Ég reyndi að hvísla að konunni við hliðina að ég væri ferlega slæm af ofnæmi fyrir hundum... en er ekki viss um að hún hafi trúað mér... allavega horfði hún á okkur eins og við værum nýslopnnar af hæli... eins og við værum eitthvað skrítnar...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
14.3.2009 | 23:28
Kisusýning
Innilokuð með öllum hinum rugludöllunum. Lagði af stað klukkan sex í morgun og er alveg búin á því núna. Góð sýning í dag. Betri á morgun?
Kíkið við í Miðhraun í Hafnafirðinu (áður Just for kids)...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.3.2009 | 21:10
Algjört animal..
Við mæltum okkur mót í gegnum símann. Hittumst svo á bílastæði við ónefnda byggingarvöruverslun í Grafarholtinu. Góður staður fyrir svona viðskipti. Ég reyndi inn á bílastæðið og skimaði eftir honum. Þarna, dálítið afskekkt, stóð jebbi í gangi. Þetta var örugglega hann. Ég renndi uppað bílnum, skildi hann eftir í gangi og stökk út.
Hann nikkaði til mín og stökk út líka. Viðskiptin gengu hratt fyrir sig. Við varla skiptumst á orðum, hann opnaði afturhurðina og teygði sig inn. "Hún er voða sæt...", var kallað úr aftursætinu. Ég sá ekki farþegann, bara höndna og kallaði kveðju til baka. Svo tók ég við því sem mér var rétt og hélt í minn bíl. "Sjáumst á morgun...", kallaði ég að skilnaði og brunaði svo hratt í burtu án þess að líta við.
Þegar heim var komið tók ég Elíönu Eik út úr búrinu sínu... hún er langt að komin. Búin að ferðast með Sigga "maine coon" síðan snemma um morguninn. Ég heppin að þekkja svona náunga sem er til í að taka krók og kippa upp litlu kisunni sem hafði annars þurft að ferðast alein. Í staðin fékk hún að fljóta með Sigga og Brynju, það hefur ekki væst um hana.
Núna eru 3 kettlingar komnir heim aftur... við bíðum enn eftir Míönu Mey og þá erum við til í sýninguna. Mikið fjör á þessum bæ akkurat núna, ég var eiginlega búin að gleyma hvernig er að hafa kettlinga... omg...
Seinnipartinn skrapp ég aðeins uppí búð. Ég gekk um búðina og vonaði að heyrðist ekkert úr kassanum sem ég hélt á. Vonaði að það yrði bara hljóð. Ég dreif mig eins og ég gat í gegn, kippti upp því sem vantaði og hraðaði mér á kassann. Heppin. Komst beint að. Og hvað svo? Auðvitað vesen. Það er alltaf vesen þegar ég er að flýta mér. Ungi strákurinn á kassanum roðnaði og blánaði, ýtti á takk og reyndi að bjarga sér. Ég beið.
Áfram hljóð í kassanum, sem betur fer. Konan fyrir aftan mig á kassanum virti mig fyrir sér. Ég fann augun hennar borast inní mig. Ég beið og beið og ungi strákurinn hélt áfram að hamast á kassanum. Ég leit við og brosti til konunnar. "Ertu með lifandi fugl í kassanum?", spurði hún mig og ég skyldi núna af hverju hún hafði horft svona mikið á mig. Ég jánkaði . "Þessvegna ferðu svona varlega á honum. Eins og postulín!" Ég brosti meira og lyfti kassanum og hvíslaði inní hann ástarorðum.
Inní kassanum var nýjasti fjölskyldumeðlimurinn. Sérstakt afbrigði af gára. Því miður urðum við að kveðja Kíkí fyrir rúmum tveimur vikum. Einn morguninn lá hún andvana á botninum og Kókó þétt upp við hana. Við vorum döpur og ákváðum að kókó yrði síðasti gárinn okkar. Síðan þá hefur Kókó verið að æra okkur, öskrar og öskrar. Svo átti ég erindi í dýrabúðina í dag og þessi föl föl gula sæta litla gárastelpa kallaði til mín. Ég spurðist fyrir um hana, hún er svo sérstök. Og áður en ég vissi af var ég komin með fugl í kassa. Og nú situr Kókó og þegir og horfir á nýja búrfélagann. Stóra spurningin er bara hvað á nýja dísin að heita?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
12.3.2009 | 22:00
Börnin snúa heim
Tóbías Týr kom aftur heim í kvöld. Nú er einn og hálfur mánuður síðan kettlingarnir fluttu að heiman. Kattasýning um helgina og börnin öll á leiðinni heim aftur svo við getum farið saman á sýninguna. Og Tóbías Týr kom fyrstur. Það var mikil spenna hjá hinum köttunum þegar búrið hans var opnað. Læðurnar ætluðu alveg að éta þennan sæta strák sem var nú pínulítið hikandi.
Á morgun bætist svo heldur betur í hópinn. Um hádegisbilið er von á Elíönu Eik að norðan. Siggi "Maine Coon" sá aumur á mér og leyfir henni að fljóta með sér í bíl... ásamt 4 öðrum köttum. Seinni partinn ætla svo Kalína Kaja og Míana Mey að koma líka aftur heim.
Svo annað kvöld verður örugglega fjör hér. Tóbías Týr einn og sér hefur náð að snúa öllu við, hoppandi og skoppandi um allt, í fullu fjöri. Hvað þá þegar stelpurnar 3 bætast við. Og mín og heimasætunnar bíður það skemmtilega verkefni að klóaklippa og baða liðið. Greiða og snyrta. Jebb, fjör annað kvöld og svo stíf sýningarhöld alla helgina. Þetta er hápunktur ársins hjá kattafólki en reynir á og maður er yfirleitt uppgefinn eftir svona törn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.3.2009 | 22:26
Overload
Ég sparkaði í vegginn. Ekkert voðalega fast. Nei, bara svona til að sýna að ég væri ekki ánægð. Hreint ekki ánægð. Eiginlega bara hundfúl. Og móðguð. Og sár. Og fúl. Svo ég sparka í vegginn en horfi samt í kringum mig og vona að enginn sjái til mín.
Svo lokast hurðin og lyftan leggur af stað niður. Fer niður með mig, heimasætuna, prinsinn og sætukopp. Bara nokkrum mínútum áður hafði þessi sama lyfta gengið fram af mér og kattadómaranum. Móðgað okkur. Svívirt okkur.
Ég og gengið mitt tókum lyftuna upp og mættum þar skælbrosandi kattadómara. "We need to go down. The box is downstairs..." og við trítluðum aftur í lyftuna. Ýttum á "1". Og biðum. Og biðum. Hurðin stóð opin. Ekkert gerðist. "Oh! No! Overload...", stundi kattadómarinn og starði furðulostinn á skjáinn. Og mikið rétt þarna stóð það. Ekki um að villast. Með hangandi höfuð fórum við út aftur og kíktum á skiltið. 1000 kg eða 13 manns er hámarkið.
Við litum hvert á annað. No way. Við erum sko engin 1000 kg. Heldur ekki 13 manns. Og við urðum fúl. Móðguð. Sár. Helvítis lyftudrusla. Segir að við séum feit! Og hvað með það? Við erum samt ekki overload... Og staðföst héldum við aftur inní lyftuna. Við ætluðum sko að sanna okkar mál. Ég skipaði öllum að standa grafkyrr og svo ýtti ég á takkan og hélt niðrí mér andanum.
Ég hélt niðrí mér fagnaðarhrópunum þegar bévítans lyfturæsknið drattaðista af stað. Og bara til að sigra helvítið létum við hana fara með okkur upp aftur og svo aftur niður.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um bloggið
Vilma sjálf
Tenglar
Ég sjálf
Gamla bloggið mitt
- Gamla bloggið mitt Vilma Stína
Klúbbar og félög
Eitt og annað sem ég tengist
- Ofurhugar Kúlasta fólk í heimi
- Skógarkettir Skógarkattaklúbbur Íslands
- Kynjakettir kattaræktarfélag Íslands
Kisusíður
Hinar og þessar kisusíður
- Aliosha's Aliosha og Hrund
- Eldibrands Margrét Birna og hennar kisur
- Hlíðarenda Heimasíða Ásdísar
- Vetrarheims Heimasíðan mín
- Björgvinjar Áslaug vinkona mín á þessa síðu
Bloggarar
Hinir og þessir skemmtilegir